06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í D-deild Alþingistíðinda. (3196)

144. mál, vegabætur og rannsókn á brúarstæði

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Pétursson):

Herra forseti. Fsp. þær, sem ég hef beint til hæstv. samgmrh., varða tvo alveg aðgreinda þætti, sem lúta að samgöngubótum við Vesturland, og hef ég því hvorki óskað skýrslu um heildaráætlun um samgöngubætur fyrir Hvalfjörð né heldur vakir fyrir mér að stofna tiI almennra umr. um þetta mál. Fsp. mínar eru bornar fram af sérstöku og gefnu tilefni.

Sýslunefndir beggja sýslnanna, sem Borgarfjarðarhérað mynda, samþykktu á síðustu aðalfundum sínum í fyrra áskorun á ríkisstj. og Alþ. m.a. um það, að upp yrðu teknar rannsóknir, sem miði að tilteknum umbótum og bættum samgöngum við Vesturland. Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að fsp. mínar lúta einvörðungu að rannsóknum, sem varða umræddar samgöngubætur. Ég get þessa, vegna þess að það er skoðun mín, að lítt rökstuddar áskoranir um, að í hinar og þessar framkvæmdir skuli ráðizt án nokkurra rannsókna, eru oft fjarri því að vekja traust Alþ. og stjórnvalda á viðkomandi máli. Ættu raunar allir að geta fallizt á það sjónarmið, að áður en ráðizt er í kostnaðarsöm mannvirki, þarf óhjákvæmilega að fara fram hlutlæg, vísindaleg, þ.e.a.s. tæknileg og fjárhagsleg rannsókn á viðfangsefninu. Sú rannsókn á síðan að verða forsenda ákvörðunar um það, hvort í framkvæmdina er ráðizt eða ekki. Getsakir eða tilfinningamál hvorki eiga né mega ráða því, í hvaða framkvæmdir við leggjum. Með líkum hætti má segja, að það sé einnig óverjandi að framkvæma ekki rannsóknir, sem almennar röksemdir benda til, að gætu orðið undanfari þýðingarmikilla umbóta í þjóðfélaginu.

1. liðurinn í fsp. minni varðar ástand þjóðvegarins við Skeiðhól í Hvalfirði. Þar hagar þannig til, að vegurinn liggur utan í fjallshlíð, um gil, og eru snarbrattar, langar brekkur beggja vegna þess. Nú er svo komið, að þjóðvegurinn fyrir Hvalfjörð hefur verið mjög mikið bættur á undanförnum árum, og nægir t.d. í því efni að minna á þá stórfelldu vegarbót, sem gerð var, þegar vegurinn var færður til í Þyrilshlíðinni norðan Hvalfjarðar á sinni tíð. Í vetur hefur að vísu oft verið umhleypingasöm tíð. En þó hefur reynslan orðið sú, að eini verulegi farartálminn á þessari leið fyrir Hvalfjörð hefur verið sneiðin og gilið við Skeiðhól, sem sumir kalla raunar við Staupastein. Sem dæmi um þetta má nefna það, að lengst af í vetur hafa það verið einu verulegu erfiðleikarnir, sem hinar stóru sementsflutningabifreiðar Sementsverksmiðju ríkisins hafa lent í, að komast þarna um. Þessar bifreiðar flytja þúsundir smálesta af sementi frá Akranesi og austur að Búrfelli, og það má heita, að við Skeiðhól hafi verið eina hindrunin á allri leiðinni frá Akranesi austur að Búrfellsvirkjun. Og það þarf auðvitað ekki að geta þess, að þetta dæmi á auðvitað við um fjölda marga aðra, sem þarna lenda í kostnaðarsömum töfum og erfiðleikum. Úrbætur þarna mundu því gera Hvalfjarðarleiðina verulega greiðfærari, og það má vel láta sér koma til hugar, að úrbótin verði sjálf með þeim hætti, að hún geti komið að fyllstu notum sem grundvallarlagfæring, þegar varanlegur vegur verður lagður þarna um.

