12.11.1980
Efri deild: 12. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

77. mál, orlof

FIm. (Gunnar Már Kristófersson):

Herra forseti. Á þskj. 83 flyt ég ásamt hv. 3. landsk. þm., Karli Steinari Guðnasyni, frv. til l. um breyt. á lögum nr. 87 frá 24. des. 1971, um orlof. Ég tel að um þetta frv. þurfi í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð. Hér er á ferðinni slíkt réttlætismál að ekki er ástæða til að ætla, a.m.k. í byrjun, annað en það fái góðar undirtektir.

Sú breyting, sem hér er lögð til, er að við orlofstöku verði laugardagar taldir frídagar. Breytingin er sú, að næstsíðasta málsgr. 3. gr. laganna breytist og verði: „Laugardagar, sunnudagar og aðrir helgidagar teljast ekki orlofsdagar.“ Að öðru leyti er greinin óbreytt.

Í grg. eru dregin fram nokkur rök fyrir þessari breytingu og tel ég rétt að lesa hana, með leyfi forseta: „Þegar orlofslög voru sett af Alþ. á árinu 1942 var lagt til grundvallar að hver sá, sem lögin tóku til skyldi fá jafnmarga virka daga í orlofi og hann hafði unnið marga almanaksmánuði næsta orlofsár á undan.

Samkvæmt gildandi lögum um orlof er aðalreglan sú, að orlof er 2 dagar fyrir hvern unnin mánuð.

Við setningu laganna 1942 var vinnuvika verkafólks yfirleitt 48 klst. í dagvinnu, unnin á 6 virkum dögum, mánudegi til og með laugardegi. Á þeim tíma var því næsta eðlilegt, miðað við regluna um einn orlofsdag fyrir hvern unninn mánuð, að allir virkir dagar vinnuvikunnar teldust til orlofsdaga. Frídagar, sem til falla á orlofstímabili, og helgidagar hafa ávallt verið utan orlofs.

Almenn vinnuvika verkafólks hefur verið stytt í áföngum frá 1942 og er nú 40 klst. í dagvinnu, sbr. lög nr. 88 24. des. 1971 með síðari breytingum.

Í 2. mgr. 2. gr. nefndra laga er sú meginstefna mörkuð að vinna skuli 8 dagvinnustundir á degi hverjum frá mánudegi til og með föstudegi, og í 4. mgr. sömu greinar er ákveðið að næturvinna taki við strax eftir dagvinnulok á föstudögum, þ.e. þegar lokið er lögbundinni vinnuviku. Fimm daga vinnuvika er því staðreynd hjá meginþorra verkafólks, unnin á mánudegi til og með föstudegi. Laugardagar eru þannig í reynd frídagar hjá öllu verkafólki öðru en því, sem vinnur afbrigðilegan vinnutíma, en það fólk fær þá jafnan annan vikudag sem frídag í stað laugardagsins.

Í samræmi við þá þróun, sem hér hefur verið rædd, hlýtur það að teljast réttlætismál, að til orlofsdaga teljist einvörðungu þeir 5 vinnudagar í viku hverri sem dagvinnuskylda fellur á, þ.e. mánudagur til og með föstudegi, en hvorki laugardagur, sunnudagur né aðrir frí- eða helgidagar sem til falla á orlofstímabili.

Þessi eðlilega og sjálfsagða leiðrétting hefur þó ekki átt sér stað, því samkv. gildandi lögum um orlof eru laugardagar taldir til orlofsdaga gagnstætt öðrum viðteknum frídögum. Í nokkrum tilfellum hafa þó stéttarfélög fengið fram leiðréttingu í þessum efnum með því að taka upp í kjarasamninga sína ákvæði um, að laugardagar skuli ekki teljast með orlofi fremur en aðrir frídagar.

Þessi mismunandi tilhögun um ákvörðun orlofsdaga skapar óviðunandi misrétti milli starfshópa, jafnvel á einum og sama vinnustað. Úrelt lagaákvæði, sem ekki eru í samræmi við þá þróun vinnutímans sem átt hefur sér stað, mega ekki standa í vegi fyrir því, að jafnrétti komist á hvað lengd orlofstímans snertir.

