26.10.1983
Neðri deild: 8. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

11. mál, launamál

Þorsteinn Pálsson:

Frú forseti. Það hefur verið um margt athyglisvert að hlusta á talsmenn stjórnarandstöðunnar í þessari umr. Þeir hafa ítrekað það að ekki sé ágreiningur um að gera hafi þurft alvarlegar efnahagsráðstafanir á þessu vori. Einmitt í ljósi þessarar fullyrðingar, að um þessa staðreynd hafi verið samstaða, er ástæða til að brjóta til mergjar málflutning þeirra í þessari umr. og í umr. í þjóðfélaginu almennt um þessar mundir. Orðaflaumurinn er mikill. En ef efnisatriði hans eru dregin út þá sýnist mér að gagnrýnin lúti einkum að fimm atriðum.

Í fyrsta lagi er það gagnrýnt að staðið hafi verið að framlengingu kjarasamninga með löggjöf. Ég þarf ekki að lýsa hér þeim neyðarréttaraðstæðum sem gerðu það að verkum að undan því varð ekki vikist að taka á þessum málum með þeim hætti sem gert var. Það var vakin athygli á því að ekki hefðu einungis talsmenn launþegahreyfingarinnar í landinu lýst efasemdum um það að afnema samningsrétt með þessum hætti tímabundið, heldur kæmu slíkar raddir jafnvel fram frá viðsemjendum þeirra á vinnumarkaðinum. Hvers vegna skyldi þetta nú vera óeðlilegt?

Við búum við það stjórnskipulag að við viljum að borgarar þessa lands og samtök þeirra geti leyst sín mál með frjálsum samningum þó að við með löggjöf á ýmsum sviðum takmörkum þá möguleika. Þegar nákvæmlega sams konar löggjöf var sett í Danmörku á s.l. ári, þar sem vísitalan var bönnuð um tveggja ára skeið og hvers konar launabreytingar í samningum bannaðar um fimm mánaða skeið, var þeim aðgerðum mótmælt af báðum aðilum vinnumarkaðarins í Danmörku. Ég hygg að ástæðan sé kannske svipuð og aðilar vinnumarkaðarins hér á Íslandi hafa upplifað, að sívaxandi íhlutun löggjafarvaldsins um kjaramál hafi takmarkað þann rétt sem menn vilja varðveita. Þess er vert að minnast í þessu sambandi að þessi íhlutun hefur verið um miklu fleiri svið kjarasamninga en bara launaþáttinn. Og ég geri ráð fyrir að þessi íhlutun hafi ekki síður gengið á hagsmuni vinnuveitendahliðarinnar en launþegahliðarinnar þegar heildarráðstafanir löggjafarvaldsins á þessu sviði eru metnar. Það er því mjög eðlilegt að þessir aðilar hafi uppi vissar efasemdir þegar aðgerðir af þessu tagi eru framkvæmdar. En við svo búið var nauðsynlegt að skapa skilyrði til þess að aðilar vinnumarkaðarins gætu endurnýjað kjarasamninga við nýjar aðstæður. Það þurfti m.ö.o. að koma í ljós að stefna ríkisstj. skilaði árangri svo að ekki væri verið að semja í ljósi þeirra staðreynda að við værum í hópi þeirra ríkja sem skulduðu mest í heiminum, hefðu mesta verðbólgu, heldur hefðum við náð þeim árangri að verðbólga hefði snarlækkað, vextir hefðu lækkað, gengi hefði verið stöðugt og það væri hægt að semja á þeim grundvelli í því skyni að tryggja áframhaldandi minnkun verðbólgu og jafnvægi í okkar þjóðarbúskap.

Það hefur komið fram í ræðum talsmanna stjórnarandstöðunnar að þeir hefðu viljað standa á annan veg að þess konar íhlutun. Þeir hefðu viljað breyta launahlutföllunum með íhlutun ríkisvaldsins. Hvað felur þetta í sér? Auðvitað segir þetta ekkert annað en það að þessir aðilar voru reiðubúnir að framlengja samninga með löggjöf. Ég geri ekki ráð fyrir að þeir meini það eitt með þessum orðum að þeir hefðu viljað með lögum breyta launahlutföllunum en leyfa það eigi að síður að þeir hópar á vinnumarkaðinum sem hafa sterkasta markaðsaðstöðu röskuðu þeirri lagasetningu þannig að launabilið ykist þrátt fyrir lagasetninguna. Það væri a.m.k. ekki mikið samræmi í málflutningnum ef þetta væri merking orðanna. En sú væri hugsunin á bak við þessar fullyrðingar þá má örugglega flokka þær í þann hóp sem meistarinn kallaði ruglandi.

