01.02.1956
Sameinað þing: 37. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

1. mál, fjárlög 1956

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur, fjær og nær. Ég vil leyfa mér að gleðjast yfir því mikla sólskini, sem var í niðurlagi ræðu hv. 2. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, en það leyndi sér ekki, að hann taldist vera sú mikla hæna, sem mundi breiða sig yfir alla þjóðina með sína kommúnistakenningu nú á næstu mánuðum. Á annan hátt var ekki hægt að skilja allt það sólskin og alla þá gleði, sem lýsti sér í því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um þetta atriði, og ég samgleðst honum hjartanlega, hvernig svo sem efndirnar kunna nú að verða.

Í umræðum slíkum sem þessum vill það tíðast við brenna, að stjórnarandstaðan skrumskælir staðreyndir og færir úr lagi rétt rök sér og sínum hagsmunum til framdráttar, að því er hún hyggur a. m. k. Og ekki brugðu stjórnarandstæðingar þeirri venju í umræðum þeim, sem hér fóru fram í fyrrakvöld. Hitt mun sannara, að þeir hafi aldrei lengra gengið í þá átt að rangfæra staðreyndir og falsa frásagnir, þannig að sú mynd, sem þeir drógu upp af stjórnmálaástandinu, var algerlega og háskalega röng. Ég segi: háskalega röng, því að það er háskalegt að villa um fyrir almenningi í mikilsverðum málum. Og það stefnir til upplausnar, niðurrifs, eins og ljós dæmi sanna. En hér verður að treysta því enn sem fyrr, að hinir almennu borgarar hafi þroska og manndóm til þess að gera sér grein fyrir því, hvað rétt sé, en láti ekki blekkjast af rangfærslum og útúrsnúningum.

Að sjálfsögðu gengu kommúnistar fram fyrir skjöldu um allar staðleysur. Hví skyldu þeir nota rétt rök, borgaraleg rök? Þeirra hlutverk er allt annað. Samkvæmt eðli sínu og fyrirmælum yfirboðara sinna eiga þeir að rífa niður, beita sýndarrökum, villa um í því skyni að ríða þjóðfélaginu á slig, hvenær sem það er hægt. Þetta eru menn farnir að þekkja eða ættu að vera það a. m. k. En alltaf virðast þeir, þ. e. a. s. kommúnistarnir, treysta því, að einhverjir ljái eyru að boðskap þeirra. Hins ætti að mega vænta af þeim flokkum, sem kenna sig við lýðræði, að þeir geri sér ljósa þá ábyrgð, sem stjórnarandstöðu fylgir. En ekki var því nú að heilsa við umræðurnar í fyrrakvöld. Þeir virtust sækja fram við hlið hv. 2. landsk. þm., Brynjólfs Bjarnasonar, undir hinum austrænu merkjum.

Uppistaðan í ræðum stjórnarandstöðunnar allrar var í stuttu máli þessi: Þær tvær ríkisstj., sem farið hafa með völd um s. l. 6 ár, hafa ekkert vel gert þjóðinni til handa. Ferill þeirra er samfelldur hrakfallabálkur, svo að nú er allt komið í strand, virðist ástæðan helzt vera heimska og illvilji jöfnum höndum. Þessum augljósa sleggjudómi var varpað fram í skjóli hinna gífurlegu erfiðleika, sem sjávarútvegurinn og þar með útflutningsverzlun þjóðarinnar hefur átt við að etja um undanfarin ár. Þessir erfiðleikar eru þannig vaxnir, að vissulega þarf samstillt átök allrar þjóðarinnar til þess að sigrast á þeim. Mér virðist því, að mjög skorti þjóðhollustu og ábyrgðartilfinningu hv. stjórnarandstöðu, því að vissulega verður að vænta þess, að stjórnarandstaða í lýðræðisríki líti fyrst og fremst á hag þjóðarinnar, en láti ekki flokkssjónarmið ráða gerðum sínum og athöfnum um of. Og þegar vandamálin eru jafngeigvænleg og nú, þar sem öll útflutningsverzlun þjóðarinnar á í hlut, verður að gera því meiri kröfur til stjórnarandstöðunnar um, að hún láti þröng flokkssjónarmið ekki ráða of miklu, heldur taki einhuga þátt í bjargarráðstöfunum.

