Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 883, 115. löggjafarþing 140. mál: starfsmenntun í atvinnulífinu.
Lög nr. 19 15. maí 1992.

Lög um starfsmenntun í atvinnulífinu.


I. Markmið og gildissvið.

1. gr.

     Markmið laga þessara er að hvetja til aukinnar starfsmenntunar í atvinnulífinu í þeim tilgangi að:
 1. stuðla að aukinni framleiðni, bæta gæði vöru og þjónustu og greiða fyrir tækninýjungum og framþróun í íslensku atvinnulífi,
 2. stuðla að bættri verkkunnáttu og aukinni hæfni starfsmanna til að mæta nýjum kröfum og breyttum aðstæðum,
 3. auka möguleika og treysta stöðu einstaklingsins á vinnumarkaðinum með því að gefa honum kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera hann um leið hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni,
 4. jafna möguleika fólks á vinnumarkaði og þess fólks sem er tímabundið utan hans til að afla sér starfsmenntunar, einkum þeirra sem notið hafa lítillar eða engrar starfsmenntunar fyrir, með öflugu framboði á grunnmenntun til ákveðinna starfa eða til starfa í tiltekinni atvinnugrein,
 5. greiða fyrir hreyfingum starfsmanna úr einni atvinnugrein í aðra eftir aðstæðum og horfum á hverjum tíma,
 6. mæta þörfum starfshópa, sem missa vinnu vegna breytinga í atvinnuháttum, fyrir endurmenntun og þjálfun til annarra starfa eftir aðstæðum á hverjum tíma.


2. gr.

     Markmiðum laga þessara skal náð með:
 1. stuðningi við skipulega starfsmenntun, undirbúning, náms- og kennslugagnagerð, kennslu og starfsþjálfun, svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum,
 2. frumkvæði og mótun heildarstefnu varðandi starfsmenntun í atvinnulífinu samkvæmt ákvörðun starfsmenntaráðs.


3. gr.

     Lögin taka til náms (námskeiða) sem þátttakendur stunda til að auka færni og þekkingu til þeirra starfa sem þeir fást við eða stefna að, enda falli það að markmiðum laga þessara og aðstæðum á vinnumarkaði hverju sinni.
     Til þessarar menntunar telst:
 1. Grunnstarfsmenntun: Grundvallarstarfsmenntun til ákveðinna starfa eða til starfa í tiltekinni atvinnugrein í framleiðslu og þjónustu.
 2. Eftirmenntun: Endurnýjun fagkunnáttu og viðbótarmenntun sem fólk stundar á sínu fagsviði.


II. Skipulag.

4. gr.

     Starfsmenntun í atvinnulífinu skal heyra undir félagsmálaráðuneytið. Starfsfræðsla í fiskvinnslu skal þó heyra undir sjávarútvegsráðuneytið.

5. gr.

     Ráðherra skipar sjö manna starfsmenntaráð til tveggja ára sem fer með framkvæmd laga þessara. Einn fulltrúi skal skipaður af félagsmálaráðherra án tilnefningar. Þrír fulltrúar skulu tilnefndir af samtökum atvinnurekenda, tveir af Vinnuveitendasambandi Íslands og einn af Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Þrír fulltrúar skulu tilnefndir af samtökum launafólks, tveir af Alþýðusambandi Íslands og einn af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Starfsmenntaráð skiptir með sér verkum.
     Hlutverk starfsmenntaráðs er að úthluta styrkjum til starfsmenntunar og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um stefnumótun og aðgerðir á sviði starfsmenntunar samkvæmt lögum þessum.
     Í starfi sínu skal starfsmenntaráð hafa samráð við og efla frumkvæði fræðslunefnda atvinnulífsins samkvæmt frekari ákvæðum í reglugerð.

6. gr.

     Starfsár (fjárhagsár) starfsmenntaráðs er almanaksárið og skal skipta því niður í úthlutunartímabil.
     Starfsmenntaráð skal, fyrir upphaf hvers úthlutunartímabils, ákveða forgangsröðun verkefna og skiptingu þeirra fjármuna sem til ráðstöfunar eru milli mismunandi verkefnaflokka.
     Við upphaf úthlutunartímabils skal starfsmenntaráð auglýsa eftir umsóknum um styrki til undirbúnings og/eða reksturs námskeiða og skal þar gerð grein fyrir forgangsröðun verkefna og skiptingu fjármuna fyrir yfirstandandi tímabil.
     Starfsmenntaráð setur sér nánari starfsreglur að fengnu samþykki ráðherra.

