22.02.1966
Efri deild: 40. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 900 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

119. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með framkomu þessa frv. Ég tel, að í þessu frv. felist mikil réttarbót fyrir ýmsa þá staði, þar sem þessi ríkisfyrirtæki eru staðsett, sem eiga samkv. þessu frv. að greiða landsútsvar eftir nýjum reglum og einnig aðstöðugjald. Ég minnist þess, að þegar lög um tekjustofna sveitarfélaga voru sett og teknar upp reglur um landsútsvör og jöfnunarsjóðsgjald, voru það fáeinir staðir, eins og t.d. Siglufjörður, sem töldu sig beinlínis tapa á þessum nýju reglum, miðað við þær reglur, sem áður höfðu gilt, á sama tíma sem mörg önnur sveitarfélög ýmist urðu alveg skaðlaus af þessum nýju reglum eða högnuðust stórkostlega á þeim. Ég tel þess vegna, að hér sé rétt stefnt með því að breyta þessum reglum nú og leggja á þessi ríkisfyrirtæki, þ.e.a.s. síldarverksmiðjurnar, Viðtækjaverzlun ríkisins, Landssmiðjuna og ríkisprentsmiðjuna, leggja á þetta hliðstætt því eins og lagt er á sambærileg fyrirtæki í einkarekstrinum.

En það eru samt sem áður nokkrar aths., sem ég hef fram að færa við þetta frv. Reglur þessa frv. eða nýmælin eru þau, að á þessi fyrirtæki skuli leggja landsútsvör að vísu eins og áður og viðkomandi sveitarfélög fái 1/4 hluta þess í sinn hlut. En landsútsvörin hafa verið lögð á sem 1 1/2% af heildarsölu fyrirtækjanna, en verða nú lögð á eins og tekjuútsvör félaga eftir útsvarsstiga. Og svo er enn fremur það nýmæli, að þessi fyrirtæki skuli greiða aðstöðugjald, en það hafa þau ekki greitt eftir gildandi lögum. Um aðstöðugjaldið má segja, að það á væntanlega að skiptast þannig eftir þessu frv., aðstöðugjald þessara fyrirtækja, að það sé greitt í hvert sveitarfélag, þar sem verksmiðja er staðsett, sé greitt eftir þeim rekstrarkostnaði, sem þar hefur fallið til. Og í raun og veru eina fyrirtækið, sem hér skiptir máli að ræða um, það er í raun og veru Síldarverksmiðjur ríkisins, því að hin fyrirtækin eru hvert staðsett í einu sveitarfélagi, en Síldarverksmiðjur ríkisins reka atvinnurekstur í fjöldamörgum sveitarfélögum, eins og kunnugt er.

En víð þessar reglur frv. og 1., að aðstöðugjaldið sé greitt af þeim kostnaði, sem til fellur, hefur, eins og hæstv. fjmrh. greindi frá, meiri hl. stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins, sem hefur haft aðstöðu til þess að fjalla um þetta frv., áður en það var lagt fram, gert aðrar till. í þeim efnum, sem ég tel í raun og veru að séu mjög athyglisverðar og beinast að því að jafna þessu aðstöðugjaldi meira á milli þessara sveitarfélaga, en láta það ekki vera tilviljunum háð, hvar síld berst að landi eða mest er brætt þetta og þetta árið eða stofnað er til mests kostnaðar. Ég vildi þess vegna eindregið beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til athugunar, að hún athugaði þessar till. meiri hl. stjórnar síldarverksmiðjanna alveg sérstaklega.

En þá er það hitt atriðið, sem ég vildi gera aths. við, og það er landsútsvarið sjálft, sem nú á að leggja á eftir nýjum reglum. Eftir núgildandi reglum hefur verið lagt 1 ½ % á heildarsöluna, þ.e.a.s. á framleiðsluna á hverjum stað, og þá hefur það verið ákaflega einföld regla til þess að reikna út, hvað landsútsvarið væri í hverju sveitarfélagi af hverri síldarverksmiðju þar. Nú á hins vegar að gera þetta með öðrum hætti, og ég geri ráð fyrir, að þar sem þetta á að leggja á eins og tekjuútsvör félaga, geti þetta, a.m.k. þegar vel gengur, orðið nokkru hærri upphæð, sem þarna fellur til í landsútsvar. En það er það, sem ég átta mig ekki á eftir þessu frv., hvernig þetta landsútsvar, sem á að leggja á eins og tekjuútsvar félaga, verður í framkvæmd. Verður lagt landsútsvar á Síldarverksmiðjur ríkisins, eða verður lagt landsútsvar á í hverju sveitarfélagi og verður að gera upp sérstaklega rekstur hverrar verksmiðju, eða verður þetta ekki eins og litið sé þannig á, að síldarverksmiðjur ríkisins verði t.d. reknar af hlutafélagi? Á að leggja tekjuútsvar allt á á einum stað? Í 30. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga segir: „Á aðra aðila en einstaklinga“, þ.e.a.s. félög og fyrirtæki, — „skal lagt í því sveitarfélagi, þar sem aðalstarfsemi þeirra fer fram.“ Og enn fremur segir: „Þar í sveit skal útsvar gjalda, sem það var á lagt, og á hún allt útsvarið.“ Þá kemur m.a. spurningin: Á þetta landsútsvar að leggjast á í heilu lagi, þetta landsútsvar, sem á að leggja á með sama hætti og tekjuútsvar félaga, og hvar fer þá aðalstarfsemi síldarverksmiðjanna fram? Væntanlega þar, sem lögheimili þeirra er, á Siglufirði. Eða á þetta að vera einhver óvissa, þannig að aðalstarfsemin verði talin fara fram þar, sem brætt er mest hvert sumar? Þetta tel ég, að þurfi að liggja miklu skýrar fyrir. Og ef landsútsvarið er lagt í heild á Síldarverksmiðjur ríkisins, og við skulum segja, að það sé lagt á þær eins og eitt fyrirtæki, eftir hvaða reglum á þessi fjórðungur, sem á að fara til sveitarfélaganna, þá að skiptast? Á þá það sveitarfélag, þar sem aðalstarfsemin fer fram eða lögheimilið er, að fá fjórða part úr landsútsvarinu, eða á t.d. að skipta landsútsvarsfjórðungnum eftír framleiðslunni á hverjum stað? Ég sé ekki, að í þessu frv. eða l. felist nein skýr ákvæði um það. Tel ég, að í þeirri n., sem fær frv. til athugunar, þurfi að líta alveg sérstaklega á þetta, því að það er alveg nauðsynlegt, áður en þdm. geta tekið afstöðu til þessa frv., að það liggi alveg skýrt fyrir, hver meiningin er í þessum efnum og hvernig með þetta mundi farið, hvernig þetta yrði framkvæmt, ef frv. yrði samþ. eins og það liggur fyrir hér.