17.02.1977
Sameinað þing: 53. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2135 í B-deild Alþingistíðinda. (1606)

154. mál, vinnuvernd og starfsumhverfi

Flm. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Þm. Alþfl. hafa leyft sér að flytja í annað skipti till. til þál. um vinnuvernd og starfsumhverfi. Till. hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta semja og leggja fyrir þingið frv. til l. um vinnuvernd og starfsumhverfi og hafa um það samvinnu við Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Vinnuveitendasamband Íslands og Vinnumálasamband samvinnufélaganna.

Tilgangur laganna verði að tryggja öllum landsmönnum starfsumhverfi, þar sem ekki er hætta á líkamlegu eða andlegu heilsutjóni, en vinnuskilyrði eru í samræmi við lífskjör þjóðarinnar og tæknilega getu, stuðla að virðingu vinnunnar og starfsgleði.

Lögin geri ráð fyrir eðlilegum íhlutunarrétti vinnandi fólks varðandi starfsumhverfi sitt. en stefni að því, að verkefni og vandamál á því sviði verði sem mest leyst í samstarfi verkafólks og atvinnuveitenda, svo og af samtökum vinnumarkaðarins, allt innan ramma laga og reglugerða. Núverandi stofnanir, er gæta öryggis á vinnustöðum, fái aðstöðu til að annast óhjákvæmilegt eftirlit með því, að opinberum kröfum sé fylgt á þessu sviði.

Þá skulu lögin hafa ákvæði um starfsaðstöðu fyrir fólk, sem hefur skerta vinnugetu, og stuðla að því að það fái í sem ríkustum mæli vinnu með heilbrigðum á venjulegum vinnustöðum.

Lögin komi í stað laga um öryggi á vinnustöðum frá 1952.“

Þannig hljóðar till. Eins og segir í síðustu orðum hennar tóku gildi hér á landi árið 1952 lög um öryggisráðstafanir á vinnustöðum. Samkv. þeim var komið á fót Öryggiseftirliti ríkisins sem síðan hefur starfað samkv. lögunum og reglugerðum sem settar hafa verið samkv. þeim. Lög þessi voru á sínum tíma sett af framsýni og skilningi.

Meðal þess, sem fólk í þróuðum löndum hefur hvað mestan áhuga á, eru umhverfismál, þ. e. meðferð mannsins á náttúrlegu umhverfi sínu, og í öðru lagi atvinnulýðræði, sem veita á hverjum einstaklingi íhlutunarrétt um atvinnu sína á vinnustað til að gera hann að virkum þátttakanda í samfélaginu. Þessi viðhorf hafa fætt af sér meiri kröfur til starfsumhverfis en áður hafa verið gerðar. Það hefur runnið upp fyrir verkafólki að þau lífskjör, sem móta umhverfi á heimili, í skóla og félagslífi, eru ólíkt betri en það umhverfi, sem aftur fjöldinn verður að sætta sig við á vinnustað. Því spyrja menn nú: Hví skyldu óhreinindi og margs konar óhollusta ríkja á vinnustöðum fólks sem aldrei mundi sætta sig við annað en hrein, heilnæm og vistleg heimili, skóla, samkomustaði eða aðra dvalarstaði? Jafnframt þessu hefur aukin tækni leitt til þess, að fjölgað hefur til muna störfum með margvísleg efni og efnasambönd sem geta verið hættuleg. Mikill og vaxandi hávaði fylgir nútíma lífi. Margir vinnustaðir, sem ekki eru beinlínis hættulegir, geta, þegar til lengdar lætur, valdið streitu og ýmsum kvillum sem nú eru taldir til atvinnusjúkdóma og slíta fólki um aldur fram.

Það er tilviljun að einmitt í morgun sat iðnn. Nd. á einum af mörgum fundum sínum um væntanlega verksmiðju til bræðslu á silikonjárni, sem rís í Hvalfirði ef Alþ. samþykkir frv. sem liggur fyrir því nú. Á þessum fundi voru fulltrúar frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins, og þeir skýrðu frá því, að ef innri aðstæður í slíkum verksmiðjum eru ekki í nútímalegu og fullkomlega góðu lagi, þá er starf í þeim stórhættulegt. Það er þekkt, t. d. á hinum Norðurlöndunum, að allmikill fjöldi verkafólks í slíkum verksmiðjum og öðrum skyldum þeim hefur beðið tjón á heilsu sinni og sumir jafnvel látist af völdum sjúkdóma sem af þessu stafa. Sem betur fer eigum við í Heilbrigðiseftirlitinu unga mjög færa menn sem hafa starfað að þessum málum í öðrum löndum og kynnst þeim, þannig að ég vænti þess að samkv. ráðum þeirra muni Alþ. og ríkisstj. bera gæfu til að sjá um að þarna verði fylgt ítrustu kröfum. En ég nefni þetta aðeins sem dæmi um hversu brýnt mál það er orðið að endurskoða löggjöf okkar og allt viðhorf okkar til vinnuverndar og starfsumhverfis, en starfsumhverfi er notað hér fyrir norræna orðið arbejdsmiljö. Má segja, að almennar umbætur á starfsumhverfi séu nú eitt mesta baráttumál verkalýðshreyfingar í öllum nágrannalöndum okkar. — baráttumál sem atvinnurekendur hafa yfirleitt tekið mjög vel í, því að þeir sjá auðvitað að fyrir utan mannúðlegu hlið málsins er þeim beinlínis í hag að heilsufar vinnandi fólks sé sem allra best.