Orlofslögin voru á sínum tíma sett til þess að tryggja verkafólki tágmarkshvíld frá störfum, og þá höfð í huga vinnuverndarsjónarmið. Á þeim tæpleg a 40 árum, sem lögin hafa verið í gildi, hefur lágmarksorlof lengst úr 2 í 4 vikur, en er nú mun styttra hér á landi en víðast í nálægum löndum þar sem almennt orlof er 5–6 vikur.

Enda þótt flm. þessa frv. telji fyllilega tímabært að lengja lágmarksorlof hér á landi til samræmis við þá þróun, sem átt hefur sér stað og að var vikið hér að framan, er ekki í þessu frv. gerð tillaga um slíkt, m.a. vegna þess að það er skoðun flm., að áður þurfi að ráða bót á misrétti, sem nú á sér stað, svo og að finna leiðir til að auka orlofsgreiðslur, sem nú eru að dómi flm. of lágar hér á landi og tryggja engan veginn efnahagslegt öryggi verkafólks á orlofstímanum.

Með frv. þessu er einungis leitast við að leiðrétta augljóst ranglæti og samræma orlofsrétt verkafólks þeirri þróun vinnuvikunnar, sem almennt hefur átt sér stað á þeim tíma er liðinn er frá því er gildandi lagaregla var upp tekin, jafnframt því sem leiðrétt verði það misrétti, sem nú viðgengst milli starfsstétta hvað lengd orlofsins snertir.“

Líklegt er að einhverjum hv. þm. finnist hér vera farið inn á mál sem eðli sínu samkvæmt ætti að vera samningsatriði milli aðila vinnumarkaðarins, og víst er að launafólk, m.a. innan Alþýðusambands Íslands, hefur reynt að ná þessari leiðréttingu fram í samningum, en ekki tekist. Ég vil vegna þessa segja að ég tel það m.a. vera hlutverk þeirra manna, sem kjörnir eru til starfa í hv. Alþ., að stuðla að leiðréttingu mála sem ekki eru sanngjörn og augljóslega skapa misrétti.

Í grg. segir að í nokkrum tilfellum hafi stéttarfélög fengið þessa leiðréttingu í samningum, önnur ekki. Mismunandi tilhögun um ákvörðun orlofsdaga skapar því misrétti milli starfsstétta. Það misrétti teljum við flm. þessa frv. eðlilegt að sé leiðrétt.

Alkunna er að ríkisstjórnir á hverjum tíma lofa lagasetningu um hin og önnur félagsleg réttindamál til að greiða fyrir samningum. Nýlega er lokið gerð kjarasamninga sem hæstv. núverandi ríkisstj. greiddi fyrir með svokölluðum félagsmálapakka. Gerð þeirra kjarasamninga og væntanlegur eftirleikur er mál út af fyrir sig sem full ástæða væri til að ræða ítarlegar en gert hefur verið hér á hv. Alþingi. Þessar umræður eru þó ekki réttur vettvangur til þess.

Þó get ég ekki stillt mig um að vekja athygli á, vegna ummæla hæstv. viðskrh. í Sþ. í síðustu viku, að þeir kjarasamningar, sem gerðir voru, eru alfarið á ábyrgð hæstv. ríkisstj.ríkisstj., sem hæstv. ráðh. situr í, stuðlaði að gerð þessara samninga, lagði línurnar um, hvernig semja ætti á almennum vinnumarkaði, með samkomulagi sínu við ríkisstarfsmenn. Ef nýgerðir kjarasamningar eru verðbólguhvetjandi, eins og hæstv. ráðh. fullyrti, ber hæstv. ríkisstj. á því fulla ábyrgð.

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns tel ég að það frv. til l., sem hér er til umr., skýri sig að mestu sjálft. Ég mun því ekki hafa um það fleiri orð að sinni. Ég vona að hv. þm. þessarar deildar séu okkur flm. þess sammála um að gera þessa sjálfsögðu og réttlátu breytingu á orlofslögunum.

Að loknum þessum umr. legg ég til að frv. verði vísað til hv. félmn.