01.11.1971
Neðri deild: 8. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í D-deild Alþingistíðinda. (4107)

45. mál, endurskipulagning sérleyfisleiða

Flm. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Með þeirri till., sem hér er til umr., fer ég þess á leit við hv. Nd., að deildin samþykki, að ríkisstj. verði falið að láta athuga, hvort ekki sé tímabært að taka til rækilegrar endurskoðunar og endurskipulagningar sérleyfisleiðir langferðabifreiða í því skyni m.a. að koma á betri samgöngum milli byggðarlaga og landshluta.

Samkv. lögum nr. 42 1956 og lögum nr. 73 1966 er skipuð nefnd til að annast skipulagningu fólksflutninga með sérleyfisbifreiðum. Nefnd þessi heitir Skipulagsnefnd fólksflutninga. Skipunartímabil þeirrar nefndar, er nú situr, mun nú svo gott sem á enda runnið, en ekki mun vera búið að skipa í nefndina á ný. Gildistími sérleyfa rennur út á fyrri hluta næsta árs. Mér finnst því, að nú sé um heppilegan og eðlilegan tíma að ræða til að taka þessi mál til sérstakrar athugunar.

Eins og ég tek fram í grg. þeirri, sem fylgir till. minni, hefur skipulag sérleyfisbifreiða lítið breytzt frá því, að áætlunarferðir langferðabifreiða hófust hér á landi. Það er því ekki nema eðlilegt, að víða sé úrbóta þörf. Ég mun taka sem dæmi hluta sérleyfanna um Vesturland, þ.e. leiðina Reykjavík—Borgarnes—Snæfellsnes, þá leið, sem mér sjálfum er kunnugust. Ég vil svo undirstrika, að ég tel, að sú leið sé sízt verr skipulögð, en flestar aðrar sérleyfisleiðir. Samkv. leiðabókum um áætlanir sérleyfisbifreiða eru í gildi á þessari leið fimm sérleyfi. Leiðin Reykjavík—Borgarnes, tvö sérleyfi, leiðin Reykjavík—Stykkishólmur, leiðin Reykjavík—Grundarfjörður og leiðin Reykjavík—Ólafsvík—Hellissandur, eitt sérleyfi hver leið. Grundarfjarðar— og Stykkishólmssérleyfið er nú raunverulega eitt sérleyfi, þar sem sami sérleyfishafi hefur þau bæði. Brottfarartími Snæfellsnessérleyfanna á tímabilinu 1. okt. til 31. maí er sá sami, kl. l0 frá Reykjavík og kl. 9 frá Hellissandi og Grundarfirði. Rúturnar verða því samferða leiðina milli Vegamóta í Miklaholtshreppi og Reykjavíkur á báðum leiðum. Þegar til Borgarness kemur á suðurleið, bætist ein rúta sérleyfishafa við í hópinn, því að burtfarartími annars Borgarnes sérleyfisins er kl. 12.30, þ.e. á svipuðum tíma og Snæfellsnesrúturnar eru á ferðinni. Þessar þrjár rútur verða svo næstum samferða til Reykjavíkur. Fyrir kemur, að farþegafjöldi er ekki meiri en svo, að ein rúta mundi nægja fyrir alla farþegana.

Þess ber að geta, að það dæmi, sem ég hef tekið hér, miðast við vetraráætlunina, 1. okt. til 31. maí, átta mánuði ársins. Sumaráætlunin er breytilegri hvað viðkemur brottfarartíma að vestan, og er sú breyting mjög til bóta, þótt sá breytilegi brottfarartími lagi að litlu höfuðgalla skipulagsins.

Annmarkar á skipulagi þessara ferða koma fram á því, að það er ekki hægt að nota þær sem samgöngutæki innan landshluta til styttri ferða en tveggja daga. Ef við á utanverðu Snæfellsnesi þurfum að reka erindi í Borgarnesi og tökum okkur far með sérleyfisrútu, komumst við ekki heim fyrr en á öðrum degi. Ferðalag milli endastöðva, t.d. milli Reykjavíkur og Hellissands, tekur a.m.k. þrjá daga, ef viðkomandi þarf að reka erindi, sem útrétta þarf á venjulegum afgreiðslutíma opinberra stofnana, þ.e. það fara tveir dagar í ferðalög og einn dagur í erindisrekstur. Það skiptir ekki máli, hve fljótlegt er að koma erindinu af. Viðkomandi verður að bíða næsta dags eftir því, að ferð falli. Farþegi með nefndum rútum hefur ekki möguleika til þess að nota ferðina á Snæfellsnes í Borgarfjörð sem áfanga á leið til Norðurlands, Stranda, Vestfjarða eða Dala, þótt þessar leiðir skerist allar við vegamótin vestan Hvítár. Slíkir farþegar þurfa að fara til Reykjavíkur og gista þar eina nótt. Þá býður skipulag sérleyfisbifreiða upp á ferð til Norðurlands og hinna staðanna. Það ber ekki mikið á því í samgöngukerfinu, að eini kaupstaðurinn á Vesturlandi og þar með stærsti þéttbýlisstaðurinn, er Akranes, svo gersamlega er Akranes slitið úr samgöngukerfi umhverfisins. Farþegar sérleyfisbifreiða á Snæfellsnesi komast ekki til Akraness nema með sérstökum ráðstöfunum, láta sækja sig frá Akranesi eða að svokölluðum Akranesvegamótum eða komast þaðan til Akraness á puttanum, eins og kallað er. Ég mun ræða frekar um samgöngur við Akranes hér á eftir.

