14.12.1971
Sameinað þing: 24. fundur, 92. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

1. mál, fjárlög 1972

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gerði hér að umtalsefni afgreiðslu fjárlaga á árunum 1960 og næsta áratug. Hann minntist á það, að við 2. umr. hefði stundum verið geymt fram til 3. umr. að afgreiða eftirlaun, ýmsar verklegar framkvæmdir, skólahyggingar, brúabyggingar o.fl. Og einnig hefði komið fyrir, að geymt hefði verið til 3. umr. að gefa yfirlit um tekjuáætlunina. Þetta er auðvitað rétt, og þetta sama á sér náttúrlega að nokkru leyti stað nú og jafnan og er ekkert við það atriði að athuga. Þessi ummæli hæstv. ráðh. eru engan veginn svar við því, sem hér hefur verið einkum að fundið varðandi málsmeðferðina nú. Það er allt annað. Það, sem hér er deilt á, er það, að enn er ekki búið að ganga frá sumum grundvallarlögum, sem fjárlagafrv. verður byggt á. Hér hafa verið lögð fram nú alveg nýskeð frv. um gjörbreytingu á tekjuskatti og eignarskatti til ríkisins, gjörbreytingu, sem hefur það í för með sér, að ef samþ. verður óbreytt, þá mun tekjuáætlun fjárlaga af tekjuskatti hækka stórkostlega, jafnvel kannske upp undir það tvöfaldast. Annað frv., sem hér hefur verið lagt fram um tekjustofna sveitarfélaga, hefur líka veruleg áhrif á fjárlagafrv. sjálft, vegna þess að samkv. því er gert ráð fyrir því að bæta á fjárlög ýmsum útgjöldum, sem sveitarfélögin inna nú af höndum. Nú er það svo, að þessi frv. hafa ekki verið rædd, ekki einu sinni við 1. umr. hér í þingi, og það er alveg óséð enn, hvort þessi frv. verði afgreidd óbreytt eða í meginatriðum eins og þau eru, m.a. vegna þess að þessi mikilvægu frv. og umfangsmiklu hafa því miður ekki hlotið þann undirbúning, sem æskilegt hefði verið. Að því er snertir t.d. jafnstórt mál eins og tekjustofna sveitarfélaga og verulegar breytingar á verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þá ætla ég, að Samband ísl. sveitarfélaga muni lítið sem ekkert hafa fengið um það að fjalla. Vegna hins ónóga undirbúnings á þessum tveimur mjög mikilsverðu málum, verður auðvitað að draga það í efa, að slík handjárn hafi verið sett á þm. hæstv. ríkisstj., að þeir hafi fyrir fram ákveðið það eða verið bundnir til þess að samþykkja þetta allt saman óbreytt. Hér er það mjög aðfinnsluvert og ámælisvert, að jafn mikilvæg frv. eins og þessi tvö fyrir afgreiðslu fjárlaga, undirstöðuatriði í fjárlögum, skuli ekki hafa verið lögð fyrir Alþ. miklu fyrr, til þess að Alþ. fengi um þau að fjalla, og náttúrlega þyrfti svo að vera eða hefði þurft og í mestu samræmi við það, sem áður hefur viðgengizt, að slík frv. væru ekki aðeins rædd, heldur orðin að lögum, áður en fjárlagafrv. er afgreitt. Ég skal ekki fara út í þetta atriði frekar hér að sinni. E.t.v. gefst tækifæri til þess að ræða þetta nánar við 3. umr. fjárl.

Það, sem ég ætlaði hér fyrst og fremst að gera, er að mæla örfá orð fyrir brtt., sem ég flyt á þskj. 192. Það er um, að framlag til listamannalauna skuli hækka úr 5 millj. 630 þús., eins og það er í frv., upp í 8 millj. kr. Fyrir fjvn. hafa legið tvö erindi, annað frá Rithöfundasambandi Íslands og hitt frá Félagi ísl. rithöfunda. Í hinu fyrra er lýst nokkurri undrun yfir því, að framlag til listamannalauna skuli óbreytt í frv. fyrir árið 1972 frá því, sem það er í fjárlögum yfirstandandi árs. Og stjórn Rithöfundasambandsins telur brýna nauðsyn hera til, að framlögin verði hækkuð verulega, þau séu ófullnægjandi, og telur æskilegt, að fylgt verði þeirri stefnu, sem fram hefur komið í till. ýmissa þm. núv. stjórnarflokka á undanförnum árum um verulega hækkun á listamannafé.

