24.01.1983
Efri deild: 31. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1253)

150. mál, eignarréttur ríkisins að auðlindum hafsbotnsins

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Frv. þetta á sér nokkuð langa sögu og má segja að það sé áfangi á löngum þróunarferli.

Með lögum nr. 17 frá 1. apríl 1969 var fyrst lögfestur yfirráðaréttur íslenska ríkisins yfir landgrunninu umhverfis landið. Þar er því slegið föstu að ríkið eigi fullan og óskoraðan yfirráðarétt yfir landgrunninu að því er tekur til rannsókna á auðæfum landgrunnsins, vinnslu þeirra og nýtingu. Þessi auðæfi séu eign ríkisins og íslensk lög gildi um þau í öllum greinum.

Með lögum nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, var þessum málum ráðið til lykta. Í 2. gr. þeirra laga var kveðið á um að fullveldisréttur Íslands næði til landhelginnar og hafsbotnsins innan hennar. Í þeim lögum var landhelgin afmörkuð með ákveðnum línum. Utan landhelginnar tók Ísland sér efnahagslögsögu á svæði, er afmarkast af línu sem er alls staðar 200 sjómílur frá grunnlínum landhelginnar, þar sem nálægð við önnur lönd krafðist ekki annars fyrirkomulags. Innan efnahagslögsögunnar hefur Ísland fullveldisrétt að því er varðar rannsóknir, hagnýtingu, verndun og stjórnun auðlinda, lífrænna og ólífrænna, á og í hafsbotninum og aðrar athafnir varðandi efnahagslega nýtingu.

Í lögum þessum, nr. 41/1979, er ennfremur tekið fram að fullveldisréttur Íslands yfir landgrunninu taki til rannsókna og hagnýtingar á ólífrænum auðlindum, sem þar eru, svo og lífverum sem á nýtingarstigi eru annaðhvort hreyfingarlausar á hafsbotni eða í honum og geta ekki hreyft sig án snertingar við hafsbotninn.

Enn er rétt í þessu sambandi að drepa á samkomulag Íslands og Noregs um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen, sem undirritað var hinn 22. okt. 1981, en sá samningur gekk í gildi 2. júní 1982. Í því samkomulagi er ákveðið að mörk landgrunns milli Íslands og Jan Mayen skuli vera hin sömu og efnahagslögsögu. Þá er samið um ákveðið svæði, u.þ.b. 45 470 km2 að flatarmáli, þar af u.þ.b. 12 720 km2 innan íslenskrar lögsögu og 32 750 km2 innan norskrar lögsögu. Á svæði þessu hafa bæði ríkin rétt til rannsókna og gert er ráð fyrir að þær verði sameiginlegar. Komi til vinnslu verðmætra efna á svæði innan norskrar lögsögu skal Ísland eiga rétt á 25% þátttöku í þeirri starfsemi, en komi til vinnslu á því svæði sem tilheyrir lögsögu Íslands skal Noregur eiga rétt til 25% þátttöku í starfseminni. Íslensk löggjöf gildir vitanlega á íslenska svæðinu. Rétt er að geta þess að hinar sameiginlegu rannsóknir hafa enn ekki hafist, en væntanlega verður hafist handa um þær á næstu árum.

Enn er rétt að geta ákvæða hafréttarsáttmálans, sem undirritaður var hinn 10. des. 1982, en þar segir í 1. málsgrein 77. gr. að strandríki fari með fullveldisrétt yfir landgrunninu að því er tekur til rannsókna og nýtingar auðlinda þess. Landgrunnið er því ekki eign ríkisins í skilningi opinbers réttar. Hins vegar er það hluti af ríkissvæðinu, þannig að strandríkið hefur ríkisyfirráð varðandi allar rannsóknir og nýtingu auðlinda þess. Í þessu felst að enginn má rannsaka eða nýta auðlindir landgrunnsins án skýlauss leyfis strandríkis.