Með því skipulagi sérleyfisferða, sem nú er í gildi, virðist það eitt ráðandi að koma farþegum að og frá Reykjavík. Skipulagið gerir ekki ráð fyrir öðru, og er þó nógu illa séð fyrir því, eins og ég nefndi í sambandi við endastöðvarnar. Engar áætlunarferðir eru á milli kauptúna á norðanverðu Snæfellsnesi, og við það bætist, að heilir hreppar á Snæfellsnesi njóta ekki þessara samgöngutækja, Skógarstrandarhreppur alls ekki og Breiðuvíkurhreppur að mjög takmörkuðu leyti.

Þeir annmarkar á skipulagi ferða sérleyfisbifreiða, sem ég hef hér minnzt á, leiða ótvírætt í ljós, að hér er úrbóta þörf. Það er mjög langt frá því, að sú viðleitni, sem felst í því að halda uppi þeim sérleyfisferðum, sem nú eru farnar um landið, fullnægi á viðunandi hátt þeirri nauðsyn, að þess sé kostur að ferðast á milli byggða og landshluta án þess að það kosti of mikið og án þess að ferðalagið taki allt of langan tíma. Ríkjandi skipulag hindrar eðlilega og sjálfsagða þróun þjónustu mennta— og heilbrigðismiðstöðva í landshlutum. Með því að taka enn dæmi af Vesturlandi, bendi ég á, að í Stykkishólmi er sjúkrahús. Það er mjög vel búið tækjum, og í Stykkishólmi eru starfandi tveir læknar. En ástandið í samgöngumálum á Snæfellsnesi er þannig, að það er auðveldara fyrir okkur á Hellissandi, að komast til Reykjavíkur til læknisskoðunar, en til Stykkishólms og mun ódýrara. Kauptúnin á Snæfellsnesi hafa hvert fyrir sig upp á ýmsa þjónustu að bjóða, en það, sem er fyrir hendi í einu kauptúninu, er kannske ekki til í hinu, en samgönguleysi milli kauptúnanna hindrar það, að um gagnkvæma og eðlilega verkaskiptingu sé að ræða milli þeirra. Og því verður það oftast, að sú þjónusta, sem fyrir hendi er í næsta kauptúni, er undir flestum kringumstæðum fengin frá fjarlægari stöðum. Það mætti geta þess svona innan sviga, að póstleiðin milli kauptúnanna á Snæfellsnesi liggur um Reykjavik.

Næststærsti kaupstaður landsins utan Reykjanessvæðisins og Vestmannaeyja, Akranes, er skilinn eftir eins og eyja í úthafi án nokkurra samgangna við það svæði, sem kaupstaðurinn ætti og þyrfti að vera í samgöngutengslum við. Á Akranesi er fullkomið sjúkrahús og mjög góð heilbrigðisþjónusta. Þar er og margs konar iðnaður. Akranes býður upp á fjölbreytta verzlun, fjölbreyttari en á nokkrum öðrum stað á Vesturlandi. Með bættum samgöngum og þar með stækkuðu viðskiptasvæði gæti þessi verzlun orðið fjölbreyttari og söluumsetningin aukizt. Sama er að segja um iðnað o.fl. Slík þróun er mjög æskileg og hagstæð fyrir íbúa Akraness og alla Vestlendinga. Þrátt fyrir samgönguleysið hafa læknar á Akranesi hjálpað fólki af Vesturlandi í ótalmörgum slysa— og veikindatilfellum, og það má kannske segja, að það hafi verið fyrst og fremst undir slíkum kringumstæðum, að við þar vestra gerðum okkur grein fyrir og vitum, að það er staðreynd, að Akranes er ekki eyja. Það er ótrúleg staðreynd, að á meðan lækna— og heilbrigðisþjónustu vantar um land allt, er ekkert gert til þess að gera fólki í nærsveitum Akraness og Stykkishólms kleift að komast til þessara staða, þar sem þessi þjónusta er fyrir hendi, nema með miklum kostnaði og fyrirhöfn. Þetta margnefnda skipulag sérleyfisleiða vinnur gegn þeirri stefnu, sem kölluð er byggðaþróunarstefna, vinnur gegn eðlilegri samvinnu byggðarlaga og landshluta og kemur í veg fyrir, eins og ég hef hér áður sagt, uppbyggingu heilbrigðisþjónustu og menntamiðstöðva í landshlutum og skapar kröfur um uppbyggingu slíkra stöðva í hverju byggðarlagi.

