15.10.1986
Neðri deild: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

4. mál, umboðsmaður barna

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um embætti umboðsmanns barna sem liggur frammi á þskj. 4 og er 4. mál þingsins. Frv. flytja ásamt mér hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Kristín S. Kvaran og Hjörleifur Guttormsson.

Í grg. með frv. hef ég leitast við að rekja þær miklu þjóðfélagsbreytingar, sem orðið hafa á síðustu áratugum í landi okkar sem og í nálægum löndum, og áhrif þeirra á líf og starf barna. Ég mun því í máli mínu hér fyrst og fremst skýra frv. sjálft. Tilgangur þess er augljós ef hv. þm. hafa gert sér það ómak að lesa grg.

Með henni fylgir hluti úr skýrslu um mannfjöldaspá frá Hagstofu Íslands sem Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri hefur verið svo vinsamlegur að leyfa birtingu á en skýrslan er ekki komin út. Þar kemur fram að líkur eru á að árið 2010 verði Íslendingar eldri en 65 ára 35,7% en þeir eru nú 24,4%. Börn eru talin verða 23% á aldrinum 0-6 ára árið 2010 en þau er nú 30,2%. Það blasir því við að verði ekki skipulega unnið að batnandi kjörum fjölskyldnanna í landinu svo að fýsilegt sé að eignast börn, sem tryggð séu sómasamleg uppvaxtarskilyrði við þær aðstæður sem fólk gerir nú kröfur til, tekur fólki beinlínis að fækka í landinu og aldurshlutfall raskast svo að ófyrirséð er hvernig þjóðfélag okkar lítur út þegar svo er komið.

Ljóst er að mikið vantar á það við löggjöf og aðrar ákvarðanir í samfélaginu að hugað sé að áhrifum laga og reglna á líf barna í landinu. Árið 1985 var íbúatala hér á landi 241 500 manns skv. upplýsingum Hagstofu Íslands. Þar af voru börn á aldrinum 0-6 ára 30 200 eða 12,5% og börn á aldrinum 7-15 ára 37 300 eða 15,4% landsmanna. Samtals voru því börn á aldrinum 0-15 ára 67 500 eða 27,9%, þ.e. rúmur fjórðungur íbúa þessa lands.

Menn deila tæpast um að í löggjöf þjóðarinnar skuli tillit tekið til þarfa allra þjóðfélagsþegna svo að þeir megi allir þrífast sem best í landinu, ungir sem aldnir. Því síður deila menn um mikilvægi þess að vel sé í haginn búið fyrir þá sem eru að vaxa úr grasi og eiga að taka við af okkur hinum eldri. Það má þó ljóst vera að börnin sjálf eru ekki á sama hátt í stakk búin til að fylgja eftir sjálfsögðum mannréttindum sínum í samfélaginu og hinir sem eldri eru og þroskaðri. Aðbúnaður allur og uppvaxtarskilyrði þeirra eru á ábyrgð okkar hinna fullorðnu. Tilgangurinn með því frv., sem hér er til umræðu, er því að stíga mikilvægt skref í áttina til þess að börnin eigi sér málsvara sem taka verður tillit til.

Embætti umboðsmanns barna hefur oft verið nefnt þó að ekki yrði úr því fyrr en nú að lagt væri fram frv. um stofnun þess. Árið 1978 fluttu þm. Alþfl. till. til þál. um umbætur í málefnum barna í tilefni barnaárs og í grg. með henni var m.a. lagt til að slíkt embætti yrði stofnað. 1. flm. þeirrar till. var Árni Gunnarsson, en till. varð ekki útrædd. Í grg. með till. segir hv. þm. Árni Gunnarsson m.a.:

„Nútímaþjóðfélagið virðist í framfaravilja sínum hafa gleymt hinum mannlega þætti í uppbyggingu þjóðfélagsins. Það hefur verið andsnúið börnum að vissu leyti. Má t.d. benda á þá öfugþróun að í flestum tilvikum eiga fjölskyldur og foreldrar barna í mestum fjárhagsörðugleikum þegar börnin eru yngst og þurfa á mestri umhyggju að halda. Þetta á við um þá er stofna heimili, standa í íbúðabyggingum eða íbúðakaupum. Á því tímabili er mest vinna lögð af mörkum og minnstur tími gefst til að sinna barnauppeldi. Þjóðfélagið hefur ekki reynt að létta byrði þessa samfélagshóps og er vert að gefa þessum þætti gaum á ári barnsins.“

Þessi orð hafa síður en svo glatað gildi. Meðal fjölmargra tillagna um úrbætur í málefnum barna nefnir þm. stofnun embættis barnaumboðsmanns. Nágrannar okkar hafa einnig ýmist ákveðið að leggja fram frv. að þessu embætti eða þegar samþykkt það. Í Noregi var embætti umboðsmanns barna stofnað með lögum árið 1981. Þar í landi deila menn ekki um mikilvægi þess starfs sem þar er unnið. Á þessum árum hefur barnaumboðsmaður bæði haft frumkvæði um úrbætur í málefnum barna og einnig hafa börn snúið sér til embættisins með erindi sín og hefur verið reynt að leysa þau í samvinnu við viðkomandi aðila. Í Danmörku er frv. í umfjöllun í nefnd og líkur taldar á að það nái fram að ganga. Í Svíþjóð annast umboðsmaður þingsins mál barna sem annarra, en þar í landi er starfandi stofnun sem í daglegu máli nefnist BRIS sem er stytting á Barnens rett i samhället.

Frv. það sem hér liggur frammi hefur verið langan tíma í vinnslu. Ég hef leitast við að kynna mér þskj. og umræður frá nágrannalöndunum um þetta mál og notast við það sem okkur gat hentað, en aðstæður hér á landi eru vitanlega svo ólíkar að nauðsynlegt var að sníða það að þeim. Flm. lögðu til góðar ábendingar sem ber að þakka hér og ekki síst vil ég þakka hv. þm. Haraldi Ólafssyni sem lagði mikla vinnu í að fara yfir frv. og á verulegan þátt í samningu þess. Til gamans má geta að það var áður en við hv. þaulvanir þm. í sumarleyfi áttuðum okkur á að við erum ekki í sömu deild. En eftir stendur að hv. þm. Haraldur Ólafsson á þakkir skildar fyrir aðstoð við samningu frv.

Eins og frv. ber með sér er það hugsað sem rammalög. Nauðsynlegt yrði að setja reglugerð um nánari ákvæði. Gert er ráð fyrir að barnaumboðsmaður starfi innan dómsmrn. og hafi náið samstarf við aðra þá aðila sem með málefni barna fara. Það er því ekki um að ræða nýja stofnun og þess vegna yrði kostnaður ekki slíkur að í hann yrði svo horft að hann þyrfti að verða frv. að falli hér í þingsölum. Þá er mikilvægt að hv. þm. geri sér grein fyrir að stofnun embættis barnaumboðsmanns breytir engu um framkvæmd laga um vernd barna og ungmenna frá 1966 né barnalaga frá 1981. Miklu fremur ætti hið nýja embætti að vera öðrum aðilum, sem samkvæmt þeim lögum vinna, til styrktar í starfi. Umboðsmaður barna er heldur ekki dómari né embætti hans dómstóll og hann á ekki að annast barnaverndarmál eða mál einstaklinga sjálfur heldur fylgjast með að þeim málum sem til hans er beint verði sinnt, beina þeim til réttra aðila og fylgja þeim eftir. Verksvið hans er í stuttu máli að vinna að öllum þeim málum er sérstaklega snerta hagsmuni barna eins og 4. gr. frv. segir sem ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa:

„Umboðsmaður barna skal vinna að þeim málum er sérstaklega snerta hagsmuni barna og hafa frumkvæði að úrbótum þar sem hann telur að á rétt þeirra sé gengið. Jafnframt skal hann fylgjast með því að samþykktir og ákvarðanir stjórnvalda, er snerta hagsmuni barna, séu framkvæmdar á tilsettum tíma. Meginverkefni umboðsmanns skulu vera að fylgjast með löggjöf og ákvörðunum sem stjórnvöld taka og snerta hagsmuni barna og vekja á því athygli sé þeirra ekki gætt, að fylgjast með framkvæmd laga og reglna er varða hagsmuni og réttindi barna, að hafa frumkvæði að úrbótum varðandi réttindi og aðstæður barna svo að þeim séu tryggð sem best og hollust uppvaxtarskilyrði, að vekja athygli á þeim árekstrum sem kunna að eiga sér stað milli hagsmuna barna og hinna fullorðnu í samfélaginu og vinna að lausn þeirra í samráði við þá aðila sem með þau mál fara, að vera opinberum aðilum og einstaklingum til ráðgjafar um allt það sem verða má til hagsbóta fyrir börn og hafa náið samstarf við alla þá aðila sem með málefni barna fara og loks að gangast fyrir rannsóknum á aðstæðum barna í samfélaginu og veita upplýsingar um stöðu þeirra, jafnt til einstaklinga sem opinberra aðila.“