Í annan stað hefur verið á það bent að kaupmáttur hafi minnkað í kjölfar þessara ráðstafana meira en sem nemur lækkun þjóðartekna á þessu ári. Það er ekki óeðlilegt að menn velti þessari viðmiðun fyrir sér því að þjóðartekjur eru sú viðmiðun sem menn allajafna taka, hvort heldur menn eru að ræða um launahækkanir vegna þess að þjóðartekjur aukast eða kaupmáttarminnkun vegna þess að þjóðartekjurnar í heild dragast saman. En ástæðan fyrir því að kaupmáttarskerðingin í heild er meiri en sem nemur þjóðartekjuminnkuninni er sú að við höfum á tveimur undangengnum árum stofnað til mikillar eyðsluskuldar með viðskiptahalla gagnvart útlöndum. Þannig eru búin til fölsk lífskjör. Það varð ekki við þessar aðgerðir horft fram hjá þessum augljósu staðreyndum. Ef það hefði verið gert hefðu aðgerðirnar að litlu haldi komið.

Í þriðja lagi er því haldið fram að kaupmáttarminnkunin leiði til minni eftirspurnar í þjóðfélaginu og þannig sé í raun og veru stefnt að atvinnuleysi í stað þess yfirlýsta markmiðs að tryggja fulla atvinnu. Hvernig horfir þetta mál við? Við höfum upplýsingar um að þær heildarráðstafanir sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir og taka til miklu fleiri þátta en bara launamála fólust m.a. í því að veita nýju blóði inn í atvinnustarfsemina í landinu. Á fyrstu dögum þessa stjórnarsamstarfs hafa þær leitt til þess að innlendur iðnaður hefur verið að styrkja stöðu sína. Hann hefur verið að auka framleiðsluna, hann hefur verið að auka sína markaðshlutdeild og það eru líkur til þess að á þeim vettvangi muni störfum fjölga, þ.e. það markmið hefur tekist sem að var stefnt: að styrkja innlenda framleiðslustarfsemi. Sú kaupmáttarminnkun sem leiðir til minni eftirspurnar kemur niður á innflutningi. Hún kemur niður á erlendum iðnaðarframleiðendum og hún kemur niður á innflutningsaðilum, en ekki innlendri framleiðslustarfsemi. Það er að vísu aðalsmerki hæstv. fráfarandi ríkisstj. að stunda útsölu á gjaldeyri og þjóna þannig erlendum framleiðsluaðilum og innflutningsaðilum. En þessu hefur nú verið snúið við. Þessi gagnrýni styðst því ekki við nein rök.

Í fjórða lagi er því haldið fram að aðgerðir skorti á öðrum sviðum, svo sem aðhaldsaðgerðir í opinberum rekstri. Lítum á þetta nánar. Á undanförnum mánuðum hefur verið gripið til margháttaðra ráðstafana til að endurskipuleggja opinberan rekstur og auka aðhald í honum. Það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að endurskipuleggja rekstur stærstu orkufyrirtækja landsins. Það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að auka sparnað og aðhald í heilbrigðiskerfinu og tryggingakerfinu. Það er verið að endurskoða kerfi fjárfestingarlánasjóða. Það er verið að endurskoða lög um stjórnarráðið og það er unnið að endurskoðun á lögum og skipulagi bankanna í landinu. Ég geri ráð fyrir að því starfi gæti lokið innan eins mánaðar. Og það er alveg ljóst að ekki verður skilist við það verk fyrr en fundinn hefur verið farvegur fyrir samruna í bankakerfinu. Ég held þess vegna að hægt sé að fullyrða að á þessum skamma tíma hafi verið gripið til mjög umfangsmikilla aðgerða í því skyni að stuðla að verulegum breytingum í opinbera kerfinu og fjármagnskerfinu í landinu. Allar þessar fullyrðingar fá því ekki staðist fremur en hinar fyrri.

Þá er í fimmta lagi sú gagnrýni borin fram að verðbólgan stafi ekki af háum launum heldur af rangri fjárfestingu, það sé röng fjárfesting sem sé ávísun á verðbólgu. Þessi fullyrðing hefur að sjálfsögðu margt til síns máls. Það er eðlileg krafa í okkar þjóðfélagi að fjárfestingin skili hámarksarði. Að vísu hefur það verið ríkjandi stefna — og sérstaklega hafa það verið talsmenn Alþb. á undanförnum árum sem hafa haldið því fram — að það ætti ekki að gera arðsemiskröfur þegar verið væri að ráðstafa fjármagni í atvinnuuppbyggingu. Þar ætti miklu fremur að leggja áherslu á félagsleg sjónarmið. Við erum kannske einmitt núna að uppskera ávexti þessarar stefnu, að það hafa ekki verið arðsemiskröfur sem á undanförnum árum hafa verið það meginsjónarmið sem hefur ráðið fjárfestingarstefnunni. En það er eðlilegt að launþegar í landinn horfi til þess hver sé arðurinn af fjárfestingunni. Og við getum ábyggilega verið sammála um það að hún hafi ekki skilað nægjanlegum arði.

