Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 666, 116. löggjafarþing 12. mál: verðbréfasjóðir.
Lög nr. 10 5. mars 1993.

Lög um verðbréfasjóði.


I. KAFLI
Gildissvið.

1. gr.

     Lög þessi taka til fyrirtækja, hér eftir nefnd verðbréfasjóðir, sem hafa eingöngu að markmiði
 1. að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu og
 2. gefa út hlutdeildarskírteini til þeirra sem fá félaginu fé til ávöxtunar og innleysa þau að kröfu eigenda af eignum félagsins.

II. KAFLI
Starfsleyfi verðbréfasjóða og skráning.

2. gr.

     Starfsemi samkvæmt lögum þessum verður einungis stunduð af verðbréfasjóðum sem uppfylla skilyrði laga þessara og fengið hafa starfsleyfi viðskiptaráðherra.
     Skilyrði fyrir starfsleyfi eru sem hér segir:
 1. Verðbréfasjóðurinn sé löglega stofnaður, sbr. 9. gr.
 2. Hann hafi yfir að ráða minnst 50 milljónum króna eða minnst 10 milljónum króna sem skiptist á a.m.k. 50 aðila þannig að hlutur hvers þeirra nemi minnst 10.000 krónum og hljóði á nafn.
 3. Samþykktir sjóðsins fullnægi ákvæði 1. mgr. 8. gr.
 4. Vörslufyrirtæki og rekstrarfélag fullnægi skilyrðum V. kafla.
 5. Endurskoðun sé framkvæmd af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu.

     Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg. Henni skulu fylgja samþykktir verðbréfasjóðs og aðrar þær upplýsingar sem ráðherra ákveður. Áður en leyfi er veitt skal leitað umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.

3. gr.

     Verðbréfasjóðum með fullgilt starfsleyfi er einum heimilt að stunda starfsemi skv. 1. gr. Önnur starfsemi er þeim óheimil.
     Verðbréfasjóðum er einum heimilt og rétt eftir því sem við verður komið að nota orðið „verðbréfasjóður“, eitt sér eða samtengt öðrum orðum, í heiti sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni.
     Óheimilt er að breyta verðbréfasjóðum samkvæmt lögum þessum í fyrirtæki sem lögin taka ekki til.

4. gr.

     Uppfylli verðbréfasjóður ekki skilyrði laga þessara til að öðlast starfsleyfi skal umsókn synjað.
     Ráðherra getur synjað um leyfi til reksturs verðbréfasjóðs hafi stjórnarmenn sjóðsins eða framkvæmdastjórar rekstrarfélags eða vörslufyrirtækis
 1. verið dæmdir fyrir refsiverðan verknað sem ætla má að skapi hættu á að viðkomandi misnoti aðstöðu sína,
 2. sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir muni ekki sinna starfi sínu á forsvaranlegan hátt.

     Áður en ákvörðun er tekin um synjun skv. 2. mgr. skal leitað umsagnar bankaeftirlitsins.

5. gr.

     Synjun ráðherra á leyfi skv. 4. gr. skal rökstudd skriflega og send umsækjanda, að jafnaði eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst ráðherra. Ákvörðun ráðherra skal þó ávallt liggja fyrir innan sex mánaða.

6. gr.

     Ráðherra skal birta í Lögbirtingablaði tilkynningu um starfsleyfi verðbréfasjóðs. Í tilkynningunni skal koma fram nafn sjóðsins, stjórnarmanna og endurskoðenda auk nafns rekstrarfélags og vörslufyrirtækis sjóðsins. Óheimilt er að taka við fjármunum til ávöxtunar í verðbréfasjóði fyrr en tilkynning hefur verið birt.
     Hefji verðbréfasjóður ekki starfsemi innan tólf mánaða frá veitingu starfsleyfis fellur það úr gildi.

7. gr.

     Bankaeftirlitið skal halda sérstaka skrá yfir verðbréfasjóði sem hlotið hafa starfsleyfi. Í skránni skulu koma fram nöfn stjórnarmanna verðbréfasjóðs og hverjir séu endurskoðendur hans. Jafnframt skulu koma fram helstu upplýsingar um rekstrarfélag og vörslufyrirtæki verðbréfasjóðsins.
     Bankaeftirlitinu er heimilt að kveða nánar á um þær upplýsingar sem veittar skulu skv. 1. mgr. Breytingar á áður tilkynntum atriðum skulu þegar tilkynntar bankaeftirlitinu.

