09.05.1988
Efri deild: 96. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7807 í B-deild Alþingistíðinda. (5941)

293. mál, áfengislög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Með skírskotun til þess sem hv. þm. Salome Þorkelsdóttir sagði, að ég styð stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, að ég styð stefnu íslenskrar heilbrigðisáætlunar, ég styð stefnu landlæknisembættisins og ég vil létta af heimilunum þeirri áþján sem fylgir aukinni áfengisneyslu, af öllum þessum ástæðum, virðulegi forseti, og svo því að ég vil að þingið axli ábyrgð gagnvart unga fólkinu og framtíðinni, af öllum þessum ástæðum og mörgum fleirum segi ég nei og bið menn enn að skoða hug sinn áður en þeir taka á sig þá ábyrgð sem fylgir því að hella áfengu öli yfir íslensku þjóðina.