23.03.1977
Neðri deild: 62. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2795 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það er svo, að þegar þetta mál hefur borið hér á góma í Alþ., þá hafa oftast verið um það nokkuð skiptar skoðanir, þó að þm. að lokum hafi náð saman um tilteknar breytingar á þeim lögum sem áður vorn í gildi.

Þegar upphaflega var skipuð n. á árinu 1968 til þess að gera till. um breytingar á gildandi lögum um bann við botnvörpuveiði, þá tók sú n. upp þann hátt, sem þá var nýr, held ég, hjá n. Alþ., að hún ferðaðist um landið vítt og breitt, ræddi við hagsmunaaðila, bæði útgerðarmenn og sjómenn, og forsvarsmenn fiskvinnslu allt í kringum landið. Ég tel að þetta hafi þá gefið mjög góða raun að því leyti, að n. fékk vissulega fram skoðanir þó að þær væru kannske jafnmargar á hverjum stað og útgerðarmenn voru eða næstum eins og útgerðarmenn voru margir. N. fékk þarna mikið verkefni til að vinna úr og tókst þá nokkuð að samræma sjónarmiðin, þannig að að lokum náðist samstaða hér á Alþ. um verulega og mjög róttæka breytingu á þessum lögum frá því sem áður hafði gilt.

Það var svo ákveðið í þeim lögum, að þau skyldi endurskoða, ef ég man rétt, eftir eitt eða eitt og hálft ár, og var enn á ný skipuð n. til að gera till. um breytingar miðað við þá reynslu sem af lögunum hafði fengist. Sú n. tók einnig upp þann hátt að ferðast um landið, hafa fundi með hagsmunaaðilum til þess að fá hugmyndir um hvernig sú breyting, sem áður hafði verið gerð, hefði komið út að þeirra mati. Að því loknu, þegar niðurstaða lá fyrir um álit samtaka sjómanna og samtaka útvegsmanna allt í kringum land, þá lagði n. fram tillögur sínar hér á Alþ. eftir að hún hefði gert það sem unnt var til þess að samræma hin margvíslegu sjónarmið. Sú niðurstaða n., sem þá var lögð fram, varð að lögum sem dags. eru í des. 1973. Tel ég að þá hafi náðst verulegur árangur í því að samræma sjónarmiðin og koma á nokkuð föstu heildarskipulagi um veiðarnar innan fiskveiðimarkanna.

Þegar hæstv. núv. sjútvrh. taldi eðlilegt að þessi mál væru tekin til endurskoðunar á ný var einnig hafður sá háttur á, að þá var skipuð fyrst undirnefnd í málið, sem eingöngu var skipuð aðilum hagsmunasamtakanna, og vann hún vissulega mikið starf, var lengi að störfum, nær heilt ár, en síðan var skipuð þm.-nefnd til þess að fjalla um málið ásamt nefnd hagsmunasamtakanna, og niðurstaðan af því eru þau lög sem í dag eru í gildi.

Það, sem hér virðist valda kannske mestum ágreiningi varðandi þær tillögur, sem sjútvn. hefur flutt um breytingar á gildandi lögum, eru þær breytingar sem gerðar eru á svæðunum austur af Ingólfshöfða og einnig við Snæfellsnes. Það er svo með báðar þessar breytingar, að þar er lagt til að það verði tekið inn í lögin aftur sem var í lögunum frá því í des. 1973, þannig að það er vissulega fengin reynsla af því hvernig það mundi verka ef þessi breyting væri gerð eins og sjútvn. hefur lagt til, því að áður var það í gildandi lögum og var þar alla leið frá 1969. Ég tel því ekki að það sé rétt, að það sé engin reynsla fengin fyrir þeirri breytingu, sem hér er lagt til, ef hún yrði samþ., því að þetta var í lögum allt fram að því að núgildandi lög voru samþ., þá var allt þetta í hinum eldri lögum og veiðar stundaðar í 4–5 ár samkv. þeim. Ég tel að þegar það nú liggur fyrir í heildarsamtökum útvegsmanna, að þau óska eftir því, að ákvæði varðandi þessa tvo staði verði færð til baka eins og þau voru áður í gildandi lögum, þá tel ég mjög eðlilegt að við þeim tilmælum verði orðið.

