20.10.1976
Neðri deild: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (106)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Austurl. sagði að ég hefði snúið út úr orðum sínum áðan. Það er mér víðs fjarri að vera að snúa út úr orðum hans og ég hef enga ástæðu til þess og kæri mig ekkert um það. Hins vegar sagði ég að það væri skoðanaágreiningur á milli okkar um það, hvernig bæri að koma fram í samskiptum við aðrar þjóðir, hvort það ætti að segja fyrir fram: Við viljum ekkert við ykkur tala um þessi mál — eða hvort við eigum að setjast niður og ræða og hlýða á það sem þær hafa fram að færa og svara því svo. Um þetta er að vissu leyti ágreiningur. Ég tel að það sé rétt að hlýða á mál annarra manna og þjóða, en ekki segja fyrir fram: Við höfum ekkert við ykkur að tala. Það er líka mjög takmörkuð kurteisi að segja, áður en maður hlustar á mál eða jafnvel tilboð annarra, að það sé ekkert til þess að tala um.

Það hefur ekki hvarflað að mér, aldrei, því síður eftir að samkomulagið við breta var gert í Osló, að við eigum að fara að óska eftir viðræðum við breta eða Efnahagsbandalagið. Ég held að það hafi ekki hvarflað að einum einasta ráðh. að við ættum að hafa eitthvert frumkvæði að slíkum viðræðum eða samningum. Hins vegar liggur það alveg ljóst fyrir, að ef Efnahagsbandalagið eða bretar, ef Efnahagsbandalagið kemur ekki fram sameiginlega fyrir hönd sinna þjóða, óska eftir því að ræða við okkur íslendinga um gagnkvæm fiskveiðiréttindi, þá tel ég tvímælalaust að við eigum að hlusta á þá. En ég tel líka jafntvímælalaust að við eigum ekki að ganga til nokkurra samninga við þá ef það samrýmist ekki hagsmunum Íslands. En að koma með einhverjar skýlausar yfirlýsingar um þetta eða hitt fyrir fram tel ég fráleitt. Hv. 3. þm. Reykn. þarf því ekki að gera mér upp nein orð í þessum efnum. Skoðanir mínar hafa legið alveg hreint fyrir. Ég hef þar ekkert að fela og ekkert að dylja. Ég vil að við hlustum á óskir þessara þjóða og svörum þeim afdráttarlaust, skýrt og afdráttarlaust, þegar þau tilboð liggja fyrir. En að semja um framhald fiskveiða bara eins og út í bláinn, án þess að fá nokkurn skapaðan hlut í staðinn, það kemur auðvitað ekki til greina.

Ég sagði ekki, hv. 2. þm. Austurl., að ég teldi samninginn við vestur-þjóðverja óverulegan. Ég sagði að ég teldi að það væri um óverulegt aflamagn að ræða í samningum við belga og norðmenn, og það stend ég við. Það hvorki bjargar fjárhag þessara þjóða né drepur okkur, það sem þessar þjóðir veiða hér við land. Ég vil alls ekki segja að það sé óverulegur samningur við vestur-þjóðverja, þvert á móti. Hins vegar er þorskaflinn í þeim samningi frekar lítill, því að hann má fara í 5 þús. tonn á heilu ári. En hann er aftur mjög venjulegur hvað snertir bæði veiðar á karfa og ufsa, enda eru sennilega, ef ég man rétt, nálægt 80–85% af heildarveiðinni sem er karfi og ufsi.

Ég held að það sé mjög athyglisvert að mánuðina júní—sept. veiddu bretar í fyrra 52 425 tonn, á þessum 4 mánuðum, en núna, eftir að samningurinn var gerður í Osló, eru veiðar breta þessa sömu mánuði 28 672 tonn. Þetta sýnir og sannar hvað var mikilvægt og skynsamlegt að gera þetta samkomulag við breta heldur en halda áfram í stríði hér á miðunum eins og margir vildu, a.m.k. þeir blóðheitustu, og láta þá stela miklu meira magni og ganga nærri fiskstofninum frekar en að semja við þá um skynsamlega hluti til mjög skamms tíma. Ég held að veiðarnar þessa fjóra mánuði eigi að geta sannfært þá, sem ekki hafa sannfærst um gildi þessa samnings, um að það hafi verið skynsamlegt að stiga þetta skref.

Mér finnst að umr. hafi orðið alllangar út af þessu litla leiðréttingafrv., sem hér liggur fyrir, og hafi farið yfir á aðrar brautir. En ég fullvissa hv. 2. þm. Austurl. og aðra um það, og ég þori að fullyrða það fyrir hönd ríkisstj. allrar, að ríkisstj. hefur ekki í huga að gera samninga við breta sem ganga nærri þorskstofninum við Ísland og án þess að fá nokkur önnur réttindi í staðinn sem hún metur meira virði fyrir Ísland. Ég tel alls ekki lítils virði að hafa í huga í framtíðinni hvernig við högum okkar veiðum. Þó að við veiðum ekki mikið við Grænland nú þessi síðustu ár, þá geta þær veiðar stóraukist allt í einu, sem við sjáum ekki fyrir nú. Það hafa orðið verulegar breytingar á göngu fisks, það hefur orðið að sækja á önnur mið um tíma og þess vegna er gott og skynsamlegt að hafa augun opin og loka ekki dyrum til samkomulags. Þótt nú sé gert lítið úr loðnuveiðunum, þá skulum við vona að loðnan verði í framtíðinni öll Íslands megin við miðlínu milli Grænlands og Íslands, hún fari aldrei Grænlandsmegin við miðlínuna. En það er skynsamlegt að gera því samt á fæturna að annað geti skeð. Við getum ekkert um þetta sagt, hvorki 3. þm. Reykn. eða 2. þm. Austurl. né ég, við vitum það ekki fyrir fram. Ekki einu sinni fiskifræðingarnir geta sagt okkur þetta með neinni vissu. En í samskiptum þjóða er hyggilegt að loka ekki dyrum, a.m.k. að tvílæsa ekki og taka lykilinn úr og fela hann. Það er betra að geta talað saman, rætt saman. Ég tel varðandi þá samninga, sem við höfum gert við Færeyinga, bæði fyrrv. ríkisstj. og núv. ríkisstj., að það hafi verið skynsamlegt að gera þá samninga. Það er um betri taflstöðu fyrir okkur að ræða, ef til kemur, eftir að við höfum sýnt þeim þá sanngirni sem bæði fyrrv. ríkisstj. sýndi í þessum efnum og núv. ríkisstj.