06.06.1941
Sameinað þing: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1295 í B-deild Alþingistíðinda. (99)

Minning Þorleifs Guðmundssonar

forseti (HG) :

Áður en fundarstörf hefjast, vil ég minnast nokkrum orðum nýlátins fyrrv. þingmanns, Þorleifs Guðmundssonar frá Háeyri. Hann andaðist hér í bænum í gær, 59 ára að aldri.

Þorleifur Guðmundsson var fæddur 25. marz 1882 á Stóru-Háeyri á Eyrarbakka, sonur Guðmundar Ísleifssonar, bónda og kaupmanns þar, og konu hans, Sigríðar Þorleifsdóttur, kaupmanns á Stóru-Háeyri Kolbeinssonar. Í æsku naut hann ekki annarrar menntunar en venjulegrar barnaskólafræðslu. Á árunum 1905–1906 var hann pöntunarfélagsstjóri á Eyrarbakka og næstu 2 ár, 1907–1908, sölustjóri kaupfélagsins Ingólfs s. st. Á næstu 5 árum, 1949–1914, stundaði hann verzlunarstörf og kaupmennsku í Reykjavík og á Eyrarbakka, en gerðist bóndi og útvegsmaður í Þorlákshöfn 1914. Þar var hann í 14 ár, til 1928, en fluttist þá að Garði á Eyrarbakka og bjó þar til 1930, en þá fluttist hann til Reykjavíkur og starfaði hér framan af einkum að fiskverzlun, en á síðari árum helgaði hann starf sitt eingöngu Góðtemplarareglunni, gerðist regluboði og ferðaðist um landið í því skyni.

Hann var 2. þingmaður Árnesinga á fjórum þingum 1920–1923, og mörg önnur trúnaðarstörf voru honum falin í héraði. Hann var m. a. sýslunefndarmaður Ölfushrepps 1919–1922, formaður verkamannafélagsins Bárunnar á Eyrarbakka 1929–1930 og formaður fiskifélagsdeildarinnar Framtíðarinnar s. st. á sömu árum, eða þar til hann fluttist úr héraðinu.

Árið 1924 hlaut hann heiðursmerkið „For Saving Subjects“ fyrir björgun skipshafnar af enskum togara, „Viscount Allanby“ úr sjávarháska við Þorlákshöfn.

Þorleifur Guðmundsson var maður skapmikill, en stillti þó skap sitt að jafnaði vel, afrenndur að afli og vaskleikamaður, svo sem hann átti kyn til, áhugasamur um þjóðmál, hagyrðingur góður, léttur í máli og þýður í viðmóti, enda naut hana hvarvetna mikilla vinsælda,

Ég vil biðja hv. þm. að votta minningu þessa látna manns virðingu sína með því að rísa úr sætum sínum,

(Þingmenn risu úr sætum.)