04.11.1980
Sameinað þing: 14. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

48. mál, jarðhitaleit á Vestfjörðum

Flm. (Finnbogi Hermannsson):

Herra forseti. Ég flyt hér þáltill. um frekari jarðhitaleit á Vestfjörðum. Í þessari till. er einnig fólgið hvort ekki sé athugandi að ríkissjóður — eða Orkusjóður eins og það heitir — taki meiri þátt í rannsóknum á svokölluðum köldum svæðum en nú er. Þar á ég einkum við tilraunaholur, þar sem nokkur áhætta fylgir borunum og ekki víst með árangur, eins og á hinum nýrri myndunarsvæðum Íslands.

Árið 1973 urðu skil í hinum vestræna heimi hvað varðar olíuverð og síðan tölum við um olíukreppu. Með þessari nýju hækkun olíuverðs breyttust forsendur um hagkvæmni hitaveitna mjög. Staðir sem áður kom vart til álita að hita upp með jarðhita, einkum vegna fjarlægðar frá varmalind, urðu nú aftur áhugaverðir. Þannig var um þéttbýlisstaði á Vestfjörðum eftir að olíukreppan tók að sýna klærnar. Rétt þótti þá að kanna málin og verja nokkru fé til borana á þeirri meginforsendu, að á Vestfjörðum er víða jarðhiti þótt óvíða sé hann nærri þéttbýli.

Á síðari helmingi árs 1974 voru gerðar áætlanir um víðtækar jarðhitarannsóknir á Vestfjörðum með tilliti til þéttbýlis. Samkvæmt upplýsingum, sem fyrir lágu, voru þéttbýlisstaðir flokkaðir með tilliti til jarðhitamöguleika. Reyndust þrír staðir að áliti Orkustofnunar geta staðið undir hitaveitu, enda væru þeir nálægt þekktum jarðhitasvæðum, nægilega heitum til að standa undir og gagnast hitaveitu. Þeir staðir voru Súgandafjörður, Tálknafjörður, Bíldudalur og Drangsnes. Í öðru lagi voru staðir nærri volgrum, þar sem ekki hefur fundist vísbending um nægilega háan hita til að gagnast hitaveitu. Það eru Ísafjörður og Bolungarvík. Í síðasta flokknum voru svo þéttbýlisstaðir fjarri þekktum jarðhita: Patreksfjörður, Súðavík, Flateyri, Þingeyri og Hólmavík.

Þær rannsóknir, sem fram hafa farið síðustu ár, hafa ekki breytt fyrra áliti manna um hitaveitumöguleika þéttbýlisstaðanna í meginatriðum. Þeir staðir, sem ég taldi fyrst upp, Súgandafjörður, Tálknafjörður, Bíldudalur og Drangsnes, eru enn taldir eiga hitaveitumöguleika, enda hitaveita komin á laggirnar í Súgandafirði. Og þess má geta, að sundlaug þeirra Tálknfirðinga er hituð með jarðhita og hefur reyndar verið frá gamalli tíð, en þeir hyggjast nú einnig hita upp skóla sinn og samkomuhús með jarðvatni.

Ég ætla nú að gera hér stutta grein fyrir stöðu jarðhitarannsókna á hverjum stað og reyna að hafa það í stuttu máli. Leyfi ég mér að styðjast við skýrslu þeirra Kristjáns Sæmundssonar og Gísla Karels Halldórssonar hjá Orkustofnun frá því í febrúar 1979.

Eins og ég nefndi áðan og alþjóð er kunnugt er hitaveita nú komin í Súgandafirði, en með hana hafa menn að vísu átt í miklu stríði vegna kalkútfellingar í borholudælu. Vatnshiti þarna í Súgandafirði er 63°C, en uppleyst kísilsýra bendir til yfir 70°C heits vatns í djúpvatnskerfinu. Á Sveinseyri við Tálknafjörð hafa boranir verið heldur neikvæðar. Borun í Litla-Laugardal gaf einungis 45°C heitt vatn, en borhola í Stóra-Laugardal gaf 52°C heitt vatn. Það verður að geta þess, að teiðin inn í þorp er þar 5 km og er því talið vafasamt hvort hægt sé að hagnýta nokkuð af þessu vatni beint í hitaveitu, vegna of lágs hitastigs, en til álita kemur að nýta það með kyndistöð. Einnig hafa menn nefnt svokallaða varmadælu, sem mun vera eitthvert nýtt tæki, þróað í Bandaríkjunum, og verkar líkt og ísskápur eða frystivél. Menn hafa rætt um að einmitt gæti komið til mála að nota það í Tálknafirði. En það er annar galli þarna í Tálknafirði. Vatnið inniheldur næstum því eins mikið súrefni og yfirborðsvatn og verkar því mjög tærandi á járn. Tel ég rétt að geta þess hér í leiðinni. Í dýpstu holunni í Tálknafirði, sem er 608 m, er mestur hiti 53°C í botni. En það er aðeins í Stóra-Laugardal sem vísbending er út frá kísilhita vatnsins sem er 61°C, um að finna megi nothæft vatn í hitaveitu og þar er mælt með borun sem næsta skrefi í heitavatnsöflun fyrir Tálknafjörð ef núverandi holur verða ekki nýttar.

Svo við förum aðeins fljótar yfir sögu og tökum Bíldudal, þá hefur verið borað í 11–12 km fjarlægð frá þorpinu, í Dufansdal, og þar er álitlegur vatnshiti og búist við yfir 100°C heitu vatni, ef djúpt yrði borað. Ég átti tal við sveitarstjórann þar og hann sagði mér að gerð hefði verið rannsókn 1976 og kostnaðaráætlun um hitaveitu fyrir Bíldudal, en hún hefði ekki staðist hagkvæmniskröfur. Það hefði tekið 32 ár að greiða þá hitaveitu niður, en 20 ár eru talin hæfilegur tími til að slíkt borgi sig. Nú hefur aftur á móti íbúðarhúsnæði á Bíldudal aukist um 20% síðan 1976 og því er áformað að láta endurreikna hitaveitumöguleika þar.

Ef við förum svo yfir Steingrímsfjarðarheiði og staðnæmumst við Drangsnes, þá eru þar hitaveitumöguleikar, en það eru 5 km til Hveravíkur, þar sem hverir eru og reyndar að nokkru leyti í sjó. Þar bendir efnainnihald vatnsins til 100°C hita. Menn hafa rætt um í þessu sambandi að leiða vatn yfir fjörðinn til Hólmavíkur, en það hefur enn ekki verið kannað að neinu ráði.

Ef við færum okkur aftur í þéttbýlið, þá hafa verið framkvæmdar boranir í Tungudal í Skutulsfirði, þ.e. við Ísafjörð, sem hafa leitt í ljós óverulegt vatnskerfi með 20–30°C heitu vatni ofan 300 m dýpis. Efnainnihald vatnsins bendir ekki til að þarna sé um nýtanlega hitaveitu að ræða, en boraðar hafa verið tvær holur, önnur tæplega 1000 m og hin rúmlega 1100 m. Ég ræddi um daginn við Kristján Sæmundsson jarðfræðing og hann taldi ekki með öllu óvíst að þarna væri um vatn að ræða. Taldi hann mjög nauðsynlegt að bora þarna 1500–2000 m tilraunaholu til að ganga atgerlega úr skugga um það, hvort ekki væri þarna um nýtanlegt vatn að ræða, þar sem þetta er svo skamman veg frá stóru markaðssvæði þar sem Ísafjörður er og hugsanlega Bolungarvík.

Um Bolungarvík er það að segja, að ekkert bendir til að þar sé um neitt nýtanlegt vatn að ræða. Það hefur verið borað hjá Gili í Bolungarvík, og þar er 26–27°C heitt vatn. Efnainnihaldið bendir ekki til hærri hita.

Á Patreksfirði er sömu sögu að segja og í Bolungarvík. Þar er 20–30°C heitt vatnskerfi og bendir ekkert til þess, að um nýtanlegt vatn sé að ræða. Hitastigullinn, sem svo er kallaður, er 51°C í/km eða nánast sá sami og hjá Bíldudal og víðar vestan til á Vestfjörðum.

Aftur á móti er aðra sögu að segja frá Súðavík. Boruð hefur verið tilraunahola eða hitastigulshola í landi Svarfhóls, sem er innarlega við Álftafjörð, en þangað eru 8 km frá Súðavík. Hitastigull reyndist vera hár í þessari holu, um 86°C/km, sem er ærið. Jarðvísindamenn telja að þarna muni vera vatnskerfi undir, sem líklega sé tengt NV—SA misgenginu, sem gengur yfir Breiðadalsheiði og niður í Súgandafjörð. Aðstæður eru þannig líkar og í Súgandafirði eða Tungudal.

Bæði á Flateyri og Þingeyri hafa verið boraðar hitastigulsholur, en ekki borið neinn árangur.

Á Hólmavík hefur sömuleiðis verið boruð grunn hitastigulshola, en ekki erindi sem erfiði. Þar er að vísu miklu nýrra berg, því að þetta er yngra land en vestra, en í Súgandafirði eða þar um slóðir mun vera eitt elsta berg á Íslandi.

Auk þeirra þéttbýlisstaða, sem ég hef hér nefnt, hafa verið boraðar holur hjá Flókalundi, Birkimel, Reykhólum, Nauteyri, Borðeyri og víðar. En sá er munur á þeim og flestum þéttbýlisstöðum sem borað hefur verið hjá, að þarna hafa verið lauga- eða hverasvæði og menn hafa verið að reyna að komast niður á lindir. Þær boranir eru sem sagt fólgnar í því að ákvarða legu uppstreymisrása. Um þessar mundir er verið að bora inni á Nauteyri við Ísafjarðardjúp, og mér er kunnugt um það, að þær boranir hafa ekki skilað árangri.

Ég hef nú aðeins vikið máli mínu að þessum rannsóknum og talið rétt að birta örlítið um þær hér í þingsölum. En samkvæmt þessari skýrslu tel ég ljóst að enn séu möguleikar á heitu vatni til húshitunar. á Vestfjörðum. En hnífurinn stendur í kúnni þar sem er fjárhagsstaða sveitarfélaga. Allir þeir sveitastjórnarmenn, sem ég hef rætt þessi mál við, hafa brennandi áhuga á að kanna til hlítar þá möguleika sem kynnu að vera fólgnir í jarðhita í nánd byggða þeirra, en þeir eru ekki reiðubúnir að leggja út í áhættusamar rannsóknir af fyrrnefndum ástæðum. Kostnaðarhlutfall sveitarfélaga er 40% á móti 60% frá Orkusjóði ríkisins, og eins og ykkur er e.t.v. kunnugt eru þessi 60% frá Orkusjóði endurkræf ef virkjanlegt vatn finnst.

Ég lít ekki aðeins á þetta sem hagsmunamál Vestfirðinga, sem ég hef rakið hér að ofan, eða einstakra sveitarfélaga á Vestfjörðum ellegar þeirra annarra kaldra svæða sem við svipuð kjör búa og hafa búið í orkumálum. Það er auðvitað þjóðhagslegt atriði að nýta allar hugsanlegar auðlindir landsins í eigin þágu og því fé væntanlega ekki á glæ kastað þótt hlutfall Orkusjóðs ríkisins yrði 90% við rannsóknir á hinum köldu svæðum.