22.02.1968
Neðri deild: 65. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í C-deild Alþingistíðinda. (2498)

131. mál, atvinnuleysistryggingar

Jón Snorri Þorleifsson:

Herra forseti. Með frv. því til 1. á þskj. 279 um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar fylgir samþykkt Verkamannasambands Íslands um málið, og í grg. fyrir þeirri samþykkt segir m.a. á þessa leið:

„Atvinnuleysistryggingasjóðurinn, sem stofnaður var með samningum í vinnudeilunum miklu 1955, er nú orðinn öflugasti sjóður í landinu. Við stofnun hans sló verkafólkið af kaupkröfum sínum til að afla honum fjár. Það er því hluti af kaupi verkafólksins, sem geymdur er á þennan hátt sem tryggingasjóður þess gegn vágestinum mikla, atvinnuleysinu. Fyrsta skylda sjóðsins er að aðstoða hina tryggðu, og enginn á ríkari kröfu til hans en þeir.“

Jafnhliða stofnun atvinnuleysistryggingasjóðsins sömdu iðnsveinafélögin um 1% framlag í styrktarsjóð til félaga sinna og slógu einnig af kaupkröfum sínum, sem því nam. Ætti þess vegna að vera ljóst, að þær tryggingar, sem samið var um til lausnar vinnudeilunum 1955, voru af verkalýðshreyfingunni metnar og teknar í stað beinna grunnkaupshækkana og eru því hennar eign. Þegar sjóðurinn varð til, var verkalýðshreyfingunni í fersku minni böl atvinnuleysisins frá árunum eftir 1950. Stofnun sjóðs til að draga úr sárustu neyð atvinnuleysingjans var því almennt fagnað af verkafólki og talið eitt mesta réttindamál, sem hreyfingin hefði lengi náð fram. Hitt er svo annað mál, að frá stofnun sjóðsins hefur það verið hans helzta hlutverk að veita fé til atvinnuuppbyggingar víðs vegar um landið og á þann hátt víða komið í veg fyrir atvinnuleysi, þar sem það annars hefði orðið, og er það vissulega vel. Því fer þó fjarri, að ekkert atvinnuleysi hafi verið á undanförnum árum. Því miður er staðreyndin ekki sú. Sjóðurinn hefur því einnig gegnt þeirri frumskyldu, en lög hans og reglur, eins og þær eru nú, leyfa ekki, að hann veiti þá lágmarkstryggingu, sem honum í upphafi mun hafa verið ætluð, og hann hefur fjárhagsgetu til að veita. Samkv. núgildandi l. sjóðsins um atvinnuleysisbætur ern atvinnuleysisbætur fyrir einhleypan mann 923 kr. á viku, en það eru 39.7% af lágmarkskaupi Dagsbrúnar. Fyrir kvæntan mann eru bæturnar 931 kr. á viku eða 45% af kaupi miðað við lágmarkstímakaup Dagsbrúnar. Hámark bóta getur numið 1256 kr. á viku eða 60.5% af sömu viðmiðun. Hámarkið er fyrir kvæntan mann með 3 börn. En hvað þýða þessar tölur? Hverjir skyldu nú vera afkomumöguleikar atvinnuleysingjans, sem hefur þær einar til að lifa af? Ef við tökum dæmi um kvæntan mann en barnlausan, fær hann 931 kr. á viku eða 60.5% af sömu viðmiðun. Hámarkið er kr. getur fjölskyldan keypt sér 3 1 af mjólk, 1 kg af kjöti og á þá tæpar 30 kr. eftir til greiðslu á öllum öðrum lífsnauðsynjum.

