11.11.1952
Neðri deild: 24. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (3291)

138. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Flm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um breyt. á l. um stofnlánadeild sjávarútvegsins, nr. 41 frá 1946, og er sérstaklega ætlað að leysa úr stofnlánaþörf sjávarútvegsins og þau vandamál, sem risið hafa nú í sambandi við það.

Svo sem frv. ber með sér, þá er 1. gr. þess umorðun á 6. gr. l., eins og hún er núna, og felur þess vegna í sér í upphafi það, að 6. gr. l., eins og hún er núna, fellur niður, en 6. gr. l. fjallar um það, að stofnlánadeildin skuli endurgreiða seðlabankanum á hverju ári jafnháa upphæð og þau A-lán nema, er falla í gjalddaga á því ári, án tillits til þess, hvort skuldunautar deildarinnar greiða á tilteknum tíma. Þessi 6. gr. hefur verið framkvæmd þannig, að þær 100 millj., sem seðlabankinn lánaði stofnlánadeildinni upphaflega, hafa verið borgaðar inn í seðlabankann jafnóðum og þær hafa átt að borgast inn til stofnlánadeildarinnar. Áhrifin af þessu hafa orðið þau, að stofnlánadeildin er hægt og hægt að strikast út. Ekki safnast fyrir í henni neinir vextir eða neitt slíkt, vegna þess að seð1abankinn mun taka eiginlega alla þá vexti, sem stofnlánadeildin fær, sem eru 2,5%, og ætlar víst stofnlánadeildinni ekki nema 0,1%, sem er rétt aðeins fyrir starfsemi hennar, og verða þess vegna engir fjármunir eftir í deildinni. Það er sem sagt sýnilegt, að fyrir seðlabankanum vakir að strika þessa lánadeild út.

Ég tel vera mjög mikla þörf á því, að þessi stofnun sé gerð að varanlegri lánastofnun fyrir útveginn. Þegar hún var stofnuð 1946, þá stóðu sakir þannig, að Íslendingar áttu mikla fjármuni í erlendum gjaldeyri og voru sammála um, að það væri mikil nauðsyn á því, að keypt væru skip, sérstaklega fiskiskip, inn til landsins. Þá var stofnuð þessi deild, þannig að það var stofnuð A-deild og B-deild. A-deildin átti að lána það, sem var lánað í erlendum gjaldeyri. T. d. voru togararnir, skipin, sem byggð voru í Svíþjóð, og fleira greidd með gjaldeyri, sem bankarnir höfðu á sínu valdi, og síðan var þeim, sem keyptu þessi tæki hér innanlands, lánað úr A-deildinni. Vegna þess að heildarkostnaðarverð þessara atvinnutækja var greitt upphaflega í erlendum gjaldeyri, þá voru þau talin í A-deild í stofnlánadeildinni og lánuð upphæð út á þau, sem samsvaraði 2/3 hlutum og 3/4 hlutum, ef viðkomandi bæjarfélag ábyrgðist lánið, þangað til það hafði greiðzt niður um helming. Þetta varð til þess, sem ekki er óeðlilegt, að það var betra að fá lán til þess að kaupa skip erlendis, láta smíða þau þar, heldur en hér innanlands. Þetta varð vitanlega af sjálfu sér með togarana. Við höfum ekki tök á því að smíða togara sjálfir. En þetta má segja að hafi verið illu heilli með fiskiskipin, vegna þess að það er komið á daginn núna, að það hefði verið betra að smíða fiskiskipin innanlands. Við höfum fulla möguleika til þess. Við eigum skipasmíði, sem eru fyllilega jafnfærir erlendum skipasmíðum til að smíða tréskip, og það bendir ýmislegt til þess, að það hefði verið hægt að smíða þau hér fyrir mjög svipað verð og þau hafa verið smíðuð erlendis og sennilega þó haldbetri, vegna þess að það hafa komið fram ýmsir gallar á þessum skipum, Svíþjóðarbátunum, þó sérstaklega í sambandi við vélarnar, sem hefur orðið til þess, að eigendum þeirra eða þeim, sem tóku við þessum skipum, þegar þau voru komin hingað inn, hefur orðið erfiðara að reka þessi skip en annars hefði þurft að vera.

Nú eru þessi rök fyrir því að skipta stofnlánadeildinni niður í A-deild og B-deild í raun og veru algerlega úr sögunni. Við höfum engan þann gjaldeyrissjóð erlendis, sem ástæða er til að halda að verði notaður til stórfelldra kaupa á atvinnutækjum, enda býst ég við því, að á sviði fiskiskipa þurfi ekki nú orðið að gera eins stór átök og gert var á árunum 1945–47 og á meðan skipin voru að koma hingað upp, og má segja, að aðstæður landsins og þjóðarinnar hvað snertir fiskiskipastól séu nú miklum mun betri, en þá var. Hins vegar sýnir það sig, að það er óhjákvæmilegt á hverju ári að reikna með því, að það þurfi að endurbæta og fylla upp í skörð í fiskiflota okkar, og eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja, þá mun það vera svo, að fiskiskip, sem nema allt að þúsund tonnum brúttó, hverfi úr sögunni á hverju ári. Nokkuð af því er að vísu skip, sem ekki hafa verið starfrækt þannig núna um lengri tíma, sérstaklega ýmsir af gömlu bátunum, sem eru smám saman að falla út af skrá og verða ónothæfir og komast í það ástand, að engum manni dettur í hug að hreyfa þá framar. En þessar tölur sýna þó, að það er óhjákvæmilegt að halda áfram að geta byggt skip í skörð þeirra, sem falla úr á einn eða annan hátt. Það liður ekki svo ár, að við missum ekki fleiri skip og sum þeirra meira að segja með öllum mannskap, og hefur það komið fyrir núna þráfaldlega á síðustu árum, að skip hafa týnzt alveg, og það meira að segja skip, sem hafa verið keypt inn með fé úr stofnlánasjóði, úr A-deildinni. Þar á ég sérstaklega við gömlu Svíþjóðarbátana, sem keyptir voru inn og eru, þó að þeir hafi gott skipalag og séu að mörgu leyti heppilegir í rekstri, yfirleitt með lélegum vélum og gömlum, og sérstaklega er þó yfirbygging þeirra ekki eins traust og yfirbygging á íslenzk-byggðum bátum, og telja sumir, að það, hvað margir af þessum sænsku bátum hafa farizt, þannig að ekkert hefur til þeirra spurzt, stafi af því, að tekið hafi ofan af þeim yfirbygginguna. Slíkt hefur ekki komið fyrir íslenzku skipin. Þau hafa staðið sig betur í hinum miklu veðrum, sem oft skella á hér á vetrarvertíðinni, og stafar það af því, að þau eru öll rammbyggilegar gerð, en þessi erlendu skip. Þetta sýnir okkur, að við getum ekki trúað öðrum þjóðum fyrir því að byggja okkar báta. Þeir gera sér það ekki ljóst niðri í Svíþjóð, hvers konar sjólag er hér við Ísland að vetrinum til og hvað styrkurinn, sérstaklega í yfirbyggingunni, þarf að vera mikill til, þess, að bátarnir standist þau óskaplegu veður, sem hér geta skollið á. Íslenzku bátarnir hafa sem sagt gefizt betur. Og það ætti m. a. að vera mikil hvöt fyrir okkur til að halda áfram stöðugt að byggja íslenzk skip, gefa íslenzkum skipasmíðastöðvum verkefni og fylla í skörðin með góðum bátum, sem við vitum af reynslu okkar að munu reynast betur en skip, sem við höfum getað fengið erlendis frá. Til þess að þetta sé hægt, þá þarf að breyta stofnlánadeildinni í varanlegan lánasjóð, stofnlánasjóð útvegsins. Ég tel, að þarna sé eitt stærsta verkefnið, að halda áfram að byggja skip nægilega mikið til þess að halda við okkar bátaflota. Að svo komnu held ég, að það sé ekki sérstök þörf fyrir að auka flotann frá því, sem komið er. Það þarf miklu frekar að gera ráðstafanir til þess, stjórnmálalegs eðlis, fjárhagslegs eðlis, að tryggja lengri rekstrartíma hvers báts, heldur en nú er. En hins vegar er óhjákvæmilegt að gæta þess, að bátarnir týni ekki tölunni, þannig að útgerðin dragist saman. Á s. l. tveimur árum hefur verið nokkuð um það, að menn hafa keypt báta erlendis frá, byggða í Danmörku og jafnvel víðar, sérstaklega þeir menn, sem hafa misst báta sína í veðrum hérna eða af einni eða annarri ástæðu. Það held ég að sé ekki heppileg þróun, vegna þess að þeir bátar reynast aldrei eins vel og þeir íslenzku.

