20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3445 í B-deild Alþingistíðinda. (2423)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég átti þess af auðskildum ástæðum ekki kost að fylgjast með þeim umr. sem fram fóru um málið við 2. umr., sem sjálfsagt hafa verið þær sem máli skiptu. En það frv. til l., sem við erum hér að ræða, er að vísu kallað um breyting á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi, en er það ekki í raun. Frv., eins og það var og er í búningi sínum, er staðfesting á brbl. sem voru sett til þess að leiðrétta atriði, eins og segir í inngangi þeirra laga, brbl., — leiðrétta atriði í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Alls engar efnisbreytingar voru í brbl. og þar af leiðandi ekki auðvitað í staðfestingarlögunum. Þess vegna hygg ég að það sé í hæsta máta óeðlilegt að nú sé hrúgað inn brtt. við þessi leiðréttingarlög. Þessar leiðréttingar voru að allra dómi sjálf­sagðar, stöfuðu af því að við lokaafgreiðslu málsins við þinglok í fyrra urðu nokkrar breyt­ingar á síðustu stundu þannig að menn gátu ekki alveg séð fyrir útfærsluna sjálfa eins og hún þurfti að vera, þótt mönnum byði það að vísu í grun og létu þess getið við umr, það átti sér stað sér í lagi varðandi breytingar milli Fontar og Digraness og síðar vegna breytingar á viðmiðunarpunktunum Skálasnaga og Malarrifi. Þetta olli að sjálfsögðu engum ágreiningi, enda voru brbl. bara leiðrétting.

En síðan er gripið tækifærið og hrúgað inn stórfelldum breytingum á sjálfum fiskveiðilög­unum tæpu ári eftir að þau voru sett, í atriðum sem stórkostlegum ágreiningi öllu, á sinni tíð, m. a. varðandi flotvörpuna. Þm. komust þó að samkomulagi áður lauk.

Ég vil þess vegna biðja virðulegan forseta að skoða það hjá sér, hvort þetta stenst þingskaparlega, að við slíka leiðréttingu á lögum, sem gerð var með brbl., standist það að taka málið svona efnislega fyrir, sjálf lögin, eins og gert er með þeim brtt, sem hér eru fram lagð­ar. Má kannske segja að höggvi sá er hlífa skyldi, þar sem ég stend að því að fluttar eru hér brtt. eða leyft var að flytja brtt. við sjálf lögin. En ég get gefið skýringu á því, af hvaða ástæðum það var. Mér var kennd sú lexía af gömlum latínugránum hér í þingi, að það væri ekki til siðs nokkru sinni að neita ráðh. um það að flytja mál, þn. neituðu ráðh. aldrei um að flytja mál. Þetta er að vísu auðskilið, þar sem ráðh. hefur auðvitað á valdi sínu að flytja hvaða mál sem er inn í þingið. Það er engin ástæða til fyrir þm., enda þótt þeir séu and­stæðir einhverju máli, að banna eða setja fót fyrir að það fái eðlilega meðferð í þingi. En þær brtt., sem komu fram í bréfi og samþykkt­um aðalfundar Landssambands ísl. útvegsmanna, ég fullyrði, — og ég verð þá leiðréttur ef það er ekki rétt, — að meiri hl. hv. sjúvn. þessarar d. var andstæður þeim breytingum, og ég vona að það hafi komið fram við þá umr. sem hér fór fram um málið.

Ég þarf ekki að ræða um leiðréttingarnar, sem eru í brbl., allir eru að sjálfsögðu samþykkir þeim og valda engum ágreiningi. Ég þarf ekki heldur að hafa langt mál um síðustu brtt. á þskj. 392, hina 6., þar sem verið er að ræða um breytingar vegna stjórnunar og um framkvæmd laganna sjálfra. Það er að fenginni reynslu hjá þeim, sem hafa með framkvæmdina að gera, í sjútvrn. aðallega, og veldur auðvitað engum ágreiningi, heldur er rétta reynsla, sem þeir hafa heyjað sér, þótt stutt sé frá setningu síð­ustu laga, m. a. um lengingu lokunarsvæða í sjö daga, sem við í fiskveiðilaganefndinni á sín­um tíma vorum mjög áfram um að hafa lengri en þrjá daga, en starfsmenn sjútvrn. fengu því þó ráðið að það var eigi lengra en þrír, eins og segir í lögunum. Ég þarf ekki að staldra við þessi atriði, vegna þess að ég hygg að menn geti verið sammála um að þeir, sem hafa með framkvæmdina sjálfa að gera, leggja auðvitað ekkert annað til en sem auðveldar hana og gerir þá vissari upp á sínar hendur í framkvæmdinni.

