21.11.1984
Neðri deild: 14. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Sverrir Sveinsson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa að nokkru verið uppgjör mismunandi aðferða tveggja stjórnmálaflokka um nálgun á möguleika landsins til þátttöku ríkja í þeirri verðmætasköpun sem felst í stóriðnaði eða orkufrekum iðnaði. Ætla ég ekki að blanda mér í þær, en öllum hér er ljóst að Framsfl. studdi fyrrv. iðnrh. Hjörleif Guttormsson í viðleitni hans til að ná samningum við Alusuisse þar til Guðmundi G. Þórarinssyni verkfræðingi, sem var fyrir flokkinn í álviðræðunefndinni, var ekki ljóst hvort ráðh. vildi ekki eða þyrði ekki að semja og setti fram tillögur til samkomulags sem ekki varð samstaða um. Væri fróðlegt að fá það framreiknað hverju við höfum tapað á því að leiðir skildu og ekki var samið um þær tillögur sem Guðmundur lét steyta á.

Aðdróttanir fyrrv. iðnrh. um að Guðmundur G. Þórarinsson og núv. forsrh. og formaður Framsfl. Steingrímur Hermannsson hafi leikið einhvern einleik í flokknum eru ekki á rökum reistar. Framsfl. hafði þá þegar ályktað, bæði á flokksþingi og í miðstjórn, um áform í orkufrekum iðnaði og nýtingu auðlinda okkar í fallvötnum og háhita til verðmætasköpunar sem nýja leið til atvinnuþróunar í framtíðinni.

Stefna Framsfl. er, eins og ríkisstj. hefur þegar gert að sinni, að þrefalda orkufrekan iðnað til aldamóta. Stefna Framsfl. er hins vegar að í þessum málum höfum við virk yfirráð eða virka aðild sem þýðir að Íslendingar byggja þennan iðnað upp í samvinnu við erlenda aðila, en séu þátttakendur sjálfir á öllum sviðum eignaraðildar tæknimála, markaðsmála, sölumála o.fl.

Um aldamótin getur þessi iðnaður orðið helmingur af útflutningi þjóðarinnar. Samtímis stefnum við að því að jafna olíureikninginn við útlönd. Þarna eru engin smámál á ferðinni og verður að líta á þennan samning sem einn áfanga á þeirri leið.

Á sameiginlegum fundum iðnaðarnefnda beggja þingdeilda beindi ég þeirri fsp. til sérfræðings ríkisstj. við þessa samningsgerð m.a. um skattgreiðslur ÍSALs, vegna deildra meininga um þær reglur sem eru í gildi og menn álíta að hafi verið farið í kringum með „hækkun í hafi“, hvort ekki væri hægt að breyta þessu og taka upp annað skattform, t.d. aðstöðugjald eða veltuskatt, þannig að ekki fengist tækifæri til að hagræða hagnaði. Þessu svaraði Hjörtur Torfason hrl. þannig, að vissulega kæmi þetta til greina og einnig að það mundi verða athugað þegar nýir samningar yrðu gerðir. Þetta gæti orðið vegvísir okkar í samningum við aðra aðila í framtíðinni.

Um rafmagnssamninginn vil ég vekja athygli á því sem nauðsynlegt er að hafa í huga þegar rætt er um kostnaðarverð raforku úr kerfi Landsvirkjunar. Ef kostnaðarverðið á kwst. er reiknað á hverju ári sem hlutfallið milli rekstursútgjalda, kostnaðarafskrifta og vaxta og seldra kwst. kemur út breytileg tala frá ári til árs sem fer eftir því hversu vel kerfið er nýtt hverju sinni. T.d. verður kostnaðarverðið hæst strax eftir að búið er að taka nýja virkjunaráfanga í rekstur, en fer síðan lækkandi með vaxandi sölu kwst. Hluti af lánum Landsvirkjunar er með breytilegum vöxtum, sem geta breyst til hækkunar eða lækkunar. Lán eru greidd upp og ný tekin í staðinn með öðrum kjörum. Kostnaður okkar á kwst. er því breytilegur frá ári til árs af þessum sökum einnig.

Kostnaðarverð til almenningsveitna er annað en til stóriðju þar sem ekki þarf að leggja í jafnmikinn kostnað vegna þeirrar raforkusölu til aðila sem kaupa orkuna á annarri spennu og nýta aflið öðruvísi, þannig að allt annað verð er á 220 kílóvolta spennunni og með 8000 klukkustunda nýtingu eða 132 kílóvolta spennunni þar sem 5000 klukkustunda nýting er lögð til grundvallar. Um útreikning á kostnaðarverði á raforku frá einstökum hlutum kerfisins er sömu sögu að segja, sem hér að ofan er greint, nema þar við bætist óvissa um hvernig skipta eigi vaxtagreiðslum og stjórnunarkostnaði vegna kerfishlutanna.

Eins og ljóst má vera af ofangreindu er hugtakið kostnaðarverð frá virkjunum Landsvirkjunar vandmeðfarið í umr. sem þessari og getur valdið misskilningi við hvað er átt nema ítarlegar skilgreiningar fylgi. Ég vek athygli á því að metið verð til almenningsveitna er núna 14.5 mill án flutningskerfisins og til stóriðjunnar 9.7 með flutningskerfinu. Þar er allt flutningskerfið meðreiknað, en hægt er að láta stóriðjuna bera kostnaðinn til jafns við almenning, eins og gert er í útreikningunum hér að ofan, og nægir í því efni að minna á byggðalínuhringinn sem á engan hátt getur talist nauðsynlegur vegna núverandi stóriðju. Sé hann tekinn með er verðið til almenningsveitnanna 19 mill, en til stóriðjunnar 12.7.

Í frv. sem lagt var fram á 105. löggjafarþingi á þskj. 363. frv. til l. um nýtt raforkuverð til álversins, er lagt til að verðið sé 12.5 mill. Þessi samningur, sem við erum að ræða hér, gerir ráð fyrir lágmarksverði 12.5 mill til 18.5 mill á kwst. Þessi samningur er að mínu mati mjög hagstæður raforkukerfinu, þjóðfélaginu og okkar áfangi í þeirri leið sem ég nefndi áðan að við viljum stefna að. Þar sem ég á þess ekki kost að vera við umr. eftir helgi vil ég lýsa því yfir að ég er sammála því sem kemur fram í áliti meiri hl. iðnn. Ed. og vil leyfa mér að nota lokaorð þess meirihlutaálits, með leyfi forseta:

„Samningurinn um hið nýja orkuverð er byggður á ítarlegum samanburði á orkuverði til stóriðju og samkeppnisstöðu álvera í Evrópu og Ameríku og stenst fullkomlega allan eðlilegan samjöfnuð í þeim efnum. Hin mikla hækkun á verðinu er þeim mun athyglisverðari þegar þess er gætt að hér er um að ræða orkuverð til starfandi álvers en ekki til nýrrar verksmiðju sem byggir á nýjustu tækni annars vegar og orku frá virkjunum hins vegar.

Ljóst er af framansögðu og öðrum gögnum málsins að samningarnir eru íslensku þjóðarbúi til verulegra hagsbóta. Með tilliti til þess orkar ekki tvímælis að rétt er að staðfesta viðaukasamningana sem hér um ræðir.“

Þess vegna legg ég til að þessi samningur verði samþykktur.