23.03.1977
Neðri deild: 62. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2797 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það eru aðeins fá orð vegna þess að ég á sæti í þeirri hv. n. sem hefur tekið að sér að flytja þessar brtt. að beiðni rn.

Ég vil segja það strax fyrir mig persónulega, að ég er fullkomlega samþykkur því að gera þær breytingar sem fjalla um framkvæmd skyndilokana. Ég tel að bar sé komið á heldur skárra skipulagi. Þar er einnig fjallað um tilkynningaratriði, samráð við Landhelgisgæslu, og síðast, en ekki síst er heil stofnun sem stendur nú á bak við þá trúnaðarmenn sem eru um borð í skipunum, þannig að þeir þurfa ekki að taka allt á sínar herðar þegar þeir ákveða samkv, núgildandi lögum að loka svæðum, heldur er það stofnunin, sem styður við bakið á þeim, og það tel ég nauðsynlegt.

Ég vil einnig segja það sem mína skoðun, að ég tel að það sé skynsamlegra að hafa þessi mál í stöðugri athugun, stöðugri endurskoðun, og ég tel það fremur til bóta að Alþ. fjalli um þetta nokkuð oft og hér sé beitt stöðugu endurmati á stöðunni hverju sinni, í stað þess að búa til mjög stórar n., eins og einn hv. þm. ræddi um áðan, sem ferðaðist síðan um landið og hlustaði á allar skoðanir o. s. frv. Ég tel að þm. þekki nokkuð, hverjar skoðanir manna eru úti á landsbyggðinni, og viti nákvæmlega hvaða skoðanir hver hagsmunahópur hefur og hvaða skoðanir eru ríkjandi í þessu plássi og hinu, og það fer eftir því hvernig útgerð er á staðnum og hvernig veiðarfæri eru notuð o. s. frv. Þm., sem eru í sambandi við sín kjördæmi, þekkja það nákvæmlega og þarf ekki að stofna neinar stórar flakknefndir á nýjan leik. Ég tel að það hafi ekki komið sérstaklega mikið út úr starfi síðustu nefndar sem þetta gerði, þó að ég sé hins vegar alls ekki að kasta neinni rýrð á þær þingmannanefndir sem fyrst fóru í þessar ferðir á sínum tíma. En þegar þetta var skoðað síðast, þá var mikil nefnd sem starfaði í heilt ár, og ég verð að segja að mér fannst ekki koma mjög mikið út úr því.

En það er álit mitt á þessum brtt., að ég gæti fyllilega fallist á að samþykkja þær allar eins og þær leggja sig þarna á þskj. Hitt er svo annað mál, að ég tel fyllilega réttmætt að hv. þd. og n. taki einnig til skoðunar önnur erindi sem kunna að hafa borist, — erindi sem við höfum ekki séð. Ég tel alveg sjálfsagt að athuga það sem kann að koma utan af landi í þessum efnum. Auk þess tel ég rétt, og við höfum stundum rætt um það í n. hvort við ættum ekki að gera beinar till. um að nýta betur ýmsa fiskstofna, eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson kom inn á áðan. Þessar breytingar eru miklar að vöxtum að sjá þarna á pappírnum, en sannleikurinn er sá, að þarna er yfirleitt um smábreytingar að ræða.

1. brtt. fjallar að vísu um dálítið viðkvæmt mál. En þó er það svo, að þó að þetta svæði sé langt, frá Hvítingum og vestur að 18. gráðu, þá er ekki um svo ýkjamörg eða stór togveiðisvæði að ræða á þessu bili. Þetta mundi rýmka svolítið fyrir stærri bátunum, sem við köllum, sem ekki eru togarar, sem eru í erfiðleikum vegna þess að þeim hefur verið ýtt nokkuð út frá 1. júlí s. l. Útgerð þeirra báta er afar erfið og næstum óhugsandi á togveiðum á þessu svæði nema þarna komi einhverjar lagfæringar til. Þar er aðallega um að ræða dálitla bletti og þó sérstaklega fyrir bátana við Ingólfshöfða og í öðru lagi fyrir bátana við Suðausturlandið, þar sem um er að ræða þríhyrning sem nær frá 1inu, sem er réttvísandi austur af Hvítingum og að línu, sem er réttvísandi suður af Hvalnesi. Þar hefur verið um talsverða ufsaveiði að ræða á vissum árstímum, og ég tel að þarna sé ekki verið að auka neitt til skaða vegna fiskverndarsjónarmiða, því að það er ekki rétt sem hér kom fram áðan, að þarna sé um hættulega smáþorskveiði að ræða. Þarna væri fremur um að ræða einhverja smáýsu á vissum tímum og hugsanlega milliufsa. En þá eru auðvitað til heimildir, sem beitt hefur verið, til þess að takmarka það þegar um slíkt smáfiskadráp gæti orðið að ræða, og til þess var leikurinn gerður, þegar lögin voru sett síðast, að geta stýrt þessu þannig að unnt væri að stöðva smáfiskadráp með mjög litlum fyrirvara.