En hvað eiga allar þessar löngu ræður að þýða, sem nú eru settar á, þar sem talinn er upp allur sá fjöldi bænda sem ekki skilar nægjanlegum arði, allur sá fjöldi fiskiskipa sem ekki skilar nægjanlegum arði? Er það raunverulega ætlun talsmanna stjórnarandstöðunnar að það eigi að flytja bændurna á mölina? Er það ætlun stjórnarandstöðunnar að það eigi að leggja stórum hluta fiskiskipastólsins? Er það ætlun stjórnarandstöðunnar að það eigi að loka jafnmörgum frystihúsum? Hvað eiga allar ræðurnar um stóru milliliðahallirnar og bankahallirnar að þýða? Ekki trúi ég því að stjórnarandstaðan ætli að brjóta þær niður. Er það ætlun hennar að það eigi að flytja fólkið, sem þar starfar, á atvinnuleysisskrifstofur? Ég trúi því tæpast að það sé raunveruleg meining á bak við allar þessar löngu ræður um fjárfestingarmistökin að það eigi að vinda ofan af fjárfestingunni með því að stofna til svo verulegs atvinnuleysis í landinu sem slík stefna hefði í för með sér. Ég trúi því ekki að það sé raunverulegur ásetningur stjórnarandstöðunnar að tryggja sumum launþegum í landinu fullan kaupmátt með því að dæma aðra til atvinnuleysis. Ég held að það væri röng leið, ranglát leið. Og hún mundi ekki skila okkur inn á þá braut að við gætum unnið okkur út úr þessum erfiðleikum. Mér sýnist þess vegna að í öllum meginatriðum þeirrar gagnrýni sem sett hefur verið fram af hálfu talsmanna stjórnarandstöðunnar séu harla lítil rök á bak við efnisatriðin.

Því er haldið fram að það sé ekkert gert nema að lækka kaupmáttinn. Auðvitað er þetta rangt. Það er verið að vinna að aðhaldsaðgerðum á öllum sviðum efnahagskerfisins. Það sem þarf að gera við aðstæður sem þessar er að draga úr heildarútgjöldum í samræmi við heildartekjur. Það hefur verið gert á sviði launamála. Það er gert með því að skera niður ríkisútgjöld. Sú stefna mun sjá dagsins ljós á næsta ári. Það er gert með því að draga úr fjárfestingu. Þannig er unnið að aðhaldsaðgerðum á öllum sviðum efnahagslífsins. Þessar fullyrðingar um að ekkert sé gert nema krukka í kaupið, eins og það er kallað, eru því rangar. Það er talað um að verið sé að flytja fjármagn frá launafólkinu til atvinnufyrirtækjanna. En í sömu ræðum tala menn um að atvinnufyrirtækin séu svo illa stödd að þau séu á heljarþröm, þar sé ekkert fjármagn til að halda áfram rekstri. Þetta er nú allt samræmið í málflutningnum.

Það er einnig talað um það að nú sakni menn sárt þeirra gömlu tíma þegar ráðist var gegn verðbólgu á grundvelli hugsjónarinnar um slétt skipti. Það er ástæða til að líta til baka og skoða í hverju þessi svokölluðu „sléttu skipti“ voru fólgin. Í fyrsta lagi fólust þau í því að skerða kaupmátt kauptaxta undir því yfirskyni að stuðla að aðhaldi í þjóðarbúskapnum, en á hinn veginn var sömu upphæð og launin voru skert um veitt út annars staðar í hagkerfinu, annaðhvort með því að auka annars konar kostnað atvinnufyrirtækjanna eða með því að auka kostnað ríkissjóðs án þess að skera niður útgjöld á móti. Þegar á heildina er litið höfðu þessar aðgerðir því engan raunhæfan tilgang í því að draga úr heildarútgjöldum og þenstu í þjóðfélaginu. Þær skiluðu þeim eina árangri að skerða kaupmátt kauptaxta. En launþegar voru dæmdir til að bera þær fórnir án þess að nokkur varanlegur árangur næðist í baráttunni við verðbólguna. Ég hygg því að betur færi nú á því að talsmenn stjórnarandstöðunnar gleymdu þessari gömlu hugsjón um slétt skipti.