20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3453 í B-deild Alþingistíðinda. (2425)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Við 2. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir afstöðu minni til þess sem þá lá fyrir og ég ætla ekki að endur­taka neitt af hví frekar. En síðan hefur komið fram nýtt í þessu máli, þ. e. a. s. brtt. á þskj. 463, og mig langar til þess að fara örfáum orð­um um hana og einnig nokkur þau atriði sem fram hafa komið í þessum umr. nú í kvöld.

Ég vil fyrst segja það, að það eru meiri spek­ingarnir og sérfræðingarnir sem þeir „Eyjabræður“ eru orðnir í öllu því er lýtur að stjórn­un fiskveiða, hafrannsóknum og fiskifræðileg­um athugunum, eftir tali þeirra hér í kvöld, og væri vissulega athugandi fyrir hæstv. sjútvrh. að gefa því gaum, hvort þessir hv. þm. eru ekki falir til starfa hjá Hafrannsóknastofnun sem sérfræðilegir ráðunautar í þessum efnum honum og sérfræðingum til aðstöðar á erfiðleikatímum varðandi fiskveiðar okkar íslendinga.

En vegna till., sem hér er fram komin frá hv. þm. Garðari Sigurðssyni um að banna veiðar með flotvörpu frá 1. júní 1977 til 1. júní 1978, langar mig til að segja nokkur orð.

Það er þegar upplýst að fiskifræðingar hjá Hafrannsóknastofnun telja enga sérstaka hættu því samfara að leyfa veiðar með flotvörpu, frekar heldur en er fyrir hendi t. d. með botn­vöpu, og ég veit ekki betur en í öllum tilfellum hafi verið farið að till. og ráðleggingum fiskifræðinga varðandi flotvörpuveiðarnar.

Það er líka ljóst, eins og kom hér fram hjá hv. 3. þm. Austurl., að jafnbesta hráefnið sem kemur til vinnslu í fiskvinnslustöðvum, t. d. á Vestfjörðum í hraðfrystihúsunum, er það sem fæst í flotvörpuna. Þetta liggur fyrir. (GS: Hvaðan liggur það fyrir?) Það liggur fyrir frá viðkomandi stöðum, það ætti hv. þm. að geta kynnt sér, ef hann veit það ekki þegar, en mér skilst að hann viti æðimikið að eigin dómi. (GS: Þessi fiskur hefur löngum verið fluttur hingað suður.) En það eru önnur veiðarfæri sem hafa sýnt það og sannað að úr þeim kemur ekki fýsilegt hráefni til vinnslu, og það sýna dæmin á undanfarandi árum.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði áðan eitthvað á þá leið, að vegna þess mikla afla, sem fengist í flottrollið, gæfi auga leið að mikið af þeim afla væri ekki góð vara, það væru lítil gæði í þeirri vöru sem það veiðarfæi skilaði á land. Hvað sem þessi hv. þm. segir um þetta sem telur sig atvinnumann í faginu — (GS: Og er) — og er, segir hann sjálfur, það er hans eigin dómur, ekki annarra, — þrátt fyrir þessa fullyrðingu hans er þetta eigi að síður stað­reynd, að jafnbesta hráefnið, sem kemur til fiskvinnslustöðva, er fengið í flotvörpu.

Þessi hv. þm. með jafnmikla visku og þekk­ingu og hann telur sig hafa á öllu því, sem lýtur að fiskveiðum og fiskvinnslu, ætti líka að vita og ætti í raun og veru að vera hvað kunnugastur því hráefni sem fengist hefur á undanförnum árum og áratugum í annað veiðarfæri sem þorska­net kallast. Og það vita þeir báðir, þessir hv. þm., bæði hv. þm. Guðlaugur Gíslason og Garðar Sigurðsson, þeir ættu manna best að vita hvert hráefni til vinnslu og útflutnings það er sem þetta veiðarfæri hefur skilað á land á undan­förnum árum. Þrátt fyrir þessa staðreynd og þrátt fyrir þá staðreynd að þetta veiðarfæri hefur skilað hvað mestu magni af hvað versta hráefni í þeirra eigin kjördæmi, þá virðist þeim ekki hafa hugkvæmst að setja eða gera tilraun til þess að setja skorður við þessu háttalagi. Hv. þm. Guðlaugur Gíslason upplýsti hér áðan, að yfirleitt væru bátar með 10–12 netatrossur í sjó. (Gripið fram í.) Það, sem er umfram 10 netatrossur, er, að því er ég best veit, ólöglegt. Það er heimilt, held ég hæst að hafa 10 neta­trossur í sjó, enda er það opinbert leyndarmál að þessi regla, sem verið hefur í gildi í nokkuð mörg ár, ég skal ekki tiltaka árafjöldann, en í nokkuð mörg ár, hefur verið þverbrotin fyrir opnum augum þessara hv. þm. fyrst og fremst.