III. KAFLI
Samþykktir verðbréfasjóða.

8. gr.

     Í samþykktum verðbréfasjóðs skulu m.a. koma fram eftirfarandi atriði:
 1. Nafn verðbréfasjóðs, heimili og varnarþing.
 2. Nafn vörslufyrirtækis sjóðsins og ákvæði um hvernig skipt verði um það.
 3. Hvort sjóðurinn starfi óskiptur eða í aðgreindum deildum.
 4. Ákvæði um boðun aðalfundar og málefni sem þar skal fjallað um, þar á meðal hvort og með hvaða hætti samþykktum verði breytt.
 5. Hverjir eigi rétt til setu á aðalfundi og atkvæðisréttur þeirra.
 6. Stjórn verðbréfasjóðs og rekstrarfélag hans, sbr. 12. gr.
 7. Hver hafi rétt til að skuldbinda verðbréfasjóðinn og hver fari með atkvæðisrétt sem fylgir verðbréfum í hans eigu.
 8. Fjárfestingarstefna verðbréfasjóðsins.
 9. Hvernig reikna skuli út raunvirði hvers hlutar í sjóðnum.
 10. Hvernig háttað skuli innlausn hlutdeildarskírteina.
 11. Hvernig ráðstafa skuli arði eða öðrum hagnaði af verðbréfum sjóðsins.
 12. Endurskoðun og reikningsár sjóðsins.
 13. Ákvæði um samruna sjóðsins við aðra verðbréfasjóði eða samruna deilda sama sjóðs.
 14. Hvernig sjóði verði slitið.

     Breytingar á samþykktum verðbréfasjóðs öðlast ekki gildi fyrr en að fenginni staðfestingu bankaeftirlitsins. Breytingar skulu staðfestar séu þær í samræmi við lög, enda séu þær að öðru leyti í samræmi við hagsmuni eigenda hlutdeildarskírteina og engar aðrar fullgildar ástæður mæli gegn staðfestingu. Breytingar öðlast gildi eigi síðar en þremur mánuðum eftir staðfestingu nema bankaeftirlitið ákveði annað. Tilkynning um breytingar skal birt í Lögbirtingablaði.
     Verðbréfasjóður skal tilkynna eigendum hlutdeildarskírteina um hverja breytingu á samþykktum sjóðsins og jafnframt auglýsa hana opinberlega.

IV. KAFLI
Stjórn og skipulag verðbréfasjóða.

9. gr.

     Verðbréfasjóð má stofna sem hlutafélag eða í öðru félagsformi.
     Heimilt er að verðbréfasjóður starfi í aðgreindum deildum. Ber þá hver deild ábyrgð á sínum skuldbindingum. Þó bera deildir sjóðsins óskipta ábyrgð á sameiginlegum kostnaði þeirra.

10. gr.

     Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum verðbréfasjóðs. Stjórn sjóðsins fer með málefni hans milli aðalfunda.
     Aðalfund skal halda samkvæmt ákvæðum samþykkta. Aðalfund skal boða með minnst tíu daga fyrirvara og skal dagskrá fylgja fundarboði.

11. gr.

     Stjórn verðbréfasjóðs skal kjörin á aðalfundi samkvæmt ákvæðum samþykkta og skal vera skipuð þremur mönnum hið fæsta. Stjórnin hefur almennt eftirlit með að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við ákvæði laga þessara, reglur settar samkvæmt þeim og samþykktir sjóðsins, þar á meðal að nægilegt eftirlit sé með bókhaldi og ráðstöfun eigna sjóðsins.
     Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi, hafa náð tuttugu ára aldri, hafa óflekkað mannorð og mega aldrei hafa verið sviptir forræði á búi sínu.
     Stjórnarmenn, sem búsettir eru í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, eru undanþegnir búsetuskilyrði skv. 2. mgr. Viðskiptaráðherra getur veitt ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.
     Stjórnarmenn mega ekki jafnframt eiga sæti í stjórn vörslufyrirtækis eða rekstrarfélags skv. V. kafla.

