21.02.1973
Neðri deild: 53. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 2025 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í fréttaskeyti frá fréttaritara Morgunblaðsins hjá Norðurlandaráði, sem birt er á forsíðu Morgunblaðsins, stendur m. a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefur vakið mikla athygli hér, að Ólafur Jóhannesson forsrh. hélt heimleiðis, en var ekki viðstaddur fund ráðsins í dag, þar sem till. var afgreidd:

Í fréttaskeyti, sem fréttaritari Alþýðublaðsins hefur sent því blaði, er svo nokkuð á þessu hert, þar sem svo segir, með leyfi hæstv. forseta :

„Sem fyrr segir fór Ólafur Jóhannesson forsrh. frá Osló á þriðjudagsmorgun, nokkrum klukkustundum áður en till. kom til umr. Vakti það athygli margra, að forsrh. skyldi ekki bera fram þakkir fyrir hönd Íslendinga á fundinum.“

Ég tel þarna vera um nokkuð einkennilega sendingu að ræða og tel, að í henni felist dulbúið ámæli í minn garð, og þess vegna vil ég strax nota þetta tækifæri til þess að gera á Alþ. grein fyrir skiptum mínum af þessu máli og gefa nokkra skýringu á því, hvers vegna ég var ekki viðstaddur þennan fund í Norðurlandaráði, þar sem till. var endanlega afgreidd.

Þetta mál átti sér nokkurn aðdraganda á þinginu, framlag Norðurlandanna til Íslands vegna jarðeldanna í Vestmannaeyjum. Ég tók þátt í fundum um það mál, fyrst á fundum samstarfsráðh. út af fyrir sig, síðan á fundum forsrh., og mér er óhætt að segja, að t. d. á mánudag mun ég hafa setið eina þrjá fundi um þetta mál með forsrh. hinna Norðurlandanna. Þessi mál bar mjög á góma í ræðum við almennar umr. á fundi Norðurlandaráðsins, og þar létu margir, bæði ráðh. og einstakir þm., mjög vinsamleg orð falla í garð okkar Íslendinga og miklar áskoranir til Norðurlandanna hinna að hlaupa hér drengilega undir bagga. Það væri of langt mál hér að nefna einstaka menn í þessu sambandi. En vitaskuld var það svo, að forsrh. höfðu í raun og veru um þetta endanlega síðasta orðið. Og það er ekkert leyndarmál, að margir höfðu í huga allverulega minni fjárhæð heldur en raunin varð á. En fyrir einmitt þær áskoranir, sem komu fram frá einstökum þm., fyrir velvilja ýmissa embættismanna, sem um þetta fjölluðu, og ég vil líka ætla, að fyrir heilbrigðar viðræður, sem fóru fram á milli okkar forsrh., þá varð raunin sú, sem mönnum er kunnugt um.

Að sjálfsögðu var hlutverk mitt á þessum forsrh.- fundum einungis það að reyna að gera grein fyrir ástandi og horfum í þessu efni og gefa yfirlit, að svo miklu leyti sem það var hægt, yfir ástandið eins og það er nú, en taka jafnframt skýrt fram, að enginn gæti sagt um það, hver framvindan að öðru leyti yrði. Og ég lagði fyrir forsrh. þýðingu á þeim lögum, sem hér voru afgreidd um Viðlagasjóðinn eða um neyðarráðstafanir vegna jarðeldanna í Vestmannaeyjum. Og ég held, að mér sé óhætt að segja, að það hafi haft nokkur áhrif á þá, þegar þeir sáu, hvað Íslendingar voru þegar búnir að leggja á sig af álögum til þess að mæta þessu tjóni, miðað við þær heildarálögur, sem annars eru á þjóðina lagðar. Niðurstaðan af þessu varð svo sú, að kl. 3 á mánudag héldu forsrh. fjórir fund saman um málið. Ég óskaði ekki að vera á þeim fundi, og þeir skildu það, því að vitaskuld var ekki hægt fyrir mig að nefna beinlínis neina ákveðna fjárhæð í þessu sambandi.