Frv. gerir ráð fyrir að sjö manna ráðgjafarnefnd starfi með umboðsmanninum. Er fulltrúum flestra þeirra stétta sem sérstaklega vinna við uppeldismál ætlað þar sæti, en þeir eru: Barnaverndarráð Íslands, Fóstrufélag Íslands, Stéttarfélag ísl. félagsráðgjafa, Kennarasamband Íslands, Sálfræðingafélag íslands, Félag þroskaþjálfa og Félag uppeldisfræðinga.

Umboðsmanni ber síðan að skila árlegri skýrslu um starfsemina og skal hún lögð fyrir Alþingi. Þannig ættu hv. þm. að eiga greiða leið að því að fylgjast með starfi umboðsmannsins.

Loks er lagt til að lögin taki gildi 1. júlí 1987. Ég ætla ekki að þreyta hv. þm. á því að endurtaka það sem ég hef sett á blað í grg. sem þessu frv. fylgir. En ég vil þó aðeins minna á að það er auðvelt að sjá, ef litið er í kringum sig í þjóðfélaginu, að í því umróti sem Íslendingar hafa farið í gegnum á árunum síðan heimsstyrjöldinni síðari lauk hafa börnin orðið verst úti og e.t.v. hinir öldruðu. Þjóðfélag okkar er að litlu leyti miðað við þarfir barna og hinna öldruðu, þ.e. hinna svokölluðu óarðbæru þjóðfélagshópa. Okkar þjóðfélag er byggt fyrir þá hraustu, fyrir þá sem eru í fullu starfi.

Stjórnvöld hafa á engan hátt komið til móts við þarfir barnanna í þessu breytta þjóðfélagi. Við getum litið í kringum okkur í skólakerfinu. Grunnskólalögin leggja kennurum landsins á herðar að vinna eftir ákveðnum reglum sem um flest eru ágætar, en við þurfum ekki oft að koma í skóla landsins til að sjá hvernig aðbúnaður er þar, kennaralaun ekki lengur til þess að framfæra venjulega fjölskyldu og húsakynni venjulegast slík að stórlega vantar á að þeim sé haldið við eða nægilegt húsnæði sé byggt.

Sama er að segja um dagvistarmálin. Tíu ára áætlun um byggingu dagvistarstofnana er nú þegar orðin nær pappírsgagn eitt þó að þar væri um samninga milli stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar að ræða, og nær eingöngu börn einstæðra foreldra eiga nokkra möguleika á því að komast á dagvistarstofnanir. Hugmyndir manna um dagvistarstofnanir eru enn þá á þann veg að þær eigi að vera geymslustaður fyrir börn meðan foreldrarnir eru að vinna úti. Þetta er auðvitað fjarri öllu lagi. Eins og lög um byggingu og rekstur dagvistarstofnana kveða svo skýrt á um, eiga þær auðvitað að vera uppeldisstofnanir sem að verulegu leyti, hvort sem okkur líkar betur eða verr, koma í staðinn fyrir uppeldi foreldranna sem nú hafa báðir verið kallaðir fyrir margt löngu út á vinnumarkaðinn.

Sama er að segja ef við lítum í kringum okkur þegar skipulagsmál ber á góma. Það er algengara en ekki að ný íbúðahverfi séu byggð án minnsta tillits til barnanna. Umferðaræðar eru fyrir bifreiðar en ekki gangandi fólk og því síður börn, enda tala skýrslur um slysatíðni meðal barna á Íslandi sínu máli og er auðvitað ábyrgðarhluti að Alþingi Íslendinga skuli ekki fyrir löngu hafa skorist í þann leik.

