20.10.1976
Neðri deild: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

15. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þegar frv. um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands var til umr. hér á hv. Alþ. voru gerðar á því nokkrar breyt. á síðustu stundu og frv. fór á milli d. Þessi lög áttu að koma og komu til framkvæmda frá og með 1. júlí á þessu ári. En í ljós kom að í þremur tilteknum atriðum var um villur að ræða sem þurfti að leiðrétta, og þess vegna var talið eðlilegt að gefa út brbl., þannig að þessar leiðréttingar tækju gildi jafnframt því sem lögin sjálf tóku gildi, eða frá og með 1. júlí á þessu ári. Hér er ekki um neinar breyt. að ræða frá gildandi lögum, annað en það að leiðrétta nánast þessar villur sem fram komu fyrir það að þær brtt., sem samþ. voru, voru ekki nægilega vel athugaðar vegna þess hve aðkallandi var að afgr. frv. á síðustu stundu á síðasta þingi.

Forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til hv. sjútvn.