En hvernig eru hinar till. til orðnar, sem komu í bréfi Landssambands ísl. útvegsmanna? Þær eru til orðnar sem samkomulag innan þessa þrýstihóps í þjóðfélaginu, L.Í.Ú. Það er verslun þar á milli landshluta, enda fór það ekkert á milli mála hjá formanni Landssambands ísl. út­vegsmanna. Þegar hann var að fara út úr dyrun­um frá sjútvn., þá sneri hann sér við og bað okkur að gera svo vel að athuga það, að þetta væri einn pakki. Og af hverju skyldi þetta hafa verið einn pakki, nema af því að það hafði verið náð samkomulagi með verslun og við­skiptum milli hinna ýmsu landshluta og útgerðarmanna þar um þessar breytingar, um grundvallarbreytingar frá því sem náðist sam­komulag um fyrir tæpu ári. Og það var til handa norðlendingum partur þar, viss partur milli 9 og 12 mílna lögsögunnar vestan við Grímsey og austur fyrir til handa nokkrum skipum. Og ég minni ykkur á það og bendi ykk­ur á það, af því að það skiptir miklu máli, það var til handa aðeins 5–6 skipum. Síðan kom Suðausturlandið, til handa þeim í Höfn í Horna­firði og Vestmanneyingum aðallega, með veiðar upp að 4 mílum frá landi, í Mýrabug aðallega og vestur með landi. Þetta var eitt höfuðatriðið í því sem fiskifræðingar sögðu þá, að velja bæri nýja viðmiðunarpunkta og draga línu eftir þeim, en ekki miða við fjöruborð eins og áður hafði verið gert. Og síðan við Breiðafjörð, að vísu að meginhluta til með þeim hætti sem hæstv. sjútvrh. getur sjálfur sett í reglugerð, að bægja frá togveiðum á því svæði og ákveða til handa netum og línu. Og svo voru einhverjir togara­menn keyptir upp með því að þeir skyldu fá sér til handa smávegis þríhyrning vestast í Hafadýpinu til þess að toga. Og þetta varð að vera einn pakki, annars hallaðist öll verslunin, annars fór gjaldmiðillinn úr skorðum sem gekk á milli landsfjórðunga. En þó var það svo, að ekki treystust menn samt til þess að mæla með breytingunni fyrir Norðurlandi, enda hallaði það ekki viðskiptunum sem neinu nam þar sem þetta voru aðeins 5–6 skip. Þess vegna var pakkinn ekki opnaður að ráði þannig að út úr honum gengju ósköpin þótt þeir væru skildir eftir.

En til handa hverjum er svo þessi opnun upp í landsteina? Til handa hvaða skipum er það? Það er til handa þeim skipum sem hafa mokað og rakað saman fé á loðnuvertíðinni núna. Og ein röksemdin er sú, t. d. í Mýrabugnum, að það sé aðallega um að tefla ýsu sem smjúgi hinn stærri moskva trollsins, 155 mm. Ég vil spyrja, ef þetta eru rök, að ýsan þar smjúgi möskvana: Af hverju hefjum við þá ekki tog­veiðar í Faxaflóa, þar sem aðalröksemdin fyrir því að ekki mætti toga hefur verið sú, að verið væri að ala upp ýsu? Er ýsan hér einhvern veginn öðruvísi í laginu en í Mýrabug, þannig að hún smjúgi ekki hér það sem hún smýgur þar?

