02.05.1977
Efri deild: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4105 í B-deild Alþingistíðinda. (3153)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Breytingar á þeim lögum og reglum, sem gilda um veiðar innan fiskveiðilögsögunnar, eru ákaflega viðkvæmt mál. Þær reglur, sem gilda, hafa verið settar eftir mikla yfirlegu fjölda manna. Ég hef sjálfur setið í þeim nefndum, sem um slíkar breytingar hafa fjallað, og þekki það eins og margir aðrir hv. þm., að sjaldan er þar gert öllum til hæfis. Ég var því fyrir mitt leyti heldur mótfallinn því að afgreiða sumar þær breytingar, sem eru nú til umr., með litlum fyrirvara. Þessi d. hefur haft málið mjög stutt til meðferðar og um vissa þætti eru verulegar deilur. Ég á hér alls ekki við þær leiðréttingar sem gerðar voru með brbl., heldur bær viðbætur sem sjútvn. Nd. flutti. Þó tókst á þessum skamma tíma að ná þeirri samstöðu um þessar breytingar, að menn eru orðnir sáttir við þær, a. m. k. sætta sig við að þær verði framkvæmdar, þó að ég hyggi, að flestir ef ekki allir í sjútvn. hefðu fremur óskað að þetta væri skoðað betur milli þinga og látið bíða til haustsins. Þetta var sú fyrsta hugmynd sem ég hafði um þetta mál, og jafnframt varð þá samkomulag um það í n. að aðrar brtt. yrðu ekki fluttar að svo komnu.

Þetta fór á annan veg, og við erum hér að fjalla um þessar breytingar með lítilli viðbótar­breytingu eða nokkurri lagfæringu sem þm. Austurl. hafa beitt sér fyrir. En jafnframt er nú komin á borð þm. ein brtt. enn við reglur um veiðar innan fiskveiðilögsögunnar, brtt. um að banna flotvörpu að vísu að sagt er til reynslu, um land allt. Ég er þessari brtt. algerlega mót­fallinn og get raunar látið nægja að vísa að mestu til þess sem hæstv. sjútvrh. sagði. Ég tel slíkt bann á ákaflega veikum grunni byggt. Að vísu vil ég taka undir það sem hér hefur verið sagt um nauðsyn aukinnar friðunar þorskstofnsins. Ég tel að þar hafi ekki verið nærri því nóg að gert. Ég hef aldrei verið hlynntur þeim till. sem komu fram frá þeirri n. sem hæstv. sjútvrh. skipaði á sínum tíma til að gera till. um þetta, en aftur á móti hef ég séð margt mjög athyglis­vert í till. Landssambands ísl. útvegsmanna sem nánast miða að því, svo sem kom fram áðan hjá hv. 1. landsk. þm., að draga úr veiðum með því að takmarka vinnu um helgar á meginverstöðvum landsins. Staðreyndin er sú, að með því væri gert tvöfalt gagn. Það væri verið að draga nokkuð úr veiði á þorskstofninum og jafnframt að nokkru leyti verið, ef ég má orða það svo, að friða það fólk, sem þar vinnur, frá of mikilli vinnu, því að víðast er nánast um þrældóm að ræða. Ég álít að þetta tvennt geti mjög vel farið saman, og ég verð að segja það, að ég tel að eftir slíku eigi að leita.

Um flotvörpuna hefur oft verið rætt, og ég verð að segja það, að ég minnist þess ekki á þeim mörgu fundum þar sem um veiðarfæri hefur verið rætt í viðurvist sérfræðinga, að þeir hafi viljað fallast á að flotvörpuna ætti að banna. Þeir hafa raunar sagt það að flotvarpan hafi ýmsa kosti umfram botnvörpuna, leggst t. d. minna saman og með hæfilegri möskvastærð eigi að vera auðveldara fyrir smáfisk að sleppa úr flotvörpunni en botnvörpunni. Ég tek hins vegar undir það, að þegar afli er orðinn svo gífurlega mikill í flotvörpuna að skiptir tugum tonna gegnir nokkuð öðru máli. Þá leggst þetta allt saman meira og minna í eina kös og að sjálf­sögðu sleppur ekkert. Hins vegar tel ég að þetta séu alger undantekningartilfelli í raun og veru. Þetta eru tilfelli sem eru auglýst í blöðum nánast og er gert að eins konar grýlu gegn flot­vörpunni. Staðreyndin er sú, að við íslendingar höfðum lengi vel ekki góð tök á flotvörpunni og það var ekki fyrr en nokkrir skipstjórar tóku sig til og fóru að kanna notkun þess veiðarfæris að það tókst með þeim mikla árangri sem nú er sýnt, og hafa margir skuttogarar siglt í kjöl­farið og tekið upp þetta veiðarfæri. Ég held sömu­leiðis að þær tölur, sem hér voru lesnar áðan um stærðarflokka þorsks, séu alls engin sönnun um að flotvarpan sé þar meiri skaðræðisgripur en önnur veiðarfæri. T. d. vil ég benda á það, að Skinney á Hornafirði er með stóran þorsk 40.6%, einna lægst sem finnst í þessari bók, en það skip er ekki með flotvörpu. Aftur á móti er Júní með 69.4%, en Júní er með flotvörpu. Þannig gæti ég haldið áfram í gegnum þessa bók. Mér þótti því þessi rökstuðningur hv. 1. flm. þess­arar brtt. heldur haldlítill.