Ég ætla ekki og treysti mér varla til að byrja á að tala um stöðu barna þegar kemur að menningarmálum því að segja má að þar séu þau nær algerlega hundsuð. Fjórðungur þjóðarinnar er algerlega í menningarlegu svelti. Ríkisfjölmiðlar hafa sáralítið fé fengið til að búa til gott og menningarlegt barnaefni. Meginafþreying barna, t.d. við að horfa á ríkisfjölmiðlana eða hlýða, eru auglýsingar. Við getum rétt hugsað okkur hvaða afleiðingar sú afskræmda mynd af tilverunni hefur í hugum ómótaðra barna. Menningarstefna gagnvart börnum er engin, eiginlega hvorki í fjölmiðlum, kvikmyndahúsum né leikhúsum og jafnvel ekki hjá bókaforlögum. Þar má segja að hending ráði hvað börnunum er boðið.

Það er alkunna meðal þeirra sem með málefni barna fara og kennara í skólum landsins að í æ meira mæli ber á að erfitt reynist að kenna börnum að lesa, ekki vegna þess að börnin séu lakar gefin en þau hafa verið nema síður sé, heldur er ástæðan einfaldlega sú að börnin kunna ekki að tala, þau hafa engan orðaforða, enda hafa þau engan til að tala við. Við áttum því láni að fagna að alast upp á heimilum þar sem gekk um lifandi fólk og maður hlýddi á samræður fullorðins fólks. Þeir tímar eru liðnir. Þessi kostur er ekki fyrir hendi á venjulegu íslensku heimili í dag. Og vegna þess að hér á þessum haustdögum hefur mikið verið talað um að viðhalda, vernda, efla og styrkja íslenska menningu, og er það vel, verða menn að gera sér grein fyrir að íslensk menning er sjálfdauð ef börnin í landinu taka ekki þátt í þeirri baráttu. Það liggur í augum uppi. Það eru þess vegna síðustu forvöð að gera átak í að efla menningu sem er eðlileg og sjálfsögð aðgengis fyrir börn og unglinga.

Spár Hagstofu Íslands um fjölda Íslendinga eftir um það bil 30 ár eru satt að segja áhyggjuefni. Nú er ég ekki að segja að svo einfalt sé málið að sé nógu vel búið að fjölskyldunni og foreldrum eignist fólk æ fleiri börn. Raunar vitum við öll að það er mikill munur á aðstöðu fjölskyldna á Norðurlöndum í kringum okkur og hér og ekki virðist það vera hvetjandi til þess að fólk raunverulega vilji eiga stórar fjölskyldur á okkar dögum.

Trú mín er hins vegar sú að við séum þarna verulega öðruvísi. Ég held að það sé miklu meira eftir af vilja Íslendinga til að eiga stórar fjölskyldur. En ég geri mér fullkomlega grein fyrir, og ég held að við hljótum öll að gera það, að það er ekki efnilegt fyrir ungt fólk að efna til stórrar fjölskyldu þar sem svo til engin þjónusta er við þetta unga fólk sem ætlast er til að vinni úti á vinnumarkaðnum oft óheyrilega langan vinnudag. Það fær skólavist fyrir börnin sem á engan hátt hentar fjölskyldunni þegar litið er til vinnudags allra fjölskyldumeðlima, Alþingi Íslendinga telur þrjá mánuði nægjanlegan tíma til að finna þau tengsl sem hafa áreiðanlega úrslitaáhrif fyrir hverja lifandi manneskju allt lífið með því að fæðingarorlof er einungis þrír mánuðir og svo mætti lengi telja. Því hefur einfaldlega ekki verið svarað hvert á að senda barnið þegar þeim tíma lýkur. Þjóðfélagið hefur ekkert svar við því. Það er ætlast til að það fari eitthvað, flækist milli dagmæðra þar sem vistin kostar kannske helminginn af launum annars foreldrisins fyrir heils dags vinnu o.s.frv. Og svo mikið er búið að tala um húsnæðismál að ég ætla ekki að fara að víkja að því líka. En það er í raun og veru sama hvert er litið. Foreldrar standa einfaldlega ráðþrota með börnin sín miðað við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu. Og ég held að Alþingi Íslendinga sé tilneytt að taka á þessum málum af alvöru og gera sér ljóst að það er löngu kominn tími til þess að a.m.k. einn starfsmaður í þjóðfélaginu hafi þá ábyrgð að fylgjast með því að réttindi barna séu tryggð og tillit tekið til þarfa þeirra við þær ákvarðanir sem teknar eru.

Ég vil að lokum, herra forseti, leggja til að þetta frv. fari að lokinni 1. umr. til umfjöllunar í hv. allshn.