10.03.1988
Sameinað þing: 59. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5707 í B-deild Alþingistíðinda. (3833)

325. mál, veiðieftirlitsskip

Björn Gíslason:

Herra forseti. Það sem fær mig til að standa hér upp er að styðja hv. 1. þm. Vestf. í þeirri gagnrýni sem hann hefur haft hér uppi um þessa ályktunartillögu. Ég held satt að segja að það sem fyrir tillögumönnum vaki sé komið til af góðu einu því að við hljótum öll að vera sammála um það að við þurfum að hefta þetta smáfiskadráp sem hefur viðgengist.

Ég held hins vegar að till. leysi ekki það verkefni, eitt veiðiskip sem á að fylgjast með á öllu þessu stóra hafsvæði sem um er að ræða. Menn hafa orðið varir við það að lokunum er beitt bæði fyrir vestan, fyrir austan og fyrir norðan, allt á sama tíma, og ég get ekki séð hvernig eitt skip á að leysa það.

Við urðum margs vísari t.d. þegar þm. fóru inn á Hafrannsóknastofnun. Þeir eiga þrjú skip. Þeir sögðu okkur þar að þau væru bundin þó nokkuð stóran hluta úr árinu. Ef hægt er að auka fjármagn til þessarar starfsemi hlýtur að vera hægt að nýta þessi skip betur, m.a. til þessara eftirlitsstarfa. Þá minni ég á það að Landhelgisgæslan hefur ekkert hlutverk eins og nú er. Þeirra skip eru meira og minna verkefnalaus líka. Því ekki að efla þá starfsemi sem við höfum á þessu sviði? Við getum nýtt okkar fjármuni betur þannig, með því að styrkja það kerfi sem við höfum. Við höfum kerfi veiðieftirlitsmanna um borð í veiðiskipum. Við gætum hugsanlega sett upp kerfi þar sem Hafrannsóknastofnun kæmi inn í með sínum skipum og nýtt þau betur. Eins gæti Landhelgisgæslan komið þarna inn í. Þá værum við komnir með miklu víðfeðmara kerfi sem mundi ná þessum tilgangi, held ég, betur en þessi till. reiknar með með einu skipi.