02.05.1977
Efri deild: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4098 í B-deild Alþingistíðinda. (3149)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur fjallað um frv. til 1. um breyt. á 1. um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og leggur n. til að frv. þetta verði samþykkt með breytingu sem fram kemur á þskj. 642.

Aðdragandi þessa frv. er í fyrsta lagi sá, að gefin voru út brbl. á s. l. ári um minni háttar breytingar og lagfæringar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem tóku gildi 1. júlí 1976. Í framhaldi af þessu barst sjútvn. Nd. erindi frá Landssambandi ísl. útvegsmanna með ályktun frá aðalfundi samtakanna, sem haldinn var á s. 1. hausti, með óskir um breytingar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þetta erindi og þetta mál var sent til umsagnar nokkurra aðila og komu nokkur svör við því, m. a. frá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda sem var því sammála, stjórn Fiskifélags Íslands sem einnig var því sammála að mestu. Hins vegar gat Hafrannsóknastofnunin ekki fallist á rýmkun togveiða við Norðurland, enda er ekki lagt til í þessu frv. að togveiðar þar verði rýmkaðar.

Auk þessara óska Landssambands ísl. útvegsmanna, þegar frá er talin rýmkun togveiða við Norðurland, er gert ráð fyrir breytingum á 8. gr. sem gera ráð fyrir að skyndilokanir geti staðið í sjö sólarhringa í stað þriggja, sem gert var ráð fyrir í lögunum sem sett voru s. 1. vor. Þetta var atriði sem upp kom í starfi sjútvn. á s. l. vori, og voru uppi einróma raddir um að það væri æskilegt, að þessar skyndilokanir gætu staðið lengur, en úr því varð ekki.

Í Nd. urðu miklar deilur um eitt atriði þessa frv., þ. e. a. s. rýmkun heimildar til veiða fyrir Suðausturlandi. Sjútvn. Ed. leggur til að nokkuð verði dregið úr þessari rýmkun með því að togveiðar verði ekki heimilar á svæði milli línu, sem sem dregin er réttvísandi suður af Stokksnesi, og að línu, sem hugsast dregin réttvísandi vestan af 15° 45', sem er um það bil við svokallaða Hálsa, en það er austur af Hrollaugseyjum, en Hrollaugseyjar liggja nokkurn veginn við 16°, og þessi lína hugsast dregin innan 6 sjómílna frá landi á tímabilinu frá 1. maí til 1. okt. Þetta ákvæði var í lögum um veiðar í fiskveiðiland­helgi Íslands sem tóku gildi 1. jan. 1974. Þá var slíkt ákvæði sem bannaði togveiðar á þessu svæði allt að Hvalnesi, en ekki þótti ástæða til að loka þessu svæði, þ. e. a. s. loka Lónsbug, og þess vegna lengur n. til að þessu svæði verði aðeins lokað milli Hálsa og Hvalness. Þetta á að sjálf­sögðu við um allar togveiðar á þessu svæði. Hér er um viðkvæmt svæði að ræða. Þar kemur ávallt smáýsa yfir sumartímann, og einnig hafa ýmsir haldið því fram að hér sé um að ræða hrygningarsvæði síldarinnar að einhverju leyti þótt ég hafi ekki fengið það staðfest. En eitt er ljóst, að þarna er ávallt mikil smáýsa yfir sumartímann og má segja ljótar sögur af smáýsudrápi á þessum slóðum áður fyrr.

Ég vil aðeins ítreka það, að n. leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem fram kemur í brtt. á þskj. 642.