Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 665, 116. löggjafarþing 11. mál: verðbréfaviðskipti.
Lög nr. 9 5. mars 1993.

Lög um verðbréfaviðskipti.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     Í lögum þessum merkir:
 1. Verðbréf:
  1. Hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum.
  2. Skilyrt skilríki til peningagreiðslu á grundvelli tiltekins verðbréfs eða verðbréfa skv. a-lið.

 2. Verðbréfamiðlun: Milliganga sem veitt er gegn endurgjaldi, um kaup eða sölu verðbréfa og sérfræðiráðgjöf um slík viðskipti.
 3. Verðbréfamiðlari: Einstaklingur sem fengið hefur leyfi til verðbréfamiðlunar, sbr. 2. gr., og þeir sem vinna að verðbréfamiðlun undir stjórn og á ábyrgð hans.
 4. Verðbréfafyrirtæki: Fyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi viðskiptaráðherra, sbr. 7. gr., og annast starfsemi skv. V. kafla laga þessara.
 5. Fjárvarsla: Þjónusta, veitt samkvæmt sérstökum samningi gegn endurgjaldi sem felur í sér að taka við fjármunum til fjárfestingar í verðbréfum eða öðrum verðmætum fyrir eigin reikning viðskiptamanns.
 6. Almennt útboð: Útboð samkynja verðbréfa sem boðin eru almenningi til kaups með almennri og opinberri auglýsingu eða kynningu með öðrum hætti sem jafna má til opinberrar auglýsingar.
 7. Viðskiptavaki: Verðbréfafyrirtæki eða annar aðili sem hefur skuldbundið sig formlega til að kaupa og selja fyrir eigin reikning tiltekin verðbréf, í því skyni að greiða fyrir því að markaðsverð skapist á verðbréfunum, og tilkynnt það opinberlega.
 8. Sölutrygging: Samningur milli verðbréfafyrirtækis og útgefanda verðbréfa þar sem verðbréfafyrirtækið skuldbindur sig til þess að kaupa ákveðinn hluta eða öll verðbréf í tilteknu útboði innan fyrir fram ákveðinna tímamarka og á fyrir fram ákveðnu verði.
 9. Opinber verðbréfamarkaður: Verðbréfaþing Íslands og hliðstæðar kauphallir erlendis.


II. KAFLI
Leyfi til verðbréfamiðlunar.

2. gr.

     Viðskiptaráðherra veitir leyfi til verðbréfamiðlunar. Leyfi verður einungis veitt einstaklingum sem fullnægja eftirfarandi skilyrðum:
 1. Eru búsettir hér á landi.
 2. Hafa náð tuttugu ára aldri.
 3. Hafa óflekkað mannorð og hafa aldrei verið sviptir forræði á búi sínu.
 4. Hafa sótt námskeið í verðbréfamiðlun og lokið þar prófi samkvæmt prófkröfum sem settar eru í reglugerð sem ráðherra setur. Ráðherra er heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði mæli sérstakar ástæður með því.
 5. Hafa lagt fram skírteini því til sönnunar að þeir hafi tekið ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu vátryggingafélagi, aflað sér bankatryggingar eða leggja fram aðrar tryggingar sem ráðherra metur gildar og bæta viðskiptavinum tjón er þeir kunna að baka þeim með störfum sínum við verðbréfamiðlun. Nánari skilyrði um fjárhæð tryggingar og lágmarksskilmála skulu ákveðin með reglugerð.

     Umsókn skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja þær upplýsingar sem ráðherra ákveður. Áður en leyfi er veitt skal leitað umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.

3. gr.

     Þeim einum, sem hlotið hafa leyfi skv. 2. gr., er heimilt að stunda verðbréfamiðlun og nefna sig verðbréfamiðlara, sbr. þó 2. og 3. mgr. 35. gr.
     Héraðsdóms- og hæstaréttarlögmönnum og löggiltum endurskoðendum er þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. heimilt í einstökum tilvikum að veita viðskiptamönnum sínum þjónustu sem samkvæmt lögum þessum telst til verðbréfamiðlunar, enda sé hún veitt sem eðlilegur þáttur í víðtækara viðfangsefni, svo sem búskiptum eða félagsslitum.