Í raun og veru væri ákaflega fróðlegt að athuga hvað veldur þessum mikla stærðarflokka­mun. Í fljótu bragði dettur mér í hug að þetta muni vera miklu tengdara þeim veiðisvæðum, sem togararnir sækja, heldur en veiðarfæri. T. d. er það áberandi, að stærsti fiskurinn virðist vera hér suðvestanlands, hjá togurum sem hér eru staðsettir, einna stærstir í Vestmannaeyjum, Vestmannaey er með 83.8% stóran þorsk, enda geri ég ráð fyrir því, án þess að ég hafi aflað mér upplýsinga um það, og sá togari sæki einkum á miðin við Suðvesturlandið, þar sem þorskurinn er orðinn kynþroska og orðinn eldri en annars staðar í kringum landið og því orðinn því stærri. Ætli þetta sé ekki frekar skýringin? Og er það ekki einnig eðlileg skýring, að svo virðist sem stærsti þorskurinn fari minnkandi að hlutfalli hjá togurum eftir því sem austar dregur? T. d. er Skinney á Austfjörðum að öllum líkindum að mestu í fiski þar um slóðir sem er yngri og því minni. En kannske sýnir þetta fyrst og fremst að hér er um rannsóknarverkefni að ræða og alls ekki — ég legg áherslu á það — grundvöllur til þess að byggja á afstöðu með eða móti flot­vörpunni. Ég get fallist á að það þyrfti að setja að öllum líkindum einhverjar reglur um notkun flotvörpunnar. Það gæti vel verið að það þyrfti að gera það meir en nú er, kannske um stærð hennar og meðferð, ég þekki það ekki. En ég held að svona bönn í lögum verði að byggjast á athugun, það verði að kveðja til sérfræðinga áður en þetta er ákveðið. Þarna er um verulega fjárfestingu að ræða hjá töluverðum hluta af togurum landsmanna, og sú spurning hlýtur að vakna, hvernig sú fjárfesting verði bætt. Mér sýnist að Alþ. verði að byggja slíkt bann á veru­legum rökum, ekki rökum eins og ég hef nú aðeins lauslega sýnt fram á, og gæti gert ítar­legar, að eru ekki haldgóður grundvöllur til þess að taka slíka ákvörðun. Mér sýnist að þessi ákvörðun sé þá fremur tekin á vissum tilfinn­ingagrunni. Ég hef ekki heyrt þann rökstuðning sem fær í raun og veru staðist nánari athugun.

Ég er því fyrir mitt leyti algerlega mótfallinn þessari till. Ég legg hins vegar áherslu á það, að flotvarpan verði athuguð nánar, og ég treysti því, sem reyndar kom fram hjá hæstv. sjútvrh. áðan, að svo muni verða gert og hann muni þá beita frekari takmörkun á notkun flotvörpunnar, ef sú athugun leiðir í ljós að það er æskilegt til aukinnar friðunar þorskstofninum.

Ég vil svo ljúka þessum orðum mínum með því að leggja áherslu á það sem ég sagði áðan, að við þurfum að leita að skynsamlegum leiðum til að draga úr sókninni í þorskstofninn, leiðum eins og bæði hv. 1. landsk. þm. og ég höfum hér drepið á m. a. En við eigum ekki að telja sjálfum okkur trú um það, að við séum að gera eitthvert átak til friðunar þorskstofninum með því að hlaupa eftir svona — ég vil nú segja nánast hugarburði, því að ég fæ ekki séð að þetta sé reist á neinum rökum.