27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3837 í B-deild Alþingistíðinda. (2761)

45. mál, umferðarlög

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Allshn. d. fékk til meðferðar frv. til l. á þskj. 46, um breyt. á umferðarlögum, nr. 40 frá 23. apríl 1968. Flm. frv. er Jón Skaftason og efni þess er að hækka leyfilegan hámarksökuhraða í þéttbýli úr 45 km á klst. í 50 km á klst. Við skilum nál. á þskj. 538 og er það svo hljóðandi:

N. hefur athugað frv. á fundum sínum. Jákvæðar umsagnir bárust frá Umferðarráði, umferðar­nefnd Reykjavíkur, F. Í. B. og Landssamtökum klúbbanna Öruggur akstur.

Hins vegar benti Samband ísl. tryggingafélaga á það, að hraðaaukning úr 45 í 50 km á klst. orsakaði 25% meiri hemlunarvegalengd, og lagð­ist gegn frv.

N. þykir rétt að mæla með samþykkt frv. Svava Jakobsdóttir var fjarverandi afgreiðslu málsins.“

Undir þetta skrifa Ellert B. Schram, Páll Pétursson, Gunnlaugur Finnsson, Ingólfur Jónsson, Sighvatur Björgvinsson og Friðjón Þórðarson.

Afstaða okkar var sú, að þetta frv. væri form­leg viðurkenning á ríkjandi ástandi, því ástandi sem hefur skapast með ökuvenjum bifreiðastjóra, vegna bætts gatnakerfis og síðast, en ekki síst vegna þess að mjög margar tegundir bifreiða eru þannig gerðar, að þessi hraði er hentugri fyrir gírkassa þeirra heldur en 45 km hraði á klst. En því er náttúrlega ekki að leyna, að með auknum hraða þarf aukna aðgát og röksemdir um aukna hemlunarvegalengd eru að sjálfsögðu líka mikils virði, þó að við teljum að ástandið sé þannig að rétt sé að gera þessa breytingu. En við leggjum sérstaklega ríka áherslu á það, að ökuhraði verði að takmarkast af kringumstæðum hverju sinni.