4. gr.

     Löggiltur endurskoðandi eða endurskoðunarstofa skal annast endurskoðun hjá verðbréfamiðlara og skulu ákvæði VII. kafla laga þessara gilda um störf hans eftir því sem við getur átt.

5. gr.

     Verðbréfamiðlara er óheimilt að kaupa verðbréf sem honum eru falin til sölu eða að selja eigin verðbréf í rekstri sínum nema um sé að ræða verðbréf skráð á opinberum verðbréfamarkaði eða sem ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins sem starfar reglulega, er opinn almenningi og viðurkenndur með þeim hætti sem bankaeftirlitið metur gildan. Sé markaðurinn staðsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins skal bankaeftirlitið hafa viðurkennt hann.

6. gr.

     Ákvæði V. kafla taka einnig til verðbréfamiðlara eftir því sem við getur átt.

III. KAFLI
Starfsleyfi verðbréfafyrirtækja.

7. gr.

     Verðbréfafyrirtæki er óheimilt að hefja starfsemi nema það uppfylli skilyrði laga þessara og hafi fengið starfsleyfi ráðherra. Skilyrði fyrir leyfi til rekstrar verðbréfafyrirtækis eru sem hér segir:
 1. Fyrirtækið sé hlutafélag með innborguðu hlutafé að fjárhæð að minnsta kosti 40 millj. kr. og eigið fé nemi aldrei lægri fjárhæð en 40 millj. kr. Fjárhæðir þessar skulu bundnar gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU miðað við opinbert kaupgengi hennar á útgáfudegi laga þessara.
 2. Stjórnarmenn skulu vera a.m.k. þrír og fullnægja skilyrðum 1.–3. tölul. 2. gr. Þó eru stjórnarmenn, sem búsettir eru í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, undanþegnir búsetuskilyrði 1. tölul. Ráðherra getur veitt ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.
 3. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins fullnægi skilyrðum 1.–4. tölul. 2. gr.
 4. Endurskoðun á reikningum fyrirtækisins skal framkvæmd af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu.
 5. Fyrirtækið setji tryggingu fyrir tjóni sem það kann að baka viðskiptavinum sínum í starfsemi sinni. Nánari ákvæði um fjárhæð tryggingar og lágmarksskilmála að öðru leyti skulu sett með reglugerð.

     Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja samþykktir verðbréfafyrirtækisins, staðfesting á fjárhæð innborgaðs hlutafjár og aðrar þær upplýsingar sem ráðherra ákveður. Áður en leyfi er veitt skal leitað umsagnar bankaeftirlitsins.

IV. KAFLI
Synjun leyfa.

8. gr.

     Uppfylli umsækjandi um leyfi til verðbréfamiðlunar skv. 2. gr. eða starfsleyfi verðbréfafyrirtækis skv. 7. gr. ekki skilyrði laga þessara skal umsókn hlutaðeigandi synjað.
     Ráðherra getur synjað umsókn hafi umsækjandi um leyfi til verðbréfamiðlunar eða stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækis, að mati ráðherra,
 1. verið dæmdur fyrir refsiverðan verknað sem ætla má að skapi hættu á að viðkomandi misnoti aðstöðu sína,
 2. sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að hann muni ekki sinna starfi sínu á forsvaranlegan hátt.

     Áður en ákvörðun er tekin um synjun skv. 2. mgr. skal leitað umsagnar bankaeftirlitsins.

9. gr.

     Synjun ráðherra á leyfi skv. 8. gr. skal rökstudd skriflega og send umsækjanda, að jafnaði eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst ráðherra. Ákvörðun ráðherra skal þó ávallt liggja fyrir innan sex mánaða.

V. KAFLI
Réttindi og skyldur verðbréfafyrirtækja.

10. gr.