Allar eru þessar röksemdir tóm vitleysa og að Alþ. láti bjóða sér það að hlaupa eftir slíkri versl­un og viðskiptum innan þessa þrýstihóps LÍ.Ú. er með nokkrum fádæmum, sér í lagi þar sem hafa ber það í huga og ég vænti þess jafnvel að þessir félagar mínir þar heyri til orða minna, að þetta eru hinir verstu rummungar í umgengni sinni við fiskveiðilögsöguna, útgerðarmenn og sjómenn. Það eru undantekningar, sem sanna regluna, ef þessir menn haga sér skikkanlega, nema þá undir hinni ströngustu lögreglugæslu. Um þetta eru dæmin að koma til okkar enn í dag.

Við sátum 27 fundi í fiskveiðilaganefndinni áður en við hófum starf okkar í sjútvn. Nd. í fyrra og svo á sameiginlegum nefndarfundum með Ed.-mönnum. Þar var flotvarpan á dagskrá löng­um og menn komust að niðurstöðu um þetta og náðu höndum saman um þá reglu sem sett var um notkun hennar. Ekkert hefur komið í ljós sem breytir þessu nú tæpu ári síðar. Það er gamla kenningin, að það sé ekki sama með hvaða hætti fiskur sé drepinn, sem menn eru að halda fram með þessum hætti. Og eins og hv. þm. Guð­laugur Gíslason sagði, að flotvarpan væri svo miklu afkastameira tæki, þá er því til að svara, að þá er sóknin of mikil, þá eru skipin of mörg, en ekki það, að það eigi að vera höfuðatriðið að tækið sé afkastalítið. Auðvitað eigum við að nota öll afkastamestu tæki sem tök eru á. En við eigum að takmarka sóknina með allt öðrum hætti en þeim, því að þeim mun afkastameiri sem tæk­in eru, þeim mun ódýrara verður í þetta að sækja og þeim mun meiri afrakstur gefur þetta. Ef á að draga úr sókninni, þá á auðvitað að gera það með færri sóknareiningum — (Gripið fram í.) en ekki það til af fyrir sig, að það eigi að banna flotvörpuna vegna þess að hún sé afkastamikil.

Hv. þm., sem mér skildist að væri fæddur og uppalinn á sjó, Garðar Sigurðsson, sagði sem svo, að flottrollið bættist við önnur veiðarfæri og væri þess vegna hættulegt. Botnvarpan bættist einu sinni við línuna, og handfærið og netin bættust einu sinni við togveiðarnar og síðan koll af kolli, þannig að ævinlega kemur viðbótin að sjálfsögðu eftir því hvað hagkvæmast er. Hann segir, og ég hygg að hv. heimaþm. hans, Guðlaugur Gíslason, hafi nefnt það líka, að fiskur úr flottrolli væri verr farinn og nýttist verr en annar. Það kann að vera að hv. þm. Garðar Sigurðsson sé fæddur á sjó. En það er áreiðan­lega langt síðan hann var settur í land með pokann sinn, því að reynsla þeirra, sem eru á sjó enn þá og hafa notað þetta tæki, sem hann hefur einnig gert, er allt önnur. Hún er að það sé jafnbesta hráefnið sem fiskast í flottrollið, og ef hann dregur það eitthvað í efa, þá vil ég benda honum á það, að í síðdegisblöðunum í dag er vitnisburður þeirra sem enn eru á sjó, þar gefur að líta vitnisburð þeirra, sem enn eru á sjó, um þetta atriði.

