20.10.1976
Neðri deild: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Gils Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það eru aðeins nokkur orð í tilefni af þeim umr. sem hér hafa orðið um samningamál við aðrar þjóðir. Að því er varðar frv. sjálft, sem þér er til umr., þá vil ég ekkert fara út í þá sálma, en aðeins lýsa því yfir að ég tel vera eðlilegt og sjálfsagt að fylgja því. En það, sem kom mér til þess að standa hér upp, var ræða hæstv. sjútvrh. og það, að ég vil lýsa hinum mestu vonbrigðum mínum með þá ræðu eða þá afstöðu sem mér virtist koma fram í ræðu hans. Hann leggur mjög mikla áherslu á að það, sem um kynni að vera að semja það, væri gagnkvæm fiskveiðiréttindi. Það er mikið rétt að ýmsir hafa lagt áherslu á þetta. Og því er ekki að neita, að við eðlilegar aðstæður, þegar svo stæði að við værum komnir úr þeirri úlfakreppu sem við höfum verið og erum í í sambandi við okkar fiskveiðar, þá getur vissulega komið til mála að semja við aðrar þjóðir einhverjar um slík fiskveiðiréttindi þar sem hagur okkar er tryggður með þeim hætti að við höfum a.m.k. ekki tap af slíkum samningum. En engu slíku er til að dreifa í dag, eins og þegar hefur verið gerð þér grein fyrir og hv. 2. þm. Austurl. hefur leitt rök að. En mér finnst að hæstv. ráðh. sé að leita eins og dauðaleit að einhverju sem væri hægt að fóðra það með að fara út í samninga um svokölluð gagnkvæm fiskveiðiréttindi við aðrar þjóðir. Hann er að tala um það, að ef til vill gæti staðið þannig á dag og dag að það væri hægt að veiða loðnu Grænlandsmegin við væntanleg mörk, og hann er að tala um að e.t.v. sé eitthvað verulegt að sækja í Norðursjóinn. Nú vitum við hvernig ástatt er í Norðursjó, að þar er að verða síldarlaust, nema hvað þriggja ára síld er þar nokkur, og um það er rætt einmitt þessa dagana að nauðsyn beri til að banna allar síldveiðar í Norðursjó næstu 3–4 árin, þangað til stofninn þar hefur rétt sig við.

En fyrst ég er staðinn upp, þá vil ég vekja athygli á einu atriði sem ekki hefur komið fram í þessum umr. Nú er um það talað að eins líklegt sé og jafnvel líklegast að það verði Efnahagsbandalag Evrópu sem kemur fram fyrir t.a.m. hönd breta við samningagerð, ef það bandalag verður þá búið að móta sína fiskveiðistefnu til fulls, komast að niðurstöðu innbyrðis. Þegar þar að kemur að Efnahagsbandalagið ber hér að dyrum og fer fram á að ræða við okkur um gagnkvæm fiskveiðiréttindi, þá held ég að það væri ástæða til að benda í því sambandi á það, að það eina, sem kæmi þá til greina að ræða um af okkar hálfu, væri það, hvað það vildi bjóða fram á móti þeim gífurlegu réttindum sem Efnahagsbandalagsþjóðir hafa þegar með samningum innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Það er ekki svo að í dag sé þarna um eitthvað jafnræði að ræða. Við vitum að það eru samningar við vestur-þjóðverja sem á ársgrundvelli þýða 60 þús. tonn og það eru samningar við belga sem á ársgrundvelli þýða sennilega 7–8 þús. tonn, og engir samningar aftur á móti um fiskveiðirétt íslendinga innan landhelgi Efnahagsbandalagsþjóða. Ég tel þess vegna að það væri það fyrsta sem ætti að segja við þá háu herra þegar þeir koma og vilja fara að ræða um gagnkvæm réttindi: Það eina, sem kæmi til greina að ræða við ykkur, er það: Hvað viljið þið bjóða á móti þeim gífurlegu réttindum sem þið hafið þegar í íslenskri landhelgi og hafið tryggt a.m.k. fram undir árslok eða til 1. des. 1977? Og hvað belga snertir er aðeins ákvæði um það að hægt er að segja þessum samningum upp.

Ég vona að þegar hæstv. sjútvrh. er búinn að hugsa þetta mál svolítið betur, þá komist hann að raun um að eins og sakir standa er ekki um neitt að semja, ekki heldur á gagnkvæmnisgrundvelli. Það kann að koma að því síðar, eins og ég sagði, að það geti verið eðlilegt og rétt að taka upp slíka samninga, en við höfum ekkert um að semja að svo stöddu, ekki heldur á gagnkvæmnisgrundvelli.

Ég vil því ljúka þessum fáu orðum með því að taka undir með hv. 3. þm. Austurl., Sverri Hermannssyni, sem einmitt sagði þessi orð sem ég var nú að vitna til: Við höfum ekki um neitt að semja.