21.11.1978
Sameinað þing: 24. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

334. mál, útgerð Ísafoldar

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mun hér leitast við að svara fsp. hv. 3. þm. Vestf. sem er í 4 liðum og hann kynnti.

Fyrst er spurt: „Hvaða samningar hafa verið gerðir af íslenskum stjórnvöldum varðandi olíuleit á hafsvæðinu við Ísland?“ Með þessari spurningu mun átt við það, hvaða leyfi íslensk stjórnvöld hafi veitt til olíuleitar á hafsvæðum við Ísland.

Hinn 10. febr. 1971 heimilaði iðnrn. fyrirtækinu Bataafse Internationale Petroleum Maatschappij í Haag, Hollandi, þ.e. Shell í Hollandi, mælingar á hafsbotninum við Ísland. Voru þær mælingar framkvæmdar í sept. 1971 á 350 km langri línu vestur af landinu. Niðurstöður voru afhentar rn. og Orkustofnun nokkrum mánuðum síðar.

Í öðru lagi gaf fyrrv. iðnrh. hinn 17. ágúst s.l. út leyfi til könnunar á setlögum undan ströndum Íslands til handa Western Geophysical Company of America, en hinn 30. maí 1978 hafði ríkisstj. Íslands samþykkt að heimila iðnrh. að veita leyfi til setlagarannsókna á landgrunni Íslands. Hér er um að ræða jarðeðlisfræðilegar mælingar á 4 mælingalínum norðan við land, samtals um það bil 1100 km að lengd. Þessar mælingar standa nú yfir. Leyfið veitir leyfishafa heimild til þess að framkvæma bergmáls-, segul- og þyngdarmælingar frá skipi. Borun er hins vegar óheimil, og vík ég að því síðar. Leyfi þetta er í 9 liðum og er sjálfsagt að kynna það hér í heild hv. þm, ef eftir því verður óskað.

Í 2, lið fsp. er spurt: „Á hvaða lagaheimildum eru slíkir samningar reistir?“

Leyfisveitingin styðst við lög nr. 17 frá 1. apríl 1969, um yfirráðarétt íslenska ríkisins yfir landgrunninu umhverfis Ísland. Í þessum lögum er m.a. kveðið á um að íslenska ríkið eigi fullan og óskoraðan yfirráðarétt yfir landgrunni Íslands að því er tekur til rannsókna á auðæfum landgrunnsins og að öll slík auðæfi eru eign íslenska ríkisins. Þá er höfð hliðsjón af lögum nr. 58 frá 29. apríl 1967, orkulögum, en þar segir m.a. um hlutverk Orkustofnunar, að hún skuli annast yfirlitsrannsóknir á orkulindum landsins, eðli þeirra og skilyrðum til hagnýtingar þeirra. Þess er jafnframt rétt að geta, að eftir að hafa fjallað um þessi mál samþykkti fyrrv. ríkisstj. að heimila þáv. iðnrh. að veita leyfi til setlagarannsókna á landgrunni Íslands, og var leyfið í ár gefið út af honum á grundvelli þessarar samþykktar að fenginni umsögn Rannsóknaráðs ríkisins sem var fyrir sitt leyti samþykkt leyfisveitingunni. Framkvæmd laga um yfirráðarétt íslenska ríkisins yfir landgrunninu umhverfis Ísland heyrir til starfssviði utanrrn. og var fullt samráð haft við það um leyfisveitinguna.

Spurt er að því, hvort metin hafi verið sú hætta er olíuleit og olíuvinnsla gæti haft í för með sér fyrir lífríki sjávar, m.a. fyrir fiskimiðin við landið?

Sérstakar grg. liggja ekki fyrir þar að lútandi varðandi íslenskt hafsvæði, en víða erlendis hefur miklu efni verið safnað um hættu af olíuleit og olíuvinnslu fyrir lífríki sjávar. Á árinu 1977 voru þrír menn skipaðir í n. á vegum iðnrn. til þess að kynna sér og gera skýrslu um olíuleitarmál í Noregi. Skiluðu þeir rn. skýrslu í mars 1977, þar sem fram kemur ýmislegt varðandi hugsanlega hættu af slíkum aðgerðum fyrir lífríki sjávar.

Gera verður greinarmun á þrem stigum í leit að olíu og jarðgasi:

1. Jarðeðlisleg frumkönnun til leitar að setlögum?

2. Nánari jarðeðlisfræðilegar rannsóknir setlaga á afmörkuðum svæðum þar sem hugsanlega gæti safnast olía eða jarðgas.

3. Boranir, þ.e.a.s. bein leit að olíu eða jarðgasi á þeim stöðum sem niðurstöður af stigi 2 benda á.

Fyrsta stigi könnunar af þessu tagi, sem veitt var leyfi fyrir s.l. sumar, þ.e. jarðeðlisfræðilegum mælingum frá yfirborði, eiga ekki að fylgja neinar teljandi hættur, svo að vitað sé, fyrir sjávarlíf og engin röskun á hafsbotni. Öðru máli getur gegnt um hin síðari stig slíkra rannsókna, einkum ef til borana kæmi, og algert skilyrði fyrir slíkum aðgerðum hlyti að verða víðtækt mat á þeirri áhættu sem fylgir fyrir lífríkið með sérstöku tilliti til aðstæðna á íslenskum hafsvæðum og fiskimiðum. Þannig kemur að mínu mati ekki til álita að fjalla um frekari rannsóknir, er beinlínis tengdust olíuleit samkv. 2. og 3. stigi, sem ég nefndi, fyrr en að undangenginni rækilegri úttekt og umr. Mikilsvert er að upplýsingum, sem þessi mál varða, sé miðlað til þings og þjóðar og ekki sé flaustrað að neinu. Síst af öllu má tefla í tvísýnu lífrænum auðlindum sem við byggjum afkomu okkar á.

Til frekari skýringa á þeim rannsóknum, sem gerðar eru á 1. stigi, má geta þess, að við þær eru notaðar sömu aðferðir og við ýmsar aðrar vísindalegar rannsóknir á jarðfræði hafsbotnsins. Hliðstæðar rannsóknir hafa verið gerðar á rannsóknarskipum ýmissa þjóða í kringum landið á undanförnum árum. Hér er hins vegar um það að ræða, að kannanir samkv. umræddum leyfum hafa það að markmiði að leita að setlögum og kanna þykkt þeirra, en nauðsynleg forsenda þess, að um olíu og jarðgas geti verið að ræða, eru þykk setlög.

Samkv. þeirri vitneskju, sem við nú höfum um gerð sjávarbotnsins kringum landið, er fyrir fram ekki ástæða til að ætla að olía eða jarðgas finnist á íslensku yfirráðasvæði, þótt viss vottur hafi fundist við könnun sovésks skips árið 1973 á svæði 170 sjómílur norðaustur af landinu. Enn hefur ekkí verið þróuð tækni til olíuvinnslu á hafsbotni á miklu dýpi, þar sem helst gætu talist líkur á að olíu eða jarðgas væri að finna. Það rekur því að mínu mati ekkert á eftir rannsóknum er sérstaklega beinast að olíuleit.

Spurt er: „Á hvern hátt hyggjast íslensk stjórnvöld fylgjast með umræddum rannsóknum?“

Af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur Orkustofnun í umboði iðnrn. verið falið að hafa umsjón með framkvæmd könnunarinnar. Á Orkustofnun að hafa eftirlitsmann sérmenntaðan í jarðeðlisfræðum um borð í skipinu, og er leyfishafa skylt að veita honum óhindraða aðstöðu til þess að fylgjast með öllum gangi könnunarinnar. Auk þess sem Orkustofnun sendir rn. yfirlitsskýrslu um framkvæmdir skal leyfishafi láta rn. í té ítarlega skýrslu um framkvæmd og niðurstöðu könnunarinnar í síðasta lagi 6 mánuðum eftir lok mælinga. Skal leyfishafi um leið afhenda rn. því að kostnaðarlausu afrit af öllum þeim gögnum sem könnunin leiðir af sér. Rétt er að geta þess, að íslenskur vísindamaður mun taka þátt í úrvinnslu gagnanna á rannsóknarstofu fyrirtækisins í London, þ.e. þeirra gagna sem verið er að safna í umræddri rannsókn. Með því er jafnframt verið að byggja upp sérþekkingu innanlands á þessu rannsóknarsviði.

Einnig má nefna að Orkustofnun hefur óskað eftir að fá að ráða sérfræðing til að vinna að þessum málum af hennar hálfu og ekki þá aðeins með tilliti til olíuleitar, heldur einnig með tilliti til þess að hafa á hverjum tíma sem besta yfirsýn yfir vitneskju um gerð sjávarbotnsins með tilliti til auðlindayfirráða, svo sem verið er að fjalla um á hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Varðandi hugsanlega hættu á árekstrum milli rannsóknarskipsins og fiskiskipa er kveðið á í leyfinu, að leyfishafi skuli sérstaklega ábyrgjast að mælingum skuli frestað eða eftir því sem við á hætt ef þær valda truflun á veiðum. Hefur verið haft samráð við hlutaðeigandi stjórnvöld nú nýlega og fleiri aðila til að tryggja snurðulausa framkvæmd. Ber rannsóknarskipinu að tilkynna til Landhelgisgæslunnar gegnum næstu strandstöð staðsetningu skipsins daglega meðan á mælingum stendur.

Eðlilegt og æskilegt er að við reynum að afla sem gleggstra almennra upplýsinga um land okkar, hafsbotn og sjóinn innan íslenskrar lögsögu. Slíkar upplýsingar fást ekki nema með rannsóknum og um þær ber okkur sjálfum að hafa alla forustu og gæta þess að verða ekki öðrum háðir um mat á þeim niðurstöðum er aflast. Samvinna um vísindarannsóknir er viðurkenndur liður í samstarfi þjóða. En þar verðum við að gæta þess að verða ekki um of þiggjendur, síst að því er eigið land varðar. Enn viðkvæmara verður málið ef um rannsóknir er að ræða er beinast að tilteknum eftirsóttum auðlindum. Þar þurfum við að vera sérstaklega vel á verði, þótt vissulega séu mörkin oft óglögg milli almennra og hagnýtra rannsókna.