En nú vil ég ekki kveða upp úrskurð um það, að ekki geti komið til greina að banna flotvörpu. En það, sem ég ætla að leggja áherslu á um þessa till. sem og hinar verslunartill. úr L.Í.Ú., er að við getum ekki látið þessi mál bera að með þessum hætti sem hér gerist. Við þurfum að taka þessi mál allt öðrum tökum. Það hef­ur verið unnið gífurlegt verk að safna saman upplýsingum um landið allt, um ástand þar, vilja manna og vit þeirra á þessu máli. Það er engin ástæða til þess að endurtaka þá vinnu, heldur ber Alþ. að kjósa fastanefnd, 7–9 manna, en þó eigi færri en það að allir þingflokkar eigi þar aðild að. Þessi n. á að starfa með sérfræðingum og fulltrúum frá sjútvrn., Hafrannsóknastofnun og Fiskifélagi. Slík n., — og ég varpa þessu fram við sjútvrh. og ég er tilbúinn til þess að flytja um þetta þáltill. ef hann vill ekki svo vel gera að athuga það sjálfur að skipa slíka n., — hún á að taka allar þær fjölmörgu till., sem niður rignir í þessum efnum, til gaumgæfi­legrar athugunar. Ég hef tugi tillagna í mínum fórum um breytingar á fiskveiðilöggjöfinni frá því í fyrra. Það vildi svo til að ég hafði tölu­vert mikið með lagasetninguna að gera og ég hafði engan flóafrið nætur eða daga meðan á því stóð né heldur lengi á eftir, og ég hef staðfest skeyti frá 11–13 skipum um ósk um breytingar á fiskveiðilöggjöfinni. Við þm. náðum saman höndum um setningu laganna og töldum okkur vera búna að því á sínum tíma í fyrra og rétta mál gekk hér í gegnum Nd. án breytinga. En staðfesta þeirra í Ed. var ekki meiri en svo, að eftir að sjálfsagt hafa gengið á þá hringingar í nokkra sólarhringa, þá fluttu þeir menn, sem höfðu gert samkomulag við okkur um setningu laganna, einar 19–20 brtt. við frv. Þetta sýnir í sjónhending hvernig rignir yfir menn og ef þeir standa ekki fastir á skoðunum sínum eða þeirri niðurstöðu, sem þeir gera samkomulag á, því að vissulega var það svo, að í mörgu sveigði maður frá skoðunum sínum af þeirri nauðsyn að ná fram samkomulagi, — ef þeir standa ekki fastir á sínu í þessu, þá mun það æra óstöðugan að sveiflast eftir þeim skoðunum og þeim beiðn­um sem fram eru settar um breytingar á nýtingu fiskveiðilögsögunnar.

Ég fortek ekki að við þurfum ekki að breyta ýmsu í fiskveiðilöggjöfinni. En við getum ekki gert það eftir geðþótta hinna ýmsu þrýstihópa sem augljóslega, eins og í þessu dæmi er hægt að sanna, versla með þetta fram og aftur þar til þeir hafa gert til geðs öllum þrýstihópunum innan síns þrýstihóps. Þetta er hægt að sanna, eins og ég gerði með því að minna á orð for­manns Landssambands ísl. útvegsmanna, þar sem hann minnti okkur á að þessu mætti ekki hagga. Og það þarf ekkert að fara í grafgötur um hvers vegna það var sagt, enda hef ég leitað mér upp­lýsinga um það.

Ofan á þetta bætist það, að hér er verið að hliðra til fyrir þeim skipum, sem hafa gert eina bestu vertíð sem nokkur dæmi eru til um, ­skipum sem eru 300–354 tonn og með því vélarafli sem þau eru mörg búin núna, á því grunna vatni sem á að hleypa þeim upp að 4 mílum frá fjöruborði. Það eru þá breyttar kenningar, sem verið hafa um þann usla sem svo öflug skip geta gert með botnvörpu, þær eru þá snarbreyttar frá því sem ég hef heyrt þær og heyrt menn halda fram.

Ég fæ ekki heldur séð hvað svo mjög liggur á um þessar breytingar, sem mér af ýmsu virðist knúið á um. Reynslan er örstutt. Ég er ekki þeirrar skoðunar að við eigum að skipta og breyta til þarna eins og að skipta um hlífðarföt, eins og hv. 8. þm. Reykv. sagði í nál. sínu. Þó kann að vera í ýmsum atriðum að þurfi að breyta skjótlega til ef reynslan sannar okkur það. Ekk­ert er það í þessum brtt., sem ég geri að ágrein­ingsefni, sem færir okkur heim sanninn um að það sé nein knýjandi nauðsyn. En þetta þarf að ganga í gegnum vandlega athugun hjá þar til kjörinni eða skipaðri nefnd.

