21.11.1956
Sameinað þing: 11. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (2393)

47. mál, samtök til aðstoðar öryrkjum

Flm. (Pétur Pétursson):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að allir hv. þm. geri sér það að fullu ljóst, hvað það er í raun og veru að missa mikið eða mestalla starfsorku sína. Þeir, sem alla ævi hafa haft góða heilsu, vita það náttúrlega ekki af reynslunni, en þó er hægt að gera sér í hugarlund, hversu erfitt það er að hafa löngun til þess að vinna og geta það ekki, vegna þess að vinna fæst ekki, sem getur talizt við hæfi öryrkjans. Öryrkjarnir verða þannig æði oft undir á hinum frjálsa vinnumarkaði, þótt fjölmargir þeirra gætu annars fundið starf við sitt hæfi og notið gæða lífsins eins og aðrir, ef þeir nytu aðstoðar, upplýsinga og vinnuþjálfunar þeirrar, sem með þarf.

Þessi þáltill. er flutt í samráði við ýmsa af forustumönnum þeirra samtaka, sem þar um ræðir. Öryrkjafélögin munu nokkuð hafa rætt um það sín á milli, hvort hægt væri að koma á landssambandi eða a.m.k. nánari samvinnu til framgangs áhugamálum sínum, þ.e.a.s. skjólstæðinga sinna, öryrkjanna. Einhverra hluta vegna hafa þessar tilraunir ekki náð tilætluðum árangri, og þess vegna tel ég rétt, að hæstv. ríkisstj. hafi forgöngu um það, að þessum félögum verði veitt aðstoð til þess að vinna að þeim þjóðnytjastörfum, sem til þess þarf að koma á þessu samstarfi.

Mér þykir rétt að skýra nokkuð frá starfsemi þessara samtaka, til þess að hv. þm. geti gert sér ljóst, hvað það er mikið starf, sem þessi félög hafa innt af höndum á undanförnum árum.

Blindravinafélag Íslands hefur vinnustofu í Ingólfsstræti 16. Þar vinna oftast átta manns við ýmsa vinnu við sitt hæfi. Þetta félag hefur gert nokkuð að því að láta blint fólk utan af landi koma og vinna um dálítinn tíma í vinnustofum sinum, til þess að það geti lært handtökin við þá vinnu, sem því hentar bezt.

Blindrafélag Reykjavíkur hefur um margra ára skeið starfrækt vinnustofu í húseign sinni að Grundarstíg 11, auk þess sem blindir og fjölskyldur þeirra búa í því húsi, eftir því sem húsnæðið leyfir. Í þeirri vinnustofu eru tíu blindir menn og konur í þröngu og að ýmsu leyti óhentugu húsnæði. Það félag hefur nú hug á að koma sér upp nýju dvalar- og vinnuheimili. Fjárfestingarleyfi er fengið og góð lóð, og mun félagið ætla að hefja framkvæmdir á næsta ári. Það félag hefur í huga að koma upp í hinu nýja húsi sínu vinnuskóla, þar sem blint fólk yrði þjálfað til starfa við sitt hæfi.

Yngst af starfandi öryrkjafélögum er Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, og þó hefur það félag farið myndarlega af stað með sína starfsemi til hjálpar lömuðum og fötluðum.

Eins og öllum er i fersku minni, geisaði mænuveikifaraldur á s.l. ári. Félagið réðst þá í það stórvirki að kaupa húsið að Sjafnargötu 14 og koma þar upp lækningar- og þjálfunarstöð fyrir lömunarsjúklinga. Tók þjálfunarstöðin til starfa á s.l. vetri, og þar vinna nú 10–11 manns. Framkvæmdar eru þar daglega 30–35 meðferðir á lömunarsjúklingum, en alls hafa verið skráðar 4200 meðferðir á lömunarsjúklingum frá því í marz og til septemberloka s.l. Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra leggur nú höfuðáherzlu á lækningar og þjálfun lömunarveikisjúklinga. Þetta félag hefur á sínum stutta starfsaldri sýnt mikinn stórhug og árangur, sem er næsta fátítt á svo stuttum tíma. Þó eru fjölmörg verkefni óleyst á vegum þessa félags.

Af öryrkjunum eru þó berklasjúklingar fjölmennasti hópurinn, þótt mikið hafi áunnizt í baráttunni gegn berklaveikinni. Nýjar reglur um skráningu berklasjúklinga voru teknar upp árið 1939, og hefur þeim verið fylgt síðan. Skv. þeirri reglu voru skráðir berklasjúklingar á öllu landinu það ár 564, þar af endurskráðir 92, en árið 1950 voru skráðir 302, þar af endurskráðir 68. Dauðsföllum af völdum berklaveikinnar hefur hins vegar fækkað stórkostlega, eða úr 162 árið 1930, þ.e. 151 dauðsfall miðað við 100 þús. íbúa, og i 10 dauðsföll árið 1954, þ.e. 6 miðað við 100 þús. íbúa. Af þessu leiðir, að þrátt fyrir fækkun nýrra berklaveikitilfella er ekki enn um fækkun berklaöryrkja að ræða, svo að neinu nemi.

Það mun ekki vera ástæða til þess hér að fjölyrða verulega um starfsemi Sambands íslenzkra berklasjúklinga og þeirra myndarlega rekstur að Reykjalundi, hv. þingmenn þekkja hana. Á s.l. ári nam heildarsala framleiðslu Reykjalundar 51/2 millj. kr. og vinnulaun til vistmanna 11/2 millj. kr., en þar eru nú um 90 manns. Berklaöryrkjar vinna að Reykjalundi 3–6 stundir á dag, og hefur heildarvinnustundafjöldi vistmanna numið 100 þús. vinnustundum s.l. fjögur ár. Samband íslenzkra berklasjúklinga sér um alla fjárfestingu að Reykjalundi, en rekstur vinnuheimilisins er algerlega sjálfstæður og hefur gengið mjög vel á s.l. árum. Á s.l. ári nam t.d. hagnaðurinn 230 þús. kr., og höfðu þá verið afskrifaðar eignir, svo sem venja er. Félagsskapurinn er enn að kaupa nýjar vélar til vinnuheimilisins, og aukning framleiðslunnar og fjölbreytni hefst væntanlega innan skamms.

Það er augljóst af þessu stutta yfirliti, að þau félög, sem hér um ræðir, vinna mikið og gott starf. Þó eru enn margir öryrkjar í landinu, sem ekki hafa haft aðstæður til þess að njóta aðstoðar þessara félaga. Af síðustu árbók Tryggingastofnunar ríkisins er séð, að árið 1947 voru skráðir i landinu 1250 öryrkjar 75% og þar yfir, en 753 50–75% öryrkjar. Árið 1955 voru skráðir 2572 75% öryrkjar og þar yfir, en 453 50–75%. Samtals er þarna að ræða um rúmlega 3000 manns. Sem allra flest af þessu fólki þyrfti auðvitað að fá einhverja þá atvinnu, sem gæti talizt við þess hæfi og það hefði fengið þjálfun í að leysa af hendi. Og eitt er áreiðanlegt, að þessi stóri hópur mundi geta leyst af hendi mikla vinnu.

Til þess að hrinda þessu í framkvæmd treysti ég engum betur en einmitt forustumönnum þeirra félagasamtaka, sem í þáltill. eru nefnd. Það hefur mikil undirbúningsvinna verið unnin og undirstöður hafa verið byggðar. Það er frægt átak, sem Samband íslenzkra berklasjúklinga hefur gert að Reykjalundi, og með því að gera sameiginlegt átak til hjálpar sem flestum öryrkjum í landinu, þá vinnst hvort tveggja, að þjóðfélagið fær vinnuorku, sem nú er ekki nýtt til fulls, og svo hitt, sem er kannske mest um vert, að öryrkjarnir finna, að þeir geta unnið sjálfum sér og öðrum til gagns og gleði, ef þeir fá tækifæri til þess.

Ég leyfi mér að leggja til, að umr. um þessa till. verði frestað og að henni verði vísað til hv. allshn.