     Verðbréfafyrirtækjum er einum heimilt og rétt eftir því sem við verður komið, nema lög ákveði annað, að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið „verðbréfafyrirtæki“ eitt sér eða samtengt öðrum orðum.

11. gr.

     Verðbréfafyrirtæki skv. 7. gr. er, ásamt verðbréfamiðlurum, heimilt að stunda verðbréfamiðlun gegn þóknun. Því er jafnframt heimilt að annast útboð verðbréfa, veita sölutryggingu á verðbréfum, gerast viðskiptavaki, annast fjárvörslu fyrir einstaklinga og lögaðila og tengda fjármálaþjónustu, þó ekki innlána- og útlánastarfsemi. Þá er verðbréfafyrirtæki heimilt að annast umsjá og vörslu verðbréfa verðbréfasjóða að fenginni viðurkenningu bankaeftirlitsins samkvæmt lögum um verðbréfasjóði. Öðrum aðila en verðbréfafyrirtæki er óheimilt að annast þá starfsemi sem að framan greinir nema lög ákveði annað, sbr. þó 35. gr.
     Verðbréfafyrirtæki er jafnframt heimilt að eiga viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning.
     Verðbréfafyrirtæki er óheimilt að annast aðra starfsemi en um getur í 1. og 2. mgr.

12. gr.

     Heimilt er verðbréfafyrirtæki að starfrækja útibú enda uppfylli daglegur stjórnandi þess skilyrði 1.–4. tölul. 1. mgr. 2. gr. Tilkynna skal bankaeftirlitinu fyrir fram um stofnun útibús.

13. gr.

     Verðbréfafyrirtæki skal kappkosta að gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart viðskipta- mönnum sínum í starfsemi sinni og ber ávallt að haga störfum sínum þannig að viðskiptamenn fyrirtækisins njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör í verðbréfaviðskiptum. Skal verðbréfafyrirtækið, að teknu tilliti til þekkingar viðskiptamanna, veita þeim greinargóðar upplýsingar um þá kosti sem þeim standa til boða.
     Í auglýsingum og annarri kynningarstarfsemi verðbréfafyrirtækja skal þess gætt að fram komi réttar og nákvæmar upplýsingar um starfsemi og þjónustu fyrirtækjanna.

14. gr.

     Verðbréfafyrirtæki skal kunngera viðskiptamönnum sínum fyrir fram hvaða þóknun það muni áskilja sér fyrir þjónustu sína. Breytingar á þóknun skal tilkynna viðskiptamönnum með nægum fyrirvara.

15. gr.

     Taki verðbréfafyrirtæki að sér þjónustu sem því er heimil samkvæmt lögum þessum, sbr. 11. gr., skal, eftir því sem við á, gerður um það sérstakur samningur milli fyrirtækisins og viðskiptamanns þess þar sem meðal annars skal kveðið á um réttindi og skyldur samningsaðila.
     Verðbréfafyrirtæki er óheimilt að annast milligöngu um verðbréfaviðskipti hafi starfsmenn þess vitneskju um eða ástæðu til að ætla að viðskiptin grundvallist á trúnaðarupplýsingum skv. 2. mgr. 22. gr., sbr. þó 2. tölul. 1. mgr. og 2. mgr. 23. gr.

16. gr.

     Verðbréfafyrirtæki skal halda fjármunum viðskiptamanns tryggilega aðgreindum frá eignum fyrirtækisins. Skulu fjármunir viðskiptamanns varðveittir á sérstökum nafnskráðum reikningi og verðbréf í hans eigu varðveitt með tryggilegum hætti.
     Verðbréfafyrirtæki er heimilt að framselja verðbréf í nafni viðskiptamanns síns hafi fyrirtækið fengið til þess skriflegt umboð. Í framsalsáritun ber að geta þess að verðbréf sé framselt samkvæmt varðveittu umboði og ber verðbréfafyrirtæki að varðveita umboð svo lengi sem réttindi eru byggð á verðbréfi sem framselt hefur verið með þessum hætti. Skylt er að láta kaupanda verðbréfs í té samrit umboðsins krefjist hann þess.
     Sá sem veitt hefur verðbréfafyrirtæki umboð skv. 2. mgr. getur ekki beint kröfum að framsalshafa með stoð í heimildarskorti fyrirtækisins nema umboð þess til framsals hafi sýnilega verið ófullnægjandi.
     Framsalsáritun verðbréfafyrirtækis skv. 3. mgr. telst ekki slíta framsalsröð þótt umboð til fyrirtækisins fylgi ekki verðbréfinu.