Þá hefur ekki verið ofarlega í hugum þeirra það tal sem hér er uppi nú um að það beri skýlaust að stemma stigu við þeim veiðarfærum sem hvað versta hráefninu skila til vinnslu. Þetta eru ekki bara mínar fullyrðingar. Þetta liggur einnig fyrir og það liggur fyrir líka, að fiskifræðingar hafa haft miklar áhyggjur af þessu, að ekki skuli hafa verið hægt að stemma stigu við þess­um lögbrotum, fyrst og fremst á þessu svæði sem þarna um ræðir.

Það er því ekki að mínu viti þessi skoðun hv. þm., þ. e. a. s. að þetta veiðarfæri hafi sér­staklega hættu í för með sér fyrir þorskstofn­inn eða sé líklegast til þess að skila hvað verstu hráefni, — það er ekki það sjónarmið sem ligg­ur til grundvallar tillöguflutningi af þessu tagi, enda engin rök, sem haldbær eru, færð fram fyrir því að svo sé. Það sem mér virðist vera það eina sem líklegast er að sé grundvöllur að tillöguflutningi og skoðunum af þessu tagi, er það að vestfirskum skipstjórnarmönnum fyrst og fremst hefur tekist það, sem öðrum skip­stjórnarmönnum annars staðar á landinu hefur ekki tekist, það er að geta hagnýtt sér þetta veiðarfæri. Það er, að ég held, nokkuð augljóst, að vestfirskir skipstjórnarmenn eru þeir aðilar sem hafa hvað best komist upp á lagið með að hagnýta þetta veiðarfæri, og hér brýst fram með tillöguflutningi af þessu tagi öfund í garð þessara manna. Þá er engu látið skipta hvort í raun og veru sé verið að stíga skref til þess að vernda og bæta eða hvort beinlínis er verið að stíga skref til þess að koma í veg fyrir að gott hráefni geti komið á land til vinnslu. (GS: Það er vont að hagnýta það sem er bannað.)

Hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði áðan að það væri bannað að veiða með flotvörpu á öllum þeim stöðum nema þar sem væri hægt að veiða með henni. Það þýðir það, að það þýðir ekkert að vera að leyfa veiðar samkv. hans kenningu á þeim stöðum sem nú er bannað, vegna þess að það er ekki hægt að veiða með henni þar, það fæst ekkert í hana. Þetta er hans eigin kenning.

Og það að halda því fram, að flotvarpan sé miklu hættulegra veiðarfæri vegna þess að hún sé afkastameira veiðarfæri, það er einkennileg kenning. Samkv. þessari kenningu hefði t. d., þegar nælonnetin voru að ryðja sér til rúms, átt að banna þau. Þau eru miklu fisknari en hamp­netin voru á sínum tíma. Það hefði líklega átt samkv. þessari kenningu að banna línuveiðina. Það kemur meira af fiski á land á línuna heldur en kom á færin á sínum tíma.

Kenningar af þessu tagi fá auðvitað ekki staðist. Grundvallaratriðið er þetta, hvort það er til hins verra varðandi fiskstofninn að taka aflann í þetta eða hitt veiðarfærið, þ. e. a. s. hvort það spillir fyrir, vegna þess að okkur er það öllum kunnugt að fiskstofninn — þorsk­stofninn sérstaklega — við landið er í mikilli hættu, það er öllum ljóst.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson sagðist hafa verið skelfingu lostinn við þær, að því er mér skildist, upplýsingar sem hann hefði fengið varðandi það sem hefði verið að gerast á Vestfjarðamið­um, og þá átti hann við það, hversu stór hluti, mér skildist 90–99%, af aflanum sem kæmi í flottrolliið væri undirmálsfiskur. En hann hefur ekki verið skelfingu lostinn yfir því á undan­förnum árum þó að það væri tekið í net — (GS: Þetta er ekki rétt, hv. þm.) — fyrir Suður- og Suðvesturlandi, hann hefur ekki orðið skelfingu lostinn yfir því þó að stór hluti af því hráefni, sem fengið var í net á þessu svæði, væri gersamlega ónýtt til allra hluta. Ég held að það verði að fara saman hjá mönnum, ef menn á annað borð eru að hugsa um friðun og verndun á ungfiski, þá held ég, að málflutningur manna verði að vera með öðrum hætti en sá málflutningur sem hv. þm. Garðar Sigurðsson hefur haft hér uppi varðandi þetta mál.

