Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 539, 113. löggjafarþing 40. mál: launamál (staðfesting bráðabirgðalaga).
Lög nr. 4 4. febrúar 1991.

Lög um launamál.


1. gr.

     Lög þessi taka til þeirra kjarasamninga sem samkvæmt ákvæðum sínum eru í gildi við gildistöku laganna. Lögin taka hins vegar ekki til þeirra kjarasamninga sem þá eru lausir.

2. gr.

     Frá 1. september 1990 til 15. september 1991, sbr. þó 5. mgr., skulu laun, þ.e. launataxtar og launatengdir liðir, þar á meðal kauptrygging sjómanna, samkvæmt þeim kjarasamningum sem lög þessi taka til, breytast frá því sem þau voru 30. júní 1990 sem hér segir:
  1. Hinn 1. desember 1990 skulu laun hækka um 2,0%.
  2. Hinn 1. mars 1991 skulu laun hækka um 2,5%.
  3. Hinn 1. júní 1991 skulu laun hækka um 2,0%.

     Ofangreindar breytingar koma í stað ákvæða kjarasamninga um breytingar launataxta og launatengdra liða.
     Ákvæði 1. mgr. raska ekki ákvæðum kjarasamninga um greiðslu sérstakra uppbóta á laun, svo sem orlofsuppbótar, desemberuppbótar og persónuuppbótar. Á árinu 1991 skal greiða 7.500 kr. orlofsuppbót eftir sömu reglum og með sama hætti og á árinu 1990.
     Hafi laun samkvæmt ákvæðum þessara samninga hækkað á tímabilinu 30. júní til 1. september 1990 skal sú hækkun falla niður frá og með 1. september 1990, enda koma launahækkanir skv. 1. mgr. í stað hennar.
     Með þeim breytingum, sem kveðið er á um í 1.–4. mgr., skulu þessir kjarasamningar gilda til 15. september 1991 og verða þá lausir án uppsagnar. Kveði kjarasamningur á um gildistíma til 31. ágúst 1991 skulu þau ákvæði þó halda gildi sínu.

3. gr.

     Nú kveður kjarasamningur á um launanefnd og raska ákvæði 2. gr. þá ekki ákvæðum hans um endurskoðun, breytingar eða tilfærslur á launahækkunum, sbr. 1. mgr. 2. gr., eða uppsögn samnings samkvæmt ákvörðun viðkomandi launanefndar.
     Aðilum að kjarasamningi, sem ekki kveður á um launanefnd, er heimilt að semja um stofnun og verksvið slíkrar nefndar. Verði slíkur samningur gerður fer eftir ákvæði 1. mgr. frá þeim tíma.
     Leiði ákvarðanir launanefndar samningsaðila á almennum vinnumarkaði til almennra launabreytinga skulu laun samkvæmt þeim kjarasamningum á almennum vinnumarkaði, er ekki hafa ákvæði um launanefndir, breytast með hliðstæðum hætti. Ákveði launanefnd samkvæmt kjarasamningi aðildarfélaga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar hins vegar að laun skuli breytast skulu laun samkvæmt þeim kjarasamningum opinberra starfsmanna, sem ekki hafa ákvæði um launanefndir, breytast með hliðstæðum hætti.
     Komi til uppsagnar kjarasamninga á almennum vinnumarkaði með ákvörðun launanefndar skal aðilum að kjarasamningum skv. 1. málsl. 3. mgr. heimilt innan eins mánaðar frá þeirri uppsögn að segja upp samningum sínum með eins mánaðar fyrirvara. Komi til uppsagnar kjarasamnings Bandalags starfsmanna ríkis og bæja annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar hins vegar skal aðilum að kjarasamningum skv. 2. málsl. 3. mgr. heimilt innan eins mánaðar frá þeirri uppsögn að segja upp samningum sínum með eins mánaðar fyrirvara.

4. gr.

     5. og 15. gr. kjarasamninga milli aðildarfélaga BHMR og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs frá 18. og 19. maí 1989 falla úr gildi. Með sama hætti falla úr gildi hliðstæð ákvæði í kjarasamningum aðildarfélaga BHMR og annarra viðsemjenda þeirra. Þess í stað skulu laun félagsmanna í aðildarfélögum BHMR taka þeim breytingum sem kveðið er á um í 2. og 3. gr. laga þessara.
     Með þeim breytingum, sem lög þessi kveða á um, skulu kjarasamningar aðildarfélaga BHMR og viðsemjenda þeirra gilda til 31. ágúst 1991 og falla þá úr gildi án uppsagnar.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 23. janúar 1991.