Sem sagt, fyrsta breyt., sem þetta frv. felur í sér, er það, að stöðvuð verði sú útstrikun á stofnlánadeildinni, sem felst í 6. gr. l., eins og þau eru nú, og stofnlánadeildin verði gerð að fastri lánastofnun, sem heldur áfram að lána stofnlán til sjávarútvegsins.

Þegar svo er komið, að menn sjá nauðsyn þess, að þarna sé haldið áfram stöðugri lánastarfsemi til sjávarútvegsins, þá er nauðsynlegt að breyta — og því gerir frv. ráð fyrir — þessu um þessar 100 millj., sem lánaðar voru stofnlánadeildinni upphaflega, þannig að það verði ekki um lán að ræða, heldur verði þetta aðeins talið sem framlag, sem liggur í þessari stofnlánadeild til notkunar í þessu ákveðna skyni, sem l. um stofnlánadeild gera ráð fyrir, og það er skýrt markað í 3. gr. þeirra l. Lánunum frá seðlabankanum samkv. 4. gr. er sem sagt breytt í það að verða framlag frá seðlabankanum til stofnlánadeildarinnar til varanlegrar notkunar þar. Eins og nú er komið, þá mun stofnlánadeildin vera búin að endurgreiða seðlabankanum nokkra milljónatugi af upphaflegum lánum. Ég hef ekki þær tölur við höndina, — það skiptir ekki heldur mestu máli, — en í frv. er gert ráð fyrir, að þessi upphæð verði afhent stofnlánadeildinni á nýjan leik, til þess að hún sé fyrir hendi til þeirrar starfsemi, sem stofnlánadeildinni er ætlað að inna af höndum.

Með tilliti til þess, að stofnlánadeildinni var upphaflega þannig háttað, að það var betur hægt að komast af með að láta byggja fiskiskip erlendis, það var hægt að fá hagstæðari lán með því móti, þá höfum við flm. sérstaklega tekið hér upp í frv., að lán út á fiskiskip, sem byggð séu innanlands, skuli að öðru jöfnu ganga fyrir. Ég tel nauðsynlegt, að það komi nú skýrt fram, þegar við förum að viðhalda okkar bátaflota, að þá viljum við sérstaklega, að íslenzkar skipasmíðastöðvar vinni að því viðhaldi og þeim endurbyggingum, sem þarf að framkvæma, vegna þess að reynslan hefur sýnt það, að þær eru vel færar til þess, og vegna þess líka, að ef stöðug smíði á sér stað hér innanlands, þá fer ekki hjá því, að íslenzkum skipasmíðastöðvum takist að fullkomna svo sína handiðn og sína báta, að við verðum vel færir um það að bera okkur saman í því efni við hverja aðra. Með nokkurri tilhliðrunarsemi í tollamálum má líka sennilega gera þessa báta mikið til jafnódýra og erlendu bátana. Það er líka ótalið það fé, sem hefur farið í það að lagfæra ýmsa af þeim bátum, sem smíðaðir eru erlendis, vegna þess að þegar þeir koma hingað upp, þá er eitt og annað við þá báta, sem íslenzkir fiskimenn vilja ekki sætta sig við og vilja ekki una, og þá þarf að breyta því með ærnum kostnaði. Þegar tekið er tillit til þessara atriða, þá eru íslenzku skipasmíðastöðvarnar sem næst samkeppnisfærar hvað verð snertir við erlendar skipasmíðastöðvar.

Við flm. höfum talið, að það væri hyggilegast að fela framkvæmdastjórn Landsbankans að annast stjórn sjóðsins og taka ákvarðanir um lánveitingar úr honum. Eins og l. voru samþ. á sínum tíma, þá var nýbyggingarráði ætlað að úrskurða um það, hverjir fengju þessi lán, — það var nefnilega í sambandi við ráðstöfunina á gjaldeyrinum erlendis eðlilegt, að það félli undir þá stofnun, sem hafði með gjaldeyrinn að gera. En nú, þegar hér verður eingöngu um innlenda lánastofnun að ræða, þá er eðlilegast, að stjórn Landsbankans annist þessa hluti og taki ákvarðanir um lánveitingar og hvaða tryggingar hún heimtar fyrir lánum.