Það er rétt, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson sagði áðan varðandi Selvogsbankasvæðið. Það var ekki farið að till., eindregnum till., eindregn­um tilmælum fiskifræðinga við friðun Selvogs­bankasvæðisins. Því var hnikað til og það var fyrst og fremst gert vegna þrýstings þeirra Eyjaþm., það er mér vel kunnugt um, vegna þess að ég átti sæti í þessari margumtöluðu nefnd. Og það er einnig vitað, að um langt ára­bil hafa þessir hv. þm. verið hvað harðastir í því að fá til þess heimildir að veiða alveg upp að fjöruborði. Þar hefur ekki friðunar eða verndunarsjónarmiðið fyrst og fremst ráðið í afstöðu þegar það hefur verið úti fyrir því lands­svæði sem þeir fyrst og fremst bera fyrir brjósti.

Ég held að við hljótum, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að taka mikið tillit til þess sem fiskifræðingar segja í þessum efnum, hvort sem það sýnist fært að taka það allt algerlega til framkvæmda. En það fer ekki hjá því, að við verðum að hafa af því hliðsjón og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem frá þessum sérfræð­ingum koma, vegna þess að það er ljóst að það getur verið mikil vá fyrir dyrum og varfærni er því að sjálfsögðu nauðsynleg.

Mér virðist á hv. þm. Guðlaugi Gíslasyni, að hann teldi að um 70.2% af því aflamagni, sem verið væri að taka t. d. af Vestfjarðamiðum og væri undir 58 cm að stærð, þorskurinn, það væri í raun og veru spegilmynd af því sem væri að gerast varðandi fiskveiðar okkar íslendinga. Ég vil nú mjög draga í efa að þessar niðurstöður séu rétt dregnar af því sem fyrir liggur í þess­um efnum. Það er auðvitað alveg ljóst og ég skil ekki í þeim mönnum, sem telja sig fædda á sjó, vera atvinnumenn í faginu og vita skil á svo til öllu sem að þessu lýtur, að þeim skuli geta dottið í hug að það sé í raun og veru hægt að framkvæma það að aðgreina fiskinn í veiðar­færin. Það er alveg augljóst mál, að það fer ekki hjá því að á þessum veiðisvæðum er alltaf eitthvað af smáfiski, hvort sem það er tekið í flottroll, botnvörpu, það skiptir ekki meginmáli. Þarna er um að ræða blandaðan fisk sem engan greinarmun gerir á því, hvort veiðarfærið, sem þarna er á ferðinni, er flotvarpa eða botnvarpa. Eigi að fiska á annað borð á þessum miðum, þá verður það alltaf svo, að eitthvert magn af smáfiski fylgir með.

Ég vil aðeins segja út af því, sem hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði, — hann gerði að vísu aldrei grein fyrir því, hver hlutföll hefðu verið í fiskveiðilaganefndinni eða þeirri nefnd sem fjallaði um þetta mál fyrir rúmu ári, — hver hlutföll hefðu verið í afstöðunni til flotvörp­unnar. Ég man ekki til þess að fullyrða hvernig þetta var, en ég hygg þó að það hafi verið fleiri, sem vildu banna flotvörpuna alfarið, heldur en hinir, þó að ég vilji ekki um það fullyrða, hitt vil ég taka fram sérstaklega, að ég var algerlega andvígur því og ég er algerlega andvígur því enn. Það hefur ekkert það komið fram sem rökstyður það eða réttlætir að nú sé gripið til þess ráðs að banna alfarið veiðar í flotvörpu. Ég held að það væri hyggilegra, a. m. k. meðan ekkert liggur fyrir um það frá fiskifræðingum, frá sérfræðingum, að hér sé um að ræða hættu­legra veiðarfæri en hvað annað, að snúa sér að því að stemma stigu við þeim lögbrotum sem eiga sér stað varðandi netaveiðina, hamla þar gegn, byrja á því að brjóta niður þann hugsunar­hátt sem virðist hafa verið ríkjandi hjá aðilum um að virða að vettugi settar reglur og lög að því er varðar fjölda neta í sjó, — byrja fremur á aðgerðum af því tagi heldur en að vera með alls konar útúrdúra, uppdiktaðar hugmyndir sem á engan hátt eru rökstuddar eða í einu eða neinu fá staðist til þess að þjóna ímynduðu sjónar­miði sem er kannske fyrst og fremst til þess ætlað að veiða atkv.