V. KAFLI
Rekstrarfélög og vörslufyrirtæki.

12. gr.

     Rekstur verðbréfasjóðs skal falinn sérstöku rekstrarfélagi sem hlotið hefur viðurkenningu bankaeftirlitsins. Félagið skal vera hlutafélag með aðsetur hér á landi. Það skal vera óháð í störfum sínum og einungis hafa með höndum daglegan rekstur verðbréfasjóða eða annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum sem ekki falla undir ákvæði laga þessara. Rekstrarfélag má ekki jafnframt vera vörslufyrirtæki skv. 14. gr.
     Rekstrarfélagi er óheimilt að eignast hluti með atkvæðisrétti í þeim mæli að það geri félaginu kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun útgefanda verðbréfa.

13. gr.

     Daglegur stjórnandi rekstrarfélags skal hafa leyfi til verðbréfamiðlunar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Honum er óheimilt að sitja í stjórn atvinnufyrirtækja án samþykkis bankaeftirlitsins.

14. gr.

     Umsjá og varðveisla verðbréfa verðbréfasjóðs skal falin vörslufyrirtæki sem hlotið hefur viðurkenningu bankaeftirlitsins eða lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi ríki. Fjármunum verðbréfasjóðs skal haldið aðgreindum frá fjármunum vörslufyrirtækis. Vörslufyrirtæki skal
 1. sjá um að sala, útgáfa, endurkaup, innlausn og ógilding hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs fari samkvæmt lögum og samþykktum sjóðsins,
 2. sjá um að innlausnarvirði hlutdeildarskírteina sé reiknað í samræmi við lög og samþykktir sjóðsins,
 3. framfylgja fyrirmælum rekstrarfélags verðbréfasjóðs nema þau séu í andstöðu við lög og samþykktir hans,
 4. sjá um að í viðskiptum með eignir verðbréfasjóðs sé endurgjald fyrir þær innt af hendi innan eðlilegra tímamarka,
 5. sjá um að tekjum verðbréfasjóðs sé ráðstafað í samræmi við lög og samþykktir sjóðsins.

     Viðurkenningu sem vörslufyrirtæki geta hlotið
 1. verðbréfafyrirtæki,
 2. viðskiptabankar og sparisjóðir,
 3. aðrar lánastofnanir sem starfa samkvæmt lögum sem um þær gilda,
 4. útibú hliðstæðra stofnana sem starfa hér á landi.


15. gr.

     Verðbréfasjóði er óheimilt að skipta um rekstrarfélag eða vörslufyrirtæki án samþykkis bankaeftirlitsins.

VI. KAFLI
Hlutdeildarskírteini.

16. gr.

     Gefa skal út verðbréf í formi hlutdeildarskírteina til þeirra sem fá verðbréfasjóði fjármuni til ávöxtunar. Hlutdeildarskírteini skulu skráð á nafn. Allir, sem eiga hlutdeild að verðbréfasjóði eða sérgreindri deild hans, eiga sama rétt til tekna og eigna sjóðsins eða viðkomandi deildar í hlutfalli við eign sína og eru skírteinin staðfesting á tilkalli til verðbréfaeignar sjóðsins.

17. gr.

     Í hlutdeildarskírteini skal m.a. getið eftirtalinna atriða:
 1. Nafns verðbréfasjóðs, fjárvörslufyrirtækis og rekstrarfélags.
 2. Nafns og kennitölu upphaflegs eiganda skírteinis og númers þess.
 3. Hvernig hlutdeildarskírteini verði innleyst og hvaða reglur gildi um arðgreiðslur.
 4. Nafns og kennitölu framsalshafa hafi skírteini gengið kaupum og sölum án innlausnar þess.

     Hlutdeildarskírteini skal vera dagsett og undirritað af stjórn verðbréfasjóðs eða þeim sem hún hefur gefið umboð til þess. Nafnritunin má vera prentuð eða sett fram á annan sambærilegan hátt.

18. gr.

     Rekstrarfélag verðbréfasjóðs skal halda skrá yfir öll hlutdeildarskírteini í sjóðnum. Í skránni skal eftirfarandi m.a. koma fram:
 1. Nafn og kennitala eiganda.
 2. Númer skírteinis og söludagur þess.
 3. Nafnverð skírteinis.
 4. Heildarfjöldi útistandandi skírteina.

