15.02.1977
Sameinað þing: 51. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2093 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

255. mál, veitinga- og gistihúsarektstur

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Við fsp. þeirri, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. gerði hér grein fyrir, vil ég veita svo hljóðandi svar:

Samkv. þál., sem hann vitnaði til, var skipuð nefnd 4. des. 1974, og í henni voru Páll Pétursson alþm., Kjartan Lárusson viðskiptafræðingur, sem var tilnefndur af Ferðaskrifstofu ríkisins, Lárus Ottesen, tilnefndur af ferðamálaráði, Sigtryggur Albertsson fyrrv. hótelstjóri, tilnefndur af Sambandi veitinga- og gistihúsaeigenda, Tómas Sveinsson viðskiptafræðingur, tilnefndur af Framkvæmdastofnun ríkisins, og starfsmaður nefndarinnar var Halldór S. Kristjánsson deildarstjóri í samgrn.

Um störf n. er það að segja, að ákveðið var að takmarka gagnasöfnun og athugun n. við 28 gisti- og veitingastaði, en umræddir staðir voru unnir upp úr skrá yfir gistirými á hótelum og gistiheimilum frá Ferðaskrifstofu ríkisins. Að gagnasöfnun lokinni og úrvinnslu úr þeim varð n. sammála um að gera eftirfarandi till., og skilaði hún þeim 19. des. 1975:

1. N. felur að verulegur þáttur í vanda margra veitinga- og gistihúsa sé hinn mikli fjármagnskostnaður lána úr Ferðamálasjóði. Þess vegna telur n. ástæðu til þess að samgrn. kanni til hlítar þann möguleika, hvort ekki væri unnt að gera þeim veitinga- og gistihúsum, er þess óska, kleift að greiða upp lán sín úr sjóðnum með hagstæðara lánsfé annars staðar frá. Bendir n. í því sambandi á Byggðasjóð sem eðlilegan aðila til þess að aðstoða við lausn vandans.

2. N. vekur athygli á því, að ein af orsökum rekstrarörðugleika sumra þeirra veitinga- og gistihúsa, sem n. hefur athugað, er hörð samkeppni aðila sem stunda veitinga- og gistihúsarekstur að sumarlagi. Telur n. eðlilegt að samgrn. kanni nánar hvort ekki væri unnt að koma á aukinni samvinnu milli þeirra veitinga- og gistihúsa, sem hafa opið allt árið, og sumra þessara aðila, enn fremur að því verði beint til viðkomandi stjórnvalda, að höfð verði hliðsjón af því, sem að framan greinir, við veitingu leyfa til tímabundins veitinga- eða söluturnarekstrar svo að það þrengi ekki um of kosti þeirra veitingahúsa, sem fyrir eru í fyrirsjáanlegri samkeppni.

3. Nefndin telur nauðsynlegt að áfram verði á fjárl. veitt fé til að styrkja þau veitinga- og gistihús sem óhjákvæmilegt er að halda opnum allt árið vegna samgangna á landi, hafi þau ekki til þess rekstrargrundvöll með öðru móti.

Um þetta álit n. er það að segja, að 1. liðurinn, er varðar lánin, er óframkvæmanlegur nema annað komi til, vegna þess að Ferðamálasjóður hefur ekki haft yfir öðru fé að ráða en verðtryggðu og hefur orðið að greiða það á þann veg. Hins vegar er því til að svara, að á s. l. sumri eða hausti, eftir að búið var að skipa ferðamálaráð samkv. lögum sem samþ. voru hér á síðasta þingi, á árinu 1976, um ferðamál, þá var þessu máli vísað þangað. Ferðamálaráð hefur síðan fengið í hendur reikningsyfirlit allra þessara staða og stöðu þeirra við Ferðamálasjóð. Hefur komið í ljós að það er rétt, sem n. heldur fram, að staðan er mjög erfið. Að því hefur verið unnið að leita leiða til úrbóta á því, og ferðamálaráð sendi 20. des. út af þessari fsp. svo hljóðandi svar:

„Um þessar mundir er stjórn Ferðamálasjóðs að taka til gaumgæfilegrar athugunar ýmis þau atriði er tengjast mjög náið mörgum þeirra efnisatriða, er reifuð eru í umræddu áliti, og þó að niðurstöðu sé vart að vænta innan mjög skamms tíma þykir sjóðsstjórninni rétt að tengja umbeðna umsögn þeirri athugun. Mun ferðamálaráð því senda yður, eins fljótt og kostur er, niðurstöður þeirrar athugunar, á þann hátt sem hún kann að tengjast umbeðinni umsögn“ — þ. e. um fsp.

Ferðamálaráð hefur nú sent samgrn. yfirlit yfir stöðu þessara veitingastaða.

Upp hafa verið teknar viðræður við Byggðasjóð um þessi mál og hvernig leysa mætti, og erum við enn að ræða þá leið sem kemur fram í 1. till. n., að koma lánunum að einhverju leyti inn á þá braut sem þar er bent á. Hins vegar er ekki búið að fá niðurstöðu í því máli enn þá, en er unnið að því nú af fullum krafti.

Að því er varðar rekstur Ferðaskrifstofu ríkisins á gististöðum í skólum landsins, þá hefur komið til athugunar að tengja þetta saman á einum eða tveimur stöðum. Það hefur hins vegar ekki tekist enn þá, en hvort það tekst veit ég ekki. Þó er stefnt að því í ríkara mæli að fara inn á að ná samstarfi við heimaaðila um slíkan rekstur. Rekstur hótela Ferðaskrifstofu ríkisins hefur gengið betur en áður tvö síðustu árin vegna breytts fyrirkomulags um vinnutilhögun og bónuskerfið, sem þar hefur verið tekið upp og hefur skilað umtalsverðum árangri.

Hitt atriðið, um söluturnana, er ekki á valdi samgrn. að hafa áhrif á nema þá óbeint, því að það er viðkomandi sveitarstjórn sem gefur leyfi til slíkrar starfsemi hver á sínum stað.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa þessi orð fleiri, en endurtek það, að unnið er að þessum málum núna. Verið er að athuga um fjárhagserfiðleika viðkomandi veitingastaða og viðskipta þeirra við Ferðamálasjóð og reynt að leita eftir hagkvæmari lausn á því máli en verið hefur. Með breytingunni, sem gerð var á lögunum í fyrra, skapast vissir möguleikar til að koma þessu í verk, en ekki hefur tekist enn að koma þeim lögum í framkvæmd að fullu hvað varðar fjármálin. En ég vona að það sé stutt í það.

Þetta svar held ég að nægi við fsp. hv. þm.