17. gr.

     Almennt útboð verðbréfa, annarra en ríkisskuldabréfa, skuldabréfa með ríkisábyrgð og ríkisvíxla, skal fara fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækis, sbr. þó 1. mgr. 11. gr. Útboð verðbréfa skal tilkynna til Verðbréfaþings Íslands eigi síðar en viku fyrir upphaf sölu ásamt upplýsingum um öll helstu einkenni útboðsins í samræmi við reglur sem stjórn Verðbréfaþingsins setur um gerð útboðsgagna og aðdraganda útboðs.
     Seðlabanki Íslands getur sett nánari reglur um fyrsta söludag einstakra útboða í því skyni að koma í veg fyrir sveiflur í framboði nýrra verðbréfa á verðbréfamarkaðnum.
     Við lok sölu eða í lok hvers ársfjórðungs, sé hann fyrr, skal verðbréfafyrirtæki eða annar aðili, sem hefur milligöngu um almennt útboð, sbr. 1. mgr. 11. gr., tilkynna Verðbréfaþinginu um heildarsölu verðbréfa í útboði á nafnverði og markaðsverði samkvæmt bestu fáanlegum upplýsingum og í lok hvers árs skal enn fremur tilkynna um útistandandi eftirstöðvar útboðs. Verðbréfaþingið skal birta reglulega upplýsingar um verðbréf samkvæmt þessari grein.

18. gr.

     Verðbréfafyrirtæki skal vegna eigin viðskipta með verðbréf sem því eru falin til sölu og vegna viðskipta eigenda þess, stjórnenda, starfsmanna og maka þeirra gæta eftirtalinna atriða:
 1. Að ýtrustu hagsmuna ótengdra viðskiptavina sé gætt.
 2. Að fullur trúnaður ríki gagnvart ótengdum viðskiptavinum.
 3. Að viðskiptin séu sérstaklega skráð.
 4. Að stjórn verðbréfafyrirtækisins fái kerfisbundnar upplýsingar um viðskiptin og staðfesti þau.

     Verðbréfafyrirtæki skal setja sér verklagsreglur um viðskipti skv. 1. mgr. og skulu þær staðfestar af bankaeftirlitinu.

19. gr.

     Verðbréfafyrirtæki getur veitt viðskiptaaðila lán og gengið í ábyrgðir vegna verðbréfaviðskipta, sem því er heimilt að annast samkvæmt lögum þessum, eftir eigin verklagsreglum sem bankaeftirlitið staðfestir.
     Verðbréfafyrirtæki er heimilt að veita sölutryggingu á verðbréfum, sbr. 11. gr., þó ekki fyrir hærri fjárhæð en sem nemur tuttuguföldu eigin fé fyrirtækisins.

20. gr.

     Verðbréfafyrirtæki er því aðeins heimilt að vera meðeigandi eða þátttakandi í annarri atvinnustarfsemi að slík þátttaka sé í eðlilegum tengslum við starfsemi verðbréfafyrirtækisins og hafi ekki áhrif á óhlutdrægni þess, sbr. 1. mgr. 13. gr.

21. gr.

     Framkvæmdastjóra verðbréfafyrirtækis er óheimilt að sitja í stjórn atvinnufyrirtækja eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti nema að fengnu leyfi stjórnar þess. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórnun þess. Bankaeftirlitið sker úr um hvort eignarhlutur brjóti í bága við grein þessa og getur veitt undanþágu frá henni mæli sérstakar ástæður með því.
     Um heimildir annarra starfsmanna verðbréfafyrirtækis varðandi þau atriði, sem í 1. mgr. greinir, fer eftir reglum sem stjórn verðbréfafyrirtækis setur og bankaeftirlitið staðfestir.