Á þessum fundi forsrh. á mánudag kl. 3 samþykktu þeir að gera það að till. sinni að veita þegar 100 millj. danskar kr., þar í innifaldar þær 25 millj., sem þegar höfðu verið ákveðnar. Eftir þennan fund var svo sameiginlegur fundur forsrh. og forseta ráðsins og þar var ákveðið, að formenn sendinefndanna skyldu fara með þessa till. í sendinefndirnar, hver í sína sendinefnd. Það gerðist í gærmorgun á fundum kl. 9. Síðan komu saman kl. 10 í gærmorgun forsrh. landanna og forsetar ráðsins, sem eru formenn hver í sinni sendinefnd, og þar gátu þeir skýrt frá því, að till. forsrh. hefði verið samþ. umræðulaust og einróma í öllum sendinefndunum. Þar með var raunveruleg ákvörðun tekin um þetta mál. Á þessum fundi þakkaði ég með nokkrum orðum fyrir þessa afgreiðslu. Auk þess, af því að ég hafði ákveðið brottför mína um 12-leytið og varð að gera það til þess að komast hingað heim í gærdag, — og þeim var kunnugt um það, sem þar voru, — þá vil ég geta þess vegna þeirra, sem eru óskaplega tortryggnir í garð manns um það, að maður sýni ekki tilhlýðilega kurteisi, að ég kvaddi hvern einstakan forseta ráðsins með handabandi og þakkaði honum fyrir, og þeir voru allir viðstaddir, og sömuleiðis kvaddi ég hina forsrh. með handabandi og þakkaði þeim fyrir. Anker Jörgensen, forsrh. Danmerkur, var þá farinn heim, en honum hafði ég alveg sérstaklega þakkað, áður en hann fór, eins og réttmætt var. Það var síðan ákveðið, að fundur skyldi haldinn í ráðinu kl. 2, þar sem þessi till. yrði lögð fram. Hún er vitaskuld eins og aðrar till., sem ráðið samþykkir, aðeins tilmæli til viðkomandi ríkisstj. En með því að þarna er um að ræða till., sem forsrh. voru búnir að samþykkja og gera að sinni till., þá eru pólitísk skilyrði og pólitískt tryggt, að þetta kemst í framkvæmd, þannig að samþykkt ráðsins var að vísu formsatriði, nauðsynlegt, og efalaust hátíðleg stund. En endanleg úrslit málsins voru að öllu leyti ráðin, áður en ég fór frá Osló.

Þannig hafði staðið á, að ég hafði gert mína ferðaáætlun, áður en ég fór héðan af landinu, og ég hafði satt að segja reynt að haga henni þannig, að ég væri ekki lengur fjarverandi en nauðsynlegt væri. Mér hefur skilizt, að það væri lögð frekar áherzla á það, að menn eyddu ekki of löngum tíma í ferðalög erlendis. Og eins og allir vita, sem nokkuð þekkja til í Norðurlandaráði, þá er algengt, að ráðh. hverfi mjög af þinginu síðari daga þess, vegna þess að þá fara fram atkvgr. á þinginu og aðalstarfsemin liggur í því, að þar fara fram atkvgr., en eins og allir vita líka, sem kunnugir eru starfsháttum Norðurlandaráðs, þá hafa ráðh. þar ekki atkvæðisrétt. Þeir eru því velflestir búnir að ljúka af sínu erindi á þinginu á þessum síðasta tíma þess. Þess vegna er það síður en svo nokkuð óvenjulegt, að forsrh. eða aðrir ráðh. sitji ekki út allan þingtímann. Ég mundi heldur segja, að það væri regla.

Ég vissi auðvitað ekki, þegar ég gerði mína ferðaáætlun og pantaði flugfar, hvaða dag eða hvaða stund þetta mál mundi koma fyrir þingið, og það var raunar ekki ákveðið fyrr en í gærmorgun, á fundinum kl. 10, hvenær þetta mál yrði tekið fyrir á fundi ráðsins. Auðvitað má segja, að ég hefði getað breytt ferðaáætlun minni. En ég verð að segja það alveg hreinskilnislega, að þær fregnir, sem mér bárust út til Osló um ástandið í Vestmannaeyjum og framvinduna þar, ýttu heldur en hitt undir minn heimfararvilja.

