02.05.1977
Efri deild: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4110 í B-deild Alþingistíðinda. (3156)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð um sjálft frv. og síðan þá brtt., sem ég er meðflm. að, við frv. um tímabundið bann við notkun flotvörpu.

Ég þykist einhvern veginn hafa orðið var við það, að aðrir ræddu frv. og þá sérstaklega þessa brtt. af meiri tilfinningahita heldur en flm. sjálfir. Ég sæi út af fyrir sig ekki nokkurn skapaðan hlut eftir því þótt fækkaði nokkuð brbl. útgefnum af hæstv. ráðh. Matthíasi Bjarnasyni, og um útgáfu hans á brbl. ætla ég ekki að ræða hérna. Hitt er annað mál, að ég kynni kannske að sjá eftir því ef skipt yrði á hæstv. sjútvrh. Matthíasi Bjarnasyni og einhverjum ótíndum strák úr hans flokki. Ég kynni kannske að sjá eftir því, og hæstv. ráðh. má ekki láta það bitna á Ed. við umfjöllun á þessu þingmáli þótt hann hafi lent í orðaskaki við ótíndan strák úr sínum flokki í annarri deild. Ég staðhæfi það, að það hafi verið ætlun sjútvn. þessarar d. að afgreiða þingmál þetta, sem ráðh. ber mjög fyrir brjósti, en kannski ekkert miklu meira fyrir brjósti en ýmsir aðrir þm. í þessari d., — afgreiða það með lipurð, og ég staðhæfi það, að það var alls ekki ætlun eins einasta manns í sjútvn. að afgreiða málið með þeim hætti að það yki á einn eða annan hátt á vandræði eða skapleiða hæstv. ráðh. sem má ýmislegt þola í öðrum pólitískum sam­kvæmum heldur en Ed.

Steingrímur Hermannsson taldi að bannið við flotvörpunni ætti sér ekki stoð í neinni rannsókn eða hlutlægri skoðun, stafaði af einhvers konar tilfinningasemi. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég hef ekki unnið á skuttogara með flot­vörpu, en þess minnist ég, að ég var um nokkurra missira skeið í hópi mjög svo röskra manna á síðutogara þar sem fiskað var bæði í salt og í ís og ekki var ísað í kassa, og við vorum 30 á og fengum stóran fisk. Einu sinni eða tvisvar veiddum við 50 tonn í hali. Við vorum býsna lengi að koma því fiskmagni undir dekk og ísa það. Ég staðhæfi það, að 16 manna áhöfn með mest hugsanlegt 8 menn að starfi á dekki, sem tekur við 80 tonnum úr hali á dekkið af smáum og meðalsmáum fiski og á að slægja og koma undir dekk, hefur enga möguleika á því að bjarga þeim feng frá skemmdum — enga möguleika á því — og má þakka fyrir ef áhöfnin hefur bol­magn til þess og afköst til þess að bjarga helmingnum úr þeim feng frá skemmdum. Það er alveg rétt, að fiskur er jafndauður hvort hann kemur í botntroll eða flotvörpu eða í línu eða í net. En við gefnar aðstæður er flottrollið það veiðarfæri sem hægt er að drepa með mestan fisk á skömmum tíma, sem hægt er að valda með mestu tjóni á skömmum tíma, ef illa tekst til í smáfiski, og hægt er að ná inn mestum afla, mestum feng á dekk við gefnar aðstæður þannig að ekki sé hægt að gera úr honum verðmæti. Við skulum ekki skjóta okkur á bak við rannsóknir í því sambandi. Við vitum að allmikið hefur verið drepið af of smáum fiski í flottrollið, ekki vegna þess að menn gerist svo miklu verr innrættir menn, þegar þeir eru komnir vestur fyrir land á það svæði sem veiða má með flottrolli, heldur en annars staðar, ekki vegna þess að þeir menn, sem í því lenda, séu siðminni eða séu verri fiskimenn, heldur vegna eðlis þessa veiðarfæris og vegna eðlis þessa starfs, sem er að ná sem mestum fiski á dekk, sem mestum feng á sem skemmstum tíma.

Ég hef ekki fyrir mér skrifleg vottorð fiskifræðinga við umfjöllun málsins. En það hef ég eftir reyndum skipstjórum, sem vel þekkja til, og hef raunar heyrt ágæta fiskifræðinga segja það líka, að miklu, miklu meira mundi muna um það, ef flottrollið yrði bannað um nokkurt skeið, heldur en um tímabundnar lokanir á veiðisvæðum, — miklu meira.

Það liggur hér fyrir samkv. upplýsingum ráðh., að samtals 40 togarar séu búnir tækjum til flotvörpuveiða, að vísu muni þeir ekki allir hafa stundað veiðar með flotvörpu, en 40 togarar séu búnir tækjum til flotvörpuveiða. Þau tæki munu ekki eyðileggjast á einu ári þótt samþykkt verði brtt. okkar hér í Ed. um að banna notkun flotvörpunnar í eitt ár, spilin dýru, það er hægt að halda þeim í lagi það ár á enda. Og ég vil alls ekki taka að óreyndu trúanlegar staðhæfingar hæstv. ráðh. Ég vil raunar ekki skoða orð hans sem staðhæfingu, heldur aðeins tilgátu um að málið mundi stöðvast í Nd. þótt það kæmi þangað aftur með áorðinni breytingu frá Ed. um bann við notkun flotvörpu. Um þetta veit hæstv. ráðh. ekkert meira en við. Mér persónulega er kunnugt um það, að það var með semingi sem Nd. felldi till. um bann við flotvörpuveiðum, það var með semingi sem margir þm. í Nd. gerðu það, og ég hef trú á því, ef Ed. samþykkti brtt. okkar um tímabundið bann við flotvörpuveiðum, að Nd. mundi gera það einn­ig þannig að sú brtt. yrði frv. ekki að fótakefli í Nd., kynni meira að segja svo að fara að frv. yrði fagnað alveg sérstaklega með áorðinni þess­ari breytingu.

Svo vildi ég, af því að mér er þetta fullkomin alvara sem ég sagði, að ég vildi ógjarnan sjá upp á það að núv. stjórnarflokkar skiptu um sjútvrh., ég hef sérstaka ástæðu til þess að óska þess að núv. stjórnarflokkar skipti ekki um sjút­vrh., — þess vegna vildi ég að hann hlífði okkur líka við þessum hótunartóni sínum, að ef ekki verði látið í einu og öllu að því sem honum finnst persónulega að eigi að vera, þá sé hann rokinn út í veður og vind. Hæstv. ráðh. verður að þola það að störf hans séu gagnrýnd, till. hans séu gagnrýndar og þeim sé beytt á þann veg sem meiri hl. þm. telur að sé til bóta, og hæstv. ráðh. á að fagna þess háttar breytingum. Ég nefni ekki nöfn í þessu sambandi, en það eru aðrir ráðh. í þessari ríkisstj. sem mundu gleðja mig miklu, miklu meira með hótunum um afsögn.