     Tilkynna skal eigendaskipti hlutdeildarskírteina til rekstrarfélags verðbréfasjóðs. Slíkar tilkynningar, ásamt öðrum upplýsingum sem berast varðandi eignarhald á skírteinum, skulu færðar inn á skrána og heimildar tilkynningar getið.
     Kjósi eigendur hlutdeildarskírteina fulltrúa í stjórn verðbréfasjóðs samkvæmt samþykktum sjóðsins skal gerð nafnaskrá þar sem fram komi nöfn þeirra sem eiga atkvæðisrétt og atkvæðafjöldi. Eigendum hlutdeildarskírteina er heimilt að fá afrit af þessari skrá eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund sjóðsins.

19. gr.

     Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðs verða einungis seld gegn staðgreiðslu kaupverðs.
     Hlutdeildarskírteini skulu innleyst að kröfu eigenda samkvæmt nánari ákvæðum samþykkta verðbréfasjóðsins. Þó er verðbréfasjóði heimilt samkvæmt ákvæðum samþykkta að fresta innlausn hlutdeildarskírteina. Frestun skal vera almenn og taka til allra hlutdeildarskírteina og verður einungis beitt mæli sérstakar ástæður með því og hagsmunir eigenda hlutdeildarskírteina krefjist. Frestun á innlausn skal þegar tilkynnt bankaeftirliti og eftirlitsaðilum annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðsins hafa verið sett á markað. Jafnframt skal frestun auglýst opinberlega.
     Bankaeftirlitið getur krafist þess að innlausn hlutdeildarskírteina verði frestað krefjist hagsmunir eigenda skírteinanna eða almennings þess.
     Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs er markaðsvirði samanlagðra eigna að frádregnum skuldum sjóðsins við innlausn, svo sem skuldum hans við innlánsstofnanir, ógreiddum umsýslu- og stjórnunarkostnaði, innheimtukostnaði og áföllnum eða reiknuðum opinberum gjöldum.
     Innlausnarvirði hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs skal reiknað daglega og auglýst opinberlega eigi sjaldnar en tvisvar í mánuði. Bankaeftirlitið getur ákveðið að opinber auglýsing innlausnarvirðis skuli fara fram oftar ef ástæða þykir til.
     Ráðherra getur í reglugerð sett nánari reglur um útreikning á innlausnarvirði hlutdeildarskírteina.

VII. KAFLI
Fjárfestingarstefna verðbréfasjóða.

20. gr.

     Verðbréfasjóði, eða einstökum deildum hans, er eingöngu heimilt að fjárfesta með eftirfarandi hætti:
 1. Í framseljanlegum verðbréfum sem skráð hafa verið á opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði innan Evrópska efnahagssvæðisins sem starfar reglulega, er opinn almenningi og viðurkenndur með þeim hætti sem bankaeftirlitið metur gildan. Sé markaðurinn utan Evrópska efnahagssvæðisins skal bankaeftirlitið hafa viðurkennt hann.
 2. Í nýútgefnum, framseljanlegum verðbréfum, enda sé í skilmálum vegna útgáfu þeirra skuldbinding um að sótt verði um skráningu á opinberum verðbréfamarkaði eða að þau verði látin ganga kaupum og sölum á öðrum verðbréfamarkaði skv. 1. tölul. Skráning verðbréfa samkvæmt þessu ákvæði skal fara fram eigi síðar en einu ári frá útgáfu þeirra.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er verðbréfasjóði eða deild innan hans heimilt að fjárfesta sem svarar allt að 10% af eignum sínum í öðrum verðbréfum en þar getur.
     Bankaeftirlitinu er heimilt að setja reglur sem heimila verðbréfasjóðum að fjárfesta allt að 10% af eignum sínum í skuldaskjölum sem talin eru jafngilda framseljanlegum verðbréfum, eru auðseljanleg og með verðgildi sem ákvarða má hvenær sem er.
     Heildarfjárfesting skv. 2. og 3. mgr. má aldrei fara fram úr 10% af eignum verðbréfasjóðs.
     Verðbréfasjóðum er óheimilt að fjárfesta í eðalmálmum eða heimildarskírteinum fyrir þeim.