Ég mun nú ekki í þeirri stuttu ræðu, sem ég hef tækifæri til að flytja hér, ræða þessi mál, er snerta útflutningsverzlunina og sjávarútveginn, þar sem það hefur verið gert rækilega af öðrum ráðherrum, en mun snúa mér að öðrum málaflokkum.

Ég mun fara nokkrum orðum um þá málaflokka, sem í umsjá minni og þeirra ráðuneyta, sem ég stjórna, hafa verið undanfarið, sumir um 6 ára skeið, en aðrir um skemmri tíma.

Þessi mál eru kirkjumál, landbúnaðarmál, raforkumál og félagsmál. Auk þess hef ég lítinn hluta samgmrn., svo sem Veðurstofu Íslands og rannsóknaráð ríkisins o. fl. Ég skal nú fara nokkrum um hvern þessara aðalflokka og skýra mjög stuttlega frá helztu aðgerðum varðandi þá hin síðustu árin.

Ég skal fyrst nefna kirkjumálin. Þau valda sjaldan miklum pólitískum átökum, enda ef til vill óeðlilegt, að svo sé. Þó er það allmjög misjafnt, hvernig að þeim er staðið á hverjum tíma í þjóðfélaginu. Á þessu sviði er meira aðhafzt nú en nokkru sinni fyrr. Á þessu ári eru 900 ár frá því, að biskupsstóll var settur í Skálholti. Verður það ávallt talinn einn allra merkasti atburður í sögu Íslendinga. Alþjóð er kunnugt, að Skálholt hefur verið vanrækt og það mjög til þessa. Þessi annar höfuðstaður þjóðarinnar um margar aldir hefur lent í raðir venjulegra bændabýla. Fátt eða ekkert er þar, sem minnir á hina fornu frægð staðarins og þau miklu áhrif, sem þaðan bárust varðandi trúarlíf og alla menningu þjóðarinnar. Núverandi ríkisstj. hefur tekið mál þetta föstum tökum. Hafa þegar verið veittar í fjárl. síðustu ára 5 millj. kr. til endurreisnar Skálholtsstaðar. Er nú unnið þar að því að reisa virðulegt prestssetur, kirkju og fleiri mannvirki, svo að þetta elzta og merkasta trúar- og menningarsetur verði á ný reist úr rústum og gert að miðstöð einhverra þátta menningarmála þjóðar okkar. — Þess má og geta, að 2–3 síðustu árin hefur meiri upphæðum en nokkru sinni fyrr verið varið til þess að reisa prestssetur og útihús á prestssetrum víðs vegar um land.

Þessu næst vil ég nefna landbúnaðarmálin með fáum orðum.

Síðastliðið ár var á marga lund erfitt íslenzkum landbúnaði. Sérstaklega voru það óþurrkarnir um Suðurland og mikinn hluta Vesturlands, sem ollu feiknatjóni. Hafa slíkir óþurrkar ekki komið í þessum landshlutum um marga áratugi. Munu um 2/3 hlutar bænda landsins hafa orðið fyrir þessum vágesti, að vísu í mismunandi mæli, en þó allir mjög tilfinnanlega. Ríkisstj. tók þetta mál til meðferðar og varð ásátt um, að nauðsyn bæri til, að ríkið rétti hjálparhönd til þeirra, sem fátækastir væru og mest afhroð hefðu goldið. Samkv. þeim rannsóknum, sem gerðar voru, hafa um 12½ millj. kr. með mjög vægum vöxtum verið veittar sem lán til fóðurbætiskaupa til þeirra bænda á óþurrkasvæðinu, sem verst eru settir. Þá hafa verið veittar um 700–800 þús. kr. sem styrkur til þeirra bænda, er keypt hafa hey utan óþurrkasvæðis og flutt heim til sín. Einnig hefur nokkru fé verið varið til niðurgreiðslu vaxta vegna óvenjumikilla kjötbirgða, þar sem slátrun var með langmesta móti. Mestallt þetta fé hefur fengizt af tekjuafgangi ríkissjóðs.