Það er einkum þrennt sem ég hefði kosið að fyrir lægi áður en íslensk stjórnvöld tækju til meðferðar umsóknir erlendra aðila um rannsóknir eins og þær sem hér um ræðir:

1. Að mörkuð hefði verið mun skýrari stefna en fyrir liggur af hálfu stjórnvalda um æskilegar rannsóknir á íslenska landgrunninu, m.a. með hliðsjón af starfi landgrunnsnefndar. Í framhaldi af slíkri stefnumörkun ætti að setja reglugerð um framkvæmd rannsókna á auðæfum landgrunnsins, en gert er ráð fyrir slíkri reglugerð í 4. gr. laga nr. 17/1969, um yfirráðarétt íslenska ríkisins yfir landgrunni, svonefndra landgrunnslaga.

2. Að tryggð væri í landinu hjá íslenskum stofnunum aðstaða til að hafa með hendi þær rannsóknir sem við höfum fyrirsjáanlega bolmagn til að standa að sjálfir og ástæða þykir til að ráðast í samkv. mótaðri stefnu. Sömu aðilar ættu að hafa umsjón með heimiluðum rannsóknum útlendinga og getu til að meta niðurstöður slíkra rannsókna hverju sinni, auk almennrar heimildarvörslu. Lagt hefur verið til, m.a. af landgrunnsnefnd og iðnrn., að Orkustofnun verði falin umsjón og eftirlit með rannsóknum á setlögum við landið og söfnun upplýsinga og úrvinnslugagna sem berast. Hefur Orkustofnun sótt um fjárveitingu í þessu skyni vegna fjárlaga næsta árs að upphæð um 10 millj. kr., en sú fjárveiting var hins vegar felld niður við undirbúning fjárlagafrv. Reynir á fjvn. og Alþ. hvort fé verður veitt til þessarar starfsemi hjá stofnuninni, en ég tel brýnt að hafin verði skipuleg gagnaöflun varðandi íslenska landgrunnið, óháð því hvort áfram yrði haldið könnunum sem tengjast olíuleit.

Þá tel ég óeðlilegt að heimila útlendingum að ráðast í þá rannsókn setlaga, sem hér er til umr., án þess að fyrir fram væri tryggt fjármagn til úrvinnslu og gagnavörslu hjá íslenskri stofnun og áður en Alþ. hefur gefist kostur á að fjalla þannig um málið.

Í þriðja lagi tel ég nauðsynlegt, að áður en lengra er haldið á þeirri braut að veita útlendum fyrirtækjum leyfi til olíuleitar hér við land, þótt um frumkönnun sé að ræða, þurfi að safna gögnum um hugsanleg áhrif mengunar frá borunum vegna olíuleitar og olíuvinnslu með tilliti til aðstæðna á íslenskum hafsvæðum. Kæmi í ljós við frumkönnun, að um olíu eða jarðgas gæti verið að ræða í setlögum innan okkar lögsögu, mun skjótt skapast þrýstingur um framhaldsrannsókn, og þá er betra að fyrir liggi grunnupplýsingar um mengunarhættu og annað það sem raskað gæti lífsskilyrðum á fiskimiðum okkar. Vissulega ber að meta slíka hættu í ljósi þeirrar tækni sem völ er á, en við þurfum að gæta þess að gerast ekki þátttakendur í tvísýnum tilraunum sem stefnt gætu í hættu lífrænum auðlindum hafsins. Hafa ber einnig í huga, að auðlind eins og olía eða jarðgas hleypur ekki frá okkur ef hún finnst á annað borð, heldur mun vaxa að verðgildi eftir því sem á birgðir jarðarbúa gengur.

Þrátt fyrir þá varnagla, sem hér hafa verið slegnir, og gagnrýni á þá ákvörðun fráfarandi ríkisstj. að veita á þessu stigi leyfi til þeirrar könnunar setlaga norður af landinu sem nú stendur yfir, taldi ég ekki rétt að rifta gerðum samningi við Western Geophysical. Þar á ekki miklu að vera hætt til, og ég tel að eftir atvikum hafi verið vel haldið á máli við samningsgerð við fyrirtækið. Sjálfur hef ég ásamt starfsmönnum iðnrn. beitt mér fyrir varúðarráðstöfunum vegna loðnuflotans sem er að veiðum á þeim slóðum sem rannsóknin tekur til, og ég vænti þess, að þar komi ekki til neinna óhappa, þótt fyrirtækið sé bótaskylt samkv. samningi.

Ég vil að lokum undirstrika, að ég tel að margt þurfi að athuga, áður en lengra er haldið á þessari braut, og stjórnvöld og Alþ. þurfi að marka skýrari stefnu um landgrunnsrannsóknir en fyrir liggur.