VI. KAFLI
Meðferð trúnaðarupplýsinga.

22. gr.

     Ákvæði þessa kafla taka til verðbréfa sem eru skráð á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins sem starfar reglulega, er opinn almenningi og er viðurkenndur með þeim hætti sem bankaeftirlitið metur gildan. Sé markaðurinn staðsettur utan Evrópska efnahagssvæðisins skal hann hafa hlotið viðurkenningu bankaeftirlitsins.
     Með trúnaðarupplýsingum er átt við upplýsingar um útgefanda verðbréfa, verðbréfin sjálf eða önnur atriði sem ekki hafa verið gerð opinber en eru líkleg til að hafa áhrif á markaðsverð verðbréfanna ef opinber væru. Upplýsingar teljast opinberar þegar þeim hefur verið miðlað á verðbréfamarkaðnum með almennum og viðurkenndum hætti. Tilkynningar til Verðbréfaþings Íslands teljast opinberar þegar þeim hefur verið miðlað þaðan.

23. gr.

     Aðila, sem býr yfir eða hefur aðgang að trúnaðarupplýsingum skv. 2. mgr. 22. gr. vegna eignaraðildar, aðildar að stjórn, rekstri eða eftirliti á vegum útgefanda verðbréfa eða vegna starfs síns, stöðu eða skyldna, er óheimilt að
 1. nýta sér upplýsingarnar, beint eða óbeint, til öflunar eða ráðstöfunar verðbréfanna sjálfum sér eða öðrum til hagsbóta,
 2. láta þriðja aðila upplýsingarnar í té nema það sé gert í eðlilegu sambandi við starf, stöðu eða skyldur þess sem upplýsingarnar veitir,
 3. ráðleggja þriðja aðila á grundvelli upplýsinganna að afla verðbréfa eða ráðstafa þeim eða hvetja að öðru leyti til viðskipta með verðbréfin.

     Ákvæði 1. mgr. á ekki við um viðskipti fullvalda ríkis, seðlabanka þess eða aðila sem annast viðskipti fyrir þeirra hönd, enda séu viðskiptin liður í stefnu hlutaðeigandi ríkis í peningamálum, gengismálum eða lánasýslu.

24. gr.

     Öðrum aðilum en um getur í 1. mgr. 23. gr., sem hlotið hafa vitneskju um trúnaðarupplýsingar, er óheimilt að nýta þær með þeim hætti sem þar segir, enda hafi þeir vitað eða mátt vita hvers eðlis upplýsingarnar voru.

25. gr.

     Ákvæði 23. og 24. gr. ná einnig til lögaðila og taka til þeirra einstaklinga sem taka þátt í ákvörðun um að fara með viðskipti fyrir reikning lögaðilans.

26. gr.

     Útgefendur verðbréfa skulu setja eigin reglur í því skyni að hindra að trúnaðarupplýsingar berist til annarra en þeirra sem þarfnast þeirra vegna starfa sinna.
     Stjórnvöld og aðrir aðilar, sem fá reglulega trúnaðarupplýsingar í starfsemi sinni, skulu setja sér reglur skv. 1. mgr.

VII. KAFLI
Ársreikningar og endurskoðun.

27. gr.

     Stjórn og framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækis skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár í samræmi við ákvæði laga og samþykkta. Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Enn fremur skal semja ársskýrslu. Ársreikningur og ársskýrsla mynda eina heild. Reikningsár verðbréfafyrirtækis er almanaksárið.
     Ársreikningur og ársskýrsla skulu undirrituð af stjórn og framkvæmdastjóra. Hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann undirrita með fyrirvara og gera skal grein fyrir því í ársskýrslu hvers eðlis fyrirvarinn er.
     Framsetning ársreiknings skal vera með skýrum hætti og í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim. Ársreikningur skal gefa glögga mynd af eignum, skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu verðbréfafyrirtækis.
     Í ársskýrslu skal koma fram yfirlit yfir starfsemi hlutaðeigandi verðbréfafyrirtækis á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu fyrirtækisins og afkomu þess á reikningsárinu og ekki koma fram annars staðar í ársreikningnum.
     Bankaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um gerð ársreiknings.

