23.03.1977
Neðri deild: 62. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2792 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. að neinu marki. Við viljum það öll, að það eru ekki allir ánægðir með lög þau sem nú gilda um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 81/1976. Jafnframt vitum við að ekki vorn allir samþykkir þeim lögum sem áður giltu um þetta efni. Og sannast sagna er það svo, að það verða seint settar reglur um fiskveiðiheimildir sem allir una jafnfúslega. Því verð ég að segja að það er allmerkileg og víðtæk samstaða sem náðst hefur um þær brtt. sem nú eru fluttar af hv. sjútvn. Ég verð að segja að þessi samstaða, sem að vísu hefur ekki reynt á hér á hv. Alþ., er eða virðist vera allvíðtæk í röðum sjómanna og útgerðarmanna og að sumu leyti óvænt. Það eru jafnan skiptar skoðanir um ýmis efni í þeim málum eins og við vitum. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta, en skírskota til þess sem ég hef áður haldið fram og við þm. Vesturl. um þessi efni þegar þau hafa komið hér til umr. á liðnum árum. Mér sýnist að þessar brtt., þar sem ég þekki best til, gangi til móts við þau sjónarmið sem við höfum talað fyrir að undanförnu, og því fagna ég þessu frv. og lýsi fylgi mínu við það.