01.03.1977
Sameinað þing: 57. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2342 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

115. mál, viðgerðar- og viðhaldsaðstoða flugvéla á Keflavíkurflugvelli

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég hef hér svar frá þeim manni í utanrrn. sem falið hefur verið að vinna að því máli sem hér er spurt um, þ. e. a. s. hvað líði framkvæmd þáltill. frá hv. 4. þm. Reykn. sem samþ. var á Alþ. í fyrra. Svar hans er á þessa leið:

„Í sumar sem leið tilnefndu utanrrn. og samgrn. sinn manninn hvort til þess að annast gagnasöfnun í máli þessu. Verkefni þessarar tveggja manna n. var þó gert nokkru viðtækara en þál. gerir beinlínis ráð fyrir. Svokölluð flugskýlismál höfðu þá um nokkurt skeið verið til umfjöllunar í fjölmiðlum, einkum fyrir tilverknað Flugvirkjafélags Íslands, og bar þar margt á góma. Var margt af því innanríkismál Flugleiða og flugvirkja. Í framhaldi stórbrunans á Reykjavíkurflugvelli þótti rétt að taka einnig til athugunar ástandið þar í þessum málum. Gagnasöfnun þessari lauk í nóvember og hafa gögnin verið til athugunar í báðum rn. Þau sýna hver aðstaða til flugvélaviðhalds er á Reykjavíkurflugvelli og á Keflavíkurflugvelli.“

Þar sem fsp. Jóns Skaftasonar, hv. 4. þm. Reykn., fjallar aðeins um Keflavíkurflugvöll, eins og fram kom í máli hans áðan, verður það og aðeins gert hér.

„Íslenskir flugvirkjar starfa ekki fyrir varnarliðið. Telur varnarliðið ekki ráðlegt að íslenskir flugvirkjar annist viðgerðir herflugvéla af öryggisástæðum svo og vegna þeirrar hernaðarlegu nauðsynjar, að bandarískir hermenn séu stöðugt í þjálfun í flugvirkjun. Öll flugskýli á Keflavíkurflugvelli eru eign bandaríkjamanna nema 4. Skýli 501, 832 og 1708 voru byggð fyrir 1944 og voru notuð áður en bandaríski herinn yfirgaf Ísland í lok seinni heimsstyrjaldarinnar, en þá urðu þessi skýli eign íslendinga, þ. e. a. s. formlega þegar samningurinn frá 1941 rann út í okt. 1946. Samningurinn frá 1946 um borgaralegan rekstur flugvallarins gilti að áramótum 1950-1951. Á þeim tíma var skýli nr. 830 byggt. Og þegar þessi samningur rann út og breyting varð á með varnarsamningnum 1951 eignaðist íslenska ríkið einnig þetta skýli.

Það er á grundvelli varnarsamningsins frá 1951 sem ofangreind 4 skýli eru í rekstri bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli. Var þá varnarliðinu heimilað að nota skýli þessi og voru engin takmörk sett á afnotaréttinn meðan bandaríkjamenn annast varnir landsins. Íslenska ríkið getur því ekki einhliða rift þeim afnota- og umráðarétti sem varnarliðið fékk yfir skýlunum 1951. Þá viðgerðaraðstöðu, sem íslensku flugfélögin nú hafa á Keflavíkurflugvelli, hefur varnarliðið látið þeim í té í öðru húsnæði en þessum, þ. e. a. s. skýli nr. 885.“

Ljóst er að Flugvirkjafélag Íslands hefur um nokkurt skeið haldið uppi gagnrýni á viðkomandi yfirvöld vegna slæms aðbúnaðar félagsmanna sinna og talið, að hans vegna hrektust fjölskyldur úr landi, og eins hitt, að engir vilji læra starfið af sömu sökum, auk þess sem þjóðin yrði af miklum fjármunum úr landi vegna aðkeypts viðhalds. Hefur Flugvirkjafélag Íslands látið Hagvang hf. gera skýrslu sem nefnist: Þjóðhagslegt mat á skoðunar- og viðhaldsrekstri flugvéla. Skýrslu þessa hafa forustumenn Flugleiða gagnrýnt og hafa fengið ráðgjafafyrirtæki til að gera allsherjarúttekt á viðhaldsmálum Flugleiða hér á landi sem og erlendis. Er þeirrar skýrslu enn beðið.

Nokkur gögn, sem ekki hefur verið minnst á hér nú, liggja og fyrir, en eru að sjálfsögðu heimil til afnota fyrir alþm. og þá hv. fyrirspyrjanda ekki síst.

Það er ljóst að aðstaða til viðgerða og viðhalds íslenskra flugvéla á Keflavíkurflugvelli er vart fyrir hendi. Verður svo að óbreyttum aðstæðum nema byggð séu ný flugskýli. Hvort það sé svo hlutverk ríkisins er önnur saga. Hefur orðið að ráði að utanrrn., samgrn. og aðrir viðkomandi aðilar tilnefni n. sem formlega gangi frá áliti um það mál og fleiri þessu að lútandi. Mun sú n. væntanlega hefja störf nú á næstunni, og skv. upplýsingum, sem ég fékk í morgun, hafa flugvirkjar þegar tilnefnt mann í slíka n., en Flugleiðir ekki. Þeir tveir menn frá samg.- og utanrrn., sem þessa gagnasöfnun hafa annast og munu skipa væntanlega n., ef úr því verður, eru frá utanrrn. Hjálmar W. Hannesson og frá samgrn. Birgir Guðjónsson, en þessi skýrsla, sem ég las hér, er frá Hjálmari Hannessyni.