21. gr.

     Verðbréfasjóði eða einstakri deild innan hans er óheimilt að fjárfesta meira en 10% af eignum sínum í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda, sbr. þó 22. og 23. gr. Fjárfesti sjóðurinn eða einstök deild hans meira en 5% í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda skal samtala slíkra fjárfestinga ekki fara yfir 40% af eignum sjóðsins.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er verðbréfasjóði eða einstakri deild hans heimilt að fjárfesta allt að 35% af eignum sínum í verðbréfum sem eitt eða fleiri ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða sveitarfélög þeirra, alþjóðlegar stofnanir, sem eitt eða fleiri þessara ríkja eru aðilar að, eða ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gefa út eða ábyrgjast.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. getur bankaeftirlitið heimilað verðbréfasjóði að fjárfesta allt að 25% af eignum sínum í skuldabréfum útgefnum af sama útgefanda, enda sé um að ræða lánastofnun innan Evrópska efnahagssvæðisins sem lýtur lögbundnu eftirliti. Fjárfesti verðbréfasjóður meira en 5% af eignum sínum í slíkum skuldabréfum má samanlagt verðmæti þeirra fjárfestinga ekki nema meira en 80% af eignum sjóðsins.
     Ekki skal tekið tillit til verðbréfa skv. 2. og 3. mgr. þegar fundin er samtala fjárfestinga samkvæmt síðari málslið 1. mgr.
     Þrátt fyrir ákvæði 1.–3. mgr. mega samanlagðar fjárfestingar verðbréfasjóðs í verðbréfum útgefnum af sama útgefanda aldrei nema meira en 35% af eignum sjóðsins.

22. gr.

     Bankaeftirlitið getur heimilað verðbréfasjóði eða einstakri deild hans að fjárfesta allt að 100% af eignum sínum í framseljanlegum verðbréfum skv. 2. mgr. 21. gr. telji bankaeftirlitið það samrýmanlegt hagsmunum eigenda hlutdeildarskírteina.
     Fjárfestingar verðbréfasjóðs eða einstakrar deildar hans skv. 1. mgr. skulu dreifast á að minnsta kosti sex mismunandi verðbréfaflokka og má fjárfesting í einum og sama verðbréfaflokki ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar til 30% af eignum verðbréfasjóðs eða einstakrar deildar hans.
     Bankaeftirlitið getur sett nánari reglur um fjárfestingu samkvæmt þessu ákvæði.

23. gr.

     Verðbréfasjóði eða einstökum deildum hans er óheimilt að fjárfesta meira en sem svarar til 5% af eignum sjóðsins eða deildarinnar í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða sem uppfylla skilyrði laga þessara. Þó er bankaeftirlitinu heimilt að setja reglur þar sem kveðið er á um rýmri mörk, enda sé óheimilt að setja hlutdeildarskírteini í hlutaðeigandi sjóði á markað utan Íslands.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er verðbréfasjóði óheimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða sem hafa sömu stjórn eða rekstrarfélag eða eru að öðru leyti nátengd verðbréfasjóðnum. Bankaeftirlitið getur þó heimilað slíka fjárfestingu samkvæmt reglum sem það setur.
     Rekstrarfélagi er óheimilt að leggja á gjöld eða kostnað vegna viðskipta með hlutdeildarskírteini verðbréfasjóðs í þeim tilvikum þegar hluti eigna sjóðsins er fjárfestur í hlutdeildarskírteinum í öðrum verðbréfasjóði sem rekinn er af sama rekstrarfélagi eða öðru félagi sem rekstrarfélagið er tengt vegna sameiginlegrar stjórnar eða yfirráða eða vegna verulegrar beinnar eða óbeinnar eignarhlutdeildar.

24. gr.

     Verðbréfasjóður má ekki eignast meira en
 1. 10% af hlutabréfum án atkvæðisréttar í einstöku hlutafélagi,
 2. 10% af skuldaskjölum einstakra útgefenda framseljanlegra verðbréfa,
 3. 10% hlutdeildarskírteina í einstökum verðbréfasjóðum sem uppfylla skilyrði laga þessara.