Þótt ég hafi tekið hluta af Vesturlandi sem dæmi um ófullnægjandi skipulag þessara mála, þá vil ég nú aftur ítreka það, að ég tel, að úrbóta sé engu síður þörf á þessu sviði í öðrum landshlutum. En ég sé ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt með dæmum þar um. Ég vil og taka það fram, að gagnrýni minni er ekki beint til sérleyfishafanna, hinna svokölluðu rútubílstjóra, sem í mörgum tilfellum eru sömu mennirnir. Sérleyfishafar sýna í mörgum tilfellum sérstakan dugnað við það að halda uppi ferðum við erfiðar aðstæður og oft og tíðum litla eftirtekju.

Herra forseti. Ég ætla nú að setja fram dæmi um breytt fyrirkomulag sérleyfisleiðanna Reykjavik—Borgarnes—Snæfellsnes. Dæmið er þannig:

Svæðinu yrði skipt í fjögur sérleyfi:

I. Borgarnes—Reykjavík. Farnar yrðu fjórar ferðir á dag báðar leiðir. Ferðir hæfust snemma morguns frá Reykjavík og Borgarnesi. Hér gæti verið um tvö sérleyfi að ræða, eins og nú er. Áætlanir sérleyfisbifreiða til Norðurlands, í Dali, á Vestfirði og Strandir yrðu samræmdar áætlun Borgarnessérleyfis, þannig að farþegar geti skipt um bíla við vegamót vestan Hvítár eftir því, hvert ferð þeirra er heitið.

2. Akranes—vegamót Vesturlandsvegar. Fjórar ferðir á dag í beinum tengslum við Borgarnes—Reykjavík.

3. Borgarnes—Ólafsvík—Hellissandur. Tvær ferðir á dag, báðar leiðir í beinum tengslum við Borgarnes—Reykjavík.

4. Vegamót—Stykkishólmur—Grundarfjörður. Tvær ferðir á dag í beinum tengslum við Borgarnes—Ólafsvik—Hellissandur. Þetta sérleyfi annaðist auk þessa áætlunarferðir um Snæfellsnes. Fjöldi áætlunardaga yrði sá sami og nú er. Fækkun ferða á leiðinni Reykjavik—Borgarnes gæti því verið eðlileg þá daga, sem Snæfellsnesleiðin heldur ekki uppi ferðum.

Ég set þetta fram sem dæmi, ekki sem till., og mér finnst, að útkoman úr dæminu sé góð. Með því hverfa þeir annmarkar á fyrirkomulagi sérleiðanna, sem ég hef hér rætt um, og komið yrði á fullkomnu samgöngukerfi innan landshlutans sjálfs, um leið og samgöngur við Reykjavík og aðra landshluta yrðu stórbættar. Vegalengdin, sem ekin yrði samkv. þessu dæmi, er sú sama og nú er farin. Það er raunverulega ekki um aðra breytingu að ræða en þá, að í stað þess, að nú verða tvær eða þrjár rútur samferða, fer ein rúta fleiri ferðir. Inn í þetta dæmi kemur þó sú breyting, að gert er ráð fyrir sérstöku sérleyfi um Snæfellsnes og Akranes að Vesturlandsvegi. Þar yrði um viðbótarvegalengdir að ræða. En hvað sem verður um aðrar breytingar, þá held ég, að bæði þessi sérleyfi verði að koma nú þegar með tilliti til sjúkrahúsanna á Akranesi og í Stykkishólmi. Ef skipulag sérleyfisferða um Vesturland yrði svipað því dæmi, sem ég hef sett hér fram, mundi í Borgarnesi verða umferðarmiðstöð fyrir Vesturland. Í Borgarnesi er góð aðstaða til þjónustu við ferðamenn í Hótel Borgarnesi. Ég tel þó, að sú aðstaða sé ekki fullnægjandi. Eðlilegra væri, að í Borgarnesi yrði byggð umferðarmiðstöð með svipuðu sniði og í Reykjavík. Bygging umferðarmiðstöðvar í Borgarnesi byggist þó fyrst og fremst á því, að byggð verði brú yfir Borgarfjörð við ósa Hvítár og um leið og þeirri framkvæmd yrði lokið yrði öllum sérleyfisleiðum norður og vestur frá Reykjavík breytt þannig, að í Borgarnesi verði skiptistöð og síðan veitt sérleyfi þaðan um Dali, Vestfirði, Strandir og Norðurland. Borgarnes yrði þá tengistöð fyrir alla þessa landshluta.

Herra forseti. Ég hef dregið hér upp nokkra grófa drætti bæði í dæmi mínu um hugsanlega endurskipulagningu og þá annmarka, sem eru á skipulagi sérleyfisferða. Hér er ekki um neina fullkomna lýsingu að ræða á hvorugan veg. Takmark mitt er fyrst og fremst það að fá um þetta mál umræður og athugun. Ég vænti þess, að hv. þm. veiti till. minni stuðning, og ef svo fer, sem ég vona, að till. verði samþ. hér í deild, þá muni ríkisstj. láta kanna þessi mál rækilega og sjá svo um, að ýmsar lagfæringar verði gerðar.