Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1319, 112. löggjafarþing 508. mál: vegtenging um utanverðan Hvalfjörð.
Lög nr. 45 16. maí 1990.

Lög um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð.


1. gr.

     Ríkisstjórninni er heimilt að fela hlutafélagi, sem stofnað yrði í því skyni, að annast að nokkru eða öllu leyti undirbúning, fjármögnun og framkvæmdir við vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð, svo og rekstur um tiltekinn tíma.

2. gr.

     Nánari ákvæði um gerð, rekstur, tilhögun mannvirkja, gjaldtökutíma og önnur atriði, sem þurfa þykir, skulu vera í samningi sem samgönguráðherra gerir við framkvæmdaaðila. Slíkur samningur öðlast ekki gildi fyrr en hann hefur hlotið staðfestingu Alþingis.

3. gr.

     Til að bera kostnað af framkvæmdum og rekstri samkvæmt lögum þessum skal hlutafélagi skv. 1. gr. heimilt að taka umferðargjald af vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð enda liggi fyrir samningar við samgönguráðherra um verkefnið og rétt til gjaldtökunnar.

4. gr.

     Vegagerð ríkisins skal hafa eftirlit með að gerð og rekstur mannvirkja samkvæmt lögum þessum sé á viðunandi hátt. Sé um vanrækslu að ræða að dómi Vegagerðar ríkisins skal hún gefa veghaldara fyrirmæli um að framkvæma nauðsynlegar útbætur innan hæfilegs frests.

5. gr.

     Þegar vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð er lokið skal vegurinn teljast til þjóðvega samkvæmt ákvæðum vegalaga með þeim undantekningum sem lög þessi ákveða. Ef samkomulag næst ekki um kaup á landi og efni sem þörf verður á vegna framkvæmda samkvæmt lögum þessum heimilast Vegagerð ríkisins eignarnám samkvæmt X. kafla vegalaga.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 5. maí 1990.