Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1118, 116. löggjafarþing 21. mál: atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES.
Lög nr. 47 18. maí 1993.

Lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins.


1. gr.

     Ákvæði reglugerðar um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins nr. 1612/68/EBE, sbr. reglugerð nr. 312/76/EBE, eins og henni var breytt með ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, skulu hafa lagagildi hér á landi.
     Reglugerðin, eins og hún hefur verið aðlöguð, sbr. 1. mgr., er prentuð sem fylgiskjal með lögum þessum.

2. gr.

     Félagsmálaráðherra skal skipa þriggja manna nefnd til að hafa eftirlit með framkvæmd þessara laga og getur hún beint tilmælum til viðkomandi aðila þar að lútandi. Alþýðusamband Íslands skal tilnefna einn fulltrúa, Vinnuveitendasamband Íslands annan fulltrúa og þriðji fulltrúinn skal skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Skipunartími nefndar skal vera fjögur ár.
     Komi upp ágreiningur um hvort ákvæði 7. gr. reglugerðar 1612/68 séu haldin er heimilt að vísa þeim ágreiningi til nefndarinnar, sbr. 1. mgr., sem leitast skal við að leysa þann ágreining. Í þessum tilgangi getur nefndin leitað eftir upplýsingum hjá stofnunum, samtökum eða einstökum fyrirtækjum sem veita nefndinni nauðsynlegar upplýsingar um almenn ráðningar- og starfskjör í atvinnugreinum og fyrirtækjum. Verði sátt eigi komið á með aðilum er heimilt að leita til dómstóla.
     Þegar nefndin fjallar um mál sem varðar sérstaklega opinbera starfsmenn er falla undir atvinnu- og búseturéttindi Evrópska efnahagssvæðisins skulu auk fulltrúa skv. 1. mgr. tveir fulltrúar taka sæti í nefndinni. Skal annar þeirra tilnefndur af hlutaðeigandi heildarsamtökum opinberra starfsmanna og hinn af fjármálaráðherra eða Sambandi íslenskra sveitarfélaga eftir því sem við á.
     Þegar nefndin fjallar um mál sem varða sérstaklega önnur heildarsamtök launþega eða atvinnurekenda en þau sem kveðið er á um í 1. og 3. mgr. skulu fulltrúar þeirra samtaka taka sæti í nefndinni.

3. gr.

     Ráðherra getur með reglugerð gefið nánari fyrirmæli um framkvæmd eftirlits skv. 2. gr.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.

Fylgiskjal.
     Ákvæði reglugerðar um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins nr. 1612/68/EBE eins og henni var breytt með reglugerð nr. 312/76/EBE, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af V. viðauka, bókun 1 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum ákvæðum hans.*

*Aðlögun reglugerðarinnar er með fyrirvara um framkvæmd EFTA-ríkjanna á einstökum þáttum hennar, sbr. t.d. d-lið 4. tölul. bókunar 1.

Fylgiskjal.(FYLGISKJAL MYNDAÐ, 8 síður, sjá bls. 2356–2363 í 9. hefti, þskj. 343, eða fskj. á bls. 2–9 í þskj. 1074.)

Samþykkt á Alþingi 5. maí 1993.