     Bankaeftirlitinu er heimilt að setja reglur um að 1. mgr. taki ekki til framseljanlegra verðbréfa sem
 1. ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða sveitarfélög þess gefa út eða ábyrgjast,
 2. ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins gefa út eða ábyrgjast,
 3. alþjóðastofnanir, sem eitt eða fleiri ríki Evrópska efnahagssvæðisins eru aðilar að, gefa út.


25. gr.

     Fari fjárfesting verðbréfasjóðs fram úr leyfilegum mörkum samkvæmt lögum þessum skulu þegar gerðar ráðstafanir til úrbóta og skal lögmæltu hámarki jafnan náð innan sex mánaða. Bankaeftirlitið getur þó í einstökum tilvikum mælt fyrir um lengri frest enda sé það augljóslega í þágu eigenda hlutdeildarskírteina.

26. gr.

     Verðbréfasjóðir mega ekki fjárfesta í fasteignum eða lausafé nema að því marki sem nauðsynlegt er vegna starfsemi sjóðsins.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er verðbréfasjóðum heimilt án takmarkana að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og það er talið hagkvæmt og eigi síðar en innan átján mánaða frá yfirtöku eignanna. Heimilt er þó að draga sölu lengur sé það augljóslega í þágu hagsmuna sjóðsins. Slíkan drátt á sölu eigna skal tilkynna bankaeftirliti sem getur þá krafist sölu þeirra innan viðeigandi frests.

27. gr.

     Verðbréfasjóði er óheimilt að taka lán nema í þeim tilvikum sem hér greinir:
 1. Skammtímalán allt að 10% af eignum sjóðsins til að standa straum af innlausn hlutdeildarskírteina.
 2. Lán allt að 10% af eignum sjóðsins til fjárfestingar í fasteignum sem eru nauðsynlegar vegna starfsemi sjóðsins.

     Lán skv. 1. mgr. mega hæst nema 15% af eignum verðbréfasjóðs.
     Verðbréfasjóði er óheimilt að veita lán eða ganga í ábyrgð fyrir aðra.

28. gr.

     Um viðskipti eigenda, stjórnenda og starfsmanna verðbréfasjóðs, vörslufyrirtækis og rekstrarfélags, svo og maka þeirra, skal gæta eftirtalinna atriða:
 1. Að viðskiptin séu sérstaklega skráð.
 2. Að stjórnir fyrirtækjanna fái kerfisbundnar upplýsingar um viðskiptin og staðfesti þau.

     Fyrirtækin skulu setja sér verklagsreglur um viðskipti skv. 1. mgr. og skulu þær staðfestar af bankaeftirlitinu.

VIII. KAFLI
Ársreikningur og endurskoðun.

29. gr.

     Stjórnir verðbréfasjóðs og rekstrarfélags hans skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár í samræmi við ákvæði laga og samþykkta. Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar. Enn fremur skal semja ársskýrslu. Ársreikningur og ársskýrsla mynda eina heild. Reikningsár verðbréfasjóðs er almanaksárið.
     Ársreikningur og ársskýrsla skulu undirrituð af stjórnum verðbréfasjóðs og rekstrarfélags. Hafi einhverjir stjórnarmanna mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skulu þeir undirrita með fyrirvara og gera skal grein fyrir því í ársskýrslu hvers eðlis fyrirvarinn er.
     Framsetning ársreiknings skal vera með skýrum hætti og í samræmi við ákvæði laga þessara og reglna settra samkvæmt þeim.
     Ársreikningur skal gefa glögga mynd af eignum, skuldum, fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu verðbréfasjóðs.
     Í ársskýrslu skal koma fram yfirlit yfir starfsemi hlutaðeigandi verðbréfasjóðs á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu sjóðsins og afkomu hans á reikningsárinu en koma ekki fram annars staðar í ársreikningnum.
     Bankaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um gerð ársreiknings.

30. gr.