Eitt það markverðasta, sem gerzt hefur á þessu ári varðandi landbúnað, er það, að dilkakjöt er nú flutt aftur á erlendan markað eftir 10–15 ára hlé. Munu út verða fluttar ekki minna en 1500 smálestir. Útfluttar landbúnaðarvörur, þ. e. kjöt, gærur, ull og ostur, fá útflutningsuppbætur til jafns við bátagjaldeyrisvörur. Er áætlað, að það nemi um 15 millj. kr. Ég tel þetta mikil og góð tíðindi, því að verði það svo, að hér megi framleiða landbúnaðarvöru til útflutnings við ekki óhagstæðara verði fyrir erlendan markað en sjávarútvegsvörur eru framleiddar fyrir, þá er það í raun og veru glæsilegt fyrir landbúnaðinn og ber þess vitni, að við getum margfaldað útflutning landbúnaðarframleiðslu okkar.

Sjóðir Búnaðarbankans, byggingarsjóður, ræktunarsjóður svo og veðdeild, eru lífæðar landbúnaðarins. Vegna þeirra lána, sem þessir sjóðir hafa veitt, hafa hinar geysimiklu framkvæmdir síðustu ára í sveitum orðið. Þessar framkvæmdir, hvort sem eru byggingar eða ræktun, hafa verið miklu meiri nú hin síðustu ár en nokkru sinni fyrr. Það hefur raunverulega verið brotið blað í landnámssögu Íslands, svo hafa framkvæmdir allar vaxið. Og hverju er þetta að þakka? Þar kemur að vísu margt til, stórhugur og framkvæmdaþrek bændanna sjálfra, betri og meiri vélar og verkfæri og aukin tæknileg kunnátta til þess að beita þessum vélum og verkfærum, sem við höfum fengið með nýjum, menntuðum mönnum. Þetta hefði þó ekki reynzt einsætt frekar en að fínn og varanlegur bíll er einskis virði, ef benzínið vantar. Síðustu ríkisstj. hafa séð um, að sjóðir Búnaðarbankans hefðu fé til útlána. Aldrei hefur neitt svipuðu fjármagni verið deilt út um sveitirnar og þessi síðustu ár. Af tekjuafgangi ríkissjóðs 1955 hafa sjóðir þessir fengið 22 millj. kr. til útlána, og hliðstætt hefur verið veitt til þeirra nokkur undanfarin ár. Það er þetta, sem hefur gert hinar miklu og glæsilegu framkvæmdir í sveitunum að veruleika síðustu árin. Svo helltu stjórnarandstæðingar sér yfir ríkisstj. í umr. í fyrrakvöld fyrir að hafa búið þannig undanfarin ár, að ríflegur tekjuafgangur hefði orðið hjá ríkissjóði, tekjuafgangur, sem hægt var að verja til bráðaðkallandi nauðsynjamála eins og ræktun og endurbygging sveitanna er. En óheilindin og yfirdrepsskapurinn er svo mikill, að kommúnistarnir, jafnframt því að bölsótast yfir, að ríkissjóður skyldi hafa verið þess megnugur að hlaupa undir bagga með fé til áframhaldandi umbóta í landbúnaði, voru með kjassmæli við bændur og annað sveitafólk um að koma til samstarfs við sig sem hina einu sönnu vini bændanna. Ja, mikið trúa þeir á grunnhyggni þess fólks, sem þeir tala þannig við. Ef til vill eru það hin austrænu vísindi, sem þar eru notuð, en ég hygg, að þau falli ekki í jarðveg Íslands.

Þá vil ég nokkrum orðum minnast á raforkumálin. Ég mun ekki fara mörgum orðum um þessi mál, þó ekki vegna þess, að næg tíðindi séu ekki fyrir hendi varðandi áframhaldandi framkvæmdir, heldur vegna hins, að landsmönnum mun almennt kunnugt um gang þessara mála.

Núverandi ríkisstj. ákvað að beita sér fyrir hinni svonefndu 10 ára áætlun um rafvæðingin allra meginbyggðarlaga landsins. Áður voru framkvæmdir í svo smáum stíl, að enginn eygði það takmark, að raforku yrði komið um allt land.