Hv. þm. Karvel Pálmason minntist hér á eitt atriði. Það er ekki alltaf svo að þekkingin á málunum sé í réttu hlutfalli við þau desíbel sem hv. þm. kunna að framleiða héðan úr ræðustóli, og eins er það í þessu tilfelli, því að hann var fyrst og fremst að víkja að því, að togurum væri ýtt út af Breiðafjarðarsvæðinu. Sannleikurinn í málinu er sá, að það er verið að dýpka svolítið á þeim þarna á dálitlu bili við innendann á Kolluálnum, og þeir færast þarna út um svona 6 mílna bil. Og ég er illa svikinn ef íslenskir togaraskipstjórar hafa ekki lag á því að krækja í fiskinn 6 mílum utan við þessa fyrri línu sem nú er í gildi, því að það breytir ekki miklu fyrir þá hvort þeir fá að vera þarna 6 mílum nær eða fjær. Þeir draga sínar vörpur í suðurkantinum á Kolluálnum aðeins utar og hirða fiskinn þá áður en hann gengur grynnra. Þeir togarar, sem þarna eru, þurfa því ekki að flýja til Vestfjarða og angra Karvel og kjósendur hans. Þeir munu bara taka fiskinn aðeins utar og hafa öll efni til þess.

Í öðru lagi vil ég nefna í sambandi við það, sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði, að það væri alltaf verið að þjarma að vestfirðingunum, sem ættu þess vegna að fiska minna en allir aðrir núna, að skuttogarar þar eru nú næstum helmingi aflahærri en aðrir skuttogarar í landinu vegna þess hversu góðan aðgang þeir hafa að góðum fiskimiðum. Í þessum brtt. er alls ekki aðeins um þrengingarákvæði að ræða gagnvart togurunum, heldur er verið að rýmka til þó að í smáu sé. Ég vil taka fram, að þó að í smáu sé, þá er verið að rýmka til fyrir togveiðar nokkuð víða á stóru svæði, þannig að þau skip, sem hafa þurft að flýja þau veiðisvæði, þurfa þá ekki heldur að angra hv. þm. Karvel Pálmason og umbjóðendur hans vestur á fjörðum.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að rekja fleira varðandi þetta atriði, því að staðreyndirnar tala auðvitað sínu máli og þarf ekki að vera að rífast um það hér við hv. þm., sem sífellt þykjast vera að veiða atkv. með einhverjum dularfullum hætti jafnvel þó að þeir hafi ekkert vit á hlutunum.

Ég hef einnig vikið að því, sem hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, sagði hér um rýmkun við Suðausturland, og því, sem hv. þm. Tómas Árnason tók að sjálfsögðu undir, eins og hann er vanur, til þess að hafa ekki verri stöðu fyrir fætur sínar kosningalega á Austfjörðum næst. Ég hef gert grein fyrir því atriði og þarf ekki að tala um það frekar.

Ég vil sem sagt að lokum aðeins endurtaka það, að þrátt fyrir það að ekki sé langur tími frá því að lögin gengu í gildi, þau voru sett í maí í fyrra, tóku gildi 1. júlí í fyrra, þá tel ég sannarlega ástæðu til þess að hið háa Alþ. fylgist vel með þessum málum og sé með þau í sem jafnastri endurskoðun. Og ég vil segja það enn, að ég er samþykkur þessum till. öllum saman. Ég er einnig vel til viðræðu um að taka til skoðunar aðrar brtt. sem fram kunna að koma. Þess vegna get ég vel fallist á að málið fari aftur til hv. sjútvn. til skoðunar, þó að við höfum auðvitað rannsakað málið mjög vel.