     Ársreikningur verðbréfasjóðs skal endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu. Endurskoðandi má ekki sitja í stjórn verðbréfasjóðs eða rekstrarfélags, vera starfsmaður þessara aðila eða starfa í þágu þeirra að öðru en endurskoðun.
     Skylt er að veita endurskoðanda aðgang að öllum eigum, bókum, fylgiskjölum og öðrum gögnum verðbréfasjóðs. Jafnframt skulu stjórn og starfsmenn veita endurskoðanda allar umbeðnar upplýsingar sem unnt er að láta í té.
     Ákvæði 2. mgr. tekur einnig til upplýsinga og gagna hjá rekstrarfélagi og vörslufyrirtæki sem nauðsynleg eru vegna endurskoðunar hjá verðbréfasjóði.

31. gr.

     Endurskoðandi skal árita ársreikning og greina frá niðurstöðum endurskoðunarinnar. Hann skal gefa yfirlýsingu um að ársreikningur hafi verið endurskoðaður og að hann hafi verið saminn í samræmi við ákvæði laga, reglna og samþykkta. Hann skal láta í ljós álit á ársreikningnum og greina frá niðurstöðum að öðru leyti.
     Telji endurskoðandi að í ársreikningi komi ekki fram þær upplýsingar sem þar eiga að koma fram skal hann geta þess í áritun sinni og veita viðbótarupplýsingar ef þess er kostur. Ef ársskýrsla hefur ekki að geyma þær upplýsingar sem ber að veita, eða er ekki í samræmi við ársreikning, skulu endurskoðendur vekja athygli á því í áritun sinni. Að öðru leyti getur endurskoðandi greint frá þeim atriðum í áritun sinni sem hann telur eðlilegt að fram komi í ársreikningi.
     Leiði endurskoðun í ljós verulega ágalla á rekstri verðbréfasjóðs varðandi framkvæmd rekstrarins, greiðslutryggingar eða önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu sjóðsins skal endurskoðandi gera stjórn sjóðsins viðvart, svo og bankaeftirlitinu, hafi hann ástæðu til að ætla að stjórnendur sjóðsins hafi ekki rækt upplýsingaskyldu sína í þessu sambandi.
     Ákvæði 3. mgr. taka til endurskoðenda rekstrarfélags og vörslufyrirtækis eftir því sem við getur átt.

32. gr.

     Endurskoðaður ársreikningur verðbréfasjóðs ásamt ársskýrslu skal sendur bankaeftirlitinu innan tíu daga frá undirritun en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Reikningnum skal fylgja skýrsla löggilts endurskoðanda þar sem m.a. komi fram hvernig útreikningi á verðbréfaeign sjóðsins er háttað. Meginniðurstöður ársreikninga skal birta opinberlega og í samræmdu formi sem bankaeftirlitið ákveður. Slíkar meginniðurstöður skulu vera aðgengilegar almenningi og liggja frammi í starfsstöð verðbréfasjóðs og rekstrarfélags.
     Ársfjórðungslegt efnahagsyfirlit í því formi sem bankaeftirlitið ákveður skal einnig sent því og það liggja frammi á starfsstöð verðbréfasjóðs og rekstrarfélags.
     Auk ársreiknings verðbréfasjóðs samkvæmt framangreindu skal einnig senda bankaeftirlitinu endurskoðaða ársreikninga vörslufyrirtækis og rekstrarfélags eigi síðar en þremur mánuðum eftir lok reikningsárs. Þessum félögum er einnig skylt að láta Seðlabanka Íslands í té þær upplýsingar sem hann þarf á að halda vegna hagskýrslugerðar, sbr. ákvæði laga um Seðlabanka Íslands.

IX. KAFLI
Eftirlit.

33. gr.

     Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur eftirlit með að starfsemi verðbréfasjóða, rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja sé í samræmi við lög þessi, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim. Skal bankaeftirlitið eiga aðgang að öllum gögnum og upplýsingum hjá þeim aðilum, sem lögin taka til, sem það telur nauðsynleg vegna eftirlitsins. Um eftirlitið gilda, eftir því sem við getur átt, lög um Seðlabanka Íslands, svo og lög um verðbréfaviðskipti.
     Telji bankaeftirlitið að starfsemi verðbréfasjóðs, vörslufyrirtækis eða rekstrarfélags brjóti gegn ákvæðum laga þessara, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim eða sé að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust getur það veitt viðkomandi hæfilegan frest til úrbóta nema brot séu alvarleg.

X. KAFLI
Afturköllun leyfa.

34. gr.

