14.11.1956
Sameinað þing: 9. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (2649)

41. mál, byggingar hraðfrystihúsa

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Um það munu ekki mjög skiptar skoðanir meðal þeirra, sem eitthvað hafa hugleitt úrbætur í atvinnulífi kaupstaða og sjávarþorpa úti á landi, að aukin sjávarútgerð er víðast meðal tiltækilegustu úrræða, sem til greina geta komið, og um leið í mestu samræmi við hag þjóðarbúsins. til þess að fólki verði þar lífvænlegra að búa og geti unað þar hag sínum. Með þetta sjónarmið í huga hefur hæstv. ríkisstj. látið það verða meðal sinna fyrstu verka hér á hv. Alþ. nú að leggja fram frv. um kaup á 15 togurum og sex fiskibátum. sem hvorum tveggja verði sérstaklega ráðstafað til atvinnu- og framleiðsluaukningar í þeim byggðarlögum úti á landi, sem við mest atvinnuleysi eiga að búa, og þá einkum vestan-, norðan- og austanlands.

Í þeim umr., sem þegar hafa farið fram í hv. Nd., kom ekki fram annað, með einni undantekningu, en að hér væri um sjálfsagðar ráðstafanir að ræða, og stjórnarandstaðan hefur helzt látið í ljós þann ótta í sambandi við málið, að ríkisstj. mundi ekki reynast unnt að afla lánsfjár til þessara nauðsynlegu framkvæmda.

En sé nú svo, sem ekki verður dregið í efa, að aukinn útvegur báta og togara sé óumdeilanleg nauðsyn bæði einstökum byggðarlögum og þjóðinni sem heild, þá verður heldur ekki og enn síður um deilt, að ekki ber minni nauðsyn til að skapa þeirri útgerð, sem þegar hefur verið komið á fót, viðunanleg starfsskilyrði. Á ég þar ekki aðeins við þau vandkvæði og erfiðleika, sem eru sameiginleg sjávarútveginum um land allt og hljóta að verða leyst að jöfnu fyrir landsbyggðina alla, heldur einnig og ekki síður í þessu tilfelli við hina mörgu staðbundnu erfiðleika, sem útgerðin á við að etja víðs vegar um landið og gera aðstöðu hennar alla og rekstur miklum mun lakari en eðlilegt gæti talizt. Á því sviði eru margvísleg verkefni, sem krefjast úrlausnar, þótt hér verði að litlu rakin. En minna má á mismuninn í útfærslu landhelginnar, skort á dráttarbrautum og aðstöðu til viðgerða, ófullnægjandi hafnarskilyrði og síðast, en ekki sízt lélega og ófullkomna aðstöðu til þess að verka og vinna þann afla, sem að landi er unnt að koma og gæti skapað íbúunum stórum meiri atvinnu og arð en hann nú gerir.

Í útgerðarbæjum og sjávarþorpum hefur það verið verkalýðshreyfingin, sem sérstaklega hefur haft forustu um að koma á heilbrigðari skipan í framleiðsluháttum útgerðarinnar, svo að tryggð yrði betur atvinna og afkomuöryggi verkafólks. Með sívaxandi mörkuðum fyrir hraðfrystan fisk hefur almennur áhugi eðlilega sérstaklega beinzt að því, að frystihúsakostur yrði gerður sem mestur og beztur úr garði. Kemur þar sérstaklega til sú ástæða, að engin verkunaraðferð, sem möguleikar eru á að nota í stórframleiðslu, gefur jafnmiklar tekjur né skapar meiri atvinnu en hraðfrystingin. En það er alkunna, að aðstaða til hennar hefur verið og er enn mjög mismunandi og sums staðar jafnvel engin, þar sem hennar er þó brýn þörf, bæði til að tryggja sjálfan útveginn og til að bæta úr atvinnuþörfum verkafólks. Þannig hefur þetta t.d. verið á Akureyri. Í þessum næststærsta bæ landsins, þar sem gerðir eru út fimm togarar og nokkrir stórir bátar, hefur ekkert frystihús verið starfandi. Af því hefur leitt stórfellt tjón fyrir útgerðina, bæði beint og óbeint, og jafnframt og ekki síður fyrir verkafólk og alla bæjarbúa.