Þetta er þriðja ár 10 ára áætlunarinnar, það er búið að staðfesta fyrir yfirstandandi ár áætlun um framkvæmdir, og með henni talinni hafa um 1000 sveitabýli og aðrir notendur í sveitum fengið raforku frá samveitum fyrstu 3 ár áætlunarinnar. Um 900 býli höfðu áður, til ársloka 1953, fengið rafmagn frá samveitum. Nokkuð yfir 100 býli í sveitum hafa þessi fyrstu 3 ár fengið raforku frá einkastöðvum, þ. e. a. s. vatnsaflsstöðvum. dieselstöðvum eða öðrum þvílíkum. Þá hafa og 8 kauptún eða sveitaþorp, sem áður höfðu ekkert rafmagn eða algerlega ófullnægjandi, verið tengd við samveitukerfi fyrstu 3 ár áætlunarinnar. Það má og geta þess, að nú er hafizt handa um að reisa orkuver, annað fyrir Austfirði við Grímsá á Völlum og hitt fyrir Vestfirði við Mjólká í Arnarfirði. Jafnframt er unnið að því að leggja háspennulínur frá þessum orkuverum, sem raforkunni verður síðan miðlað frá til hinna ýmsu héraða. Samkv. málflutningi stjórnarandstæðinga í fyrrakvöld er þessi starfsemi öll, að því er virðist, eitt af hinum illu verkum núv. ríkisstj., því að þar var ekkert undanskilið. Fólkið í strjálbýlinu, hvort sem er í sveitum eða smáþorpum, sem verið hefur í myrkri og kulda, en allmargt af því hefur nú þegar fengið raforku til eigin þarfa eða sér hilla undir, að svo verði innan skamms, mun vissulega minnast þess og meta það, hverjir hafa komið þessum áætlunum í framkvæmd, en það var fyrst tekið föstum og raunhæfum tökum af núverandi ríkisstj.

Félagsmálin eru orðin geysistór málaflokkur, sem heyrir undir félmrn., sem nú er orðið eitt af umfangsmestu rn. Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um helztu málaflokka, er þar heyra til.

Undanfarin ár, eða allt frá 1952, hefur nokkru af tekjuafgangi ríkissjóðs verið varið til þeirra staða utan Faxaflóa og Vestmannaeyja, sem við erfiðust atvinnuskilyrði hafa átt að búa vegna fiskleysis eða af öðrum ástæðum. Alls hefur árin 1951–55 verið varið til atvinnuaukningar til þessara staða yfir 28 millj. kr. af tekjuafgangi ríkissjóðs. Fé þessu hefur því nær eingöngu verið varið til aðstoðar við bátakaup og til þess að styðja iðjuver, er vinna úr sjávarafurðum, svo sem hraðfrystihús, aðrar fiskverkunarstöðvar, fiskhjalla o. fl. Þetta er í fyrsta sinn, sem fé hefur verið varið til þess að aðstoða sérstaklega þau byggðarlög, sem verst hafa orðið úti vegna fiskleysis eða annarra óhappa. Fé þessu hefur verið ráðstafað í samráði og eftir till. sveitarstjórna á hverjum stað. Hefur mjög mikið gagn af þessari starfsemi orðið og er í raun og veru það fyrsta, sem gert hefur verið af hálfu ríkisvalds og Alþ. til þess að verja fé á skipulegan hátt til þess að vinna að jafnvægi í byggð landsins. Mun ekki ofmælt, að sú ríkisstj., er hóf slíka stefnu og starfsemi, hafi ýmsu orkað til góðs, en ekki einungis hið öfuga, eins og stjórnarandstæðingar vilja vera láta.

Samkvæmt lögum um aðstoð til vatnsveitna frá 1947 er hægt að veita aðstoð ríkisins til þess að koma upp vatnsveitum fyrir þau þorp, sem hafa ófullnægjandi vatnsból og svo dýrt er að gera fullkomna vatnsveitu, að vatnsskattur verður óeðlilega hár. Aðstoð þessi er með tvennum hætti, ríkisábyrgð eða styrkur, en styrkur skal því aðeins veittur, að fyrirsjáanlegt sé, að hlutaðeigandi sveitarfélög fái eigi risið undir rekstrarkostnaði með venjulegum vatnsskatti.