Við skulum taka annað dæmi. Kvæntur maður með 3 börn fær á mánuði sem næst 5380 kr. Gerum ráð fyrir, að hann búi mjög þröngt og þurfi ekki að greiða í húsaleigu nema 4000 kr. á mánuði, sem er ákaflega varlega áætlað. Hann á þá eftir 1390 kr., þegar hann hefur greitt húsaleiguna, til allra annarra þarfa fjölskyldunnar, en það eru 46 kr. á dag eða m.ö.o., þegar hann hefur greitt tiltölulega mjög lága húsaleigu, á hann eftir fyrir rúmlega hálfu kg af súpukjöti á dag. Fleiri slík dæmi er að sjálfsögðu hægt að taka, og hv. alþm. kannast við dæmið, sem hér var tekið fyrr í vetur, um einhleypa manninn og styrk hans, sem dygði honum rétt fyrir 1 1/2 máltíð á dag. En ég hygg þó, að þessar tölur og þau dæmi, sem ég hef hér tekið, sýni svo að ekki verði um villzt, hversu fjarri fer því, að sjóðurinn fullnægi nú þeirri frumskyldu, sem honum var í upphafi ætlað að gera.

Þær breytingar, sem frv. okkar á þskj. 279 felur í sér frá núgildandi l. um atvinnuleysistryggingasjóð, eru samkv. 1. gr. frv., að úr 15. gr. l. verði fellt niður það ákvæði, að þeir, sem orðnir eru 67 ára og njóta ellilífeyris, eigi ekki rétt á bótum úr sjóðnum. Þetta skerðingarákvæði í núgildandi l. er að mínu viti óréttlátt. Sá, sem missir atvinnutekjur vegna atvinnuleysis, á að eiga fullan rétt til atvinnuleysisbóta, hvort sem hann nýtur ellilífeyris eða ekki. Á sama hátt og hann heldur lífeyrisrétti, þó að hann hafi atvinnutekjur. Hafi hann hins vegar misst atvinnutekjur af öðrum ástæðum en atvinnuleysi, heyrir það undir önnur ákvæði l. T.d. vil ég minna í því sambandi á það ákvæði í l., að bótaþegi verður á síðustu 12 mánuðum að hafa stundað vinnu samkv. kaup- og kjarasamningi í a.m.k. 6 mánuði.

Ákvæði 2. gr. í frv. um, að síðari mgr. 15. gr. l. falli niður, leiðir af þeirri breytingu, sem 1. gr. felur í sér.

Í 3. gr. felst sú breyting frá núgildandi l., að fellt verði niður ákvæðið um, að ekki eigi rétt til bóta þeir, sem hafa á síðustu 6 mánuðum haft tekjur, sem fara fram úr 75% af meðalárstekjum almennra verkamanna eða verkakvenna, ef um konu er að ræða. Margar ástæður liggja til þess, að þetta skerðingarákvæði núgildandi l. er óréttlátt. Í fyrsta lagi sú staðreynd, að tekjumarkið, sem í l. er nú, er allt of lágt. Sveiflur á tekjum manna geta verið mjög miklar frá einni árstíð til annarrar og sá, sem verður atvinnulaus, kann að vera með mjög takmarkaðar tekjur yfir lengra tímabil, þótt hann hafi á síðustu 6 mánuðum haft tekjur, sem fara yfir það hámark, sem sett er, og það skerðir því rétt hans til bóta. Þess utan marka tekjumöguleikar manna mjög lífshætti þeirra, svo að sá, sem hefur haft, við getum sagt góðar tekjur, getur verið jafn óbær að mæta skyndilegu atvinnuleysi og oft og tíðum verr undir það búinn, ekki sízt ef hann stendur í húsbyggingum og dragandi á eftir sér alla þá skuldabagga, sem því fylgir. Það skerðingarákvæði, sem nú er, á því ekki rétt á sér, enda eru hliðstæð ákvæði ekki skilyrði fyrir öðrum tryggingarbótum.

4. gr. frv. er um þá breytingu á 18. gr. l., að bætur verði hækkaðar frá því, sem nú er, að þær verði fyrir einhleypan mann 248 kr. á dag, fyrir kvæntan mann 284 kr. á dag og fyrir hvert barn yngra en 16 ára 24 kr. á dag og hámark bóta megi nema 356 kr. á dag. Þessar tölur allar eru grunntölur og skulu þær fylgja breytingum, sem kunna að verða á öðrum taxta verkamannafélagsins Dagsbrúnar.