Þegar mál þessi eru skoðuð í ljósi þróunarinnar er ljóst að nauðsynlegt er að setja skýrari ákvæði um heimildir ríkisins til nýtingar þeirra auðæfa sem kunna að vera á og í hafsbotninum. Rétt er að líta lauslega á hvernig þessum málum er fyrir komið á landi. Samkv. námulögum nr. 24 1973 fylgir hverri landareign, sem háð er einkaeignarrétti, réttur til hagnýtingar hvers konar jarðefna sem finnast í jörðu eða á. Utan þessara landssvæða hefur ríkið eitt rétt til nýtingar jarðefna. Þá er tekið fram að um námurétt á landgrunninu umhverfis Ísland fari eftir sérlögum. Um það efni hafa engin skýr lög verið sett til þessa. Ber því brýna nauðsyn til að skipa þeim málum með lögum.

Í frv. þessu er einungis fjallað um lífrænar og ólífrænar auðlindir á og í hafsbotninum en ekki lífverur. Málum varðandi nýtingarrétt á lífríki sjávar verður að skipa með sérstökum lögum og verður því ekki um þau mál fjallað hér.

Ekki verður talið að nokkur hluti hafsbotnsins sé háður einkaeignarréttarreglum. Hins vegar er því þegar slegið föstu að ríkið er raunverulega eigandi og umráðaaðili allra auðlinda í og á hafsbotninum, lífrænna sem ólífrænna. Því hefur sú leið verið valin að setja rammalög um þessi efni og lýsa því þannig yfir með löggjöf, að íslenska ríkið sé eigandi þessara auðtinda og hafi eitt rétt til að ráðstafa þeim. Auðlindir þessar eru sameign íslensku þjóðarinnar og þær ber ávallt að nýta í þágu þjóðarheildarinnar.

Spyrja má hvort nokkur þörf sé á löggjöf um þessi efni, því að ekki sé vitað um auðlindir, svo teljandi séu, á og í hafsbotninum umhverfis Ísland. Því er til að svara að nokkur s.l. ár hefur verið unnið að skipulagningu rannsókna á hagnýtum efnum á og í hafsbotninum. Rannsóknir þessar hafa aðallega beinst að því að athuga hvort kolvetni finnist á þeim hafsbotnssvæðum sem hér um ræðir. Hefur athygli manna í því sambandi einkum beinst að hafsvæðunum norður af Norðurlandi. Ýmiss konar mælingar hafa verið framkvæmdar á þessu svæði og s.l. sumar var boruð kjarnahola í Flatey á Skjálfanda til að kanna jarðlög, sérstaklega með hliðsjón af því hvort þar væri að finna setlög sem gætu verið heppilegt geymsluberg fyrir olíu. Borunin hefur staðfest að undir Flatey eru setlög, en að öðru leyti hafa líkur á tilvist kolvetna ekki styrkst. Umrædd kjarnahola í Flatey á Skjálfanda, sem boruð var á síðasta sumri, er aðeins tæpir 600 m á dýpt. Þess ber hins vegar að geta, að myndun olíu verður aðeins á ákveðnu dýptarbili; sem ræðst einnig af hitastigli í jarðlögunum, og samsöfnun olíu er algengust í nánd við eða þar sem slík skilyrði falla saman. Ef marka má hitastigul eins og hann er í borholunni í Flatey þarf borun að ná vel niður fyrir 2000 m til að komast í hugsanlegt olíumyndunarbil. Bora þarf því allmiklu dýpra þar til þess að ganga úr skugga um hvort kolvetni gætu verið í umræddum setlögum.

Samkvæmt fyrri vísbendingum gætu setlög á þessu svæði verið allt að 4000 m á þykkt. Áformaðar eru frekari kjarnaboranir á sama stað næsta sumar, 1983.

Þá hafa komið fram hugmyndir um að útfellingar verðmætra málma væri hugsanlega að finna sitt hvoru megin við gossprungusvæði þau sem á hafsbotninum eru.

Eins og áður var sagt er hér um rammalög að ræða. Framkvæmdaatriði öll verður að ákveða með reglugerðum, þ. á m. hverjar ráðstafanir skuli gera til að forðast mengun og spillingu á lífríki láðs og lagar svo og varðandi fjárhagsmálefni, skattamál og annað er því tengist. Má vel vera að nauðsyn verði frekari lagasetningar þegar framvinda mála verður ljósari. Starfsskilyrði rannsóknaraðila og skilmála í leyfum til nýtingar auðlinda verður að setja með reglugerðum eða sérstökum ákvæðum í leyfisbréfum.

