24.03.1966
Neðri deild: 59. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

122. mál, skógrækt

Frsm. meiri hl. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Það náðist ekki einhugur um þetta mál í landbn. Meiri hl., en hann skipa 6 af nm., leggur til, að frv. verði samþ., en áskilja sér þó rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kunna að koma. Það kom fram í n., að einn hv. nm., hv. 5. þm. Norðurl. v., var andvígur frv. og skilar um það séráliti. Það álit er nú ekki komið enn á borð þm., en mér skilst, að hv. þm. leggi ekki til, að frv. verði fellt, heldur að það verði látið daga uppi, og er það að mínu viti dálítið óvanaleg afgreiðsla úr nefnd á einu þingmáli.

Við sendum þetta frv. til umsagnar búnaðarþings. Búnaðarþing sat að störfum, þegar málið kom til okkar. Umsögn búnaðarþings hefur ekki enn borizt landbn., en hún hefur verið birt bæði í blöðum og útvarpi, og er álit búnaðarþings á þá lund, að það skorar á Alþ. að fresta þessu máli og gefa stjórn Búnaðarfélagsins tóm til þess að láta semja frv. til l. um breyt. á jarðræktarlögum, þar sem ákvæði þessa frv. yrðu tekin upp.

Meiri hl. landbn. getur ekki fallizt á þessa ósk búnaðarþings, enda var ekki neinn einhugur um hana á þinginu, því að ályktun þingsins var samþ. með 12:9 atkv., enda má, ef sýnist seinna meir, fella þetta frv., ef að lögum verður, inn í jarðræktarlög, þegar þau á sínum tíma koma til breytinga eða endurskoðunar hér í þinginu.

Eins og bent er á í aths. við þetta frv., er ræktun skjólbelta orðin mikilvægur þáttur í búskap nágrannalanda okkar, og ræktun þeirra fer sívaxandi víða um lönd. Ástæðan fyrir þessu er sú, að reynslan sýnir, að skjólbelti tryggja verulegan uppskeruauka á jarðargróða, og þeim mun meiri verður þessi uppskeruauki í köldum löndum, þar sem veðrátta er óstillt. Vafalaust yrði reynslan sú sama hér í okkar næðingssama landi, og mundi skjólbeltarækt, ef vel tækist, stuðla að því, að uppskera t.d. korns og garðávaxta yrði árvissari en hún er nú. Þetta frv. örvar bæði bændur og félagsbundin samtök um ræktun korns og garðávaxta til þessarar ræktunar, og það kveður á um verulegan styrk af opinberri hálfu til þeirra, sem í slíkar framkvæmdir ráðast og framkvæma þær í samræmi við ákvæði þessa frv.

Ég hef ekki fleiri orð um þetta, það er ástæðulaust. Hæstv. landbrh. fylgdi frv. ýtarlega úr hlaði hér við 1. umr., en eins og ég sagði, meiri hl. landbn., eða 6 af nm., leggur til, að frv. verði samþ.