Liðin eru nú nær sex ár síðan verkalýðsfélögin á staðnum og framsýnir menn úr ýmsum stjórnmálaflokkum hófu baráttu fyrir því, að reist yrði fullkomið frystihús í sambandi við togaraútgerðina. Saga sú verður ekki rakin hér. En fyrir tveimur árum var svo komið, að krafan um framkvæmdir hafði fengið fyllsta hljómgrunn hjá öllum bæjarbúum, hjá forráðamönnum útgerðarinnar og hjá bæjarstjórn. Stjórnarvöldin létu og samþykki sitt í ljós með ýmsum hætti og gáfu vonir, ef ekki bein loforð um nauðsynlegan stuðning. Og síðan var hafizt handa af bjartsýni og trú á fyrirtækið. Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar ákvað að leggja fram helming hlutafjáraukningar Útgerðarfélags Akureyringa h/f vegna þessara framkvæmda, eða 3/4 úr milljón, og var sú upphæð lögð á bæjarbúa í útsvörum á fjárhagsárinu 1955. Almenningur í bænum hljóp og beint undir bagga og hefur þegar keypt hlutabréf fyrir tæplega hálfa millj. króna. Fyrir milligöngu Framkvæmdabankans var ákveðið og fengið til þess samþykki þáverandi hæstv. ríkisstj. að taka 6 millj. kr. erlent lán í Vestur-Þýzkalandi til frystihúsbyggingarinnar, eða fyrir öllum kostnaði, eins og hann þá var áætlaður. Áður en frá þessari lántöku var gengið, snerist þó ríkisstjórninni hugur, og afturkallaði hún samþykki sitt til þessarar lántöku. Jafnframt var því þó heitið, að Framkvæmdabankinn skyldi lána 31/2 millj. til byggingarinnar innan tilskilins tíma, á árunum 1957, 1958 og 1959, og loforð fengið fyrir bráðabirgðaláni sem þeirri upphæð svaraði. Síðar fékkst lán að upphæð ein milljón á sama hátt.

Svo standa því sakir nú, að fé það, sem fengizt hefur að framangreindum leiðum, er alls 5.6 millj. kr., en nýlega gerð áætlun telur, að frystihúsið muni kosta fullbúið tæpar 9 millj., og má gera ráð fyrir, að þar sé um lágmark að ræða. Hér skortir því meira en 3 millj. á, að unnt sé að fullgera húsið, og liggur það verkefni nú fyrir forráðamönnum útgerðarfélagsins, bæjarstjórn Akureyrar og öðrum þeim, sem ætla má að telji sér málið skylt, til úrlausnar.

Með bréfi, dags. 26. f.m., tilkynnti stjórn Útgerðarfélags Akureyringa bæjarstjórn kaupstaðarins. að félagið sé komið í alger greiðsluþrot og ekki sé nú annað fyrir hendi en að leggja togurunum upp, ef ekki reynist unnt að afla rekstrarlána; einnig sé svo komið, að byggingarframkvæmdir við frystihúsið hljóti að stöðvast, ef ekki fæst lánsfé. Baðst því félagið aðstoðar bæjarfélagsins, þar eð það taldi fullreynt. að því mundi ekki takast að fá nauðsynleg lán bæði til rekstrar og framkvæmda af eigin rammleik.

Sjálfsagt er að meta það, hvaða möguleika bæjarfélag sem Akureyri hefur til aðstoðar í þessum vandræðum útgerðarinnar, og sjálfsagt að gera þær kröfur, að bæjarfélagið geri allt, sem í þess valdi stendur, þegar svo er illa komið einum þýðingarmesta þætti atvinnulífsins og raunar þeim, sem hagur bæjarins stendur með eða fellur.

Ábyrgðir bæjarins vegna útgerðarinnar nema nú um eða rúml. 13 millj. kr. Hann hefur lagt fram helming alls hlutafjár eða um 2 1/2 millj. Fjárhagsárið 1955 var lagt á bæjarbúa 3/4 úr milljón vegna hlutafjáraukningar til frystihúsbyggingarinnar, og á þessu ári voru lagðar á 800 þús. til þess að tryggja rekstur togaranna. Nú í ár er sýnilegt, að stórfellt rekstrartap verður á togurunum. sennilega ekki undir 4 millj., og á s.l. ári reyndist tapið rúml. 3 millj. Því er fullkomlega víst, að Akureyrarbær verður að leggja á í útsvörum miklar fúlgur til þess eins, að togararnir stöðvist ekki, jafnvel nú fyrir áramót, og er þó með öllu óvíst eða jafnvel ósennilegt, að slíkt dugi til, enda má raunar öllum vera ljóst, að því eru mjög þröng takmörk sett, hvað unnt er að bæta miklum byrðum á bæjarfélög, sem ekkert eða því sem næst ekkert hafa upp á að hlaupa nema útsvör, sem nálega öll hvíla á láglaunafólki. Og skal þess enn getið, að af þessum sökum eru útsvör á Akureyri nú meðal þeirra hæstu á landinu.

Af þessu ætla ég að ljóst verði, að það er ekki á færi bæjarfélagsins eins að leysa þetta mál, hversu góður vilji sem til þess er hjá forráðamönnum þess, heldur verði að koma til röggsamleg fyrirgreiðsla Alþingis og ríkisstjórnar, og ég fullyrði, að því er treyst af Akureyringum, að hún verði veitt og það án mikilla tafa.

