05.12.1973
Neðri deild: 36. fundur, 94. löggjafarþing.
Sjá dálk 1097 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

119. mál, skipulagslög

Flm. (Stefán Gunnlaugsson) :

Herra forseti. Á þskj. 145 er frv. til l. um breyt. á skipulagsl., nr. 19 21. maí 1964. Flm. eru auk mín hv. alþm. Ágúst Þorvaldsson, Lárus Jónsson, Gils Guðmundsson, Karvel Pálmason og Ólafur G. Einarsson. Frv. er samið af stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga og er flutt að hennar ósk. Frv. er stutt og svo hljóðandi:

„1. gr. Aftan við 35. gr. l. bætist ný mgr., svo hljóðandi:

Auk skipulagsgjalds, sem um ræðir í l. mgr., skal árlega greiða úr ríkissjóði til framkvæmdar skipulagsmála eigi lægri fjárhæð en nemur helmingi skipulagsgjalda liðins árs. Skal til bráðabirgða miða við áætlun fjárl. þess árs, en leiðrétta síðan í samræmi við innheimt skipulagsgjöld, sem renna skulu óskipt til þessara mála. 2. gr. Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1974.“

Óhætt er að fullyrða, að vaxandi skilningur er hjá mörgum fyrir nauðsyn þess, að jafnan sé vel vandað til gerðar skipulags við uppbyggingu sveitarfélaga. Sveitarstjórnarmenn þekkja af reynslu, hversu kostnaðarsamt það getur orðið auk mikilla annarra óþæginda, þegar fyrirhyggju og vandaðan undirbúning hefur skort við töku ákvarðana í sambandi við byggingarframkvæmdir, götulagnir og aðrar skipulagsskyldar framkvæmdir í sveitarfélögunum. Mistök af því tagi hafa sennilega kennt mönnum, sem hafa haft þess háttar verkefni með höndum, betur en ýmislegt annað, hversu ákaflega mikilvægt það er, að rétt og skynsamlega sé að skipulagshönnun byggðarlaga staðið, að þau mál fái ávallt góðan og vandaðan undirbúning og með þau fari sérmenntaðir menn, þannig að tryggt verði, eftir því sem frekast eru tök á, að ákvarðanir, sem teknar eru í þeim efnum á hverjum tíma, fáist staðist tímans tönn, ef svo má segja.

En við lifum á tímum örrar framþróunar á flestum sviðum. Aðstæður á ýmsum sviðum eru sífelldum breytingum undirorpnar. Svo er einnig á vettvangi skipulagsmála. Þrátt fyrir framsýni og þekkingu arkitekta og annarra sérfræðinga á þeim vettvangi er ekki hægt að ætlast til að þeir eða aðrir geti séð fyrir alla óorðna hluti á þessu sviði, þótt vel og vandlegu sé að slíkum málum unnið. Því er einnig ákaflega mikilvægt, að skipulag sveitarfélaga sé jafnan í stöðugri endurskoðun og í samræmi við breyttar aðstæður og ný sjónarmið.

Yfirstjórn þessara mála á skipulagsskyldum stöðum er, eins og kunnugt er, í höndum skipulagsstjórnar ríkisins. Sú stofnun hefur á að skipa 7 manna föstu starfsliði, sem hefur með höndum gerð skipulags og endurskoðun á um það bil 100 stöðum. Það liggur því í augum uppi, að þetta fámenna starfslið er gersamlega yfirhlaðið störfum. Skipulagsstjórn ríkisins hefur margsinnis lýst sig fylgjandi því, að sveitarfélögin fái að hafa meiri veg og vanda af skipulagningu en verið hefur. Ýmis sveitarfélög hafa óskað eftir að fá slíka heimild, og hefur hún verið veitt í nokkrum tilfellum. Í þessu sambandi má geta þess, að Reykjavíkurborg hefur farið með sín skipulagsmál sjálf og að mestu leyti á eigin kostnað, en í náinni samvinnu við skipulagsstjórn og áður fyrr við skipulagsnefnd ríkisins.