Ég vil svo segja það, áður en ég fór, bað ég formann íslenzku sendinefndarinnar, Jón Skaftason, að þakka fyrir þegar þessi till. hefði verið afgreidd á ráðsfundinum. Ég tel, að það hafi verið alveg rétt og viðeigandi aðferð. Þarna voru íslenzkir ráðh, eftir, og gat vitaskuld komið til mála, að ég hefði beðið annan hvorn þeirra eða falið þeim að flytja fram þakkir. Um það töluðum við. En þar sem þarna var um fund ráðsins að tefla og sá háttur var hafður á, að ráðh. komu þar hvergi nærri, heldur var það forseti þingsins, Käre Willoch, sem lagði till. fram, þá þótti okkur viðeigandi, að það væri einmitt maður úr hópi þm., sem flytti þarna nokkur þakkarorð. Og þá var auðvitað eðlilegast, að það væri formaður sendinefndarinnar.

Það þykir kannske einhverjum, að það sé óþarfi af mér að rekja þetta svo hér. En ég verð að segja það, að mér þætti mjög leiðinlegt, ef sá misskilningur kæmist á loft og væri breiddur út, að ég hefði sýnt þessu máli eitthvert tómlæti, og þess vegna hef ég kosið að gera þessa grein fyrir því hér strax. Ég skal ekkert ræða um það, hversu fjarvera mín þarna hefur vakið mikla eða almenna athygli. Ég verð að vísu að segja, að ég varð ekki var við, meðan ég var á þinginu, að þessir ágætu fréttaritarar hefðu sambönd eða samtöl við einstaka þm. á Norðurlöndum eða einstaka ráðh., nema þá íslenzku fulltrúana.

En um leið og úr því að ég þurfti að standa upp til þess að gera grein fyrir þessu, þá vil ég ekki láta hjá líða að láta í ljós alveg sérstakt þakklæti mitt til Norðurlandaráðs fyrir afgreiðslu þessa máls og alveg sérstaklega til forsrh. hinna Norðurlandanna, sem sýndu að mínum dómi alveg sérstaka vinsemd og skilning í þessu máli. Þetta er höfðinglegt framlag. En það er undirstrikað: að lýsa því yfir, að þeir ætli að vinna — „samarbeta“ — með Íslendingum að lausn vandans, þannig að þetta er á engan hátt neitt endanlegt framlag, sem þarna er um að ræða. En það, sem meira verður, er komið undir sameiginlegu mati og fer undir sameiginlegt mat allra ríkisstj. á Norðurlöndum.

Ég held, að það gæti verið ástæða til fyrir Alþ. að láta síðar í ljós þakklæti sitt fyrir þessi drengilegu viðbrögð frændþjóða okkar á Norðurlöndum. Það er ekki aðeins, að það sé um þessi opinberu framlög að tefla, heldur varð ég mjög var við það, að mjög víða á Norðurlöndum eru byrjuð samtök um frjáls framlög og á sumum stöðunum, eins og t. d. í Gautaborg, Helsingfors og víðar, þegar mjög verulegar fjárhæðir, sem um er að tefla, þannig að við megum sannarlega láta þakklæti okkar í ljós.

Mér þótti rétt og nauðsynlegt, eins og ég sagði áðan, að láta þessar skýringar koma fram, af því að ég vil ekki á nokkurn hátt liggja undir því ámæli að hafa sýnt þessu máli tómlæti. Hér er vissulega um mikil framlög að tefla, sem hafa stórkostlega þýðingu fyrir okkur Íslendinga og hjálpa okkur mjög mikið til þess að mæta þeim vanda, sem við er að glíma. Hitt skal ég svo játa, að ég var svo barnalegur að halda, að ég mundi ekki í sambandi við þetta mál þurfa hálfpartinn að fara að bera hönd fyrir höfuð mér, en svo lengi lærir sem lifir.