7. gr.

     Félagsmálaráðuneytið skal safna saman upplýsingum um starfsmenntun og framboð hennar og koma þeim upplýsingum til helstu samtaka aðila vinnumarkaðarins.

III. Fjármál.

8. gr.

     Ráðstöfunarfé starfsmenntaráðs skal ákveðið í fjárlögum og ráðstafað í sérstakan sjóð.
     Félagsmálaráðherra gerir tillögur um fjárþörf vegna starfsmenntunar í atvinnulífinu að fenginni umsögn starfsmenntaráðs.

9. gr.

     Styrki úr starfsmenntasjóði er heimilt að veita til:
 1. greiðslu kostnaðar vegna undirbúnings náms (námskeiða), svo sem verkefnisstjórnunar, náms- og kennslugagnagerðar,
 2. greiðslu kostnaðar vegna námskeiðahalds, svo sem kostnaðar vegna kennsluaðstöðu og ferða- og flutningskostnaðar,
 3. annars kostnaðar eftir ákvörðun starfsmenntaráðs.

     Að öðru jöfnu er það forsenda styrkveitingar að tiltekinn hluti af beinum rekstrarkostnaði námskeiða sé borinn af þátttökugjöldum samkvæmt nánari ákvörðun starfsmenntaráðs.

IV. Umsóknir.

10. gr.

     Rétt til að sækja um styrk til starfsnáms eiga: samtök atvinnurekenda og launafólks, einstök atvinnufyrirtæki, einkaaðilar eða opinberir aðilar sem standa fyrir starfsmenntun í atvinnulífinu, starfsmenntaráð einstakra atvinnugreina og samstarfsverkefni tveggja eða fleiri framangreindra aðila.
     Skólar hafa rétt til að sækja um styrki þegar um er að ræða samstarf við aðila, einn eða fleiri, sem taldir eru upp í 1. mgr.

11. gr.

     Eftirtalin gögn skulu fylgja umsóknum um styrki skv. 9. gr. laga þessara:
 1. Markmið með því námi sem sóttur er styrkur til.
 2. Lýsing á innihaldi námsins.
 3. Upplýsingar um leiðbeinendur.
 4. Námslengd.
 5. Námskröfur og námsmat.
 6. Markhópur námsins og stærð hans.
 7. Áætlaður fjöldi þátttakenda.
 8. Kostnaðar- og tekjuáætlun.
 9. Yfirlit yfir námskeiðahald viðkomandi umsækjanda á sl. almanaksári.


V. Ýmis ákvæði.

12. gr.

     Þeim aðilum, sem fengið hafa stuðning samkvæmt lögum þessum, skal skylt að veita upplýsingar um þá menntun og/eða þjálfun sem boðið hefur verið upp á samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

13. gr.

     Aðilar skulu senda félagsmálaráðuneytinu eintak af námsefni sem unnið hefur verið eða samið með stuðningi samkvæmt lögum þessum.
     Ráðherra skal heimilt að ráðstafa gögnum skv. 1. mgr. til frekari notkunar samkvæmt tillögum starfsmenntaráðs í samráði við höfundaréttarhafa.

14. gr.

     Félagsmálaráðuneytið skal halda skýrslu yfir það nám sem styrkt er samkvæmt lögum þessum. Það skal jafnframt sjá um að kynna og veita upplýsingar um þá starfsmenntun sem í boði er og þau náms- og kennslugögn sem það hefur til ráðstöfunar samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

15. gr.

     Menntamálaráðuneytið ákveður hvaða nám, sem styrkt er samkvæmt lögum þessum, skuli metið til námseininga í hinu almenna skólakerfi.

16. gr.

     Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara í reglugerð, þar á meðal um afmörkun og gildissvið að fengnum tillögum starfsmenntaráðs.

17. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Lögin skal endurskoða eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku þeirra.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 1992.