04.11.1965
Efri deild: 11. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

51. mál, aukatekjur ríkissjóðs

Friðjón Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þegar fjallað er hér um nýtt frv. til l. um aukatekjur ríkissjóðs, sökum þess að nauðsynlegt er talið að afla aukinna tekna í ríkissjóð, þá teldi ég rétt, að tækifærið væri notað til þess, að lagfærð verði smáatriði í frv., sem gengið hafa aftur í hvert skipti, sem lögunum hefur verið breytt. Þessi atriði voru í fyrstu lögunum, sem Alþingi setti um þessi efni 1894, en þau lög voru sniðin eftir aukatekjureglugerð fyrir réttarins þjóna frá 1830, sem var fyrsta heildarlagasetning um þessi efni. Þessi atriði, sem ég vildi benda á, eru í 22. gr. frv. Þar er talað um í 1. tölul. eitthvað, sem kallað er „svarkröfur“, sem gjald skal taka fyrir, og 4. tölul. sömu gr. er um gjald fyrir „skipstjóramótmæli“ svokölluð.

Í íslenzku réttarfari eða stjórnsýslu er, eftir því sem ég bezt veit, engin réttargerð eða stjórnsýsluathöfn, sem heitir þessum nöfnum, og hefur e. t. v. aldrei verið. Gera má ráð fyrir, að upphaflega hafi þetta komið þannig inn í aukatekjulög, að aukatekjureglugerðin fyrir réttarins þjóna frá 1830 hafi á sínum tíma verið það nákvæmlega sniðin eftir dönskum lögum um þessi efni, að þess hafi ekki verið gætt að sníða burt allt það, sem ekki átti við á Íslandi. Þeir, sem síðar hafa endursamið þessar reglur, hafa ekki vitað eða veitt því athygli, að þessum orðum var ofaukið.

Þá vil ég benda á til athugunar, hvort ekki væri rétt að fella niður það, sem kallað er leyfisbréf til tilboðasöfnunar, sem er 9. liður 29. gr. Verzlunarleyfi eru ýmist heildverzlunarleyfi, umboðssöluleyfi, smásöluleyfi eða lausaverzlunarleyfi. Ég hef aldrei orðið þess var, að gefið hafi verið út leyfisbréf til tilboðasöfnunar. Svo kann þó að hafa verið áður fyrr. Tilboðasöfnun er þýðing á erlenda orðinu „agentur“ og er getið í lögum um verzlunaratvinnu frá 1925, og má því vera, að orkað geti tvímælis, hvort rétt sé að fella það úr aukatekjulögum, þó að þetta sé að minni hyggju orðið úrelt.

Ég mælist til þess, að n. sú, sem væntanlega kemur til með að fjalla um þetta frv., taki þessar ábendingar mínar til athugunar. Að mínu viti er ekki aðeins óþarfi, heldur einnig óviðkunnanlegt að hafa í gjaldskrá aukatekjulaga hluti, sem ekki eru til og hafa e. t. v. aldrei verið til á Íslandi, og því sé nú rétt að nota tækifærið og lagfæra þetta.