28. gr.

     Endurskoðun skal framkvæmd af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu. Endurskoðandi verðbréfafyrirtækis má ekki sitja í stjórn þess eða starfa að öðru leyti í þess þágu en að endurskoðun.
     Skylt er að veita endurskoðanda aðgang að öllum eigum, bókum og fylgiskjölum og öðrum gögnum verðbréfafyrirtækis og jafnframt skulu stjórn og starfsmenn þess veita honum allar umbeðnar upplýsingar sem unnt er að láta í té.

29. gr.

     Endurskoðandi skal árita ársreikning og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Hann skal gefa yfirlýsingu um að ársreikningurinn hafi verið endurskoðaður og að hann hafi verið saminn í samræmi við ákvæði laga, reglna og samþykkta. Endurskoðandi skal láta í ljós álit sitt á ársreikningnum og greina frá niðurstöðum að öðru leyti.
     Telji endurskoðandi að í ársreikningi séu ekki þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram skal hann geta þess í áritun sinni og veita viðbótarupplýsingar ef þess er kostur. Ef ársskýrsla hefur ekki að geyma þær upplýsingar sem ber að veita eða er ekki í samræmi við ársreikning skal endurskoðandi vekja athygli á því í áritun sinni. Að öðru leyti getur endurskoðandi greint frá þeim atriðum í áritun sinni sem hann telur eðlilegt að fram komi í ársreikningi.
     Leiði endurskoðun í ljós verulega ágalla á rekstri verðbréfafyrirtækis eða atriði sem geta veikt fjárhagsstöðu fyrirtækisins skal endurskoðandi þegar gera stjórn fyrirtækisins viðvart, svo og bankaeftirlitinu, hafi hann ástæðu til að ætla að stjórnendur fyrirtækis hafi ekki rækt upplýsingaskyldu sína í þessu sambandi.

30. gr.

     Endurskoðaður ársreikningur verðbréfafyrirtækis ásamt ársskýrslu skal sendur bankaeftirlitinu innan tíu daga frá undirritun stjórnar og framkvæmdastjóra en eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Jafnframt er verðbréfafyrirtækjum skylt að láta Seðlabanka Íslands í té þær upplýsingar sem hann þarf á að halda vegna hagskýrslugerðar, sbr. ákvæði laga um Seðlabanka Íslands.

VIII. KAFLI
Eftirlit.

31. gr.

     Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með starfsemi verðbréfamiðlara og verðbréfafyrirtækja. Skal bankaeftirlitið eiga aðgang að öllum gögnum og upplýsingum hjá þessum aðilum sem, að mati þess, eru nauðsynleg vegna eftirlitsins. Að öðru leyti skulu gilda um eftirlitið ákvæði laga um Seðlabanka Íslands eftir því sem við getur átt.
     Telji bankaeftirlitið að starfsemi verðbréfamiðlara eða verðbréfafyrirtækis brjóti gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða eða reglna settra samkvæmt þeim eða sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust getur það veitt viðkomandi hæfilegan frest til úrbóta nema brot séu alvarleg.
     Hafi bankaeftirlitið rökstudda ástæðu til að ætla að brotið hafi verið gegn ákvæðum VI. kafla laga þessara skal því heimilt að krefja einstaklinga og lögðaðila, þar á meðal opinberar stofnanir, um allar upplýsingar og gögn sem það telur nauðsynleg til rannsóknar málsins.

IX. KAFLI
Afturköllun leyfa.

32. gr.

     Skylt er ráðherra að afturkalla leyfi til verðbréfamiðlunar eða starfsleyfi verðbréfafyrirtækis
 1. uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði laga þessara fyrir leyfisveitingu,
 2. sé bú leyfishafa tekið til gjaldþrotaskipta eða starfsemi hans slitið.