Ég nefni þetta eina dæmi til að leggja áherslu á þýðingu þessa máls. Um leið og ég nefni hversu mikið mál þetta er varðandi þessa einu verksmiðju sem nú er verið að ræða um, ég hygg að álitsgerð Heilbrigðiseftirlits sem send var heilbrrn. hafi verið um 150 síður, — um leið skulum við minnast þess, að það er rúmlega áratugur síðan við samþykktum hér stóriðju til framleiðslu á áli og það er almennt viðurkennt í dag að þar brást okkur bogalistin. Mengunarvarnir eru ekki komnar í verksmiðjuna og heilbrigðisaðstaða í verksmiðjunni er langt frá því að vera fullnægjandi. Þetta leyfi ég mér að fullyrða og bendi á að þetta er mál sem getur ekki staðið svo til lengdar. Það verður að leggja á það ríka áherslu að koma við fullkomnum mengunarvörnum, bæði vegna ytri mengunaráhrifa slíkra iðjuvera á umhverfi sitt og vegna innri mengunar, og vegna þess andrúmslofts sem fjöldi verkafólks verður að lifa í þriðjung starfsævi sinnar.

Enda þótt ég hafi tekið þessi tvö dæmi af stóriðju á þetta mál við um svo til allar atvinnugreinar. Það getur verið margs konar hætta fyrir heilsufar manna á litlum vinnustöðum, á litlum verkstæðum, þar sem unnið er með ýmsum efnum sem voru óþekkt fyrir nokkrum áratugum. Það getur skipt verulega miklu máli hvernig hreinlæti er háttað við sjálfa vinnuna og hvernig vinnustaðirnir líta út. Við höfum nýlega lifað það, að okkur var skyndilega bent á að allur þorri frystihúsa í landinu mundi sennilega ekki standast þær kröfur sem gerðar væru til matvælaframleiðslu í markaðslöndum okkar. Hvað sláturhúsin snerti gekk málið svo langt, að aðrar þjóðir neituðu að kaupa héðan svo mikið sem einn kindarskrokk fyrr en endurbætur hefðu verið gerðar n sláturhúsunum. Undanfarin ár höfum við varið milljörðum kr. til að endurbæta frystihúsin og byggja ný sláturhús til að gera þau að mannsæmandi vinustöðum þar sem við getum verið þekkt fyrir að framleiða matvæli fyrir nútímafólk. Jafnframt hefur aðstaða fólksins, sem vinnur á þessum stöðum, verið bætt til mikilla muna.

Alþfl. flytur þessa till. í þeirri trú, að með henni sé hreyft stórmáli sem varðar stöðu einstaklingsins í þjóðfélaginu. Málið stefnir að aukinni þátttöku hvers og eins í mótun umhverfis. Það eitt, að menn fái að hafa íhlutun á einn eða annan hátt um það vinnuumhverfi sem þeir starfa i, er veigamikill þáttur lýðræðis og stórt skref sem gæti orðið til að gera fleiri að virkum borgurum, en ekki óvirkum eins og verið hefur hingað til, þar sem menn hafa flotið í gegnum lífið án þess að ráða nokkru um það umhverfi, sem þeir lifa og hrærast í, eða annað viðkomandi þeim stofnunum sem þeir starfa fyrir.

Það er mikið og vandasamt verk að gera drög að löggjöf um þetta efni. Ég tel tvímælalaust að það eigi að gera í samstarfi á milli samtaka vinnandi fólks og atvinnurekenda Stundum þarf að gera mengunarráðstafanir í stórfyrirtækjum sem kosta mikið fé, og þá verður að horfast í augu við það af raunsæi og gera atvinnufyrirtækjunum kleift að bæta vinnuaðstöðu eins og þörf er á. En engir þekkja þessi mál jafnvel og aðilar sjálfir. Þriðji aðilinn, sem ég tel að ætti að eiga hlut að samningu slíkrar löggjafar, er Heilbrigðiseftirlitið með þeim sérfróðu mönnum sem þar eru, og svo að sjálfsögðu Öryggiseftirlit ríkisins, sem hefur að takmörkuðu leyti unnið að þessum málum, — ég segi að takmörkuðu leyti, vegna þess að löggjöfin, eins góð og hún var á sínum tíma, er orðin úrelt og fullnægir ekki þeim kröfum sem við eigum að gera til slíkra mála í dag.

Herra forseti. Ég vonast til þess að þessari till. verði vel tekið og hafið verði starf við að gera drög að nútímalegri og fullnægjandi löggjöf um þessi mál. Ég legg til að málinu verði vísað til atvmn.