Það er margt annað sem þar þarf að koma til greina, eins og t. d. nýting kolastofnsins. Menn hafa þungar áhyggjur af ástandi fiskstofnanna og það að vonum. Það hafa þeir hv. þm. úr Vestmannaeyjum, Garðar Sigurðsson og Guðlaugur Gíslason. Og þeir ræða það af mikilli alúð hvernig ástandið sé t. d. á hrygningarsvæðunum. Mætti ég þá kannske biðja þá um að gera grein fyrir því, hvar friðaða svæðið á Selvogs­banka er, friðaða hrygningarsvæðið, og af heiðarleika sínum að segja frá því, hverjir hafa ráðið því hvar það er nú? Hrygningarsvæðið, sem fiskifræingarnir lögðu til að yrði á Selvogs­banka, það er aðeins 1/3 hluti af því innan þess friðaða hrygningarsvæðis sem nú er í gildi. Hrygningarsvæðið núverandi er aðeins stærra en það sem þeir lögðu til, en það er ekki á sama stað. Það er aðeins rúmur 1/3 af því hrygningar­svæði, sem þeir lögðu til, fiskifræðingar, að yrði friðað, innan þess friðaða svæðis sem nú er í reglugerðum. Það var stækkað suður á haf­djúpið þar sem það á sér enga stöð. Það var fært langt vestur frá Þrídröngum, þar sem fiskifræðingar lögðu til að það væri. Og hverjir réðu þessu? Ég ætla ekki að kveða upp úr um það. Ég kysi gjarnan að heyra álit hv. þm. úr Vest­mannaeyum á því fyrst. Ég get þó upplýst að ég var þeirrar skoðunar, að það bæri að fara að vilja fiskifræðinga í þessu efni.

En þá kemur að því að menn þurfa að veiða fisk til þess að afkoma þeirra sé góð og fiskvinnslustöðvanna, og það er líka það sem þarf að gera annars staðar í landinu. Þess vegna hafa menn goldið nokkurn varhug við því að hægt væri að leggja skipaflotanum þrátt fyrir till. Landssambands ísl. útvegsmanna þar um. Það er að vísu rétt, að hrygningarstofninn er talinn núna vera svipaður og í fyrra. Þó er það stað­reynd, að út af þeim litla hrygningarstofni í fyrra virtist hafa komið öflugri seiðaárgangur en dæmi eru til um áður frá því að rannsóknir hófust.

Auðvitað eru menn áhyggjufullir vegna þessa ástands. Auðvitað ber að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að hindra ófarir. En ég vil benda á það, að bæði með lögunum, sem sett voru í fyrra, og ótrúlega mörgum öðrum ráðstöfunum, sem hæstv. sjútvrh. hefur gert, hef­ur miklu meira verið unnið að verndun fisk­stofnanna en nokkur dæmi eru til um áður, á þessum örstutta tíma margfalt meira en alla áratugina þar á undan, bæði með gerð veiðar­færanna, friðun svæða, skyndilokunum svæða o. s. frv., o. s. frv. Menn virðast ekki taka eftir þessu og standa svo upp og breiða sig út og þykjast vera þeir sem einir kunni tökin á því að ráðleggja hvernig eigi að fara að því að bjarga þessu. (GS: Lækningin fer líka aðallega fram eftir að sjúklingurinn er orðinn veikur.)

Hv. þm. Garðar Sigurðsson tók saman höndum við okkur hina í fiskveiðilaganefndinni um setn­ingu laganna þá. Hann gerði engan ágreining. Hann stóð að þeirri lagasetningu eins og hún var úr garði gerð. Það kann að vera að einhver stórisannleikur hafi runnið upp fyrir hon­um síðar, og svo er að sjá eftir þeirri tillögu­gerð sem hann leggur hér fyrir um bann við flottrollinu. En hann hefur enga reynslu síðan. Þetta er bara eitthvað sem honum þóknast núna að leggja fram til þess að geta auglýst sig sem einhvern friðunarmann, en engin reynsla hefur fært honum heim sanninn um að það sé rétt að gera þetta.