Það virðist æskilegt og eðlilegt í alla staði, að að því verði stefnt, að fleiri aðilar en til þessa verði virkir aðilar í skipulagsstarfinu. Á ég þar við sveitarfélögin, að þau geti annast þessi mál hvert fyrir sig, eftir því sem þau sjálf kjósa og hafa aðstöðu til, en þó að sjálfsögðu í samvinnu og nánu samstarfi við skipulagsstjórn ríkisins. Við það ætti að fást meiri fjölbreytni og nýjar hugmyndir fremur að geta komið fram en verður, ef svo að segja öll skipulagning fer fram í einni stofnun.

Þá er einnig hægt að hugsa sér, að heppilegt gæti verið, að landshlutasamtök sveitarfélag tækju að sér með tímanum skipulagsstörf, en bent hefur verið á, að mikla nauðsyn beri til þess að skapa tæknimenntuðum mönnum starfsskilyrði úti um land. Með skipulagsl. frá 1984 var ákveðið, að heimila mætti sveitarfélögum að annast gerð skipulags undir yfirstjórn skipulagsstjórnar. Þessi lög gerðu enn fremur ráð fyrir, að sveitarfélögin gætu vænst hlutdeildar úr ríkissjóði við slíkt. Sú heimild var þó talin óviðunandi, með því að henni voru settar mjög þröngar skorður. En það tókst að fá þessa heimild víkkaða nokkuð með l. nr. 41 24. maí 1972. Samkv. þeim l. er á ýmsan hátt takmarkað, hversu mikil fjárframlög sveitarfélög, sem fá skipulagsmálin í eigin hendur, geti vænst að fá í því skyni, þannig að viðkomandi rn. getur haft hemil á slíku. Gert er ráð fyrir, að gerður sé samningur eða settar reglur um það, hvaða kostnaði við gerð skipulags skipulagsstjórn taki þátt í, hvernig greiðslum skuli hagað og annað þess háttar. Skipulagsstjórn getur gengist fyrir skipun nefnda ýmissa aðila, sem hlut eiga að máli, til að fjalla um þetta efni, sem er, eins og að líkum lætur, oft erfitt úrlausnar, en eigi að síður nauðsynlegt að leysa til að koma í veg fyrir ágreining siðar meir.

Ég hef hér drepið á mikilvægi þess, að jafnan sé vel og vandlega að skipulagsmálum sveitarfélaga unnið. En því miður er það svo, að skortur á fjármunum hefur staðið þessum málum fyrir þrifum á liðnum árum. Skipulagsstjórn ríkisins hefur ekki getað sinnt þessu, svo sem hugur hennar hefur staðið til og þörf hefur verið á. Þó hefur ríkissjóður ekki haft nein bein útgjöld vegna skipulagsmála, þar sem sérstakur tekjustofn, skipulagsgjald, sem er 3% af brunabótaverði nýbygginga, hefur staðið undir kostnaði við þau mál. Þessi tekjustofn var ákveðinn með það fyrir augum, að hann gæti staðið straum af kostnaði vegna skipulagsmála sveitarfélaga. En þannig hefur til tekist með áætlun fjárl., allt frá því að lög voru fyrst sett um þennan tekjustofn árið 1938, hvað innheimt skipulagsgjöld og fjárveitingu til skipulagsmála snertir, að skipulagsgjöldin hafa lengst af reynst hærri en áætlun á fjárl., en greiðslur til skipulagsmála verið miðaðar við þá áætlun. Það, sem umfram varð fram til ársins 1970, rann til almennra þarfa ríkissjóðs, en þá fékkst viðurkenning á því, að skipulagsgjöldin ættu að renna óskipt til skipulagsmála. Ekki hefur það fengist endurgreitt, sem oftekið var fyrir þann tíma, þrátt fyrir ákveðnar óskir um það, bæði frá skipulagsstjóra ríkisins og Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Á fskj. með þessu frv. er yfirlit yfir tekjur og gjöld ríkissjóðs vegna skipulagsmála árin 1956–1970 samkv. upplýsingum ríkisbókara og skipulagsstjóra. Hefur skipulagsstjóri ríkisins tekið þessar upplýsingar saman, en þar er gerður samanburður á 15 ára tímabili á áætluðum tekjum og gjöldum til skipulagsmála samkv. fjári., raunverulegum tekjum ríkissjóðs af skipulagsgjöldum, raunverulegum gjöldum ríkissjóðs vegna skipulagsmála og sýndar tekjur ríkissj. umfram kostnað á þessu tiltekna tímabili. Í ljós kemur af þessum samanburði, að á árunum 1956–1970 hefur ríkissjóður haft tæplega 13 millj. kr. hagnað af skipulagsgjöldum fram yfir kostnað vegna skipulagsmála á sama tíma, fjármagn, sem með réttu hefði átt að renna til skipulagsmála, og er þá miðað við allt annað verðgildi peninga en við búum við í dag.