Til ársloka 1955 hefur ríkisábyrgð verið veitt til 23 sveitarfélaga, að upphæð um 7 millj. kr. Styrkur hefur verið veittur til 22 sveitarfélaga, að upphæð rúmlega 2½ millj. kr.

Þá verð ég að fara nokkrum orðum um húsnæðismálin og aðgerðir Alþ. og ríkisstj. í þeim efnum. Það var eitt, sem hv. stjórnarandstæðingar víttu núv. ríkisstj. mjög fyrir í fyrrakvöld. Einkum var hv. 2. landsk. þm., Brynjólfur Bjarnason, stórorður í þeim efnum og taldi, að öll loforð hefðu verið svikin. Ég læt staðreyndirnar tala og vil láta í té eftirfarandi upplýsingar, sem eru að nokkru leyti viðbótarskýrsla við þær upplýsingar, sem ég gaf Alþ. í nóvember s. l.

Á síðasta þingi voru að tilhlutun ríkisstj. sett lög um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Samkvæmt lögum þessum fellur niður sú lánastarfsemi, sem rekin hefur verið á vegum lánadeildar smáíbúða, en eignir þeirrar deildar renna í varasjóð hins almenna veðlánakerfis. Lánadeild smáíbúða starfaði árin 1952–55. Lánveitingar á vegum deildarinnar námu samtals um 41 millj. kr., og voru veitt lán til 1856 íbúða.

Á vegum hins almenna veðlánakerfis samkvæmt hinum nýju lögum hefur þegar verið úthlutað lánum til 650 íbúða. Upphæð A-lána nemur 33½ millj. kr. og B-lána 13½ millj. kr., eða samtals A- og B-lán 47 millj. kr., þar af 12 millj. kr. til byggingarsjóðs sveitanna. Til viðbótar þessu er óúthlutað, en handbært til úthlutunar, 8 millj. kr. af tekjuafgangi síðasta árs og 3 millj. kr., sem á því ári voru ætlaðar til útrýmingar heilsuspillandi íbúða, eða samtals 11 millj. kr. Er þar ekki með talið framlag sveitarfélaga til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum, sem eigi skal lægra vera en 4–5 millj. kr., né heldur tilsvarandi B-lán, sem áætla má a. m. k. 2½ millj. kr. Enn eru ótalin lán tryggingafélaganna til íbúðabygginga, sem námu a. m. k. 4 millj. kr. á síðasta ári. Enn liggja ekki fyrir endanlegar skýrslur um lánveitingar sparisjóða, lífeyrissjóða og annarra lánsstofnana til íbúðabygginga á árinu 1955, en öruggt má telja, að ef þær lánveitingar eru taldar með, hafi lánveitingar til byggingar íbúðarhúsa komizt eitthvað talsvert á annað hundrað millj. kr. árið 1955. En samkvæmt athugasemdum við frv. stjórnarinnar var ekki gert ráð fyrir, að hægt væri að verja til íbúðabygginga í heild meira en um 100 millj. kr. á því ári.

Þetta, sem hér hefur verið frá skýrt, ber þess vitni, að það hefur verið lagt fram meira fjármagn til íbúðarhúsabygginga en lofað var samkvæmt þeim l., er síðasta Alþ. samþykkti. Það má og fullyrða, að engin ríkisstj. og enginn þingmeirihluti hefur nokkru sinni gert neitt svipað í þessum málum og sú ríkisstj., er nú situr.

Það er alltaf hættulegt fyrir þá, er búa í glerhúsi, að kasta steinum að öðrum. Hv. 2. landsk., Brynjólfur Bjarnason, sat einu sinni í ríkisstj., sem skýrði sig fögrum nöfnum og tók við meiri auðæfum en nokkur önnur, sem með völd hefur farið í þessu landi. Má ég spyrja hv. 2. landsk.: Hvað var þá gert í húsnæðismálum fyrir almenning? Því er fljótsvarað. Það var ekkert. Þá fengu nýríku mennirnir frá styrjaldarárunum að reisa lúxusíbúðir óáreittir með öllu, en hitt gleymdist, að koma nothæfu skipulagi á, hvernig koma skyldi upp íbúðum við almenningshæfi. Þetta gerðist undir stjórn hv. 2. landsk., Brynjólfs Bjarnasonar. Þessum hv. þm. ferst um að tala, eins og hans forsaga er í þessu máli.