Svo er þessi maður að tala um að menn eigi að sleppa — hvað sagði hann hér og ég bók­aði? — hann talaði um kjördæmismenn og reigði sig. Kjördæmismenn, þeir ættu nú að gleyma atkv. og fara að greiða atkv. eftir skynsemi, sagði hann líka og sanngirni. En það fullyrði ég, að þessi tillögugerð hans er ekki af neinum rótum öðrum runnin en einhverri atkvæðasmölun, vegna þess að hún er út í bláinn. Hann hefur ekkert fyrir sér í því, það er ekkert sem liggur til grundvallar því, sem hann gerir með þessari till., ekkert nema það að meira veiðist í einu í flottrollið. Hefði þá ekki verið rétt fyrir nokkru að leggja fram till. um að stöðva innflutning á hinum stórvirku tækjum, skuttogurunum, sem við höfðum fengið nóg af á árinu 1975? Sannar­lega gætum við veitt líklega sama magn með 2/3 hluta skuttogaraflotans sem er í landinu, þannig að hver viðbót er borguð af ríkinu sjálfu, þar sem það getur ekki staðið undir sér. (Gripið fram í.) Já, það eru margar till. sem menn varpa fram: Banna nælonnet? Ég hef ekki vit á því. T. d. eftir að pólska pokaklæðningin kom til sögunnar, segja menn að hún sé allt önnur held­ur en sú sem áður var. Nú er altíðkað að nota nælonklæðningu og nælonpoka og nælonnet. Ég hef heyrt mann halda fram gagnstæðri skoðun, að það hlífði smáfiskinum meira, það legðist ekki eins rækilega saman og hitt. Um þetta skal ég ekki dæma. Fiskifræðingar a. m. k. vilja ekki leggja til bann við þessu. (GS: Segðu bara að þú hafir ekkert vit á þessu Sverrir.) Ég lýg eins og logið er í mig, en ég tek ekki mark á öllu sem hv. þm. Garðar Sigurðsson segir í sambandi við þetta, enda þótt hann sé fæddur á sjó.

Þar sem hér er komin fram þessi brtt. frá hv. þm. Garðari Sigurðssyni um bann við flottroll­inu, þá sýnist mér ráð og einnig vegna málsins í heild, að sjútvn. d. fái aðeins ráðrúm til þess að ræða þetta mál. Þess vegna legg ég til, virðu­legur forseti, að frv. verði vísað til n. ef færi gefst á því að ná samkomulagi. Ég finn það, og það er ekkert leyndarmál, að ótrúlegur fjöldi manna í hv. d. virðist taka fagnandi við þessu tækifæri að fá að greiða atkv. með banni við flottrolli. Ég held að við ættum að taka allar þessar till. til endurskoðunar. Að vísu liggur það fyrir að beiðni L.Í.Ú., að meiri hl. sjútvn. var andstæður þeirri beiðni. En það kann að vera að n. kæmist að einhverri niðurstöðu, með sama hætti og við þrautkönnuðum það á s. l. ári hvort hægt væri að ná samkomulagi, sem tókst að lokum. Það má ýmislegt á sig leggja til þess að menn fari ekki að fljúgast á í þessu viðkvæma máli.

Hv. þm. Guðlaugur Gíslason gat þess, að Fiskiþing hefði fyrir nokkrum árum gert samþykkt um að skylda skip til að koma að landi með allan afla sem það veiddi. Þetta er að vísu góð hugmynd og það kann að vera að hún sé fram­kvæmanleg í einhverjum tilfellum. En ég get upplýst það, að það má heita að hún sé að kalla óframkvæmanleg á hinum stærri skuttogurum sem hafa langa útilegu. En hinar gagngerðu ráð­stafanir, bæði samkv. okkar lögum og samkv. hinum margháttuðu ráðstöfunum hæstv. sjútvrh. og hið stóraukna eftirlit ættu að geta leyst þenn­an vanda að meginhluta til. Við vitum að ásókn sjómanna okkar í góða veiði er svo gífurleg að þeir sjást tíðum ekki fyrir og flestir eru haldnir þessari áráttu, að sjást ekki fyrir í veiðigleði sinni. Þetta eru ekki óheiðarlegir menn, en veiði­náttúra þeirra er ákaflega stríð, það verður að játa. (GuðlG: Þú kallaðir þá áðan rummunga.) Já, ég verð að kalla það, þegar þeir eru staðnir að því að eiga net í sjó á friðaða svæðinu á Selvogsbanka núna, — ég verð að kalla það, og eins þegar togarar eru teknir í landhelgi og reynast einnig vera með ólöglegan búnað veiðar­færa. Og við höfum fjölmörg dæmin.