Í hinu erindinu er ákveðin upphæð nefnd. Það er óskað eftir, að upphæðin sé hækkuð í 8 millj. kr., og um það fjallar till. mín. Í því bréfi segir m.a. svo:

„Hækkanir listamannalauna á undanförnum áratugum hafa hvergi nærri haldizt í hendur við stórkostlega aukningu á öðrum útgjöldum ríkissjóðs. Þetta er þeim mun tilfinnanlegra, sem þörfin á fé til bókmennta- og listsköpunar hefur farið ört vaxandi síðustu árin, bæði við mikla fjölgun listamanna og listgreina með þjóðinni auk rýrnandi kaupmáttar krónunnar.“

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta nauðsynjamál, að búa sem bezt að listamönnum þjóðarinnar og skapa þeim víðunandi starfsskilyrði. En vegna þeirra ummæla, sem hér eru viðhöfð í bréfi Félags ísl. rithöfunda, um það, að hækkanirnar hafi ekki haldizt í hendur við aukningu á öðrum útgjöldum, þá vil ég aðeins leyfa mér að staðfesta það, því að ef lítið er á árin t.d. 1960–1961 og næstu ár þar á eftir, þá er það yfirleitt þannig, að upphæð til listamannalauna er tæplega eða um 1% af heildarútgjöldum ríkisins. Þannig er það um margra ára skeið, 0.9–1% af heildarútgjöldunum. En samkv. stjfrv., eins og það var lagt fyrir, þá er upphæðin til listamanna, og tek ég þá alla þrjá liðina, bæði heildarupphæðina, heiðurslaunin og starfslaunin, þá er upphæðin ekki 1%, heldur tæplega 0.6% af heildarútgjöldum fjárlaga. Það er því rétt, sem nefnt er í bréfi rithöfundanna, að hér hefur hrakað mjög hlutfallinu. Jafnvel þótt till. hv. fjvn. yrðu samþ., eins og þær liggja nú fyrir eftir leiðréttingu, og eins þó maður fari mjög vægilega í áætlun á hækkun fjárlaga, þá er það sýnilegt, að þessar upphæðir verða samt sem áður ekki yfir 0.7% af heildarútgjöldum fjárlaga. Hér er auðvitað ákaflega óheppilega að farið, þegar hlutfallið lækkar svo mjög af heildarútgjöldum fjárlaga frá því, sem verið hefur lengi áður. En þetta er auðvitað ekki eina ástæðan til þess, að farið er fram á þá hækkun, sem hér er um að ræða, heldur hin brýna þörf. Þessari upphæð, sem hér er lagt til, að verði hækkuð úr 5.6 millj. í 8 millj., er úthlutað af sérstakri nefnd, sem kosin er af Alþ., 7 manna nefnd, og hefur hún haft þá reglu að skipta þessu í tvo hópa. Á s.l. ári fékk annar flokkurinn 40 þús. kr. listamannalaun, en hinn flokkurinn 80 þús. Ég veit það ákaflega vel af samtölum og kynnum af ýmsum þeim mönnum, sem sitja í þessari nefnd, að það hefur verið ákaflega erfitt starf, næstum því óvinnandi verk að úthluta þessari upphæð og brýn nauðsyn nú á næsta ári bæði að hækka þessar fjárhæðir, sem náttúrlega nú miðað við núverandi launakjör og lífskjör í landinu eru allt of lágar, og auk þess að fjölga þeim sem fá þessa styrki.

Ég skal ekki fara um þetta fleiri orðum. En það er nú áliðið kvölds og líklega kominn tími til kvöldbæna, og það er gamall og góður síður og talið hollt hverjum manni að fara með gott orð undir svefninn. Og ég vil því að ráði hæstv. forsrh. grípa kverið hans og fletti þá upp í Ólafi IV. 18., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Listir, bókmenntir og önnur menningarstarfsemi hljóti aukinn stuðning.“

Og ég vil nú, að það verði kvöldbæn mín, að stjórnin beri gæfu til að standa vel við orð sín og henni megi auðnast víðsýni til þess að leyfa stuðningsmönnum sínum að gera það, sem þá langflesta langar til, en það er að greiða atkv. með till. minni listamönnum landsins til farsældar og hagnaðar.