Frv., sem hér er til umr., miðar að því, að unnt verði að taka skipulagsmál sveitarfélaga fastari og ákveðnari tökum en til þessa með því að auka fjármagn til þeirra hluta. Það er að mínum dómi og okkar flm. bráðnauðsynlegt, ef þessi mál eiga að geta komist í það horf, að viðunandi geti talist. Ber vissulega brýna nauðsyn til þess, að ríkisvaldið sinni skipulagsmálum meira en verið hefur og veiti framvegis nokkurt fé til þeirra á fjárl. umfram það, sem ég hef hér gert grein fyrir og verið hefur á undanförnum árum. Ríkisvaldið á að gjalda þá skuld, sem segja má, að stofnast hafi, vegna þess að það hefur áratugum saman tekið til almennra þarfa sinna fé, sem beinlínis var ætlað til skipulagsmála. Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að augu manna eru í vakandi mæli að opnast fyrir knýjandi nauðsyn þess, að skipulagsmálunum verði sinnt meira en hingað til og að sveitarfélögin sjálf hafi meiri ítök um þau efni en verið hefur til þessa. Einhverjum kynni að finnast, að beinast lægi við, að nauðsynlegt fjármagn til að gera úrbætur í þessum efnum yrði fengið með því að hækka skipulagsgjöldin. Í fljótu bragði má segja, að sú leið virðist álitleg. En þetta gjald er á vissan hátt óheppilegur tekjustofn. Það kemur mjög illa við gjaldendur, því að það fellur í gjalddaga, þegar flestir húsbyggjendur eru í miklum fjárhagsörðugleikum með nýbyggingar sínar. Á hinn bóginn þykir ekki rétt, að það sé afnumið, meðan ekki er fundinn annar heppilegri tekjustofn, sem að gagni mætti koma.

Frv. okkar gerir ráð fyrir, að sú leið verði farin til úrlausnar vandamálum sveitarfélaga í skipulagsmálum, að því er varðar fjáröflun í því skyni, að auk skipulagsgjaldsins, sem er, eins og ég sagði hér áður, 3% af brunabótaverði nýbygginga og rennur óskipt til þeirra mála, greiði ríkissjóður árlega til framkvæmda skipulagsmála eigi lægri fjárhæð en nemur helmingi skipulagsgjalda liðins árs. Þessi leið virðist eðlileg, eins og málum er háttað, því að þótt þróunin verði sú, ef að líkum lætur, að þessi verkefni verði unnin í vaxandi mæli á vegum sveitarfélaganna sjálfra, þá sýnist nauðsynlegt, að yfirstjórn þessara mála verði áframhaldandi í höndum skipulagsstjórnar ríkisins, sem hafi hönd í bagga með öllum undirbúningi og framkvæmd þeirra. Slíkt er nauðsynlegt, m. a. til að tryggja nauðsynlegt samræmi og tengingu á gerð skipulags aðliggjandi sveitarfélaga og yfir höfuð til að hafa eftirlit með, að að þessum vandasömu og viðkvæmu málum sé staðið eins og telja verður, að kröfur samtímans og framtíðarinnar muni gera á hverjum tíma. Þess vegna er það skylda ríkisvaldsins að kosta því fjármagni til, sem þörf er á, til þess að þessi mál geti verið í viðunandi horfi.

Að svo mæltu legg ég til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. félmn. að lokinni 1. umr.