19.11.1952
Sameinað þing: 14. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (2641)

68. mál, síldarleit

Flm. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Með till. þeirri til þál., sem hér er til umr., er farið fram á það, að ríkisstj. geri ráðstafanir til þess að fá hentugt skip til þess að annast síldarleit fyrir Norður- og Norðausturlandi næsta sumar og fram á haustið. Er gert ráð fyrir því, að allur kostnaður, sem leiða kann af leitinni, greiðist úr ríkissjóði.

Um það þarf ekki að fjölyrða, hvaða afleiðingar aflabresturinn fyrir Norðurlandi undanfarandi sumur hefur haft fyrir þjóðarbúskap okkar Íslendinga. Af hálfu þess opinbera hafa að vísu margvíslegar ráðstafanir verið gerðar til þess að vega á móti og draga úr mestu vandræðunum, en af skiljanlegum ástæðum hafa þær hrokkið skammt, þar sem ekkert getur jafnazt á við síldveiðina. Aflabresturinn hefur sérstaklega komið hart niður á fjárhagnum, þar sem Íslendingar hafa á undanförnum árum lagt í stórkostlega fjárfestingu til þess að búa sem bezt í haginn fyrir síldariðnaðinn og söltunina. Þessar ráðstafanir töldust sjálfsagðar á sínum tíma, þar sem mikil síldveiði var fyrir Norðurlandi og Austurlandi flest árin fyrir 1945. Er skemmst að minnast þess, að veiðiskipin urðu oft að bíða löndunar svo að dögum skipti svo til allan ágústmánuð og fram í september sumarið 1944.

Þegar litið er á reynslu undanfarandi ára, er varla hyggilegt að gera eingöngu ráð fyrir síldveiðum á venjulegum miðum næsta ár eða jafnvel á næstu árum. Útgerðarmenn hafa orðið fyrir það þungum áföllum s. l. sumar, að þeir munu vera hikandi við að gera út á síld fyrir Norðurlandi næsta sumar með sama hætti og verið hefur að óbreyttum aðstæðum. Getur því svo farið, að á næsta sumri verði ekki nema um tvo möguleika að ræða fyrir bátaflotann: Í fyrsta lagi að stunda veiðar við Grænland, en eins og mönnum er kunnugt, er þar miklum örðugleikum að mæta og áhættusamt, nema þar fáist fastar bækistöðvar í landi. Í öðru lagi að stunda reknetjaveiðar úti í hafi, eins og nokkur skipanna hafa nú gert í haust með góðum árangri. Þær veiðar munu að vísu aðeins stærri skipin geta stundað, eða skip yfir 80 smál. að stærð.

Upplýsingar liggja fyrir um það, að reknetjaveiði Norðmanna hafi gengið sæmilega hér við land undanfarandi sumur. Þakka kunnugir það að verulegu leyti þeirri þjónustu, sem síldarleitarskipið G. O. Sars hefur veitt norska flotanum með því að hafa uppi á síldinni og beina flotanum þangað. Skip þetta er búið öllum fullkomnustu tækjum og áhöfnin þaulreynd og kunnug öllu því, er viðkemur síldarrannsóknum og síldveiði. Síldarleitarskipið hefur lagt úr höfn á undan flotanum og reynt fyrir sér á þeim svæðum, sem líklegast hefur verið talið að síldin héldi sig á. Síðan hefur skipið sent síldarflotanum leiðbeiningar.

Flestir ef ekki allir útgerðarmenn munu nú vera þeirrar skoðunar, að brýna nauðsyn beri til, að vér Íslendingar fáum til umráða sams konar skip og G. O. Sars, búið jafngóðum tækjum. Mun sú skoðun almenn og á rökum reist, að síldarleit okkar hafi verið alls kostar ófullnægjandi undanfarandi ár. Í stuttu máli hefur henni verið þannig háttað, að skip hafa verið send út að leita að vorinu, en hefur ekki verið ætlað það sérstaka hlutverk, eftir að vertíðin er byrjuð. Útgerðarmenn telja, að leitin þurfi að standa yfir allt sumarið og fram á haust. Á aðalfundi L. Í. Ú., sem haldinn var í fyrra, var samþ. eftirfarandi till., með leyfi hæstv. forseta:

„Fundurinn skorar á síldarleitarnefnd að beita sér fyrir því, að a. m. k. eitt síldarleitarskip hér við land verði útbúið með elac- eða asdic-tækjum og verði skip þetta til aðstoðar síldveiðiflotanum íslenzka á sama hátt og norska síldarleitarskipið G. O. Sars leiðbeinir norska flotanum.“

Mér er ekki kunnugt um, hverju síldarleitarn., sem getið er um í ályktuninni, hefur fengið áorkað í starfi sínu. Nefndin mun hafa verið lögð niður s. l. vor og atvmrn. tekið við störfum hennar. Nefndin hafði með höndum rannsóknir á nýjum síldveiðiaðferðum og hafði í því skyni fé til ráðstöfunar, sem veitt var í fjárlögum. Á nýafstöðnum aðalfundi L. Í. Ú. var og samþ. ýtarleg till. um síldarleit, sem birt hefur verið í blöðunum. Ég tel eðlilegt, að atvmrn. annist allar framkvæmdir í sambandi við síldarleitina.

Með till. þessari til þál. er tekið undir óskir útgerðarmanna og allra þeirra aðila, sem eiga afkomu sína að meira eða minna leyti undir síldveiðunum, sem segja má að sé öll þjóðin. Reynslan hefur þegar sýnt, að vér Íslendingar verðum að laga okkur eftir öllum aðstæðum og fylgjast með tímanum, ef okkur á að takast að hafa þær nytjar af síldveiðunum, sem nauðsynlegt er fyrir þjóðarbúskap okkar. Að sjálfsögðu hafa þær ráðstafanir, sem gera þarf, kostnað í för með sér. En beri þær tilætlaðan árangur, verður hann margendurgreiddur á skömmum tíma.

Að lokinni þessari umr. óska ég eftir, að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn.