Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1107, 113. löggjafarþing 50. mál: ársreikningar og endurskoðun lífeyrissjóða.
Lög nr. 27 2. apríl 1991.

Lög um ársreikninga og endurskoðun lífeyrissjóða.


1. gr.

     Stjórn lífeyrissjóðs skal sjá um að saminn sé ársreikningur fyrir hvert almanaksár í samræmi við reglur sem bankaeftirlit Seðlabanka Íslands setur. Ársreikningur skal hafa að geyma ársskýrslu, efnahagsreikning, yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, sjóðstreymi og skýringar. Ársreikningur skal gerður samkvæmt lögum og góðri reikningsskilavenju, bæði að því er varðar mat á einstökum liðum og framsetningu.
     Í ársskýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit um starfsemi sjóðsins á árinu, svo og upplýsingar um atriði er mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu sjóðsins og afkomu hans á reikningsárinu er ekki koma fram annars staðar í ársreikningnum.
     Ársreikningur skal undirritaður af öllum stjórnarmönnum lífeyrissjóðs og forstöðumanni hans. Hafi einhver þeirra mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann undirrita með fyrirvara og gera skal grein fyrir því í ársskýrslu hvers eðlis fyrirvarinn er.

2. gr.

     Endurskoðun hjá lífeyrissjóði skal framkvæmd af tveimur skoðunarmönnum sem valdir eru samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sjóðsins og einum skoðunarmanni sem er löggiltur endurskoðandi.

3. gr.

     Endurskoðun ársreikninga skal vera lokið eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs.
     Skoðunarmenn skulu framkvæma endurskoðun í samræmi við góðar endurskoðunarvenjur og reglur bankaeftirlits Seðlabanka Íslands þar að lútandi. Með endurskoðun sinni skulu þeir komast að rökstuddri niðurstöðu um áreiðanleika þeirra upplýsinga sem ársreikningurinn veitir. Þeir skulu ganga úr skugga um að ársreikningurinn sé gerður í samræmi við góða reikningsskilavenju og fylgt hafi verið ákvæðum laga, reglna og samþykkta varðandi meðferð fjármuna, ráðstöfun fjár, ávöxtun og upplýsingaskyldu lífeyrissjóða.
     Skylt er að veita skoðunarmönnum aðstöðu til að gera þær athuganir sem þeir telja nauðsynlegar. Þeir skulu fá aðgang að öllum eignum, bókum, fylgiskjölum og öðrum gögnum lífeyrissjóðsins og skulu stjórn sjóðsins og starfsmenn veita þeim allar þær upplýsingar sem þeir æskja og unnt er að láta í té.
     Skoðunarmenn skulu árita ársreikninginn og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Þeir skulu gefa upplýsingar um að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður og að hann hafi verið saminn í samræmi við ákvæði laga, reglna og samþykkta. Þeir skulu láta í ljósi álit á ársreikningnum og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar að öðru leyti.
     Telji skoðunarmenn að í ársreikningi séu ekki þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram skulu þeir geta þess í áritun sinni og veita viðbótarupplýsingar, ef þess er kostur. Að öðru leyti geta skoðunarmenn greint frá þeim atriðum í áritun sinni sem þeir telja eðlilegt að fram komi í ársreikningi.
     Ábendingar og athugasemdir, sem skoðunarmenn vilja koma á framfæri við stjórn eða framkvæmdastjóra, skal bera fram skriflega og skal veita þessum aðilum hæfilegan frest til svara. Ef skoðunarmönnum þykir ástæða til skulu þeir gera tillögur til stjórnar lífeyrissjóðs um endurbætur varðandi meðferð fjármuna, um breytingar á innra eftirliti og öðru því sem þeir telja að geti verið til bóta í rekstri lífeyrissjóðsins.
     Senda skal bankaeftirliti Seðlabanka Íslands endurskoðaðan ársreikning lífeyrissjóðs þegar eftir undirritun hans og eigi síðar en fjórum mánuðum eftir lok reikningsárs. Meginniðurstöður ársreiknings skal birta opinberlega og í samræmdu formi sem bankaeftirlitið ákveður. Slíkar meginniðurstöður skulu liggja frammi í starfsstöð viðkomandi lífeyrissjóðs og vera aðgengilegar fyrir sjóðfélaga.
     Skoðunarmenn hafa rétt til að sitja stjórnarfund þar sem fjallað er um ársreikning.

4. gr.

     Ef endurskoðun leiðir í ljós verulega ágalla í rekstri lífeyrissjóðs varðandi innra eftirlit, iðgjaldainnheimtu, greiðslutryggingar útlána, meðferð fjármuna eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu lífeyrissjóðsins eða skaðað hann að öðru leyti skulu skoðunarmenn gera stjórn sjóðsins og bankaeftirliti Seðlabanka Íslands viðvart.
     Er bankaeftirlitinu berst tilkynning að hætti 1. mgr. eða það telur af öðru tilefni ástæðu til að ætla að rekstri lífeyrissjóðs og fjárhagsstöðu sé ábótavant í verulegum atriðum skal það krefja stjórnendur og skoðunarmenn þegar í stað um nauðsynleg gögn sem þeim ber að afhenda innan tveggja vikna frá því þeim barst krafan.
     Komi fram í gögnum að hætti 1. eða 2. mgr. að rekstur lífeyrissjóðs eða fjárhagsstaða sé ekki í samræmi við ákvæði laga þessara, reglur settar samkvæmt þeim, staðfestar reglugerðir lífeyrissjóða eða sé að öðru leyti óeðlileg eða ótraust getur bankaeftirlitið veitt viðkomandi sjóði hæfilegan frest til úrbóta nema brot séu alvarleg. Verði ekki orðið við kröfum bankaeftirlitsins innan tilskilins frests skal það vísa málinu til fjármálaráðherra til ákvörðunar.

5. gr.

     Stjórnendum lífeyrissjóðs og skoðunarmönnum er skylt að veita bankaeftirliti Seðlabanka Íslands allar þær upplýsingar og gögn um málefni lífeyrissjóðs og framkvæmd endurskoðunar sem það kann að óska eftir og þeir geta látið í té.
     Heimilt er bankastjórn Seðlabanka Íslands, að fengnum tillögum bankaeftirlitsins, að ákvarða viðurlög í formi dagsekta ef lífeyrissjóðir verða ekki við skyldu til afhendingar ársreikninga skv. 7. mgr. 3. gr., annarra gagna skv. 2. mgr. 4. gr. eða sé kröfum eða athugasemdum bankaeftirlitsins um úrbætur skv. 3. mgr. 4. gr. ekki sinnt.
     Kröfur, athugasemdir og fyrirhugaðar aðgerðir bankaeftirlitsins samkvæmt lögum þessum skulu þegar í stað tilkynntar fjármálaráðherra, stjórn lífeyrissjóðs og skoðunarmönnum.

6. gr.

     Brot gegn lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim varða fésektum eða varðhaldi, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
     Með brot á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu gilda við gerð ársreiknings lífeyrissjóða í fyrsta sinn fyrir reikningsárið 1991.

Samþykkt á Alþingi 19. mars 1991.