Þótt hér sé síður en svo um neina ofrausn að ræða um styrkveitingar, ætti sú breyting, sem hér er lagt til, að gerð verði á upphæð bótanna, að verða nokkur bót fyrir atvinnuleysingjann frá því, sem nú er. En að sjálfsögðu kann sú spurning að vakna, hvort sjóðurinn hafi möguleika til að standast þær kröfur, sem slík breyting kynni að gera til hans, ef um verulegt atvinnuleysi yrði að ræða. Í þessu sambandi vil ég vísa til ítrekaðra yfirlýsingu verkalýðshreyfingarinnar um, að atvinnuleysi sé böl, sem hún ætlar sér ekki að una, og allt verði að gera til að koma í veg fyrir áframhald slíks ástands. Undir það hefur reyndar einnig verið tekið hér innan veggja Alþ., og því til viðbótar er rétt að staldra við nokkrar kunnar staðreyndir.

Í árslok 1966 nam höfuðstóll atvinnuleysistryggingasjóðsins 940 millj. kr. Vaxtatekjur hans það ár námu 61.6 millj. kr. Ef við miðum við bótagreiðslur frv. til kvæntra manna, dygðu vaxtatekjurnar einar til að greiða 1450 mönnum bætur í 25 vikur á ári. Á þessu má glögglega sjá, að sjóðurinn er vel fær um að standast þær kröfur, sem samþykkt þessa frv. mundi gera til hans.

Eins og áður er fram komið, hefur hlutverk sjóðsins raunar verið tvíþætt. Það er að veita lán til atvinnuuppbygginga og með því að koma í veg fyrir atvinnuleysi, sem annars hefði skapazt, og það, sem er að sjálfsögðu hans fyrsta skylda, að styrkja félaga verkalýðshreyfingarinnar til lífsframfæris í atvinnuleysi. Hvoru tveggja er mikilvægt, en æskilegt væri, að hann þyrfti aldrei að sinna því síðara. En staðreyndin er hins vegar sú, að bætur úr sjóðnum eru nú eina von allt of margra launþega, og fyrst þjóðfélagið stendur ekki við þá frumskyldu, að allt vinnufært fólk búi við atvinnuöryggi, getur hið háa Alþ. ekki skotið sér undan að breyta l. um atvinnuleysistryggingasjóð á þann veg, að hann sé fær um að greiða bætur, sem þjóni a.m.k. þeirri lágmarkskröfu atvinnuleysingjans að hafa fæði og klæði.

Herra forseti. Ég vil að lokum aðeins segja þetta. Á þingi Verkamannasambands Íslands og alls staðar annars staðar innan verkalýðshreyfingarinnar, þar sem þessi mál hafa verið til umr. og ályktunar, hafa allir verið á einu máli um nauðsyn þess, að bætur atvinnuleysistrygginga verði hækkaðar og að óréttlát og óþörf skerðingarákvæði verði felld niður úr lögum. Um málið hefur í verkalýðshreyfingunni fjallað fólk frá ólíkum starfsgreinum víðs vegar að af landinu og með ólíkar pólitískar skoðanir. Og óskir þess um breytingar hníga allar í sömu átt. Það er von okkar flm. þessa frv., að svo verði einnig hér á hinu hv. Alþ.,alþm., þrátt fyrir ólíkar pólitískar skoðanir, verði einnig sammála um nauðsyn þess að breyta l. um atvinnuleysistryggingasjóð í þá átt, sem frv. okkar gerir ráð fyrir, og að þeim breytingum verði hraðað svo sem frekast eru föng á.

Herra forseti. Ég leyfi mér svo að leggja til, að málinu verði vísað til hv. heilbr.- og félmn. d. að lokinni þessari umr.