Margt er það fleira, sem ástæða væri til að nefna af þeim málaflokkum, er heyra til félmrn., en fátt eitt verður talið. Ég vil þó leyfa mér að nefna það, að almannatryggingalöggjöfin hefur verið í endurskoðun frá því 1954, og hefur Hjálmar Vilhjálmsson ráðuneytisstjóri verið formaður þeirrar nefndar, er framkvæmdi endurskoðunina. Það frv. liggur nú fyrir Alþ., og eru vonir til, að það verði afgreitt, áður en þessu þingi lýkur. Ýmsar mikilvægar umbætur felast í þessu frv., sem ég hef því miður ekki tíma til að nefna hér, enda er það til meðferðar hér á Alþ. og ekki ástæða til að gera það.

Ég vil svo nefna það, að háværar raddir hafa verið uppi um endurskoðun vinnulöggjafarinnar, sem er orðin um 15 ára gömul og hefur aldrei verið tekin til almennrar endurskoðunar. Alþýðusamband Íslands hefur tjáð sig andvígt endurskoðun laganna og neitað að taka þátt í henni. Ríkisstj. hefur litið svo á, að neyðarúrræði væri að taka þá löggjöf til endurskoðunar, nema hvort tveggja Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið tækju þátt í slíkri endurskoðun. Á því hefur strandað, og mun þetta þó í raun og veru hið mesta nauðsynjamál.

Ég vil aðeins minna á það, að á s. l. ári tók til starfa samvinnunefnd verkamanna og atvinnurekenda, sem sett var á laggirnar samkvæmt þál. frá Alþ., er Karl Kristjánsson o. fl. báru fram. Nefndin er skipuð tveim fulltrúum frá hvorum aðila og á að leitast við að finna samkomulagsgrundvöll í kaupgjaldsdeilum og á þann hátt að reyna að girða fyrir, að verkföll eða verkbönn brjótist út. Enn er of fljótt að dæma um, hvaða gagn getur af þessu orðið, en nefndarmenn eru vongóðir um, að nokkur árangur kunni að nást.

Ég hef hér að framan leitazt við að gefa stutt yfirlit um gang nokkurra þeirra mála, sem ríkisstj. hefur haft með að gera síðustu árin, og þá að eðlilegum hætti einkum þau mál, er falla undir mitt verksvið. Ég hef ekki gert það á þann ofstækisfulla, einhliða hátt, sem stjórnarandstæðingar viðhöfðu í sínum ræðum. Ég hef skýrt frá staðreyndum og það staðreyndum, sem þola hvers konar gagnrýni. Það, sem sérslaklega hefur bjargað þjóð okkar síðustu árin, er það, að fjárhagsafkoma ríkissjóðs hefur ávallt verið það góð, að ríkissjóður hefur getað hlaupið undir bagga og aðstoðað þar, sem mest þörf var fyrir í hvert skipti.

Hinir sívaxandi erfiðleikar útflutningsframleiðslunnar, sem að miklu leyti stafa af því, að kaupgjald hefur verið sprengt upp úr öllu valdi, og það stundum í pólitískum tilgangi, og þá hafa verkamenn sjaldan fengið nokkurn ávinning fjárhagslega, eru vandamál, sem við verðum að vinna bug á. Ríkisstj. verður ekki sökuð um það ástand ein, hvernig komið er í þeim efnum. Það er öllum ljóst, sem með skynsemi og hlutdrægnislaust vilja um það mál ræða. Hitt er það, að þau einræðisöfl í okkar þjóðfélagi, er hugsa um það eitt að geta liðað þjóðfélagið sundur og gert það þannig ósjálfbjarga og auðunnið fyrir framandi einræðisöfl, eru allt of sterk í okkar landi. Mikilvægasta verkefni allra þjóðhollra manna er að einangra þau öfl og gera þau á allan hátt sem óvirkust.