33. gr.

     Hafi verðbréfamiðlari eða verðbréfafyrirtæki ítrekað eða með alvarlegum hætti brotið gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða eða reglna settra samkvæmt þeim og ekki sinnt kröfum bankaeftirlitsins skv. 2. mgr. 31. gr. er ráðherra heimilt að afturkalla leyfi til verðbréfamiðlunar eða starfsleyfi, að fengnum tillögum bankaeftirlitsins.
     Standi yfir opinber rannsókn vegna meints brots verðbréfamiðlara eða verðbréfafyrirtækis á ákvæðum laga þessara er ráðherra heimilt að svipta hlutaðeigandi leyfi til verðbréfamiðlunar eða starfsleyfi um stundarsakir. Skal ráðherra þá skipa hlutaðeigandi umsjónaraðila til bráðabirgða sem gera skal ráðstafanir sem miða að því að tryggja hag viðskiptamanna.

34. gr.

     Afturköllun á starfsleyfi verðbréfafyrirtækis eða leyfi til verðbréfamiðlunar skal rökstudd og tilkynnt hlutaðeigandi skriflega. Jafnframt skal birta tilkynningu um afturköllun í Lögbirtingablaði og auglýsa hana í fjölmiðlum.
     Afturkalli ráðherra starfsleyfi verðbréfafyrirtækis endanlega skal hann skipa skilanefnd þriggja manna sem sér um slit á fyrirtækinu eða flutning á starfsemi þess til annars verðbréfafyrirtækis.

X. KAFLI
Ýmis ákvæði.

35. gr.

     Hyggist verðbréfamiðlari eða verðbréfafyrirtæki hefja starfsemi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal tilkynna það bankaeftirlitinu og eftirlitsaðila í hlutaðeigandi ríki.
     Leyfi til starfsemi, sem lög þessi taka til, sem veitt hefur verið af lögbærum yfirvöldum í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, gildir einnig hér á landi. Um starfsemi slíkra leyfishafa hér á landi fer samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.
     Um gildi leyfa til starfsemi er lög þessi taka til, sem veitt eru af lögbærum yfirvöldum í ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins, svo og um starfsemi slíkra leyfishafa hér á landi, fer eftir reglum sem ráðherra setur.

36. gr.

     Verðbréfamiðlarar og starfsmenn þeirra, svo og stjórnendur, framkvæmdastjórar og aðrir starfsmenn verðbréfafyrirtækja, eru bundnir þagnarskyldu um öll viðskipti sem þeir hafa milligöngu um og allt það er varðar hagi viðskiptamanna og þeir öðlast vitneskju um í starfi sínu og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls nema dómari úrskurði að skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

37. gr.

     Kostnaður við birtingar tilkynninga samkvæmt lögum þessum skal greiddur af viðkomandi verðbréfamiðlara eða verðbréfafyrirtæki.

38. gr.

     Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð, þar á meðal um viðurlög í formi dagsekta.

XI. KAFLI
Viðurlög.

39. gr.

     Brot á lögum þessum varða sektum eða fangelsi allt að einu ári nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt almennum hegningarlögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda.
     Brot gegn ákvæðum VI. kafla varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Jafnframt er heimilt að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur með broti gegn ákvæðinu.
     Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

XII. KAFLI
Gildistaka og brottfallin lög.

40. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1993. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Verðbréfafyrirtæki og verðbréfamiðlarar samkvæmt lögum nr. 20/1989, sem eru starfandi við gildistöku laga þessara, skulu hafa lagað starfsemi sína að ákvæðum laganna eigi síðar en einu ári frá gildistöku þeirra. Ráðherra getur þó veitt verðbréfafyrirtækjum lengri frest, þó aldrei lengur en í sex mánuði.
     Þeim sem fengið hafa leyfi til verðbréfamiðlunar samkvæmt lögum nr. 20/1989 við gildistöku laga þessara er eigi skylt að sækja námskeið skv. 4. tölul. 2. gr.

Samþykkt á Alþingi 25. febrúar 1993.