01.04.1966
Neðri deild: 64. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2275)

98. mál, áfengislög

Björn Fr. Björnsson:

Herra forseti. Í nál. meiri hl. allshn. á þskj. 413 hef ég gert þá grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, að ég tel rétt, að þjóðaratkvgr. sé látin fara fram um efni þess, því aðeins sé ríkisstj. heimilt að leyfa tilbúning öls með styrkleikanum 4 1/2% til sölu innanlands og til útflutnings, að meiri hl. alþingiskjósenda, þeirra sem atkv. greiða, samþykki þá meðferð. Það eru ýmsar ástæður fyrir þessari afstöðu og ég vil leyfa mér að fara hér örfáum orðum um þær helztu.

Áfengismálin eru, svo sem alkunna er, viðkvæmt tilfinningamál. Það er öllum ljóst, að þau eru einnig félagslegt vandamál í fremstu röð og mjög erfið úrlausnar. Hefur svo reynzt bæði okkur og mörgum öðrum þjóðum, um það þarf ekki að deila. Hitt er svo annað, að sitt sýnist hverjum, hverja stefnu beri að hafa. Margir aðhyllast algert aðflutningsbann á áfengum drykkjum, þótt ekki sé sú leið nú sem stendur ofarlega á baugi. Aðrir telja takmarkanir á sölu áfengra drykkja leiða til hins verra og aldrei bæta úr, frelsi í þessu efni sé hið eina rétta. Þriðji hópurinn vill hafa vissan hemil á og fara bil beggja. Væntanlega hafa allir þessir hópar ýmislegt til síns máls, en sjálfsagt misjafnlega mikið. Deilur um þessi mál hafa oft risið býsna hátt og málið reynzt hitamál. Og það er eðlilega að vonum, þar sem viðhorfin byggjast m.a. á mati því, sem tilfinning manna segir fyrir um og enn fremur misjöfn reynsla einstaklinga, stundum ærið dýrkeypt og raunaleg. Af þessari sök hefur það áður þótt eðlilegast, að viss meiri háttar atriði áfengislöggjafarinnar væru leyst með þeim hætti, að þau væru látin ganga undir þjóðaratkv. og þannig fenginn þjóðarvilji. Og sannast sagna eru það einmitt hin heitu tilfinningamál þjóðarinnar, sem leysa á með slíkum hætti fyrst og fremst og engin mál fremur. Það er mín skoðun.

Árið 1908 fór fram þjóðaratkvgr. um áfengisbann, og var það samþ. með 60.38% greiddra atkv. Veturinn 1909 voru bannl. síðan samþ. á Alþ. og skyldu ganga í gildi 1. jan. 1915, sem og varð. Haustið 1933, í október, fór enn fram þjóðaratkvgr. um bann, og úrslit urðu þau, að með banni voru 11 625 atkv., en á móti 15 866. Eftir þessa atkvgr. var svo bannið afnumið frá og með 1. febr. 1935. En innflutningur og sala öls með meira vínandainnihaldi en 2.25% að rúmmáli var þó framvegis bannað og er svo enn. Þessi tilhögun, að leggja mál af þessu tagi undir úrskurð þjóðarinnar, hefur þannig tíðkazt og þótt af flestum rétt leið. Hef ég ekki heyrt, að bann- eða bindindismenn hafi haft við þá aðferð neitt að athuga, enda erfitt að mæla henni gegn, eins og eðli málsins er, og ætti raunar enginn að fælast eða óttast að leggja mál af þessu tagi undir úrskurð þjóðarinnar, og vissulega á vilji hennar að koma fram sem skýrast og bezt, bæði í þessum efnum sem öðrum. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að héraðabönn hafa verið í gildi lengst af frá því árið 1899 og eru það enn samkv. áfengislögunum. Héraðabönnin eru þess efnis, að ríkisstj. er heimilt að setja á stofn útsölustaði áfengis, þó aðeins í kaupstöðum, að atkvgr. kosningabærra manna í viðkomandi bæjarfélagi hafi farið fram og meiri hl. greiddra atkv. í kaupstaðnum samþ. Um þetta er þannig leitað atkv. borgaranna og þykir sjálfsagt. Bann- og bindindismenn áttu drýgstan þátt í því að koma héraðabönnum á 1899. Þegar þau síðan voru afnumin með áfengisl. frá 1935, töldu þessir sömu aðilar, bann- og bindindismenn, þeim l. það einna helzt til foráttu, að héraðabönnin voru ekki lengur heimiluð. Þetta sýnir okkur ljóslega, að bindindismenn og bindindisvinir hafa fremst allra staðið að því og samþ., að leita skuli atkv. borgaranna um einstök mikilvæg atriði í áfengislöggjöfinni. Vildi ég þá mega ætla, að þeir hv. alþm., sem eru í hópi bannmanna, samþykki ekki síður öðrum þá málsmeðferð, sem greinir í brtt. minni.

Í ákvæði til bráðabirgða í brtt. er lagt fyrir ríkisstj. að láta fram fara atkvgr. meðal alþingiskjósenda á þessu ári, 1966. Ég tel, að sú atkvgr. gæti vel farið fram ásamt með sveitarstjórnarkosningum. Annars mætti að sjálfsögðu líka hugsa sér það, að slík atkvgr. færi fram við hliðina á alþingiskosningum. En þó er það svo, að ég hygg, að þessi úrlausn máls liggi nær því sveitarstjórnarlega heldur en hinum mjög pólitísku alþingiskosningum.

Ég vil svo vænta þess, eins og þetta mál liggur fyrir og með hliðsjón af fenginni reynslu og eðli máls, að hv. alþm. geti fallizt á þá leið, sem í till. er lagt til að fara í þessu viðkvæma vandamáli.