Það hefur verið mikið um það rætt, að nauðsyn sé á því að koma af stað einhverjum skipabyggingum hér innanlands og halda þeim gangandi. Ég flutti á síðasta þingi þáltill. um það, að ríkið hlutaðist til um, að það yrðu smíðaðir 10 fiskibátar. Og það er ekki meira en sem svarar því, sem hefur helzt úr lestinni á tæpum tveimur árum. Þetta er líka nauðsynlegt til þess bókstaflega að halda skipasmíðastöðvunum gangandi í landinu. Það er ekki hægt að halda skipasmíðastöðvunum gangandi með viðgerðum einum saman, þó að viðgerðirnar séu gersamlega óhjákvæmilegar, til þess að bátaflotinn geti yfirleitt starfað. Það er þannig óhjákvæmileg nauðsyn, að alltaf stöðugt sé byggt eitthvað af bátum innanlands, sem skipasmíðastöðvarnar geta haft við höndina og sett sinn vinnukraft í þess á milli, að þær snúa sér að því að vinna að viðgerðum við bátana fyrir vertíðir, eins og gerist og gengur.

Það er náttúrlega alltaf álitamál, hvað mikið eigi að byggja, en ég býst við því, að það muni enginn mæla því í gegn, að það sé óhjákvæmilegt að halda áfram nokkrum nýbyggingum stöðugt hér innanlands. Með því að breyta stofnlánadeildinni svona, eins og gert er ráð fyrir með þessu frv., þá er líka aðstaða stofnlánadeildarinnar til þess að lána út á ýmislegt annað en báta og skip miklu rýmri en áður hefur verið. En samkv. 3. gr. má lána út á ýmislegt annað en fiskiskip, svo sem hraðfrystihús, beitugeymsluhús, niðursuðuverksmiðjur, verksmiðjur til vinnslu á fiskúrgangi, lifrarbræðslu, skipasmíðastöðvar, jafnvel dráttarbrautir, vélsmiðjur, verbúðir í viðleguhöfnum og ýmislegt fleira, vegna þess að með hverju ári má segja að komi fram nýmæli og nýjungar á sviði sjávarútvegsins. Við verðum að breyta okkar framleiðslu eftir því, sem markaður er fyrir okkar vörur. Og liggja fyrir okkur vafalaust núna stórfelld átök í því sambandi að geta unnið betur okkar sjávarafurðir heldur en við höfum gert fram að þessu. Það mundi líka auka okkar möguleika til þess að geta rétt okkar gjaldeyrishalla, ef betur væri að sjávarafurðunum unnið, áður en þær eru sendar út úr landinu.

Verkefni stofnlánadeildarinnar eru þess vegna ótæmandi, og ég tel ekki vera forsvaranlegt, að það fé, sem upphaflega var lagt til þess að tryggja sjávarútveginn með stofnlán, verði þannig frá henni tekið, þegar verkefni hlaðast stöðugt upp, sem er óhjákvæmilegt að verði leyst.

Samtök útvegsmanna hafa nú undanfarið verið að ræða um þessi stofnlán, og þau hafa, eftir því sem ég sé í blöðunum, gert samþykkt um að lengja lánstímann. Inn á það er ekkert farið í þessu frv. Þetta gæti vitanlega vel komið til mála, og væri rétt að láta fagmenn líta á það, hvað hæfilegt er að lána til langs tíma út á jafngóð skip eins og fiskiskipin okkar, þau nýrri, eru yfirleitt núna, og sérstaklega er athugandi, hvort ekki væri hægt að hjálpa til við þá stundarörðugleika, sem sjávarútvegurinn á nú við að stríða, með því að slaka eitthvað til á þessum afborgunum. En það er í raun og veru mál, sem ekki snertir þetta atriði, sem frv. okkar hv. 2. þm. Reykv. fjallar um. Mun ég ekki ræða það frekar að svo komnu. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta mál, en vil gera það að till. minni, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn. þessarar deildar.