Frystihúsið á Akureyri er nú því nær fullbyggt og vélar sumpart þegar settar niður, en sumpart komnar á staðinn, að einni undanskilinni, sem liggur hér á hafnarbakkanum í Reykjavík og hefur legið um skeið og ekki hefur verið hægt að leysa út vegna fjárskorts. Vonir stóðu til. ef engar tafir hefðu orðið vegna féleysis, að húsið hefði getað tekið til starfa seint í janúarmánuði n.k. Samt er nú svo komið. að öll vinna hefur verið stöðvuð frá því snemma í nóvembermánuði, og verktaki sá úr Reykjavík, sem sá um vélbúnað hússins, hefur kallað starfslið sitt á brott. Dauðakyrrð ríkir nú yfir þeim stað, sem Akureyringar ætluðu og ætla að gera að sínu mesta iðjuveri og hundruð atvinnulítilla verkamanna og kvenna vonuðust til að veita mundi þeim möguleika til góðrar lífsbjargar.

Ég ætla, að flestir hljóti að vera sammála um, að ekkert vit sé í, hvorki frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð né frá sjónarmiði bæjarfélagsins og bæjarbúa, að slíkar framkvæmdir verði stöðvaðar. Frystihúsið á Akureyri eitt mun veita allt að 200 manns atvinnu, þegar það tekur til starfa. Þegar þess er gætt, að atvinnuleysi er landlægt þar verulegan hluta úr ári hverju og tekjur verkafólks lágar og að þetta hefur leitt til þess, að eðlileg fólksfjölgun hefur ekki getað átt sér þar stað um mörg ár, verður næsta ljós nauðsyn þess, að þetta mikla atvinnufyrirtæki taki til starfa svo fljótt sem verða má, það hefur þegar dregizt úr hömlu.

Þegar þar við bætist, að togaraútgerðin stendur mjög höllum fæti og hleður á sig illviðráðanlegum skuldum, m.a. vegna þess, að ófullnægjandi aðstaða er til verkunar aflans, og að bæjarfélagið hlýtur fyrr eða síðar að taka á sig þungar byrðar af þessum sökum, má öllum skiljast, að undan því verður ekki vikizt af stjórnarvöldum landsins að bregða við til hjálpar.

Ég hef hér nær einvörðungu dvalið við þarfir okkar Akureyringa í sambandi við þetta mál til nokkurs rökstuðnings þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir. En ég held og raunar veit, að mjög keimlíka sögu er að segja frá öðrum þeim stöðum, sem hér eiga hlut að og leita eftir stuðningi þings og stjórnar með hliðstæðar eða sömu framkvæmdir. Þannig er nú t.d. vinna við frystihús Hafnfirðinga algerlega stöðvuð, að ég held, og hver dagurinn sagður geta orðið sá síðasti, sem unnið er við frystihúsin á Ísafirði og Seyðisfirði.

Hér er um að tefla eitt veigamesta atvinnumál þeirra kaupstaða, sem sérstaklega eru nefndir í grg. þeirri, sem þáltill. fylgir, og raunar fleiri byggðarlaga. Það er óhætt að fullyrða, að á flestum þessara staða, ef ekki öllum, mun það valda atvinnuleysi og jafnvel fjárhagslegu hruni, ef ekki reynist unnt að ljúka þessum lífsnauðsynlegu framkvæmdum, sem varða atvinnu hundraða, ef ekki þúsunda verkafólks og alla afkomu viðkomandi bæjarfélaga.

Í stefnuyfirlýsingu núverandi hæstv. ríkisstj., sem birt var þjóðinni, er hún tók við völdum, er rík áherzla lögð á atvinnulega uppbyggingu í landinu og alveg sérstaklega í þeim þremur landsfjórðungum, sem hafa orðið harðast úti á síðari tímum af mörgum ástæðum og fólk hefur neyðzt til að flýja umvörpum, ýmist tímabundið eða fyrir fullt og allt, til þess að því væri unnt að sjá sér og sínum farborða á mannsæmandi hátt.

Þessi stefna hæstv. ríkisstj. er tæpast umdeild, a.m.k. í orði, og virðast nú allir vilja þá Lilju kveðið hafa, þar sem dýpst er í árinni tekið um nauðsyn þess að skapa jafnvægi í landsbyggðinni. Mætti því ætla, að allar skynsamlegar og færar leiðir til úrbóta í þessu efni eigi vísan stuðning allra þingflokka, og vænti ég að þessi till. njóti þess.

Ég vil að lokum taka fram, að því fer víðs fjarri, að þessi þáltill. sé fram borin vegna þess, að flm. vantreysti hæstv. ríkisstj. til þess að gera sitt bezta. Þvert á móti er okkur kunnugt um, að þessar framkvæmdir eiga þar að mæta skilningi. Hitt er staðreynd, að málið er mjög aðkallandi, og er því full ástæða til, að Alþ. leggi áherzlu á vilja sinn og létti hlutaðeigendum og hæstv. ríkisstj. sjálfri framkvæmdir með aukinni ábyrgðarheimild. svo sem þáltill. kveður á um. Legg ég til, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjvn., og legg áherzlu á vegna eðlis málsins, að hún hraði afgreiðslu sinni.