     Skylt er ráðherra að afturkalla starfsleyfi verðbréfasjóðs
 1. uppfylli leyfishafi ekki lengur skilyrði til að öðlast starfsleyfi,
 2. sé bú leyfishafa tekið til gjaldþrotaskipta eða starfsemi hans slitið.


35. gr.

     Hafi verðbréfasjóðir, rekstrarfélag eða vörslufyrirtæki í starfsemi sinni ítrekað eða með alvarlegum hætti brotið gegn ákvæðum laga þessara, reglna eða reglugerða settra samkvæmt þeim eða starfsemi þeirra er að öðru leyti óeðlileg, óheilbrigð eða ótraust og kröfum bankaeftirlitsins skv. 2. mgr. 33. gr. hefur ekki verið sinnt er ráðherra heimilt að afturkalla starfsleyfi verðbréfasjóðsins að fengnum tillögum bankaeftirlitsins.
     Standi yfir opinber rannsókn vegna meints brots verðbréfasjóðs á ákvæðum laga þessara er ráðherra heimilt að svipta sjóðinn starfsleyfi um stundarsakir. Skal þá ráðherra skipa hlutaðeigandi umsjónaraðila til bráðabirgða sem gera skal ráðstafanir sem miða að því að tryggja hag viðskiptamanna.

36. gr.

     Afturköllun á starfsleyfi verðbréfasjóðs skal rökstudd og tilkynnt hlutaðeigandi skriflega. Jafnframt skal birta tilkynningu um afturköllun í Lögbirtingablaði og auglýsa hana í fjölmiðlum.
     Afturkalli ráðherra starfsleyfi verðbréfasjóðs endanlega skal hann skipa skilanefnd þriggja manna sem sér um slit á sjóðnum eða flutning á starfsemi hans til annars verðbréfasjóðs.

XI. KAFLI
Ýmis ákvæði.

37. gr.

     Hyggist verðbréfasjóður markaðssetja hlutdeildarskírteini sín eða stofna útibú í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skal það tilkynnt bankaeftirlitinu og eftirlitsaðila í því landi þar sem markaðssetning eða stofnun útibús er fyrirhuguð.
     Leyfi til starfsemi, er lög þessi taka til, sem veitt hefur verið af lögbærum yfirvöldum í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, gildir einnig hér á landi. Um starfsemi slíkra leyfishafa fer samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.
     Um gildi leyfa til starfsemi, sem lög þessi taka til, sem veitt eru af lögbærum yfirvöldum ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins, svo og um starfsemi slíkra leyfishafa hér á landi, fer eftir reglum sem ráðherra setur.

38. gr.

     Stjórnendur og starfsmenn verðbréfasjóða, rekstrarfélaga og vörslufyrirtækja eru bundnir þagnarskyldu um öll viðskipti sem þeir hafa milligöngu um og allt það er varðar hagi viðskiptamanna og þeir öðlast vitneskju um í starfi sínu og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls nema dómari úrskurði að skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

39. gr.

     Kostnaður við birtingar tilkynninga samkvæmt lögum þessum skal greiddur af viðkomandi verðbréfasjóði.

40. gr.

     Viðskiptaráðherra fer með framkvæmd laga þessara. Honum er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þeirra með reglugerð.

XII. KAFLI
Viðurlög.

41. gr.

     Brot gegn lögum þessum varða sektum eða fangelsi allt að einu ári nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt almennum hegningarlögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda.
     Um tilraun og hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum fer samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga.

XIII. KAFLI
Gildistaka.

42. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1993. Jafnframt falla þá úr gildi lög nr. 20/1989, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Starfandi verðbréfasjóðir við gildistöku laga þessara skulu hafa uppfyllt ákvæði þeirra og hlotið starfsleyfi ráðherra eigi síðar en einu ári eftir gildistöku laga þessara.
     Verðbréfafyrirtækjum, sem annast rekstur verðbréfasjóða við gildistöku laga þessara og hafa með höndum starfsemi sem lögin taka til, er heimilt að stunda þá starfsemi í eitt ár eftir gildistöku laga þessara. Ráðherra getur veitt lengri frest, þó ekki lengur en í sex mánuði.

Samþykkt á Alþingi 25. febrúar 1993.