20.10.1976
Neðri deild: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Sverrir Hermannsson:

Virðulegi forseti. Til umr. er fyrsta dagskrármálið, um fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi, og vil ég taka fram að ég er því að sjálfsögðu í einu og öllu samþykkur. Þau brbl. voru sett vegna nokkurrar ónákvæmni sem gætti í lokaafgreiðslu á frv. til l. um nýtingu landhelginnar á s.l. vori, af þeim auðskildu ástæðum þegar ekki gafst nægjanlegur tími við lokaafgreiðslu til þess að bera saman af siglingafróðum mönnum ýmis smærri atriði. En umr. hafa snúist um fleira, án þess að ég ætli að fara mörgum orðum um það, og ekki heldur það atriði sem hv. þm., Pétur Sigurðsson ræddi, sem vill fá að fara á skarkolaveiðar í Faxaflóa. Á það mál reyndi til þrautar á hinu háa Alþ. fyrir nokkrum dögum að kalla má í þingstörfum, þar sem þetta var allra síðustu dagana, og þar varð sú niðurstaða að leyfa ekki að í lögum yrði heimild til handa sjútvrh. að heimila dragnótaveiðar í Faxaflóa. Að sjálfsögðu er á nýju þingi hægt að bera fram nýja till. um þetta. En ekki á ég von á því að viðhorf manna hafi tekið miklum breytingum frá því sem þá var.

En ég vildi fara aðeins örfáum orðum um það atriði sem kom fram í ræðu hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar og eins í svari hæstv. sjútvrh. um frekari samninga um heimildir til handa öðrum þjóðum að veiða í fiskveiðilandhelgi íslendinga.

Nú ætla ég að taka það fram, að ég er í einu og öllu sammála framkvæmd nýtingar okkar fiskveiðilandhelgi eins og hún hefur farið hæstv. sjútvrh. úr hendi. En vegna ástands fiskstofna verður maður þó að játa, að við höfum að kalla nokkuð freistað gæfunnar. Svo gæfusamir virðumst við ætla að vera eftir ýmsum líkum að það komi ekki að sök. Nýjustu rannsóknir benda til þess að fiskstofnarnir séu sterkari, þorskstofninn sterkari en ætla hefði mátt og eins stofnar ungviðis miklu öflugri. Allt að einu er það þó svo, ef maður horfir til þess sem hinir hæfustu menn hafa látið frá sér fara í skýrslum sínum, að við höfum freistað gæfunnar. Ég endurtek: allt að einu fylgi ég alfarið framkvæmd stefnunnar, eins og hún hefur verið. En með tilliti til ástands fiskstofna og þess, að við höfum freistað gæfunnar að þessu leyti, þá fæ ég með engu móti séð að aðrar þjóðir geti boðið okkur þá kosti í sambandi við gagnkvæmar veiðar að við eigum þess nokkurn einasta kost við þær að semja.