23.03.1977
Neðri deild: 62. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 2802 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Samkvæmt þingsköpum er að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu að vísa máli til n. á hvaða stigi þess sem er. En ég vil benda á að það er mjög óvenjulegt að vísa máli með samþykkt til n. á þessu stigi. Það krefst þess að n. gangi í gegnum það að skila áliti og láta prenta það. Hins vegar hafa þau vinnubrögð verið höfð og svo mikið gagnkvæmt traust verið milli alþm., að þegar 2. umr. gefur tilefni til þess og nefndarformaður a. m. k. lýsir því yfir að hann muni halda áfram athugun máls í n., þá er það látið nægja.

Ég hallast að því að við ættum að halda okkur við að láta það nægja, að það liggur fyrir að málið verði tekið fyrir en ekki í n., fara að heimta nýja útgáfu á nál. og allt, sem því fylgir, fyrir 3. umr., sem er miklu sjaldgæfara þó að það geti vel staðist samkvæmt þingsköpum.