Það er rétt, sem kom hér fram hjá hv. 8. landsk. þm., að forsvarsmenn Landssambands ísl. útvegsmanna óskuðu eftir því að allar þeirra till. yrðu samþ., ef einhver þeirra yrði tekin til greina í n. Ég held að allar till. þeirra hafi verið samþykktar nema till. um að færa mörkin nær landi fyrir Norðurlandi eða á svæðinu frá Horni og austur um. Ég hygg að ef Hafrannsóknastofnunin hefði viljað mæla með þeirri breytingu, þá hefði það einnig verið tekið upp í till. n. En svo var ekki. Hafrannsóknastofnunin mælti með öllum breytingum frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, sérstaklega með breytingunum varðandi svæðið fyrir austan Ingólfshöfða og svæðinu við Snæfellsnes, en lét afskiptalaust svæðið suður af Vestmannaeyjum eða breytingu á því, þannig að það liggur fyrir að Hafrannsóknastofnunin hefur mælt með þeim aðaltillögum sem hér eru fluttar.

Alþ. hefur alltaf talið sér nokkuð skylt að meta og fara eftir till. Hafrannsóknastofnunarinnar. Þó að það hafi ekki alltaf verið gert, þá hafa þær alltaf verið teknar nokkuð til greina og veruleg hliðsjón höfð af till. hennar, sem eðlilegt er og sjálfsagt. Ég sé því ekki að það sé nokkuð að vanbúnaði fyrir hv. Alþ. að samþykkja þær brtt., sem sjútvn. hefur hér flutt. Það er ekki hægt að vísa þeim frá með þeim rökum að það skorti reynslu á hvernig rýmkaðar veiðar á hinum tilteknu svæðum mundu koma út, því að sú reynsla er fyrir hendi, a. m. k. 4–5 ára reynsla. Hafrannsóknastofnun bendir réttilega á það, að á svæðinu fyrir austan Ingólfshöfða geti ekki verið um smáfiskadráp að ræða, ekki smáþorsk, og ef ég man rétt, þá kemur fram í áliti hennar að hún telji enga ástæðu til þess að óttast auknar heimildir þarna. Það mundi þá kannske verða aukin sókn í ýsustofninn, sem hún telur að sé á þann veg að það muni ekki valda neinu tjóni sérstaklega.

Eftir að möskvinn hefur stækkað, fyrst úr 120 mm í 135 mm og nú með nýju lögunum í 155 mm, þá tel ég ekki hættu á því að leyfa þarna auknar veiðar þó að þar geti verið um smáýsu að ræða. Ég hef því lýst því yfir í sjútvn. að ég muni fylgja þeim brtt., sem hér liggja fyrir, eins og þær eru fram settar. Varðandi það, að verið sé að skerða aðstöðu togaranna, þá er það vitað, eins og ég hef sagt áður, að þessi skerðing var áður við Snæfellsnesið, en nú er með þeirri till., sem hér er, rýmkuð veiðiheimild togaranna fyrir Suðurlandi eða suður af Vestmannaeyjum, þannig að aðstaða þeirra er skert frá gildandi lögum við Snæfellsnesið, en aftur á móti rýmkuð fyrir Suðurlandinu, suður af Vestmannaeyjum.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en vil aðeins láta koma fram að ég tel að þar sem fyrir liggja meðmæli Hafrannsóknastofnunarinnar með þeim breytingum eða þeim rýmkunum á veiðisvæðum sem till. gera ráð fyrir, þá tel ég eðlilegt að samþykkja till. sem hér liggja fyrir frá sjútvn. Að sjálfsögðu er eðlilegt að farið sé fram á að n. skoði málið á milli 2. og 3. umr., en ég á ekki von á því að það komi þar fram neinar nýjar afstöður, því að n. hefur rætt málið á nokkrum fundum og ég held, að nm. allir hafi gert það upp við sig hvaða afstöðu þeir ætli að taka til einstakra till. og málsins í heild.