Ég sagði áðan, að hér væri fylgt eftir áskorun héraðsstjórnar Borgfirðinga á Alþ. og ríkisstj. um samgöngubætur við Vesturland. Einn þáttur þeirrar samþykktar var sá að sem allra fyrst hæfust rannsóknir á hugsanlegu brúarstæði yfir Hvítá við Seleyri. Seleyri er, eins og menn vita, andspænis Borgarnesi, lítið eitt ofar. Það var ekki skorað á ríkisstj. að láta þegar í stað hefja slíka brúarsmíð, heldur láta rannsaka fræðilega, hvort slíkt verk væri af þjóðhagslegum ástæðum hagkvæmt og réttmætt. Mér skilst, að vegamálastjórnin hafi svo í sumar byrjað einhverjar rannsóknir á þessum stað, og nú æski ég upplýsinga um það, hvað fyrir liggur af fróðleik um þetta efni.

Óskir sýslunefnda eru studdar ýmsum almennum röksemdum. Í fyrsta lagi þeim, að núverandi aðstæður við gömlu Hvítárbrúna við Ferjukot eru orðnar með öllu óþolandi. Undirstöður, brýr og aðkeyrslugarðar við

Ferjukotssíki síga stöðugt, og þar hefur legið nærri stórslysum hvað eftir annað. Norðurá brýzt einatt í vatnavöxtum niður í síkið og stundum yfir Eskiholtsflóa, sem þar er vestur af, og veldur þar algerri ófærð. Að sunnanverðu við Hvítárbrú hagar þannig til, að í vatnavöxtum flæðir Hvítá stundum yfir bakka sína meðfram Hvítárvallahálsi og veldur þar ófærð. Af þessum sökum er ljóst, að það er óhjákvæmilegt, að það verður að gera stórt átak til þess að bæta úr þessum annmörkum, og þá vaknar spurningin um það, hvort ekki sé skynsamlegra þegar af þessari ástæðu einni að brúa ána annars staðar.

En það eru fleiri veigamikil rök, sem koma hér til. Ef niðurstöður rannsóknar yrðu jákvæðar og brúin yrði byggð, mundi leiðin frá Borgarnesi út á Akranes styttast um nær helming. Það mundi þýða ótrúlega breytingu á svo margvíslegan hátt, að jaðrar við eins konar framfarabyltingu á sviði samgangna. Það mundi t.d. þýða, að það væri unnt fyrir verkafólk úr Borgarnesi að hagnýta sér vertíðarvinnu á Akranesi einmitt á þeim tíma, þegar vinna er minnst í Borgarnesi. Það mundi einnig þýða, að Borgnesingar og héraðsbúar norðan Hvítár gætu sparað sér að koma upp sjúkraskýli í Borgarnesi. Þannig gæti brúarsmíðin beinlínis sparað milljónaútgjöld, að ekki sé minnzt á öryggið fyrir sjúka og særða, sem nú þarf að flytja þessa löngu leið á spítalann á Akranesi. Það þarf varla að fara mörgum orðum um það ástand, sem skapast, þegar menn til viðbótar langri vegalengd geta svo átt það á hættu, að samgöngur lokist vegna vatnavaxta eða af fannfergi.

Þá er líka rétt að benda á þann sparnað, sem við það yrði, að leiðin til Reykjavíkur styttist um fjórðung. Hvað skyldi þjóðarbúið spara á því við flutninga á 1200-1500 tonnum af kjöti árlega, 5 millj. lítrum af neyzlumjólk og margs konar öðrum landbúnaðarafurðum? Hvað græðir þjóðin á þeim sparnaði á vinnutíma og slíti á farartækjum, sem við þetta yrði? Og hvaða örvun í félagslegum og menningarlegum efnum mun af slíkri framkvæmd leiða um allt Vesturland?

Það er skoðun margra glöggra leikmanna, að brú yfir Hvítá við Seleyri sé ekki eins mikið mannvirki og almennt hefur verið talið. Ef rannsókn staðfestir það, sem við skulum vona, leyfi ég mér, herra forseti, að draga í efa, að það sé unnt að benda á margar framkvæmdir í þessu landi, sem betur mundu borga sig en umrædd brúarsmíði.