Um einstakar greinar frv. er rétt að segja eftirfarandi: Í 1. gr. er því slegið föstu, að íslenska ríkið sé eigandi allra auðlinda á og í hafsbotninum. Þá er fjallað um landfræðilegt gildissvið laganna. Tekið fram að þau gildi frá netlögum og til hafs. Svo sem alkunna er, þá eru mörk jarða á Íslandi miðuð við stórstraumsfjörumál til sjávar. Þar fyrir utan á hver landeigandi svokölluð netlög, en það eru 60 faðmar til sjávar frá stórstraumsfjörumáli samkv. tilskipuninni um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849. Innan netalaga á landeigandi einn veiði. Þessi ákvæði eru ævaforn á Íslandi. Þannig er kveðið á í Grágás, að það séu netlög yst, er setanót stendur grunn, 20 möskva djúp, á fjöru og komi flár upp. Þá skyldu menn eiga reka innan rekamarks, en það var þar yst, sem sjá mátti úr fjöru flattan þorsk á borði, þann sem var alin í öxarfærur, eins og segir í ákvæðum Grágásar.

Hins vegar hefur hafsbotninn utan stórstraumsfjörumáls aldrei verið háður einkaeignarrétti. Þrátt fyrir það er gildissvið laganna miðað við netlagamarkið. Enginn vafi er á því að samkvæmt nútímaskilningi er ríkið eigandi auðlinda á og í hafsbotni innan netlaga að stórstraumsfjörumáli, en þar sem ljóst er að landeigendur eiga á því svæði þýðingarmikil réttindi þótti eigi rétt að láta þessi lög taka til þess svæðis. Er talið rökréttara að þeim málum verið skipað til fulls með lagasetningu um eignarrétt að almenningum og lögum um ráðstöfun lífríkis hafsins.

Til hafs nær landfræðilegt gildissvið laganna svo langt sem efnahagslögsaga Íslands nær, sbr. II. kafla laga nr. 41/1979, atþjóðasamninga eða samninga við einstök ríki.

Samkv. 2. og 3. gr. er öllum bannað að leita að efnum í eða á hafsbotninum, taka þau eða nýta nema að fengnu skriflegu leyfi iðnrh.

Í 4. gr. eru settar leiðbeinandi reglur um hvert skuli vera meginefni leyfisbréfa þeirra sem iðnrh. gefur út. Rannsóknar- eða nýtingarleyfin skulu vera bundin við ákveðið svæði og gilda til ákveðins tíma, sem aldrei má vera lengri en 30 ár. Þá skal í leyfisbréfi greina þær ráðstafanir sem gera skuli til að forðast mengun og spillingu á lífríki láðs og lagar. Verður hér að sýna mikla gát, þar sem vitað er að lífríki á Íslandi og í hafinu umhverfis það er mjög viðkvæmt og úr hafinu fáum við mestan hluta lífsbjargar okkar.

Rétt er að vekja athygli á ákvæði til bráðabirgða í lagafrv. Segja má að nýting hafsbotnsins hér við land sé nú bundin fyrst og fremst við malarnám og sandtekju svo og nýtingu á skeljasandi. Er nauðsynlegt að þeir sem slíkt starf stunda eða slíka nýtingu hafa um hönd fái til þess sérstakt leyfi, svo unnt sé að fylgjast með starfsemi þeirra. Frá gildistöku laganna er þeim gefinn 6 mánaða frestur til að sækja um leyfi til slíkrar efnistöku.

Herra forseti. Hér er á ferðinni mikilsvert stefnumarkandi mál, sem ég vænti að góð samstaða geti tekist um hér á hv. Alþingi. Ég legg áherslu á þýðingu þess að almannaréttur og eignarréttur íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins verði tryggður áður en til frekari hagnýtingar kemur. Engin vissa er um það, og raunar takmörkuð vitneskja, hverjar auðlindir hafsbotninn innan íslenskrar efnahagslögsögu hefur að geyma. Úr því geta aðeins frekari rannsóknir skorið. Að því ber okkur að stuðla sem sjálfstæðri þjóð, þótt af fyllstu varkárni þurfi svo fram að ganga ef til hagnýtingar kemur.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og til hv. allshn.