26.11.1937
Neðri deild: 36. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

Minning látinna manna

*forseti (JörB) :

Áður en tekið verður til fundarstarfa vil ég minnast nokkrum orðum nýlátins merkismanns, sem sæti átti á Alþingi fyrr á árum, samtals á 5 þingum fyrir og eftir aldamótin síðustu, og sat þá lengst af í Nd., eða á 4 þingum. Þessi maður er séra Ólafur Ólafsson fríkirkjuprestur, sem andaðist hér í bænum í fyrrinótt, 82 ára að aldri.

Séra Ólafur Ólafsson fæddist í Viðey 24. sept. 1855, sonur Ólafs Ólafssonar, er þar bjó þá, síðar bæjarfulltrúi í Lækjarkoti í Reykjavík, og fyrri konu hans, Ragnheiðar Þorkelsdóttur, bónda í Norðurhjáleigu Gíslasonar. Séra Ólafur útskrifaðist úr latínuskólanum í Reykjavík 1877 og úr prestaskólanum 3 árum síðar, 1880. Sama ár voru honum veitt Selvogsþing. Þar var hann prestur í tæp 4 ár og sat á Vogsósum, en á öndverðu ári 1884 voru honum veitt Holtaþing. Því embætti gegndi hann um 9 ára skeið, til 1893, og bjó í Guttormshaga. Þá fékk hann veitingu fyrir Arnarbælisprestakalli í Ölfusi. Þar var hann prestur í önnur 9 ár rúm, eða til 1902, og bjó búi sínu í Arnarbæli. Á því ári fékk hann lausn frá embætti, fluttist til Reykjavíkur og gerðist ritstjóri Fjallkonunnar. Því blaði stýrði hann til 1904. Á árinu 1903 var hann ráðinn fríkirkjuprestur í Reykjavík og gegndi því starfi í 20 ár, til 1922. Frá árinu 1913 var hann jafnframt fríkirkjuprestur í Hafnarfirði og lét ekki af því starfi fyrr en árið 1930. Frá því er geðveikrahælið á Kleppi tók til starfa, 1907, annaðist hann jafnframt prestsþjónustu þar, og eru fá ár síðan hinn hvarf frá því starfi. Alls hafði hann verið þjónandi prestur í meira en 50 ár.

Séra Ólafur naut mikilla vinsælda í öllum söfnuðum sínum, þótti einn hinna skörulegustu kennimanna landsins, og mælsku hans og orðgnótt var við brugðið.

Jafnframt prestskapnum gaf hann sig og um langt skeið við þjóðmálum og átti, eins og áður er sagt, sæti á 5 þingum. Á þinginu 1891 var hann 2. þm. Rang., 10 árum síðar, á þinginu 1901 þm. A.-Sk. og loks á þingunum 1903, 1905 og 1907 2. þm. Árn. Á þingi var hann einn hinna málsnjöllustu manna. Af áhugamálum hans má einkum nefna sjálfstæðismálið, bindindismál og ýms mannúðarmál. Hann kom fyrstur manna hreyfingu á stofnun holdsveikraspítala hér á landi, með greinaflokki um það mál í blaði. Hann flutti fyrirlestra og ræður um ýms hugðarefni sín og gaf út. Af þeim mun einna kunnast erindi hans „Hvernig er farið með þarfasta þjóninn“, um meðferð manna á hestum, og er talið, að mjög hafi sú hugvekja haft áhrif til umbóta í aðbúnaði við skepnur. Einnig þýddi hann ýmsar útlendar bækur, svo sem Þjóðmenningarsögu Norðurálfunnar, Hjálpaðu þér sjálfur, eftir Samuel Smiles, og Foreldra og börn. Meðan hann var sveitaprestur bjó hann marga pilta undir latínuskólanám og þótti ágætur kennari.

Séra Ólafur Ólafsson mun jafnan verða talinn í hópi hinna merkustu og þjóðhollustu kennimanna landsins á sinni tíð, og skörungur mikill í hverju máli, sem hann beitti sér fyrir.

Ég vil biðja hv. þdm. að votta minningu þessa þjóðkunna manns virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum.

[Allir deildarmenn risu úr sætum].

9. fundi í Sþ., 29. nóv., mælti