Ég legg áherslu á þetta, að við gerum núna tilraun til þess að ná saman höndum um málið. Okkur tókst það í miklu viðameira máli í fyrra. Þetta eru þó ekki nema örfáar brtt. sem hér liggja fyrir. Okkur tókst það af því að menn lögðu sig fram. Ég segi það rétt eins og er, eins og mér er mikið í mun út af þessu máli, að ég geri það ekkert að gamni mínu að fljúgast um það. En aðferð sú, sem mér sýnist að hafi verið viðhöfð í þessu máli, er alveg ólíðanleg. Ef Landssamband Ísl. útvegsmanna gengur upp í þeirri dul, að það geti í aðalfundarsamþykkt­um sínum rakleiðis reiknað með því að fiskveiði­lögsögunni verði breytt að óskum þess, ég tala nú ekki um þegar samþykktir þess bera með sér greinilega verslun á milli landshluta, þá líst mér ekki á framhaldið fyrir hið háa Alþ. Ég verð að segja það rétt eins og er. Og þetta er ekki smæsta málið þar sem við verðum fyrir ágangi slíkra þrýstihópa, heldur hið allra stærsta.

Við höfum reynt að ráðgast við fiskifræðinga og munum gera svo áfram. Það hefur hæstv. sjútvrh. gert í sinni stjórn á þessu. Ég verð að segja það eins og er, að ég er honum alger­lega sammála í öllum meginatriðum í sambandi við stjórn fiskveiðanna. En hann hefur orðið þar í ýmsu að taka sjálfstæðar ákvarðanir og svo verður enn að vera, bæði hjá honum og hjá hinu háa Alþ. Okkur getur auðvitað missýnst, en það verða allir að trúa því, að við leggjum okkur alla fram í þessu efni.

Ég endurtek svo og vil nú afhenda virðulegum forseta till. mína um það, að frv. verði vísað til sjútvn. En ég ítreka hina till., sem mér er hin mesta alvara með, en bíð með alla tillögu­gerð formlega þar til ég sé hvort hæstv. sjútvrh. vill ekki við henni taka og framkvæma sjálfur. Ég legg hina mestu áherslu á þá till. mína að komið verði á fót fastanefnd þar sem þingið hefur alla forustu. Ég læt mér detta í hug níu manna n. og gjarnan mega eiga sæti í henni beinlínis fulltrúar eða fulltrúi frá sjútvrn., Hafrannsóknastofnun og Fiskifélagi, og vitaskuld mundi þessi n. svo leita fanga víðar í sam­bandi við starf sitt. Það eru ótal till., þar sem óskir hafa komið fram um breytingar, bæði eðli­legar og óeðlilegar, sem þarf að taka til athug­unar í slíkri n., ótal fleiri en þær sem við höfum hér til þess að fjalla um nú. Með mikilli alúð og vinnu tókst nm. í fyrra að ná saman höndum og tókst einnig að sætta sjónarmiðin hér á hinu háa Alþ., þótt erfitt væri í tímaþröng á úrslitastundu. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að menn vilji ekki leggja ýmislegt á sig núna til af miklu smærri og færri atriðum til þess að við getum nú orðið sammála um þetta og haft um þetta frið hér á hinu háa Alþ. (GuðlG: Till. var tekin aftur við 2. umr. til 3.) Ég hef, þrátt fyrir það að upplýst sé að málið hafi gengið til n. aftur, ástæður til, sanngirnisástæður til að óska eftir að það komi enn fyrir n., þar sem það hefur ekki komið fyrir hana meðan ég atti þess kost að sitja fundi frá því það var fyrst afgreitt úr henni til Alþingis.